Lögberg - 31.10.1957, Side 6

Lögberg - 31.10.1957, Side 6
6 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Gróa kom fram heldur fasmikil. „Þér hefði líklega verið nær að vera heima og þvo þvottinn með mér, heldur en að flækjast á bæi eins og bjáni og súpa í þig þessar líka fréttir og aðrar eins — og hágrenja svo af öllu saman“, rausaði hún, meðan hún var að taka til kalt vatn til að baða höfuð húsmóður sinnar úr. Dísa þorði ekki að láta sjá sig meira þennan dag á heimilinu og gekk enn einu sinni yfir að Hóli. Hún sá líka til ferða Jóns utan dalinn, og þó að hana langaði til að frétta af Jakobi, óttaðist hún, að honum yrði sagt, hversu ógætilega hún hefði talað við fóstru sína — og þá syngi líklega eitthvað í honum. Anna var farin að hressast, þegar maður hennar kom heim með þau gleðitíðindi, að Jakob hefði talað við sig í símann. Hann væri orðinn hitalaus. Borghildur var svo gröm -við Dísu, að hún sagði Jóni, hversu báglega hún hefði komið fram, en bætti þó við, að líklega hefði það ekki verið ætlun hennar að hræða fóstru sína, heldur hefði hún verið sjálf yfir sig hrædd. Dísa kom ekki heim um kvöldið. Snemma morguninn eftir kom Bjössi frá Hóli til Þórðar við fjárhúsin. Hann var sendur frá Dísu til að vita, hvernig Önnu Friðriksdóttur liði. Þórður lét vel yfir því, að hún væri víst þó nokkuð hress. Með þessar fréttir snéri Bjössi heim aftur. Eftir há- degi sást til ferða Dísu, en hún fór hægt yfir og var ekki laus við kvíða yfir því, hvernig sér myndi verða tekið. Það fyrsta, sem hún sá, þegar hún kom heim á túnið, voru tveir hestar með reið- tygjum á skemmuhlaðinu. Gat það verið, að það ætti að fara að sækja lækni? Henni varð hverft við og fór að greikka sporið. Það voru söðlar á þeim báðum. Annar hesturinn var Skjóni hans Þórðar, hinn reiðhestur húsmóðurinnar. Ólíklegt var, að hún ætlaði að fara að ríða út, nýlega fallin. í yfirlið. Hvað svo sem skyldi standa til? Ekki þorði hún þó að forvitnast um það, heldur gekk inn í eldhúsið. Þar var Gróa greidd og sparibúin- Dísa hafði ekkert fyrir því að heilsa. „Hvað svo sem á þetta nú að þýða — því ert þú spariklædd? Er það handa þér, sem er verið að söðla Þórðar- Skjóna?“ spurði hún stóreyg af undrun. „Því býst ég við“, var hið stutta svar Gróu. „Hvernig líður mömmu?“ spurði Dísa hálf- hikandi. „Eftir öllum vonum vel. Þér tókst ekki að sálga henni í þetta skipti. Kannske verður það næst, sem þér tekst það“. „Það er svo sem ekkert ljótt, sem þú talar. Ekki gat ég vitað, að hún ryki um koll, þó að ég segði þetta“. „Þú ert bæði heimsk og illgjörn, greyið mitt, og hefur alltaf verið það“, sagði Gróa. Þá var gengið rösklega framan göngin. Dísa hrökklaðist inn í búrið. Hún þekkti, að þar var fósturfaðir hennar á ferðinni. Harin stanzaði í búrdyrunum. Dísa fékk hjartslátt, þegar hún sá svipinn á honum — hann lofaði engu góðu. „Nú tekur þú saman föggur þínar, Dísa“, sagði hann, „þér bauðst vist á Kárastöðum í gær. Gróa ætlar að flytja þig þangað“. „En ég sagði Þóru, að ég færi ekki þangað“, stamaði Dísa með andþrengslum. „Þú ert kannske að hugsa um að fara sem vinnukona að Hóli? Þú um það. Manga getur þá setið á hestinum ofan eftir. Ekki læt ég Gróu klæða sig úr reiðfötunum aftur, það er ekki svo oft, sem hún fær sér lystitúr“. „Við mamma höfum nú talað um það, að ég yrði hér alltaf“, sagði Dísæ hikandi. „En það getur ekki orðið og mér þykir líklegt, að Anna verði fegin, að þú farir. Þú getur ekki lynt við neinn á heimilinu — ekki einu sinni hana. Þess vegna verðurðu að fara burtu. Ég vona, að ég þurfi ekki að bera þig út úr bænum, en hér LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 31. OKTÓBER 1957 verður þú ekki lengur“. Svo snaraðist hann út. „Það hefur einhver talað fallega um mig í hans eyru, en mér þykir ólíklegt, að mamma taki það í mál, að ég fari“, snökti Dísa. „Reyndu bara að fara að hafa þig í reiðfötin, ég bíð ekki lengi“, þrumaði Gróa miskunnarlaus. „Reiðfötin mín eru niðri á Ós“, sagði Dísa. „Það er þó líklega ekki hægt að búast við því, að ég ríði reiðfatalaus um sveitina“. „Þú getur líklega fengið reiðfötin hennar Möngu eða þá riðið í stutta gopanum, sem þú ert í. Sama er mér, hvernig þú lítur út. Ég vil bara komast sem fyrst af stað — hestarnir bíða“. Dísa þaut inn í hjónahúsið. Hún bjóst við, að fóstra sín sæti við ofninn eins og vanalega, en stóllinn hennar var auður. Henni hnykkti við og leit flóttalega á rúmið. Þar lá Anna með lokuð augu og spenntar greipar ofan á sænginni. And- litið og hendurnar voru jafnhvítar eins og rúm- fötin. Biblían lá á stól við rúmstokkinn. „Mamma, þú ert þá enn í rúminu“, sagði Dísa. Anna opnaði augun þreytulega- „Ósköp geng- urðu harkalega um, manneskja“, sagði hún í mild- um ásökunarróm. Dísa fór að kjökra. „Hann skipar mér að fara í þessa fjandans vist, sem Þóra var að masa um í gær. Það hefst alltaf eitthvað illt af því, þegar hún kemur. Ég fer ekkert frá þér í rúminu. Segðu honum, að þú látir mig ekkert fara — þá lætur hann undan. Ég hef náttúrlega gaman af að ríða í kaupstaðinn, en ég kem aftur til þín, mamma“. „Það er nú einmitt það, sem ég vil, að þú farir héðan alfarin. Þú hlýtur að sjá það, að ég get ekki haft þig hérna, þegar þú ert svona löt og ómerkileg og gerir ekkert af því, sem þér er ætlað að gera“. „Ég læt ekki skipa mér — ég er engin vinnu- kopa hérna“, sagði Dísa þrjózkulega. „Ég reyndi nú svo sem að fara vel að þér í gærmorgun. En hvaða árangur hafði það? Þú fórst á bæi og lézt Borghildi standa í þvottinum og stráið hana Möngu, hálf handlama. Sérðu ekki, hvað þetta er óþolandi?“ „Ég ætlaði að sauma út bara svona að gamni mínu“ „Ég hefði náttúrlega lofað þér að föndra eitt- hvað að gamni þínu, ef þú hefðir verið eftirlát og góð stúlka. Þú getur farið með dúkinn og keypt blúndu utan um hann“. „Nú, það er líklega beZt að ég geri það“. Gróa opnaði hurðina í hálfa gátt og sagði: „Annaðhvort kemurðu strax eða ég fer án þín. — Hvernig er heilsan hjá þér, blessuð?" bætti hún við og snéri máli sínu til Önnu Friðriksdóttur. „Hún er heldur bágborin, Gróa mín. Ég ætla að biðja þið að verzla svolítið fyrir mig, fyrst þú ferð í kaupstaðinn. Það er ekki víst, að það verði neitt af þessu ferðalagi okkar Þóru minnar“, sagði Anna. „Sjálfsagt, góða mín, láttu mig bara heyra. En þú ferð að búa þig, Dísa mín, á meðan“. „Ég fer ekki fet“, sagði Dísa. „Jæja, ég segi húsbóndanum það þá“, sagði Gróa og gerði sig líklega til að fara fram úr húsinu. „Vertu kyrr og haltu þér saman. Ég fer með þér‘, sagði Dísa. DODDI FER AÐ KAUPA KÚ Það var komið fram undir sumarmál. Doddi var að dytta eitthvað að fjárhústóttinni, þegar honum heyrðist einhver vera að kalla á sig. Hann flýtti sér upp úr tóttinni. Þarna sat hann þá á hestbaki, blessaður hreppstjórinn, niður á eyrinni og veifaði til hans. Hvað skyldi nú vera á seyði? Aldrei varð honum það á að koma heim á hlaðið. Doddi tók undir sig stökk ofan eftir. „Sæll og blessaður, Jón minn“, sagði hann brosleitur. „Varstu að hugsa um að tala eitthvað til mín?“ „Já, ég þurfti að tala við þig“, sagði hrepp- stjórinn. * „Blessaður komdu heim. Lína verður ekki lengi að hita á katlinum“, sagði Doddi. „Það er öllu óhætt hvað mig snertir. Ég fer varla að verða svona neitt hinseginn, þó að þú komir heim, en ég er hárviss um, að Línu þætti vænt um það. Hún horfir oft á eftir þér, þegar þú ert á ferðinni“. „Svo-o, gerir hún það? Ég bið að heilsa henni“, sagði hreppstjórinn og brosti. „En það er líka önnur kona, sem lítur stundum eftir ferðum mín- um. Það er víst oft litið út um stofugluggana á Nautaflötum, þegar fer að líða á daginn og ég er ekki heima. Ég er hræddur um, að þeirri konu þætti ekkert vænt um það, ef Fálki tæki á sig krók heim að Jarðbrú. En svo ég komist að erind- inu — ertu ekki að hugsa um að kaupa þér kú í vor?“ „Ég má líklega til, þó að mér ói við því“, sagði Doddi- „Það er sjaldan strokkað, þó mjólkar kýrin ágætlega. Hún lætur nýmjólkina ganga 1 okkur, ekki eys hún í okkur undanrennunni. Hún er ágætis matmóðir, hún Lína. Það segir mamma". „Já, það veit ég“, sagði hreppstjórinn. „Þú hlýtur að vera ágætlega stæður með hey“. „Jú, ójú, það vona ég, fyrst kvíguskepnan prettaði mig svona“. „Jæja, hlustaðu nú á mig, þú getur fengið keypta kú hjá prestinum, ef þú vilt. Hún er ný- lega borin, en það er víst ekki mikið í henni. Hann er á nástrái og hefur orðið að draga við þær fóðrið. Þú færð hana mikið ódýrari nú en í vor“. Doddi horfði á hreppstjórann skilningssljór. „Hvernig stendur á því?“ spurði hann. „Hann verður feginn að losna við kúna af fóðrunum. Það eru nokkrar vikur enn, þangað til kýrnar fara að bjarga sér. Hún græðir sig strax og þú ferð að gefa henni fulla gjöf, svo að þú sérð, að þetta er heillaráð. Ef þig vantar krónur, kemurðu fram eftir til mín eitthvert kvöldið og getur ekki um það við neinn. Prestur- inn vill fá kúna greidda í peningum út í hönd“. „Þakka þér fyrir þetta allt saman, Jón minn“. „Hvað segirðu um þetta — heldurðu að þú kaupir hana? Þá ættirðu að taka hana sem fyrst“. „Við sjáum nú til, hvað Lína og mamma leggja til málanna“, sagði Doddi. Þeir kvöddust- Doddi hljóp í einum spretti heim í eldhús til Línu. „Ekki nema það þó, Lína“, sagði hann sprengmóður, „hann bara veifaði til mín neðan af vegi og sagði mér, að séra Benedikt vilji selja kú núna strax og hún á að verða mikið ódýrari en ef ég keypti hana í vor. Og hann ætlar að láta mig hafa þá kúna, sem mest er í. Hvernig lízt þér á þetta, Lína mín? Og svo sagði hann, að ég skyldi koma fram eftir til sín eitthvert kvöldið svona um háttatíma, ef mig vantaði pen- inga. Hún á að borgast í peningum, enda kæri ég mig ekki um að slengja heilli kú inn í reikninginn minn, eins og þú skilur. Hann bað að heilsa þér, Lína mín, en hann vildi ekki koma heim. Hann sagði, að það væri gætt að sér út um stofugluggann heima á Nautaflötum. Hún er sjálfsagt eitthvað undarleg við hann núna — og ekkert hefur hún sent þér nú nýlega“. ■ „Það þykir mér vænt um, að hún gerir ekki. Ég kemst vel af án hennar gjafa. Ég vildi óska, að hún hefði aldrei gert það“, sagði Lína. „Eins get ég ekki hugsað til þess, að þú farir aftur að fá peninga hjá Jóni. Það eru hreinar og beinar sníkjur. Peningarnir, sem fengust fyrir kjötið, hljóta að segja þó nokkuð upp í kýrverðið“. „Já, þeir gera nokkuð, en ekki líkt því nóg“, sagði Doddi dauflega. „Ég er hissa á því, að þú skulir hafa á móti því, að ég þiggi þetta góða boð. Þér er þó líklega ekki orðið illa við þau hjónin, sem hafa reynzt okkur svo vel frá því fyrsta? Ég fer að tala við mömmu“. Lína lofaði þeim að ræða saman góða stund, áður en hún fór inn. „Hvernig stendur á þessu, Lína“, sagði Hildur, „langar þig ekki til að fá nýja kú í fjósið? Þarna getur hann fengið mikið ódýrari kú en þær verða í vor“. „Jú, jú, víst langar mig til þess, en ég vil ekki, að hann fari til Jóns aftur, fyrst hann vildi ekki láta hann borga það, sem hann fékk lánað hjá honum í vetur, heldur skal ég taka minn síðasta eyri“, sagði Lína óvanalega ákveðin. „Ég er nú hissa á því, hvernig þetta leggst í hana“, sagði Doddi, „eins og hann hefur gert þér margt gott — og okkur. Hildur brosti: „Hún er bara orðin svona stórlát allt í einu“.

x

Lögberg

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.