Lögberg - 14.07.1955, Page 6

Lögberg - 14.07.1955, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 14. JÚLÍ 1955 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF „Það hefur náttúrlega verið bréfið, sem ég aftraði Önnu frá að rífa upp. Ég sá, að það var skriftin hennar Línu utan á því. Nú iðrast ég eftir, að ég var að sletta mér fram í það“. „Það var vel gert af þér, eins og allt annað. Ég veit að þú átt eftir að hjálpa okkur betur. Þú hefur alltaf verið minn bezti vinur“. „Nei, það skaltu ekki láta þér detta í hug. Ég gerði það vegna Önnu að bjarga bréfskömminni“. „Þú gerir það þá líka vegna hannar að taka Línu að þér. Þú færð ekki betri konu. Þú ættir bara að sjá, hvað kofarnir á Jarðbrú eru orðnir vistlegir. síðan hún fór að hirða þá“. Þórður hló kuldahlátur. „Svo að þú ert búinn að heimsækja hana og aðgæta, hvernig hún gangi um bæinn?“ „Já, ég kom nú ekki inn í baðstofuna. Það var á þeim tíma sólarhringsins, sem flestir hvíla sig aðrir en þeir, sem vaka yfir túninu“. „Þú hefur líka komið seint heim úr kaup- staðaferðunum þetta vor. Ég hef rennt grun í, hvar þú hefur verið“. „Þú gleymir þessu öllu, Þórður minn, og reyn- ist mér vel í þessu vandræðamáli. Þú gerir það vegna Önnu, þó að þú sért reiður við mig. Ég veit, að þú gerir það. Þetta eru ráðin hennar Línu. Hún vonast eftir að þú fyrirgefir sér“. „Mín sáttfýsi er ekki eilíf. Ég er svo sem ekkert reiður við hana, því að hún er mér nú óviðkomandi manneskja. Ég hafði vit á að losa mig úr þessu svikaneti, áður en kreppti meira að mér. Því læturðu hana ekki fara til Ameríku? Er Ameríka ekki alveg eins þægileg og hún hefur verið til þess að senda þangað þá, sem eru of þungir á hreppsfélögunum eða hættulegir mann- orði vissra manna?“ spurði Þórður með kaldri hæðni. „Lína treystir sér ekki — hún er sjóveik, og svo vill hún helzt ekki fara úr dalnum. Aumingja stúlkan, hún hefur verið ósköp lasin nú undan- farið“. Þeir voru nú báðir alklæddir. Þórður tók blautu fötin sín, vöðlaði þeim saman í böggul og batt utan um hann snærisspotta. Hann var óþarf- lega lengi að því. Svo henti hann bögglinum harkalega frá sér og sagði: „Ég mætti Línu um daginn, þegar ég kom utan af Ósnum. Það var hryggilegt að sjá hana. Ég þóttist sjá, hvernig komið væri fyrir henni. Við hverju var öðru að búast? „Sjá hér, hve illan enda ódyggð og svikin fá“, stendur þar“. Jón gekk til Þórðar, lagði handlegginn yfir herðar hans og sagði í sínum hlýjasta málrómi: „Ekki svona dómharður, vinur. Ég þekki þig svo vel, að ég veit að þér þykir ennþá vænt um Línu. Þú ert þannig gerður, að þú gleymir aldrei góðum vini“. „Það er alveg satt. Ég lifi ekki lengur en mér þykir vænt um Línu“, svaraði Þórður. „Því hikarðu þá við að taka hana að þér? Finnst þér hún svona auðvirðileg vegna þess, að hún hefur verið í þessu ástalífi með mér, að þú getir ekki gert hana að konu þinni? Mér þykir vænt um hana og langar til þess að henni líði vel. Hún sagði, að þetta væri sín eina von“. Þórður færði sig undan handlegg hans. „Ég hef alltaf hugsað mér að konan mín ætti að elska mig einan, en ekki einhvern annan. Þess vegna valdi ég hana. Hún var svo góð og saklaus, áður en þú náðir henni á þitt vald. Nú er hún orðin að svikakvendi, sem leikur sér að lyginni eins og þú. Hvernig gæti ég treyst henni hér eftir? Nei, sambúðin yrði okkur báðum til kvalar“. „Ég skal ábyrgjast þér, að hún verður þér trú og góð kona. Og milli okkar skal öllu vera lokið. Ég skal aldrei stíga mínum fæti inn fyrir dyrnar í Seli, ef þú krefst þess“. Þórður færði sig fjær honum og hristi höfuðið. „Nei“ og aftur „nei“, sagði hann. Svo bætti hann við reiðilega: „Hún er ekki fyrsta stúlkan, sem þú eyðileggur. Hvernig fórstu ekki með Lilju systir, þessa indælu stúlku? Líklega hefði hún verið hérna í dalnum gift og öll systkinin ltka, hefðir þú ekki komið þar við sögu“. „Mér er ekki kunnugt um, að ég hafi gert Lilju neitt illt. Hún var bara sama einþykknis- skepnan og þú. Hvað þurfti hún að stökkva til Ameríku um leið og ég setti upp hringinn? Við minntumst aldrei á neitt hjónaband. Við vorum bara eins og góð systkini, gældum hvort við annað í sakleysi æskunnar. Ég var búinn að segja það oft, að Anna yrði konan mín. Þið vissuð það ölL Og svo þýtur Lilja í burtu, án þess að kveðja mig. Það eru alltaf þessi fljótræðisflog í kven- fólkinu“. „Hún leit víst aldrei glaðan dag fyrsta árið fyrir vestan, og svo kvaldist hún af sjóveikinni á leiðinni“, sagði Þórður ásakandi. „Ég gat ekki að því gert“, sagði Jón. „Þess vegna má ekki senda Línu okkar til Ameríku, svo að hún kveljist ekki eins, enda veit ég, að þú tekur sönsum, því að af ég á nú að tala eins og mér býr í brjósti, verð ég að segja, að þú berð ekki alveg hreinan skjöld í þessu máli. Finnst þér drengilegt af þér að láta mig játa allt fyrir þér svo dauðadrukkinn, að ég man ekki eitt einasta orð eða atvik, sem var talað eða gert þó nótt“. „Ég játa, að það var ekki rétt gert. Ég fann það þá, þó að ég neyddist til að gera það, en ég varð einhvern veginn að komast að því, sem var að gerast í kringum mig, þar sem hún laug að mér og það þótt ég sama sem stæði hana að svikunum. Hún hefur líklega ekki þorað annað, vesalingurinn“. „Nei, auðvitað hefur hún ekki þorað annað“, sagði Jón blíðmáll. „En nú skulum við gera gott úr þessu öllu og sættast heilum sáttum og þú tekur Línu að þér. Hér er hönd mín til sátta“. Þórður horfði út undan sér á framrétta hönd- ina, en snerti hana ekki. Hann sá ánægjulegan glampa í augum Jóns. Líklega taldi hann taflið unnið. • „Mér kemur höndin á þér ekkert við“, sagði Þórður. „Þú mátt lifa með henni í frillulífi alla ævina míh vegna. Ég ætla mér ekki að borga ykkur svikin með því að verða leppur fyrir ykkur. Ég reyndi það, sem ég gat, til að aðskilja ykkur, en það var ekki hægt. Nú er bezt að þið njótið afleiðinganna". „Hvað — afleiðinganna? Það er eins og „stóri dómur“ væri í lögum og við mættum eiga von á hýðingu eða einhverju þaðan af hræðilegra. Ég er nú svo sem ekkert mjög smeykur. Ég skyldi víst hampa blessuðum króganum framan í hvern sem væri, ef ég bara mætti það. Hann verður líklega ekki ómyndarlegur, þó að hann sé ekki hj ónabandsbarn“. „Jæja, þá skaltu byrja á því að hampa honum framan í konuna. Henni þykir gaman að börnum og ykkur hefur víst langað til að eiga fleiri börn“, sagði Þórður og brosti kuldalega. „Það er nú einmitt það, sem ég þori ekki“. „Ef ég ætti nokkuð að leggja til málanna“, sagði Þórður um leið og hann gerði sig líklegan til að ganga burtu, „þá ráðlegði ég þér að segja Önnu sannleikann og það strax, vera ekki með nein undanbrögð eða svik meiri en þú ert búinn. Sannleikurinn kemur í ljós, þótt seinna verði, og það þolir hún ennþá verr. Jafnvel ekki ólíklegt, að hún yrði geðveikur vesalingur, og þá verður þú ekki öfundsverður af hjónabandinu“. Svo stökk Þórður ofan að ánni, hentist yfir hana og þaut í sama sprettinum heim að Seli og hvarf inn í kofana. Jón horfði á eftir honum, þangað til hann var horfinn. Þá fleygði hann sér niður og starði hugsandi fram undan sér. Síðustu orðin, sem Þórður hafði sagt, blésu einhverri slæðu frá fortíðinni. Bak við hana var manns- mynd, sem gleymskan hafði verið búin að má út að mestu — náföl mannsmynd með augun langt inni í höfðinu og augnatóftirnar fullar af myrkri. Þannig hafði Friðrik kaupmaður litið út, þegar hann sá hann seinast. Var þessi mynd að minna hann á, að svona ætti hann eftir að sjá konu sína? Nei, það mátti ekki verða. Það mátti ekki koma fyrir. Anna mátti aldrei fá vitneskju um, hvernig komið var. Lína varð að fara eitthvað langt í burtu. Þórði hafði aðeins dottið í hug að spá þessu til þess að hefna sín. Jón lokaði augunum, ef ske kynni að myndin hyrfi, en hún varð þá bara enn skýrari. Og honum heyrðist eins og hvíslað í eyra sér: „Geðveikur — brjálaður“. Jón þaut á fætur. Hvað ætlaði eiginlega að verða úr þessari hrakspá? Var hann sjálfur að verða brjálaður? Ekki nema það þó! Hann minnt- ist þess, sem faðir hans hafði sagt við hann morguninn eftir að Erlendur á Hóli hafði gasprað því út úr sér í ölæði, hver endalok tengdaföður hans hefðu orðið. „Þú verður að vernda hana frá öllu, sem getur haft skaðleg áhrif á hana, því að þetta getur verið arfgengt. Varðveita hana eins og veikt blóm, sem getur fölnað á einni frostnótt“. Þetta hafði hann sagt, sá skynsami og gætni maður. Og s^?o datt Þórði það í hug, að hann skyldi ganga beint til hennar og segja henni frá hrösun sinni. Hann hlailt að vera vitlaus. Hann gekk fram og aftur, þangað til hann heyrði Jakob kalla skammt frá sér: „Hvar eruð þið?“ Það gat vel verið, að hann væri búinn að kalla oft. Jón fór á móti drengnum. Hann rak undan sér hnakkhesta handa þeim og reiðingshest með pokum á undir veiðina. Jón fór að tína silunginn í pokana. Jakob hjálpaði honum. „Hvar er Þórður?“ spurði Jakob allt í einu. „Heima í Seli. Hann kemur víst bráðum“, sagði faðir hans. En Þórður kom samt ekki. Nú var þúið að bera silunginn saman og jafna í pokunum, en ekkert sást til Þórðar. „Hlauptu heim í Selið og segðu Þórði að við séum tilbúnir“, sagði Jón. Jakob hljóp, en kom bráðlega einsamall aftur. „Hann segist aldrei koma heim aftur. Hann er svo undarlegur. Hann bað mig að koma með Skjóna og binda hann við bæjarklinkuna. Því ætli hann sé svona undarlegur, pabbi?“ sagði hann vandræðalega. En faðir hans hristi aðeins höfuðið. „Sæktu hestana, góði minn, meðan ég fer og tala við karl. Við skulum sjá, hvort ekki er hægt að hafa úr honum fýluna“, sagði hann og hljóp af stað. Jakob horfði á eftir föður sínum, hrifinn af því, hvað hann var fljótur að hlaupa og hvað hann stökk langt yfir á hinn bakkann. Þórður stóð við gluggann og horfði út. Hann hafði séð til ferða húsbóndans, þótt hann hreyfði sig ekki úr sporunum eða liti við, þegar hann kom inn úr dyrunum. Eiginlega hafði hann alltaf fylgt hverri hreyfingu hans frá því þeir höfðu skilið. Og nú kom hann þarna hlaupandi eins og kátur, ábyrgðarlaus strákur, einmitt þegar honum sjálf- um fundust örlögin svo þungbær, að hann gæti varla risið undir þeim — og það var allt af hans völdum. Jón gekk hvatlega inn í baðstofuna, lagði höndina á öxl Þórðar og sagði glaðlega: „Komdu Þórður minn, allt er tilbúið. Jakob er að sækja hestana“. Þórður hreyfði sig ekki og hélt áfram að stara út. „Þórður, hvað ertu eiginlega að hugsa? Ertu orðinn að steingervingi?“ sagði Jón öllu hærra. Þá sneri Þórður sér við. Svipur hans var ískyggilega þungur. „Ég kem ekki heim aftur!“ sagði hann með erfiðismunum. „Ég get það ekki!“ „Hvað á þetta svo sem að þýða? Fyrst þú fórst ekki í burtu í fyrra, þegar þú varst næstum kafn- aður hérna í Selinu úr fýlu og óhreinlyndi, þá er engin ástæða til þess að að vera með úlfúð núna. Þú varst búinn að fleyja stúlkunni frá þér, og þér má standa á sama, hvað okkur hefur farið á milli eftir það. Og það skal ég segja þér, góðurinn minn, að þótt þú með allri þinni siðavendni og miklu dyggðum berir mér það á brýn, að mér hafi farizt illa við kvenfólk, þá hef ég þó aldrei komið eins lélega fram við nokkra stúlku eins og þú við Línu“. „Þegiðu, Jón, eða ég drep þig. Farðu, ég þoli ekki að sjá þig“. „Nú, jæja, ertu svona æstur, Þórður minn. Hefurðu hníf eða ætlarðu að nota snæri? Taktu þá fórnarlambið. Ég reyni að verjast, meðan ég get“.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.