Lögberg - 11.10.1956, Blaðsíða 6

Lögberg - 11.10.1956, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 11. OKTÓBER 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Finnst þér ekki sorglegt að heyra, hvernig hann féll frá, aumingja gamli maðurinn hann Hallgrímur?" „Nei, alls ekki. Þetta liggur fyrir okkur öllum. Hann var víst orðinn saddur lífdaganna“, sagði hann. „Ég meina, hvað það var hræðilegt, að enginn skyldi fara út til hans“. „Hann var víst vanur því að komast hjálpar- laust í bæinn. Það hefði hann líka getað í þetta sinn, ef dagarnir hefðu ekki verið uppi“, sagði hann. „Ég talaði við frúna í gær. Hún var ákaf- lega sorgmædd. Hann var búinn að biðja mig að lofa sér að hvíla hérna í garðinum, en hún vill hafa hann þarna hjá sér“. „Hún er sjálfsagt óróleg“, sagði Anna. „Ég er hrædd um, að hún hafi ekki verið honum góð kona“. Þetta hefði hún nú reyndar ekki átt að segja. „Það verða víst flestar konur þreyttar á drykkjumönnum“, sagði hann. „Þar að auk bjó hún við fátækt og erfiðleika. Hjónabandið var orðið yfir þrjátíu ár. Hvað erum víð búin að búa lengi saman?“ Hún svaraði engu, heldur fór inn í búrið með diskahlaða í höndunum. Hann beið eftir einhverju, sem hún átti eftir ósagt, en þegar það heyrðist ekki, fór hann út. Hún gat ekki um annað hugsað en séra Hallgrím og konuna hans. Að búa saman við drykkjumann í þrjátíu ár — það var meira en lítið kvalræði. Sízt að furða, þó að hún væri orðin geðstirð og væri ekki blíð í svörum við karlinn, og svo þrældómur þar á ofan. Það voru hræðileg kjör, og ekki hægt að bera þau saman við húsfreyjustöðuna á Nautaflötum, þó að ekki hefði allt verið ákjósanlegt nú í hálft annað ár. Skeð gat, að hún sjálf hefði orðið sú sama, ekki hreyft sig, þó að hún hefði vitað af honum drukknum úti. Þá hefði farið eins fyrir henni og þessari konu þarna fyrir austan. Hún gat ekki lengur lifað svona ósátt við mann sinn. Hvað átti hún að gera? Hún gat ekki ráðfært sig við neinn. Borghildur var öll á Jóns bandi. Þórður fékkst ekki til að tala neitt, en helzt hafði hann þó ásakað hana í þessu samtali um morguninn. Þá var eins og nafni Þóru í Hvammi væri hvíslað í eyra henni. Já, einmitt Þóra. Anna hafði trúað henni fyrir hjartasorg sinni, en iðrazt svo laus- mælgi sinnar og forðazt að minnast á það framar. Hún varð að ríða út að Hvammi. ÚT AÐ HVAMMI- Tveir yngstu bræðurnir í Hvammi léku sér að því að draga kassa fula af hornum og leggjum um hlaðið, þegar Anna reið heim tröðina. Hún kallaði til þeirra að biðja mömmu að koma út. Hún var óvön'því að fara hjálparlaust úr söðlin- um. Þóra kom fram kolkrímug um andlit og hendur ,en pokasvuntunni kastaði hún inn í skálann. „Ég er nú hreint ekki gestaleg, Anna mín“, sagði hún, en lét þó vinkonu sína styðjast við öxl sína, meðan hún var að komast úr söðlinum. „Ég hélt nú bara, að þú værir búin að sverja það við þitt eigið höfuð að koma aldrei framar að- Hvammi“. „Ó-nei, Þóra mín. Það hefur bara gert þetta heilsuleysi mitt, hvað sem það hefur verið og hvaða nafni, sem það hefur verið nefnt — geðveiki býst ég við. Mér hefur fundizt ég ekki geta talað við þig einslega, vegna þess að ég fór að blaðra við þig út af þessari mæðu, sem kom fyrir mig. En nú er ég eiginlega komin til þess að leita ráða hjá þér, en náttúrlega ertu upptekin við slátur- suðu. Það þóttist ég sjá af því, hvað rauk mikið hjá þér — bærinn var alveg hulinn af reyk“. „Ég er búin með öll slátur nema fáeina fætur, sem geta sjálfsagt beðið eitthvað", sagði Þóra og spretti söðlinum af Stjarna. „Hefurðu enga stúlku?“ spurði Anna. Hún sá Friðrik og Kristínu í bæjardyrunum með hálf- sviðna fætur á teinum. „Ég hef stúlku að hálfu. Hún er hjá mér þessa viku“. „Hann er nú eins og vant er, dugnaðurinn í þér, Þóra. Þú vinnur ein það, sem þrjár stúlkur gera hjá mér“. „Það er nú heldur meira þar um að vera. Við seljum af okkar slátrum — það er ekki þörf fyrir þau öll". „Og svo læturðu börnin hjálpa þér. Mikill er nú sá munur í samanburði við mig, sem aldrei hef sviðið kindarhaus á ævi minni“, sagði Anna. „En sú sveitakona“, sagði Þóra hlæjandi. „Það er nú svona, Þóra mín, að hafa góða stöðu“, sagði Anna. * „Finnurðu það nokkurn tíma að staða þín sé góð?“ spurði Þóra. „Það getur allt komizt í vana og eins það. Ég býst við því að ég hafi aldrei verið eins þakklát við mann minn og mér hefur borið. Hann hefur þó verið mér góður. Annars má ég ekki tefja þig, Þóra. Ég get lokið erindinu hérna úti“, sagði Anna. „Hvað er að heyra til þín. Þú líklega setur þig inn úr því þú á endanum heimsóttir mig. Ég er að sjóða svið og þú borðar þau með okkur. Krökkunum þykir ekkert að því að fá að hætta við að svíða“. „Svo að þú ert þá líka að sjóða. Þú vinnur mörg verk í einu. En hvar er nú Björn litli?“ „Hann er við kindur með Sigurði, svo að við höfum nægan tíma til að skrafa saman. Er það eitthvað sérstakt, sem hefur komið fyrir?“ „Ó-já, ekki get ég neitað því. Það er nú fyrst það, að Jón kom svo dauðadrukkinn heim í gær- kvöldi, að hann bara lagðist fyrir eins og afvelta skepna út á eyrunum — og ég var svo hrædd. Þú trúir því ekki hvað mér fannst tíminn lengi að líða, meðan Þórður var að ná honum. Og svo hef ég alltaf verið að hugsa um séra Hallgrím í allan dag. Ég er svo hrædd um að Jóns bíði sömu örlög“. Svo sagði hún Þóru frá því, hvernig dauða prestsins hefði að höndum borið. „Mér finnst ég alltaf heyra það, sem hann sagði við mig morgun- inn, sem hann kvaddi mig. Þá var hann eins og iðrandi syndari. Hann bað mig að rétta fram höndina til sátta, meðan það væri ekki orðið of seint. En mér finnst, að það sé ekki réttlátt að ég, sem er alsaklaus manneskja, bjóði sættir. En það er víst ekki við því að búast að hann víki að því einu orði framar. Það lítur út fyrir, að hann sé harðánægður með þessa sambúð. En ég er alveg að gugna. Ég þoli þetta ekki lengur. Ég fann það bezt í nótt, þegar ég var sveitt af hræðslu, hvað hann hefur eiginlega verið mér góður frá því fyrsta og hvað ég þrái, að allt verði eins og það áður var“. Þóra hafði sótt vatn í fat og þvoði sér um andlit og hendur frammi við eldavélina. Anna sat á innsta rúminu við gluggann. „Ertu virkilega ekki búin að fyrirgefa honum ennþá þessi misgrip, sem komu fyrir hann í hittið- fyrra“, sagði Þóra spaugandi, en leit ekki til vin- konu sinnar. „Nei, ó-nei!“ „Ekki er undarlegt, þó að hann sé orðinn þreytulegur á svipinn", sagði Þóra í sama tón. „Finnst þér hann vera orðinn þreytulegur?“ spurði Anna. „Þetta litla — það er eins og hann geti ekki hlegið lengur. Ef ég væri sem þú, skammaðist ég mín fyrir að láta honum fara svona mikið aftur“. „Hann vinnur líka alveg eins og hinir pilt- arnir, er kominn á engjarnar, þegar ég vakna, eða þá að einhverri annarri erfiðisvinnu“. - „Hvar heldurðu að þú hefðir aðra eins stöðu, Anna mín? Nei, það er ekki vinnan. Hann er hraustur og þolir hana, enda hefur hann alltaf unnið mikið og ekki látið á sjá“. „Heldurðu nú, Þóra mín, að þú hefðir verið búin að fyrirgefa honum annað eins og þetta?“ „Ég hefði víst getað fyrirgefið honum, þó að hann hefði tekið fram hjá mér á hverju ári“, sagði Þóra hlæjandi. „Guð komi til!“ andvarpaði Anna og ofbauð nú alveg. Hugsa sér það, árlega undantekningu á þeim ósköpum, sem á höfðu gengið í þetta eina sinn. „Ég er ákaflega hrædd um, að þú íhugir það ekki vel, hvað þú ert að tala um. Sjálfsagt hefur bæði þér og Borghildi fundizt það stakasti óþarfi af mér að vera nokkuð að fást um þetta. Gott ef ykkur hefur ekki fundizt að ég hefði átt að fara upp um hálsinn á honum og þakka honum fyrir. Það var svo sem ekki þess vert að gera mikið veður út af því“. „Nei, nú hefurðu okkur fyrir rangri sök“, greip Þóra fram í, því að hún sá, að henni var farið að mislíka. „Ég sagði þetta bara svona af einhverjum glannaskap, en Borghildur hefur varla verið ánægð yfir því að þetta kom fyrir. Og henni hefur áreiðanlega ekki liðið vel þennan tíma — henni hefur farið hræðilega mikið aftur. Það hafa margir talað um það“. „Jæja, kannske hefur öllum farið aftur, sem nærri mér hafa verið. En eitt er þó víst, að það hefur enginn séð að mér hafi liðið þannig, að urn afturför hafi verið að ræða. Það loðir lengi við manneskjuna, sem festist við hana í æsku. Það hefur víst alltaf verið svo, að Jóni hefur liðizt allt- Hann er dáður af öllum. Allt er gott, sem hann gerir. Hvað gerir það til, hvernig konunni líður, sem hann tók upp af götu sinni? Hún hefur aldrei vérið í uppáhaldi hjá fólkinu hérna í dalnum — alltaf staðið í skugganum af honum“. Þóra hafði lokið við að, greiða sér og þvo og kom nú inn að rúminu og settist hjá Önnu, lagði handlegginn yfir herðar henni og kyssti hana a vangann. „Hættu þessu ergelsi, Anna mín, þu hefur aldrei staðið í neinum skugga. Segðu mér bara, hvað ég get gert fyrir þig. Þú veizt það, að ég vil allt til þess vinna að ykkar sambúð gæti orðið eins og hún var áður. En hvað því viðvíkur, sem þú sagðir áðan, að það væri óréttlátt að þu réttir fram höndina til sátta, þá veit ég það, af þvi að ég þekki Jón svo vel, að hann hlýtur að hafa reynt að bæta fyrir brot sitt, en þú hefur bara ekki viljað hlusta á hann. Er þetta ekki rétt til getið, góða mín?“ „Jú, það er rétt“, sagði Anna. „En nú hefur hann ekki minnzt á það lengi og ætlar víst aldrei að gera það. En mig dreymdi svo hræðilega síðast- liðna nótt, þá loksins ég gat sofnað. Ég sá hann vera að sundríða ána og hesturinn barst ofan alla ána, og ég reyndi að kalla á hjálp, en gat engu orði upp komið. Seinast vaknaði ég alls hugar fegin yfir því, að þetta var þó ekki annað en draumur. Ég er svo hrædd um, að þetta boði eitt- hvað hræðilegt“. „Vatn þýðir veikindi“, sagði Þóra alvarleg- „Áður en hann pabbi sálugi lagðist banaleguna, dreymdi mig að ég sá hann ríða yfir ána. Hún tók hann og hestinn. Ég sá hann aldrei framar. Ég þóttist vita, hvað þetta þýddi, og var svo fegin að vakna“. „En ef Jón ætti nú skammt eftir ólifað, sem ég get nú tæplega hugsað til að eigi eftir að koma fyrir, hlýtur samvizkan að kvelja mig vegna þess, hvað ég var vond við hann seinast þegar hann bauð mér sættir. Ég iðraðist eftir því strax. Þa sagði hann, að þetta þýddi ekki lengur, við yrðum að skilja og ég mætti fara með Jakob. Hann sagðist fara út í garðinn og sitja hjá leiðunum sínum, þegar hann yrði of einmana“. Anna grét. „Þa þoldi ég ekki meira. Það leið yfir mig. Síðan hefur hann ekki minnzt á sættir eða skilnað. Þetta á víst að vera svona alla ævina". „Það hefur verið erfitt’fyrir hann að bjóða þér að fara með Jakob“, sagði Þóra. „Eiginlega skil ég ekkert í því, að þú skulir hafa haldið það út að lifa í þessu kærleiksleysi allan þennan tíma, eins og ykkur þótti þó vænt hvoru um annað. Alltaf þurfti að bera allt undir „litlu systur', þegar við ætluðum eitthvað að fara eða gera, sem hann hélt að þér félli kannske ekki“. Anna þerraði tárvot augun. „Ég hef alltaf fundið það, að hann hefur verið mér góður, enda sparaði ekki séra Hallgrímur að minna mig á það þennan tíma, sem hann var hjá okkur“, sagði hun.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.