Lögberg - 07.11.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 07.11.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 7. NÓVEMBER 1957 GUÐRÍTN FRA LUNDI: DALALÍF Doddi var raunalegur á svipinn. Hann sat á rúminu hjá mömmu sinni líkur krakka, sem hefur verið sneyptur. Hún klappaði honum á vangann. „Aumingja Doddi minn“, sagði hún brosandi, „ég held þú þyldir ekki vel konuríki. Þú ert svo eyði- lagður yfir því, að þetta ráðabrugg tekst ekki, — hefur sjálfsagt verið farinn að hlakka til að færa Línu kú í fjósið“. „Já, víst var ég farinn að hlakka til þess“, sagði Doddi. „Þetta er í annað sinn, sem þú ert ráð- rík við mig, Lína mín. Þú vildir heldur ekki, að ég færi með hrossin út að Háakoti í haust, eins og Sigurður í Hvammi gerði. Þau hafa barið þar niður þangað til núna nýlega, en þau voru, trúi ég, líka horuð, þegar þau komu heim“. „Það er skemmtilegra að gefa hrossunum sín- um hey á stallinn heima en að láta þau snöltra á bjargleysu út á Strönd, mest í fjörunum, hef ég heyrt sagt. Pabba veitir víst ekki af þessum f jörum hjá Háakoti, þær eru ekki svo merkilegar. Hann hefur aldrei boðið mér neina hjálp í minni fá- tækt, enda hef ég ekki þurft hennar#með“, sagði Lína. „Það er gott að grípa í framrétta hjálpar- hönd, en þó er ennþá betra að þurfa ekki á neinni hjálp að halda — vera sjálfum sér nógur“. Doddi starði á konu sína stórum undrunar- augum: „Þú hefur aldrei látið svona fyrr, Lína“. „Satt er það, að sælla er að gefa en þiggja“, sagði Hildur og prjónarnir tifuðu og glömruðu meira en vanalega í höndum hennar. „En sé hjálpin veitt af örlátum og góðum huga, er ekki erfitt að þiggja hana. Og enginn maður hefur hjálpað mér eins vel og Jón hreppstjóri og foreldr- ar hans. Það verður lítil mjólk hjá þér, góða mín, í haust og fyrstu vetrarvikurnar“. „Heyrirðu hvað mamma segir?“ sagði Doddi hálfgramur. „Vertu ekkkert óánægður, Doddi minn“, sagði Lína hlýlega, „þú getur farið strax í fyrramálið eftir kúnni, ef þú vilt. Ég skal láta þig hafa þrjátíu til fjörutíu krónur, — heldurðu að þú þurfir meira?“ Nú varð Doddi enn meira forviða. „Síðan hvenær átt þú peninga, Lína?“ spurði hann. „Sumt eru prjónapeningar, en sumt síðan við giftum okkur. Ég hef legið á því eins og ormur á gulli, því að gull er það. Nú ætla ég að láta það fara, svo að ég geti eignazt aðra kú og farið að strokka“, sagði Lína og hló að undrun bónda síns og tengdamóður. Reyndar var Hildur ekkert al- varlega hissa. Hún vissi, að tengdadóttir hennar lumaði á peningum. Þó að hún teldi Dodda trú um, að það væru prjónapeningar, lét hún ekki slá svoleiðis ryki upp í sín augu. Helga, nágranna- konan góða, hafði líka sagt henni eins og fleirum frá þessu dularfulla sumarmálabréfi frá Borghildi, sem áreiðanlega væri fullt af peningum. Doddi stóð upp, stakk höndunum í buxna- vasana og kippti buxunum upp um sig og hló ánægjulega. „Það var þetta, sem hún bjó yfir- Ég bara dríf mig í fyrramálið, ef þú hefur skó handa mér. En fyrst verð ég að finna Erlend á Hóli og biðja hann að líta á heyin“, shgði hann og snaraðist fram úr baðstofunni. Um kvöldið kom ^Erlendur. Hann fór í tótt- irnar með Dodda og faðmaði heystabbana. Að því búnu lýsti hann því yfir, að Doddi væri stál- birgur, þó að hann gæfi hrossum og fé inni fram í fardaga. Þá varð Doddi yfir sig glaður. „Það skulu ekki líða margir dagar, þangað til Sigurlína Árna- dóttir á tvær kýr í fjósi sínu“, sagði hann drýg- indalegur á svip. Næsta dag lagði svo Jarðbrúarbóndinn af stað með nýtt, skrautlega litt tagl í hendinni. Hann kom við hjá Sigga Daníels, því að hann geymdi fyrir hann peningana, sem höfðu komið imt fyrir kjötið. Það vildi svo einkennilega til, að Þórður á Nautaflötum var staddur niðri í kaupstað þennan sama dag. Þeir drukku kaffi við sama borð hjá Sigga. „Það er víst ekki oft, sem þú ferð út af heimilinu frekar en ég“, sagði Doddi við Þórð. „Það hefur verið annað að gera í dalnum í vetur en að þeytast í kaupstaðinn, 'enda hef ég ekki komið hingað á þessum vetri fyrr en núna“, svaraði Þórður. Siggi kom með seðlahrúgu og fékk Dodda. „Þetta færðu nú fyrir kjötið þitt“, sagði hann. „Ég hefði getað selt mikið meira, ef það hefði verið til“. „Ég er að vona, að ég sleppi með þetta“, sagði Doddi og stakk seðlunum ofan í budduna íbygginn á svip. „Þetta eru nú meiri ósköpin, sem Doddi er með af peningum“, sagði Siggi glettnislega. „Ekki veitir af, vinur“, sagði Doddi, ég er á leiðinni út að Kárastöðum til að kaupa bjargræðis- grip“. „Nú, svoleiðis, er það kýr eða hvað?“ „Það er rétt til getið“. „Ög svei mér, ef hann er ekki með gull“, hrópaði Siggi- „Sá gerir okkur hinum skömm“. Doddi brosti drýgindalega. „Ójá, svo er sem þér sýnist. Lína — Sigurlína er búin að geyma þetta niðri í kommóðu, síðan við giftum okkur. Henni var gefið það í brúðargjöf. Ekki er ég samt svo fróður að vita, hver gefandinn var. En nú tók hún þá heldur en að taka lán — sko, peningalán, þó að mér væri boðið það. En ég var búinn að taka lán fyrir kornmat, sem ég hefði þó líklega ekki þurft, handa skepnunum, og getað sparað mér. En það var nú svona, ég var hálfkvíðandi, því að ekki vissi ég, að kvígan gerði mér óleikinn. En Lína vildi ekki, að ég færi til hans aftur, en hún var bara hálf dauf á svipinn, þegar hún fékk mér þessa peninga. En líklega hýrnar yfir henni, þegar hún sér kúna“. „Þú hefur svei mér lánstraust“, sagði Siggi. „Ojá, ojá, það koma nú ekki margir þar til greina, býst ég við“. Nú fór Þórður að gefa samtalinu gaum. „Ætlarðu að láta prestinn hafa þetta gull?“ spurði hann. „Línu hefur hlotið að þykja vænt um þessa peninga, fyrst hún geymdi þá svona lengi?“ „Já, það var einmitt það, sem ég var að segja. En það varð eitthvað að gera. Presturinn vildi, að kýrin yrði borguð í peningum“. „Því komstu ekki til mín? Ég hefði strax lánað þér krónur“. „Jæja, heldurðu að þú hefðir gert það, Þórður minn? Mér datt það nú ekki í hug“. „Ég hefði gert það strax. En er þér nú ekki sama, þó að þú látir mig hafa gullið fyrir seðla?“ sagði Þórður. „Jú, blessaður vertu, mér er alveg sama, það er víst fullgott handa prestinum að fá seðlana“, sagði Doddi- Þeir skiptu síðan. Doddi lagði þrjá gullpen- inga á borðið, en Þórður þrjá tíu krónu seðla. „Svo skaltu heldur koma til mín en að vera að pína gull út úr konunni“, sagði Þórður með góð- látlegri glettni. „Ég píndi hana nú ekkert“, sagði Doddi svo sakleysislega, að Siggi rak upp skellihlátur. Næsta kvöld kom Doddi heim með rauðhjálm- ótta, grannholda kú, ekki vel ánægður á svipinn. „Ég býst ekki við, að þetta hafi verið nein happa- kaup. Það er víst sáralítið í henni og líklega geldist hún alveg við flutninginn", sagði hann. En Lína var bjartsýn eins og fyrr. „Þú skalt nú bara sjá, hvort ég kem henni ekki í sæmilega nyt, og þegar hún fær nóg af töðu, verður hún álitlegri. Hún hefur verið hálfsvelt, sjáðu hvað hún er kviðdregin“, sagði hún og klappaði nýju kúnni sinni, sem nasaði og þefaði allt í kringum sig. En þegar hún tók eftir ilmgóðri töðu, sem til- vonandi húsmóðir hennar hafði látið í jötuna handa henni, tók hún hiklaust til matar síns. „Auðvitað hefur hún ekki haft í sig hálfa hjá prestinum“, sagði Doddi. „Þetta eru engin hey, sem maðurinn hefur, stabbinn hans er mikið minni en minn og á þessu hefur hann þrjár kýr og vetrung, þegar þessi er farin. Þvílíkur ásetningur, enda er hann skíthræddur. Ég heyrði það á honum. Ég er ekki hissa. Ég hefði svei mér ekki sofið mikið, hefði ég verið svona illa stæður“. „Já, við getum sofið róleg, Doddi minn, við höfum nóg hey“, sagði Lína og hélt áfram að strjúka kúnni. En Doddi var ekki ánægður, þó að hann þyrfti ekki að óttast heyleysið. „Hann hefur svei mér ekki skaðazt á því að selja mér kúna, svona horaða, fyrir þetta verð. Það var gott, að hann fékk ekki peningana þína, Lína. Þeir fóru aðra leið“, sagði hann. „Þórður á Nautaflötum var staddur hjá Sigga, við drukkum þar kaffi við sama borð og þeir sáu gullið, þó að ég ætlaði þeim það ekki. Það var nú reyndar Siggi, sem sá það og gjallaði upp úr með það. Þeir sögðu báðir, að það væri langtum of gott handa prestinum, og svo bað Þórður mig að láta sig fá gullpeningana fyrir seðla. Var þér ekki sama um það, Lína?“ „Jú“, sagði Lína og hló ánægjulega, „mér þykir reglulega vænt um, að þeir komust til hans aftur. Það var hann, sem gaf mér þá“. „Nei, segirðu satt, er hann svona rausnar- legur?“ sagði Doddi og gapti af undrun. „Nú skaltu koma inn og fá þér að borða, Doddi, þú ert sjálfsagt orðinn svangur“. „Ójá, það er þreytandi að ferðast með kú“, sagði Doddi. Hildur spurði son sinn frétta utan af Strönd- inni, meðan hann borðaði. „Það er ólíkt minni snjórinn þar en hérna fram í dalnum, en ekki langaði mig samt út á Ströndina aftur. Jói frá Efrahóli varð mér sam- ferða fram að Sléttu. Hann masaði mikið, alveg eins og í gamla daga, þegar hann var að koma ofan eftir stundum á kvöldin. Þú manst eftir því, hvernig hann óð elginn við Palla, strákurinn sá. Hann sagði, að Sigurður í Hvammi ræki hrossin út að Hvoli á hverju hausti, hvað sem bræður hans segðu. Heldurðu að það sé nokkur frekja? Og svo var búið að gera honum boð að sækja þau, en hann lét þau ganga út frá, hvað sem tautaði og raulaði. Seinast fór bóndinn með þau fram eftir og þá hafði hann verið reiður yfir því, hvað þau litu illa út. Þetta kalla ég nú andstyggilegt. Það var gott, að ég fór ekki að fara fram á það, að mín hross færu út á Strönd. Það var eins og annað gott Línu að þakka“. „Sigþrúður á Hjalla sagði mér, að það hefði líka verið svipur á henni Þóru, þegar hún sá, hvernig þau voru útlítandi. Hún er nú stór í stykkjunum, konan sú“, sagði Hildur- „Það er nú meiri átroðningurinn að reka hrossin út eftir, eins og hann eigi jörðina. Hann hefur nú víst alltaf far- ið þangað, sem hann hefur komizt maðurinn sá, og svo hafði hann sagt, að sér hefði ekki dottið annað í hug en að þeir á Hvoli köstuðu heyi í þau öðru hvoru. Það er óskemmtilegt að eiga svona vanda- menn“. Doddi hristi bara höfuðið. „Þá er nú betra að eiga engan bróðurinn“, sagði hann spekingslega. Á sumardagsmorguninn fyrsta, þegar Bjössi á Hóli kom með þetta vanalega, dularfulla bréf til Línu, voru gullpeningarnir vafðir innan í seðlana. Lína flýtti sér að láta þá í bómullarbinginn, sem þeir höfðu legið í, síðan þeir voru lagðir í lófa hennar í hálfdimmum göngunum á Nautaflötum, og hún endurtók sömu orðin í huganum, sem hún hafði þá talað upphátt: „Þú áttir ekki að gera þetta, Þórður. Ég á ekkert nema illt af þér skilið“. En svona var hann alltaf — enginn var eins og hann. í hinum endanum á kassanum voru tveir gullpeningar. Það voru lukkupeningarnir, sem englinum hennar höfðu verið gefnir. Það var búið að fella mörg tár yfir þessum peningum. Hún hugsaði sér að láta smíða hringa úr þeim handa litlu systrunum, ef þær lifðu það að verða fermdar. Hún ætlaði að segja þeim, að þetta væri gjöf frá systur þeirra, sem væri dáin.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.