Lögberg - 16.10.1958, Blaðsíða 6

Lögberg - 16.10.1958, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 16. OKTÓBER 1958 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Ég hef alltaf drukkið jafnt — byrjaði þegar ég var unglingur. Hún hefur aldrei talið það skilnað- arsök“. „Svo?“ segir Dísa dræmt og snýr sér að fóstru sinni og segir: „Einu sinni ætlaðir þú að skilja við pabba, ef ég man rétt“. Hjónunum bregður báðum við ósvífni hennar. Anna svarar henni dökkrauð af gremju: „Það hef ég víst aldrei sagt þér, sízt að það væri því að kenna, að hann væri drykkfelldur. En hafi mér dottið það í hug, var það mitt mesta lán að ég gerði ekki alvöru úr því. Hvergi hefði mér getað liðið jafnvel og hér þessi síðustu ár og reyndar alltaf“. „O, læt ég það nú vera“, segir Dísa og ætlar að segja meira, en Jón tók af henni orðið. „Ég hitti mann þarna úr Stapavíkinni í fyrra og spurði hann eftir ykkur. Hann bar manni þínum vel söguna, sagði að hann væri duglegur, en þú værir löt og vargur í lund og þar að auki vond við börnin. Það hélt ég, að þú hefðir ekki lært hérna, en þú hefur víst ekki kynnt þig neitt þess- lega, að þú hafir alizt upp hjá góðri og vandaðri konu“. Nú er það Dísa, sem sótroðnar af gremju. „Hvað hét hann. þessi náungi?“ spyr hún. „Ég þyrfti að finna hann í fjöru“. „Ég held ég hafi ekkert spurt hann um nafn eða ætterni. Kannske hefur hann heitið Jón. Þeir eru margir til og flestir málgefnir“. „Svona er það lygið þarna í Víkinni. Það býr til heilu sögurnar ,sem ekki er fótur fyrir. Það er ómögulegt að búa nálægt því“. „Það flýtur þó vanalega eitthvað af sannleiks- kornum með í mælskuflóðinu“, segir hann. „Er það kannske ekki satt, að maður þinn sé dug- legur?“ „Jú, að sullast á sjónum“. „Það þarf líka mikinn dugnað til þess að vera sjómaður. Það eru heldur engin vandræði að lifa með sjómanni. Þeir færa björg í búið, enda veit ég, að þig hefur ekki liðið skort hjá honum“, segir hann. „Líklega sýndist ykkur dálítill munur á húsa- kynnunum, sem ég bý í, eða þeim, sem þið gangið um daglega“, segir hún. „Sagði hann ekki líka, þessi sannsögli Stapavíkurbúi, að hann bragðaði aldrei vín?“ „Hann sagði hann vera drykkfelldan, en ekki talaði hann um, að það væri neitt ofboðslegt. Og varla liði þér betur að fara með krakkana í vinnu- mennsku eð láta þá til vandalausra og gefa með þeim. Reyndu að standa við hlið manns þíns eins og hver önnur góð kona gerir. Nenna með honum á túnið, þegar hann er að heyja handa kúnni. Þér er það engin vorkunn — krakkarnir eru orðnir svo stórir, að þeir geta hlaupið með þér“. „Sagði hann þér, að ég nennti ekki út á túnið með honum?“ spyr Dísa og sígur niður í stólinn, sem hún stendur hjá. „Ójá, það sagði hann og margt fleira, sem þú getur fengið að heyra, ef þú vilt“. „Ég vil áreiðanlega ekki heyra lygina úr honum. Ég vil bara komast sem lengst í burtu frá þessu hyski — hingað heim í dalinn minn". „Ætlarðu að skilja hann eftir með krakkana?“ spyr Jón alveg hissa. „Nei, það get ég ekki. Ég var að vona, að þú sæir aumur á mér, af því að ég er að nokkru leyti dóttir þín, og tækir mig með þeim“. „Þú ert ekki að neinu leyti dóttir mín — bara alin hér upp. Þú sýnir það, að þú ert Pálsdóttir. Ég þykist hafa gert vel að ala þig upp sómasam- lega. Meiru þarftu ekki að búast við. Hitt kemur ekki til nokkurra mála“. Svo var hann rokinn út. Dísa situr með tárin í augunum. „Ég verð víst aldrei svo gömul, að honum finnist hann ekki hafa vald til að setja ofan í við mig eins og krakka“, segir hún við Önnu. „Þú komst honum í slæmt skap með því að fara að tala um að ég hefði verið að hugsa um að skilja við hann. Hvað átti það eiginlega að þýða?“ segir Anna ergileg. „Náttúrlega veit ég ekkert, hvernig þitt heimili er, nema hvað þú hefur skrifað mér að þér liði sæmilega. Því þá að fara að sundra heimilinu og koma börnunum til vandalausra?“ „Ójá, ég kunni ekki við að segja þér að mér liði leiðinlega — þóttist vita, að þér leiddist það. En núna, þegar ég sé hvað hér er ríkmannlegt, finnst mér mitt heimili ómögulegt“. „Það geta víst ekki allir veitt sér jafnt af neinu hér í þessari veröld“, segir Anna Friðriksdóttir. „Við skulum koma fram og fá okkur kaffi. Það er þó jafngott á bragðið í allra munni“. Ég hefði ekki átt að sýna henni inn í stofuna, vesalingnum, hugsaði hún. Sigþrúður er að hella á könnuna í eldhúsinu, þegar þær koma fram. „Þetta held ég sé nú heldur erfitt verk fyrir þig“, segir Dísa blíðlega. Sigþrúður brosir. „Nei þetta er nú ekki erfitt verk, Dísa mín. Meðan maður getur stigið í fæt- urnar, gerir maður hvað eina, sem maður er fær um“. Dísa setzt að kaffidrykkju með þeim konunum. Þær tala um daginn og veginn — ekkert mark- vert. Þegar hún stendur upp, stynur hún mæðu- lega: „Blessuð Borghildur mín, hún talaði oft um það síðasta veturinn, sem ég var heima, að ég tæki við eldhúsinu, þegar hún gæti ekki lengur hellt á könnuna“. Henni til mikilla leiðinda anzar engin konan henni. Hún ranglar út fyrir húsið og hlustar á vinnufólkið, sem hlær og skrafar úti á túninu við heyþurrkunina. Ofarlega á túninu slær Kristján með sláttuvél. Gróa kemur með hrífu út úr kjallaranum. Hún tekur á sig krók til Dísu og ávarpar hana brosandi: „Kannastu nokkuð við þig hérna á þessu heimili?“ „Ójá, mig minnir að ég hafi einhvern tíma tekið á hrífu á þessu túni — kannske helzt til oft. Væri líklega ekki alveg eins illa komin til heilsunnar, ef ég hefði unnið minna í uppvextinum“, segir Dísa úfin á svip. „Ja, hamingjan góða, illa komin til heilsunnar, manneskja um þrítugt. Hvað skyldum við mega segja, sem farnar erum að potast upp á sextugs- aldurinn? Það er nú helzt til mikið sagt hjá þér. Það er engum unglingi ofboðið hérna, sízt þeim, sem ætla sér eins vel af eins og Þórdís litla Páls- dóttir“, segir Gróa. Dísu verður illa við meinfýsni hennar. Hún er nú lík og fyrr, munnferðin á Gróu gömlu. „Ert þú hér alltaf með annan fótinn?“ spyr Dísa og reynir að láta ekki bera á, að sér hafi mislíkað. „Ó, þeir eru báðir hérna fæturnir á mér, á hverju sumri í hálfan mánuð á túninu. Stundum lengur. Ég á alltaf hérna nokkrar ær, sem ég er að vinna fyrir fóðri á“. „Það er ekki laust við að mig langi til að taka mér hrífu í hönd og fara að rifja með ykkur, eins og í gamla daga“. „Það væri nú svo sem engin ósköp, þótt þú rifjaðir einn flekk fyrir fóðrin á rollunum, sem þú átt alltaf hérna“. „Þær eru nú ekki orðnar svo margar“, segir Dísa ólundarlega. „En veiztu, hvað kindarfóðrin eru orðin dýr núna? Þú ert líklega svipuð sjálfri þér ennþá — ekki mjög þakklát við fósturföður þinn“. „Ætli ég hafi ekki átt inni fyrir því og kannske meira“. „Já, nú gengur fram af mér. Þú varst gerð svo illa úr garði eða hitt þó heldur og svo skólagangan. Og svo þykistu eiga inni í búinu. Mér er nú ekki ókunnugt um allar sendingarnar héðan til þín“. Svo var hún rokin út á tún með hrífuna, léttfætt eins og stelpa. Flestir litu nú reyndar á hana smá- um augum og tóku sér dómsvald yfir henni. Líklega væri bezt að fara að hugsa til heim- ferðar. Það var ekki verra að jagast við Fúsa greyið en að ónotast við það hér. Það var víst út- séð um, að hún riði víst ekki sérlega feitum hesti héðan, þó að hún hefði ætlað sér það. Hún kenndi Elínu Bárðardóttur um það, hvað fólkið var eitt- hvað fálegt við sig. Reyndar höfðu fósturforeldrar hennar tekið henni vel, það máttu þeir eiga, en svo var það ekki meira. Á heimilið vildu þau hana ekki. Það þýddi sjálfsagt ekkert að tala við Jakob. Hann væri nú líklega eins og fyrri, sæti og stæði eins og faðir hans vildi. Um kvöldið, þegar allir voru komnir inn frá vinnunni, kallaði Jón hreppstjóri á hana inn í svefnherbergi þeirra hjónanna. Hann tók spari- sjóðsbók upp úr skrifborðinu og rétti henni. „Þetta er gjöf frá Borghildi til þín“, sagði hann. Það hýrnar yfir Dísu. „Ég þóttist vita, að hún hefði munað eftir mér“, segir hún og leit í bók- ina. „Tvö þúsund krónur. Lílega hefur hún nú átt heldur meira en þetta eftir öll þessi ár, eins og hún hafði góð kjör hér á þessu heimili“, segir hún hálfgremjulega. „Náttúrlega átti hún mikið meira, en þetta er áreiðanlega nóg handa þér, ef þú getur ekki þegið það með þakklæti. Svo varstu ekki svo auðsveip við hana, eftir að þú fórst að stækka, að þú eigir meira skilið“, segir hann og hún sér, að hann reiðist á ný. „Já, það er víst vel gert af henni, eins og allt annað“, segir Dísa og slær svo upp á spaug: „Svo líklega fæ ég nú eitthvað eftir þig. Það gerðu víst foreldrar þínir, minnir mig að ég hafi heyrt“. „Ég vonast til að njóta reytanna minna nokkur árin ennþá og er ekki farinn að ráðstafa þeim neitt. Óvíst hvort þú lifir mig. Og ekki skaltu gera þér mjög háar vonir um, að þú fáir neitt sérlega mikið úr þeirri átt. Ef ég léti eitthvað til annarra en Jakobs míns, vil ég helzt að þeir njóti þess, sem þiggja það með þakklæti, en heimta það ekki sem sjálfskyldu". „Mér datt nú í hug, að þú vildir kannske hjálpa okkur til að byggja yfir okkur — bærinn er orðinn ómögulegur“, heldur hún áfram. „Þú hefur sjálf- sagt hjálpað Sigga Daníels til að byggja yfir sig“. „Nei, hann gerði það af eigin rammleik. Ég hjálpaði honum ekkert. Sjómennirnir geta byggt yfir sig alveg eins og bændurnir“. Hann skellti aftur skrifborðinu og fór fram, án þess að svara henni öðru en þessu. Þá sá hún, að Jakob hafði staðið í dyrunum. Henni sýndist hann horfa á sig með lítilsvirðingu. Næsta dag ætlar hún að kveðja dalinn. Hugur- inn er farinn að leita heim til rauðhærðu krakka- skinnanna. Hún er búin að eignast ekki svo lítið utan á þá og sig sjálfa. Fóstra hennar hefur glatt hana myndarlega eins og oft áður. En Dísa vogar sér ekki að tala við fósturföður sinn um bygging- una í annað sinn. Hann er orðinn svo hræðilega uppstökkur, að það er ómögulegt við hann að eiga. Hún spyr Kristján Pétursson eftir, hvar Jakob sé að finna. Hann bjóst við, að hann væri niðri í kjallara. Þangað gengur hún talsvert hnarr- reist. Hún getur varla kallað að hún hafi talað við hann orð þessa daga, sem hún hefur verið um kyrrt. Hann situr við að tinda hrífu. Hún býður góðan dag og bætir við í kjassandi málróm: „Ert þú nú orðinn heimilissmiður hérna, Jakob minn?“ „Ég er að minnsta kosti að reyna það“, segir hann. „Nú er ekki Þórður lengur til að tinda hrífurnar eins og í gamla daga. Nú er hann bóndi í Seli“. „Ójá, hann fór að kvænast Línu eftir allt saman. Þá varð ég hissa“, segir hún. „Hann segir aðeins eitt já. Svo kemur þögn. Hún veit ekki, hvað hún á að segja til að lengja ræðuna, því að ekki er hann líklegur til að tala. Ertu ánægður með búskapar- baslið?“ spyr hún og brosir vandræðalega. „Já, ég er það og yfir höfuð með lífið“, svarar hann. „Það er meira en ég get sagt“, segir hún. Svo kemur þögn. „Það er erfitt að vera fátækur“, bætir hún við hikandi. „Líklega er það svo. Samt sýnist mér margir vera ánægjulegir, sem eru ekki ríkari en þú“, segir hann.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.