Lögberg - 22.01.1959, Qupperneq 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 22. JANÚAR 1959
GUÐRÚN FRA LUNDI:
ÞAR SEM
BRIMALDAN
BROTNAR
„Vertu ekki með þessa vitleysu, barn“, sagði
Ingveldur í ásökunarróm. Skyldi drengurinn al-
drei geta gleymt þessari dæmalausu hugmynd, að
karl væri í sjónum.
Valdimar gamli hafði komið utan með sjónum
og stanzað hjá þeim í fjörunni. Hann horfði döpr-
um augum út yfir víkina. „Þau fá gott sjóveður
inn eftir“, sagði hann í hálfum hljóðum. Svo vakti
hann athygli Ingveldar á tveim dökkleitum, þráð-
beinum rákum, sem lágu fram víkina. „Eitthvert
erindi hefir blessað huldufólkið átt á sjóinn í
morgun“, sagði hann. „Kannske hefur það vantað
fisk eða það hefur þurft að fara í kaupstað. En
það bregst ekki, að það verður sjóveður til kvölds
og kannske lengur", bætti hann við.
„Það vita víst fáir, hvað það vantar“, sagði Ing-
veldur, „enda hafa víst flestir nóg að hugsa um
sinn eiginn hag hér á þessu heimili að minnsta
kosti“.
Svo gengu þau heim til bæjar. Drengurinn var
búinn að fylla vasa sína af smásteinum, sem hann
ætlaði að kasta í skálagluggann heima, föður sín-
um til ills. Hann hafði víst getað kvatt hann eins
og móðir hans, áður en hann fór í burtu.
„Losaðu þig við þetta, Gunnar minn“, sagði
Valdimar gamli, „komdu hérna suður í húsin með
mér. Þetta rífur gat á vasana þína“.
Drengurinn féllst á það. Hann skildi þá eftir á
vissum stað á túninu og ætlaði að vitja um þá
seinna.
HVER FÆR AÐ SOFA í LITLA RÚMINU?
Bátnum miðaði vel inn með landinu. Allt heim-
ilisfólkið á Stekknum stóð fyrir austan bæinn og
horfði á þessa fleytu, meðan hún var í augsýn.
„Jóhann ætlar að róa einn inn eftir“, sagði son-
urinn, sem nú var kominn milli fermingar og
tvitugs.
„Hann tekur það varla nærri sér“, sagði Þor-
björn. „Eitthvað gengur nær honum en það í
þessari ferð“.
„Þetta er ekki nema það, sem allir bjuggust við,
að honum ætti eftir að hefnast fyrir það, hvernig
honum fórst við Unu“, sagði Lilja. „Þetta voru
svoddan óskaplegar óbænir, sem hún bað honum
og gerir reyndar ennþá“.
„Það hafa nú fleiri en þau misst börnin sín
þennan hörmungavetur“, sagði Þorbjörn og fylgdi
bátnum með augunum, þangað til hann hvarf fyrir
tanga.
Báturinn sveigði inn í vogana. Þar stóðu tveir
bæir í sama túni rétt hjá sjávarbakkanum. Una
bjó á syðri bænum. Þangað hafði veikin ekki
komið. Þar í fjörunni biðu maður og kona ferð-
búin. Þau ætluðu að verða samferða inn á kirkju-
staðinn. Lítil, svört kista var þar skammt frá.
Þetta voru hjónin í Stóru-Vogum, Aldís og Helgi.
Veikin hafði tekið litla stúlku, sem var hjá þeim.
Hún var foreldralaust tökubarn. Þau ætluðu sér
ekki að láta hana frá sér aftur. Þeirra börn voru
orðin fullorðin, flest farin til Ameríku. Hún hafði
verið eins og sólargeisli á heimilinu, svo blíð og
góð. Nú var þessi geisli horfinn allt í einu. Þau
voru orðin tvö ein í bænum og gamall maður,
faðir bóndans. Hann kom haltrandi ofan í fjöruna,
þegar bátinn bar að landi. Hann ætlaði að minnsta
kosti að signa yfir litlu kistuna, áður en hún væri
borin burtu. En þá fór allt í einu að fjölga í fjör-
unni. Heiman frá syðri bænum kom Una með
báðar litlu dæturnar prúðbúnar og stanzaði kipp-
korn frá nágrönnum sínum.
Báturinn tók niðri og Jóhann snaraðist úr hon-
um og óð að landi, kastaði kveðju á hjónin og
gamla manninn. Hann tók kistuna og bar hana út
í bátinn, setti hana hjá hinum. Hún var ofurlítið
lengri en stærri kistan. Svo kom hann aftur og
sótti konuna og Helga þar næst. Svo kvaddi hann
gamla manninn með því að lyfta hattinum, þegar
hann var seztur undir árar. Enginn hafði séð
hann líta í þá átt, sem fornvina hans stóð með
dætur sínar. Svo skreið báturinn fram úr víkinni.
Una hló kuldahlátri og sagði með erfiðleikum:
„Varla hefur honum dottið í hug að við sæumst
næst undir þessum kringumstæðum".
„Hann leit ekki á þig“, sagði gamli maðurinn
svo lágt, að hún heyrði það ekki.
„Það er ekki hægt annað en að finnast hún hálf
lágkúruleg við hlið hans, maddaman“, hélt Una
áfram.
„Öfundarðu hana ekki af því að sitja þar núna?“
kallaði Björn gamli hærra en áður. Hann var
hryggur yfir því, að litla stúlkan var tekin burtu
af heimilinu og gramdist þessi framkoma Unu.
Þarna hafði hún staðið með börnin niðri í fjör-
unni til að storka vesalings hjónunum.
Hann lét hana ekki hafa síðasta orðið, heldur
sendi henni tóninn: „Þú ert regluleg bölvuð norn,
regluleg bölvuð norn“.
„Þakka heiðurinn, gamli minn“, kallaði hún.
Svo gengu þau hvort sína leið upp úr fjörunni,
bæði í æstu skapi. Hún leiddi dæturnar, þær
spurðu og skröfuðu eins og óvitar gera: „Hvenær
kemur Beta litla aftur? Hún ætlaði að búa til
fallegar brúður handa okkur. Við fáum þær á
páskunum".
Þetta vakti nýjar hugsanir í brjósti þeirra harð-
gerðu móður. Hver gat séð, hvað fram undan var?
Það voru ekki nema þrjár vikur síðan þessi bros-
hýra nágrannastúlka hafði hlaupið kát og heil-
brigð milli bæjanna, en nú var hún horfin burtu.
Henni hafði hingað til fundizt það sjálfsagt, að
sínum dætrum yrði hlíft, vegna þess að hún hafði
brotið lífshamingjufar sitt, og þær voru hennar
eina hamingja í hennar nýja umhverfi. En hitt
var hún viss um, þegar hún heyrði, að veikin var
á leiðinni innan sveitina, að hún heimsækti konu
þá, sem naut þess, sem hún átti með réttu. En nú
reis efasemd upp í huga hennar. Gat hún verið
þess fullviss, að hún ætti ekki eftir að sjá litlar
kistur fluttar burtu af hlaðinu í Minni-Vogum?
Hún fékk ónot fyrir hjartað og flýtti sér heim
með börnin. Hún hafði látið þær vera í rúminu
flesta daga, síðan veikin hafði komið í nágrennið,
en nú hafði hún klætt þær og farið með þær ofan
í fjöru til þess að sýna Jóhanni Gunnarssyni, að
nú væri það hún, sem nyti náðar guðs og hylli.
Bara að hún hefði ekki hrósað happi of snemma.
„Það held ég sé bezt að þið háttið aftur, elsku
stúlkurnar mínar“, sagði hún, þegar heim kom.
Tengdamóðir hennar tók eftir því, að hendur
hennar titruðu, þegar hún var að krækja kjólun-
um sundur. Hún spurði, hvort hún væri ekki vel
frísk.
„Ójú, það er ég náttúrlega, en það var ónota-
legt að sjá þessar litlu kistur í röð, sagði Una. „Það
hefði verið hollara fyrir mig að vera inni og líta
ekki út“.
„Ég var hissa á því, að þú fórst með börnin ofan
eftir“, sagði gamla konan.
„Þær höfðu, sem betur fór ekki vit á, hvað
þarna var að gerast. En það er nú svona, Soffía
mín, maður lætur það illa stjórna sér oft og
einatt“, sagði Una, og nokkur tár hrukku af aug-
um hennar eins og haglkorn.
„Það er ekki heppilegt að gefa því illa lausan
tauminn“, sagði tengdamóðirin, sem vissi hvað
angraði sonarkonu sína. „Það er drottins að dæma,
en ekki mannanna. Því þó að Hallgrímur Péturs-
son, sá góði maður, segi, „að formæling ill oss
finni stað“, hlýtur það þó að reiknast þeim til
syndar, sem lætur hana út af sínum vörum. Og
ekki get ég séð, að aumingja hjónin í Vogum
hafi gert neitt, sem þeim hefði þurft að hegnast
fyrir, þar sem þau tóku þessa munaðarlausu
stúlku að sér og voru henni eins og beztu for-
eldrar“, bætti hún við og höfuðið tinaði ákafara
en vanalega. „Nei, það er ekki okkar að dæma,
Una mín. Það er líka til máltæki, sem segir, að
skamma stund verði hönd höggi fegin“.
Þá bugaðist þessi skapharða kona algerlega.
Henni fannst tengdamóðir sín vera að gefa það í
skyn, að hún hefði kallað hefnd yfir sig sjálfa,
með hefnigirni sinni. Hún breiddi sængina ofan
á litlu dæturnar og kyssti þær með titrandi
vörum. Svo talaði hún til gömlu konunnar og það
var gráthljóð í rödd hennar: „Biddu góðan guð
að halda hlífiskildi fyrir þessum blessuðum sak-
leysingjum. Hann hlýtur að bænheyra þig. Þú
ert svo góð kona“.
Ingveldur hafði til heita kjötsúpu handa hjón-
unum, þegar þau komu heim um kvöldið. Sjó-
veðrið hafði haldizt ágætt allan daginn, eins og
Valdimar gamli hafði búizt við, þar sem huldu-
fólkið hafði drifið sig á sjó þann morgun. Það
var orðið hálfrökkvað í baðstofunni. Þórey sagði,
að sér fyndist hún ekki geta rennt nokkrum mat
niður, þó hún væri orðin sársvöng. Samt reyndi
hún það. Gunnar litli var stillingin uppmáluð og
klemmdi sig upp að hnjám móður sinnar, ekki
ólíkt því, að hann væri að vonast eftir bita eða
spæni, en svo var þó ekki. Hún var svo utan við
sig, að hún tók lítið eftir návist hans, eða hvort
hann æskti einhvers. Hún hafði aldrei hugsað
mikið um það. Móðir hennar hafði alltaf hugsað
um hann að mestu leyti. Nú á þessu kvöldi var
það tómleikinn á heimilinu, sem gagntók huga
hennar. Hún háttaði strax og sofnaði. Drengurinn
ráfaði út og inn með óvanalegt vonarblik í augum.
Skyldi hann fá að sofa í litla rúminu inni í húsinu,
fyrst það var orðið autt? Hann vissi það nú fyrir
víst, að systur hans kæmu aldrei aftur. Sængur-,
fötin voru ennþá í rúminu og fallegt teppi breitt
yfir. Hann gat ekki stillt sig um að koma við
kinnina á mömmu sinni, svo hún losaði svefninn.
Hún andvarpaði þungt. Hana hafði verið að
dreyma sól og sumar og litlu dæturnar hlaupandi
um túnið. En svo kom veruleikinn svona sár og
kaldur. Aðeins lítill, klaufalegur barnslófi, sem
fálmaði um andlit henni.
„Hver á að sofa í litla rúminu? Á ég að fá að
sofa þar?“ spurði hann.
„Ég veit það ekki, góði minn“, svaraði hún.
„Pabbi þinn ræður því“.
Faðirin kom inn rétt í þessu.
„Geturðu ekki látið hana mömmu þína í friði?
Henni er víst full þörf á að hvílast“, sagði hann
með sínum vanalega hryssingslega málrómi.
Drengurinn horfði til hans niðurlútur, en þó
biðjandi: „Hver á að sofa í þessu rúmi?“ sagði
hann lágt. Blikið var næstum horfið úr augum
hans: „Má ég ekki?“
„Það sefur þar enginn. Rúmið verður barið
fram í skála á morgun“, sagði Jóhann.
„Hann langar til að sofa þar“, sagði Þórey.
„Má hann það ekki? Viltu ekki gefa það eftir?“
„Ekki til að tala um. Það þarf að sótthreinsa
fötin og rúmið“, sagði Jóhann og ýtti syni sínum
til dyranna. Þar stóð Ingveldur gamla í gættinni.
Hún gat ekki stillt sig um að tala til tengdasonar
síns í óviðeigandi tón.
„Þú tækir það varla mjög nærri þér, þó hann
veiktist, veslings barnið. Ekki er ómögulegt . . .“
Lengra komst hún ekki. Tengdasonurinn lyfti
hendinni eins og til höggs. „Hættu þessu þvaðri“,
sagði hann. „Hér er hvorki staður né stund til
að jagast“.
Hún hörfaði fram úr dyrunum. Hurðinni var
skellt á hæla henni. Drengurinn lá á grúfu í rúm-
inu hennar og titraði af ekka. Valdimar gamli
reyndi að tala við hann, en það bar engan árangur.
Loks kom hann þó upp hljóði. Hann orgaði af
öllum mætti. Þá opnaði faðir hans húsið og hótaði
að fara með hann ofan í fjöru og henda honum í
sjóinn, ef hann hætti ekki þessu öskri. Hann
þagnaði samstundis. En þegar hurðin var fallin
að stöfum afur, sagði hann: „Ég skal henda þér
sjálfum í sjóinn, þegar ég er orðinn stór“. Svo
fylgdu mörg blótsyrði, töluð ofaní sængina í hálf-
um hljóðum.
Þegar búið var að sótthreinsa heimilið, fór
drengurinn vestur að Hvanná og var þar fram
á sumar.