Lögberg - 26.01.1956, Page 6

Lögberg - 26.01.1956, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 26. JANÚAR 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Þá hristi Anna Friðriksdóttir höfuðið um leið og hún stóð upp, og gekk til baðstofunnar. „Hvernig getur þessi syndari hugsað um gröf og dauða, án þess að skelfast?“ hugsaði hún. „Reynd- ar gat það svo sem komið fyrir, að hann hætti að drekka og hefði iðrazt“. Anna hafði ekki talað orð við nokkra manneskju, meðan kaffið var drukkið. Klukkan fimm um nóttina vaknaði hún við hamfarirnar í veðrinu. Hún var víst áreiðanlega skollin á, þessi stórhríð, sem fólkið hafði verið að spá. Það var eins og baðstofan bifaðist í byljunum. Hún, sem alltaf óttaðist að bærinn fyki, þegar hvasst var, og hjúfraði sig í faðm manns síns, sem hughreysti hana þar til hún varð róleg, lá nú alein — hrædd og kvíðandi. Helzt hefði hún kosið að hlaupa fram í baðstofuna til Borghildar, en þar heyrðust víst ennþá meiri óveðurslæti, því að hún var norðar. Hún tróð fingrunum í hlustirnar og vafði sænginni utan um höfuðið. Þá varð veður- gnýrinn að alls konar ofheyrnum. Henni heyrðist einhver vera að stynja og andvarpa. Það hlaut einhver að vera að deyja úti í þessu voðaveðri — kanske hérna rétt við gluggann? Hún hafði svo sem heyrt getið um menn, sem voru svo aðfram- komnir, að þeir dóu við bæjardyrnar, án þess að geta gert vart við sig. Ólíklegt var þó að Þórður væri kominn heim og væri svo nauðulega staddur. Hún tók fingurna úr eyrunum og ýtti sænginni til hliðar, en 'heyrði þá ekkert nema veðurofsann. Þetta hafði sjálfsagt verið einhver vitleysa, sem betur fór. En henni heyrðist einhver hreyfing inni í húsinu. Hún sneri höfðinu við og sá að maður hennar var að klæða sig, þó að tæplega hálfbjart væri. Hún varð svo hissa, að hún gleymdi því alveg að hún var í málbindindi og spurði: „Því ertu að klæða þig svona snemma, maður? Hefurðu þá líka heyrt eitthvert hljóð eða stunur?“ „Stunur?“ spurði hann. „Ég hef ekkert heyrt nema það, að komið er aftakaveður. Ég þori ekki annað en að vitja um fjárhúsin. Steini hefur kannske ekki hespað þau nógu vel, hann er svo óvanur að hugsa um fé, og þá fennti þau full og féð myndi fara fram í afrétt, ef það færi út“. „Ætlarðu út í þetta veður?“ „Þetta er ekki annað en íslenzk stórhríð, góða mín, sem flestir fullorðnir menn hafa komizt í kynni við“. Hann talaði í sínum venjulega hlýja málrómi. Önnu langaði að biðja hann að fara ekki frá sér. Það yrði svo hræðilegt að vera ein. En hvernig gat hún beðið hann þess núna? En hann skildi hana, þótt hún talaði ekki. „Þú átt náttúrlega bágt með að sofa. Á ég að biðja Borghildi að koma inn fyrir til þín?“ Nei, nei“, kveinaði hún, „það er bezt að ég sé ein“. En samt iðraðist hún eftir því, þegar hann var farinn. Ef hann hefði verið sami góði eiginmaðurinn og hann var, hefði honum ekki dottið í hug að skilja hana eftir svona eina eða að minnsta kosti sent Borghildi til hennar. Hún reyndi á ný að troða fingrunum í hlustirnar og vefja sænginni utan um höfuðið, svo að hún gat varla andað. En ofheyrnirnar byrjuðu aftur þrátt / fyrir það. Henni heyrðist ungbarn vera að gráta. Þegar hún tók fingurna úr hlustunum, heyrði hún það ekki. En það var verið að láta aftur hús- hurðina. Hvað hafði hann svo sem verið að brölta út einungis til þess að henni liði enn verr en áður, fyrst að hann var kominn strax aftur? En þetta var Borghildur. Svo hann hafði þá vakið hana til þess að hún væri ekki ein. „Vakti hann þig?“ spurði hún. „Já, ég svaf nú laust. Þetta er meira óskapa- veðrið“. Hún hélt' á ytri fötunum, og klæddi sig í þau á gólfinu. „Ætlarðu að fara á fætur strax?“ „Ég get ekki sofið hvort sem er. Það er hálf- kalt inni hjá þér. Ég fer að kveikja upp í ofninum. Hefurðu vakað?“ „Alltaf síðan veðrið brast á. Mér hefur liðið svo hræðilega. Mér hefur heyrzt einhver vera að stynja — og núna síðan hann fór út, hefur mér heyrzt barn vera að gráta. Heldurðu að það séu dánu börnin mín, sem eru að gráta?“ i „Ó-nei, þeim líður betur en svo, að þau gráti, góða mín. Það hefur bara verið ýl í glugganum, kannske laus rúða ,eða þá að þú hefur blundað svolítið". Þegar orðið var vel hlýtt inni kom Borghildur rrieð kaffi. „Mér finnst veðrið ekki eins ofboðslegt, síðan fólkið fór að ganga um og tala“, sagði Anna. Borghildur sat á stól við rúmstokkinn og beið eftir bollapörunum. Henni til mikillar furðu fór Anna allt í einu að minnast á mann sinn. „Hefur Jón komið inn aftur?“ spurði hún. „Já, hann er búinn að drekka kaffið. Þeir eru farnir út aftur, Steini og hann, og koma ekki fyrr en þeir eru búnir í húsunum. Það er svo glórulaus stórhríð, og ég man varla eftir öðru eins veðri“, sagði Borghildur. „Hvernig komizt þið í fjósið, stúlkúrnar?" „Við ætlum að fara allar og leiðast“. „Ósköp ertu dugleg, Borghildur. Ég vildi að ég væri eins“. „Það er misjafnt, sem fólki er gefið af því eins og öðru“, sagði Borghlidur. „Svo hef ég líka þessa hestaheilsu, en þú ert heilsulítil“. „Einu sinni sagði Finni mér, að ég væri eins og ýlustráið fyrir utan gluggann, sem alltaf kveinaði undan storminum. Hann sagði, að það hefði alltaf verið þarna, síðan hann mundi til. Heldurðu að það hafi verið rétt hjá honum?“ „Hann hefur að minnsta kosti trúað því, karl- anginn“, sagði Borghildur og brosti ánægjulega yfir því, hvað Anna var skrafhreifin. Svona mikið hafði hún ekki talað síðan hún varð svona undar- leg. „Heyrðirðu það sagt, að hann ætti að vera bróðir hans pabba sáluga?“ „Já, já, og hann hefur sjálfsagt verið það — þeir voru svo svipaðir á fæti“. Anna andvarpaði. „Og svo lét faðir hans bráð- ókunnugan mánn gangast við honum! Finnst þér þetta ekki andstyggilegt, Borghildur?" „Jú, það er reglulega andstyggilegt fram- ferði!“ sagði Borghildur fálega. „Eru þá allir karlmenn svona lauslátir og láta svo aðra menn gangast við börnunum sínum? Heldurðu að pabbi hafi verið svoleiðis?“ Hún tal- aði svo lágt, að það var eins og hvísl. „Hann Jakob heitinn? Nei, það er áreiðanlegt, að heiðarlegri maður hefur ekki verið til í alla staði en hann“. „Aumingja pabbi! Hann var svo góður. Ég veit, að hann hefur ekki hagað sér svoleiðis", sagði Anna. Borghildur tók bollapörin og stóð upp. „Nú skaltu reyna að sofna, góða mín. Það er orðið notalega hlýtt hjá þér“. Anna breiddi sængina yfir höfuðið á ný. Svefninn lagði líknarhendur yfir augu hennar svo- litla stund. Hún sveif inn í draumalandið, en var þó kyrr í húsinu sínu. Hún heyrði barnsgrátinn á ný rétt hjá sér. Og þarna sat Lísibet fóstra hennar í skautbúningi, eins og á myndinni, á sama stóln- um og Borghildur hafði setið á áður, og hélt á hvítvoðungi í fanginu. Það átti sjálfsagt að skíra barnið í dag. Hún gældi við það, svo að það hætti að gráta: „Blessað engilbarnið má ekki gráta“, heyrði hún hana segja. Anna reis upp og leit á barnið. Þetta var litla stúlkan hennar Línu. Víst var það hún. Þá hrikti í baðstofunni og Anna hrökk upp. Þetta hafði þá verið draumur. Mamma og barnið hans — var það ekki undarlegt? Þetta var undarlegur en auðráðinn draumur, hugsaði hún. Auðvitað vill hún, að ég fyrirgefi honum og taki barnið hingað heim 1 hjónahúsið. Hún hugs- aði málið fram aftur og fram langa lengi. Loks fór hún fram úr rúminu og sótti biblíuna. Hún lét hana opnast af sjálfu sér, eins og hún hafði svo oft áður gert, þegar hún leitaði til hennar. Það hafði fóstri hennar kennt henni. Hún vonaði, ' > að hún myndi sýna sér þessi dýrðlegu orð: „Sælir eru þeir, sem friðinn semja. Þeir munu guðsbörn kallaðir verða“. En hún gat aldrei rekizt á neitt, sem við átti, nema að hún átti að hlýða áminn- ingum föður síns og yfirgefa ekki boðorð móður sinnar. Þetta var líka nóg. Henni fannst það sjálf- sagt, að fara eftir þessari draumbendingu eins og l fóstra hennar hefði talað við hana sjálf ljóslifandi í sínum blíða en festulega málrómi, sem engum datt annað í hug en að hlýða. Hún ætlaði að bjóða manni sínum að taka litlu stúlkuna, jafnvel þó að hrösun hans yrði opinber allri sveitinni. Þá dáðust líka allir að því, hvað hún var góða kona. Anna kastaði sænginni skarplega til fóta og fór að klæða sig. Jakob varð alveg hissa, þegar hann sá móður sína alklædda, þegar hann lauk upp augunum. Hún var búin að taka blómin úr glugganum og setja þau út í hornið við rúm- gaflinn hans. Frostið var svo mikið, að þau gátu frosið um hádaginn, sagði hún. Kannske höfðu þau líka frosið í nótt? Þegar stúlkurnar komu heim fannbarðar með mjólkurföturnar, var húsmóðirin komin fram í eldhús. Þær ráku allar upp stór augu. „Ég hélt að það veitti nú svo sem ekkert af að h^fa heitt á könnunni handa ykkur, þegar þið ( kæmuð heim“, sagði Anna og það vottaði fyrir veiku brosi á vörum hennar. „Það var sannarlega gott og blessað“, sagði Gróa, „en þó er hitt ennþá dýrmætara að sjá að þú ert sjálf að hressast“. Hún rauk að húsmóður sinni og kyssti hana, þegar hún hafði sett frá sér klökuga fötuna á eldavélina. Allan daginn voru Borghildur og Gróa að segja húsmóður. sinni sögur. Henni fannst þessi hræðilegi dagur aldrei ætla að líða. Gróa þeytti rokkinn fram í búri. Þar heyrðist minna á en inni í baðstofunni, og rokkhljóðið dró dálítið úr veður- hvininum. Stundum las Jakob upphátt, en Anna heyrði lítið af því, sem hann las. Hún var alltaf að hugsa um, hvað Jón myndi segja, þegar hún færi allt í einu að tala við hann um litlu stúlkuna hans. i Það var komið fram yfir miðaftan, þegar loksins heyrðist til karlmannanna fram í bænum. Þeir fóru úr ytri fötunum frammi í gamla eld- húsinu. Anna beið í eldhusinu með handklæði, sápu og þvottafat handa manni sínum. Slíkt var óvanalegt. Borghildur hafði venjulega hugsað fyrir því. En þau ósköp að sjá, hvernig maðurinn leit út, þegar hann kom inn. Efrivararskeggið var eintómur klaki, andlitið blóðrautt og hendurnar óhreinar. Hún hafði víst aldrei séð hann líta svona hræðilega út. — Hún hellti heitu vatni saman við í fatið. Hann horfði á hana alveg hissa. „Það er ósköp að sjá, hvernig þið lítið út“, sagði hún. „Gátuð þið ekki verið inni í húsunum?“ „Við erum búnir að fara alla leið fram á Sel“, sagði Steini hreykinn. „Það vantaði nú af sauðun- um, þegar Jón fór að telja í morgun. Það vantaði líká Þórð“, bætti hann við og leit glettnislega til Gróu. „Ó, ég hefði orðið hrædd, ef ég hefði vitað það. Þetta er óskaplegt veður. Ertu ekki hræddur um Þórð í þessu veðri?“ spurði Anna mann sinn. „Hann? Nei, ég þekki hann nú svo vel og veit, að honum er óhætt að treysta“. „Þú hefðir átt að fá þér mann til að hirða féð, meðan hann var í burtu“, hélt Anna áfram. „Það er leiðinlegt að þú skulir þurfa að vera úti í þessari hörku“. „Ég er nú ekkert smábarn, sem ekki má fara út í hríð“, sagði Jón ánægður yfir þessum stakka- skiptum, sem kona hans hafði tekið á þessum sólarhring. Hann stakk andlitinu niður í volgt vatnið ,svo að klakinn þiðnaði úr skegginu.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.