Lögberg-Heimskringla - 30.05.1963, Blaðsíða 7

Lögberg-Heimskringla - 30.05.1963, Blaðsíða 7
LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 30. MAÍ 1963 7 Selda djásnið Framhald írá bls. 5. klerks. Hér ríkti sem sé í al- gleymingi sá andi, sem raunar enn virðist dafna vel í nýju gervi, að allt skyldi falt við fé, sérstaklega ef það var út- lent. Svo hafði lengi gengið. Og undir lok nítjándu aldar tóku Englendingar að kaupa hér þá staði, sem vöktu ágirnd þeirra sökum fegurðar eða sérkenni- leika. Kom þá röðin brátt að fossunum, og kynti þar undir, að þeir gætu reynzt gróða- vænlegir. ☆ í kringum 1890 hafði hvað eftir annað verið leitað um það hófanna við bóndann á Laug, Sigurð Pálsson, eiganda Geysis, að hann seldi hvera- svæðið. En bóndi þybbaðist við, enda þótt fram væri boðið fé sem var mikill auður á hans mælikvarða. Hann gat ekki fengið sig til þess verks að selja útlendingum Geysi. Fleiri munu þeir Árnesing- ar hafa verið, er ekki var geð- fellt að hugsa til þess, að Geysir yrði eign útlendinga Sú hugmynd skaut því upp kollinum að girða fyrir það, að útlendingar gætu náð eign- arhaldi á honum. Á þingmála- fundi í Hraungerði var sam- þykkt áskorun til þingmanna Árnesinga að beita sér fyrir því, að landið keypti hvera- svæðið. í samræmi við þetta fluttu þeir Bogi Melsteð og Þorlákur Guðmundsson í Fífuhvammi um það frum- varp á alþingi 1893, að lands- sjóður festi kaup á Geysi og hverasvæðinu umhverfis hann. Gerðu þeir ráð fyrir, að það fengist fyrir 2500—3000 krónur. Létu þeir þess getið, að Sigurður segðist aldrei verða svo féþurfi, að hann seldi útlendingum hverina. En hann væri orðinn sjötíu og sjö ára og ætti marga bláfá- tæka erfingja, og yrði þeim mikil freisting að þekkjast boð útlendinganna. Sighvatur gamli Árnason í Eyvindarholti sagðist „vera á því, að vert væri að íhuga þetta mál“. En að öðru leyti voru undirtektirnar ekki hlý- legar. Magnúsi landshöfðingja Stephensen þótti sér vandi að höndum færður, ef hverirnir væru keyptir, og hafði uppi um það margvíslegar úrtölur. Einkum þótti honum þetta viðurhlutamikið ef síðan ætti að girða svæðið með „háu plankverki“. Jafnvel Jón Þorkelsson hafði allt á horn- um sér, fjargviðraðist yfir málvillum Þorláks í Fífu- hvammi, sem hann sagði vera eftir ,grammatík þeirra Ár- nesinga“, og fór þess á leit, að þingið fengi að sjá, hvað út- lendingar hefðu boðið fyrir hverina, „því það virðist ekki ástæða til þess, að landsjóður gefi meira fyrir þá en góðu hófi gegndi.“ Loks var fellt með fimmtán atkvæðum gegn átta að vísa málinu til nefndar. Bogi Mel- steð reyndi að slá á strengi metnaðar og manndóms með því að skírskota til viðhorfs Sigurðar á Laug. „Sigurður Pálsson er maður, sem hefur mætur á fornritum vorum, en þau hafa innrætt honum þá ást til ættjarðarinnar, að pen- ingatilboð Englendinga hafa engin áhrif haft á hann“, sagði hann. En þetta varð aðeins til þess, að þingmenn urðu skeytingarlausari um málið. Það koðnaði niður í þinginu, án þess að frumvarp- ið væri beinlínis fellt. Sigurði á Laug hefur vafa- laust sviðið tómlæti Alþingis. Árið eftir voru Geysir og Strokkur seldir, ásamt sex hundruð og fimmtíu ferfaðma svæði umhverfis þá, fyrir þrjú þúsund krónur. Kaupandinn var enskur áfengisbruggari, sem komið hafði hingað til lands, James Craig frá Belfast á írlandi, þá ungur maður. Varð hann síðar allkunnur stjórnmálamaður, hlaut aðals- tign, varð forsætisráðherra á Norður-írlandi og nefndist þá Craigavon lávarður, harla lítill vinur hinnar írsku frels- ishreyfingar. Magnús Step- hensen þurfti ekki að mæðast við að reisa „plankverk" í kringum hverina, sízt hátt, því að hinn enski eigandi lét nú girða svæðið, og gramma- tík Árnesinga kom ekki meir á dagskrá alþingis. Markmið James Craigs með girðingunni var ekki að taka af þær óvenjur, sem komizt höfðu á í umgengni við hver- ina, heldur vildi hann öngla saman upp í vexti af kaup- verðinu, svo að hann þyrfti ekki að ganga á hagnaðinn af viskísölu sinni. Þeir, sem vildu ryðja torfi og grjóti í Stokk, áttu nú að borga fimm krónur fyrir ánægjuna, og skyldi bóndinn á Laug veita þeim viðtöku. Fyrsta árið varð að greiða þessar krónur, hvort sem hvernum varð bumbult af hnausunum eða ekki. En þess mun.fljótt hafa gætt, að þeir, sem ekkert gos fengu fyrir fjármuni sína, fóru ekki möglunarlaust brott, svo að sumarið eftir setti bóndinn af sanngirni sinni í gildi þá reglu, sem felst í ensku máltæki: No cure, no pay- Það mætti ætla, að lands- menn hefðu minnkazt sín, er Geysir var seldur enska bruggaranum, og þeir, sem þóttust veita málefnum lands- ins forsjá, hefðu iðrazt tregðu sinnar og sinnuleysis. Þess verður þó ekki vart. Þeir virðast þvert á móti hafa unað hið bezta við frammistöðu sína og ekki séð á henni nein lýti. Þeir rumskuðu ekki held- ur, þegar ásókn útlendinga á fossa landsins komst í al- gleymirig, og mátti þó auð- sætt vera, að eftir þeim fíkt- ust þeir í gróðaskyni. Þrettán árum eftir Geysis- söluna bauð útlendur auðkýf- ingur Tómasi Tómassyni, bónda í Brattholti, fimmtán þúsund krónur fyrir Gullfoss, jafnvirði nálega tveggja mill- jóna kr. nú á tímum. En hann hafnaði því boði. Árið eftir rausnaðist landsstjórnin að sönnu til þess að taka fossinn á leigu í fimm ár gegn þrjú hundruð króna árgjaldi. En svo fór, að útlendingum tókst innan skamms að ná tangar- haldi á honum. En það er mikil heilsubót íslenzkum metnaði, að til var kona, sem hét Sigríður Tómasdóttir — bóndadóttirin í Brattholti. Þótt landsfeður og valdsmenn létu reka á reiðanum, hófst hún handa og háði ævilanga baráttu við hið útlenda félag. Og svo fór, að hún lifði það, að umráðarétturinn var end- urheimtur úr höndum þess. — Það hefur verið rætt um að festa mynd hennar í klett við Gullfoss. Af James Craig er það að segja, að honum hélzt ekki lengi á hverunum í Haukadal, og hefur því verið kennt um, hve viskíið hans var gott. Það gerðist sem sé þegar á fyrsta ári eftir Geysiskaupin, að hann átti sérlega notalega kvöldstund með einum vina sinna, E. Rogers að nafni. Menn geta ímyndað sér hug- blæ þessa kvölds: Vinirnir drekka tvímenning. Belfast- viskíið glóir í háum kristals- glösum, eldur á arni, rósrauð slikja yfir öllu. Jafnaðargeðið enska víkur um set, þum- baldahátturinn leggur á flótta. Hinn ungi hveraeig- andi skynjar lífið og tilver- una í nýju ljósi, allt öðru en á forstjórafundum áfengis- verksmiðjanna. Sjálft and- rúmsloftið krefst þess, að hann hafist eitthvað að, færi stemningu kvöldsins viðeig- andi fórn, seiður þess heimtar, að hann tjáí góðvild sína, votti vini sínum elsku sína með dýrri gjöf. Og þá minnt- ist hann Geysis í Haukadal úti á Islandi. Það eitt var við hæfi að gefa Rogers Geysi. Þegar sól rann úr Irlands- hafi og veröldin hafði að nýju fengið hversdagslegan svip, bauð Rogers vini sínum, að gjöfin gengi til baka. En það mátti Craig ekki heyra nefnt. Hann kvaðst ekki taka það aftur, er hann hefði einu sinni gefið. Þetta var maður, sem gæddur var aðalbornum hugs- unarhætti, samboðnum þeirri tign, er honum hlotnaðist síð- ar. — Rogers sat uppi með hverina, enda þótt hann hefði ekki sérlega mikinn hug á að eiga þvílíkar náttúrusmíðar í fjarlægu landi. En hann eign- aðist þá með þeim hætti, að hann gat ekki fargað þeim í hendurnar á hverjum sem var. Um svipað leyti og Rogers hlotnaðist þessi furðulega gjöf, var í uppsiglingu nýj- ung, sem jók gengi Geysis, en felldi skugga á Strokk. Geys- isgosin voru um þetta leyti orðin mjög dræm. Leið frá viku allt upp í mánuð á milli gosanna, auk þess sem þeim var mjög þorrinn máttur. Var orðið algengt, að ferðamenn yrðu að hverfa brott, án þess að Geysir gerði þeim úrlausn, enda þótt þeir biðu dögum saman eftir gosi og drykkju ómælt vatnið úr Blesa, bæði í tei og toddíi. En um þetta leyti bárust fréttir af því, að vestur í Gul- steinagarði, hinum mikla þjóðgarði Bandaríkjmanna, gysu hverir, ef steypt var í þá sápu. Ungur lyfsali, Emil Hans Tvede, sem tekið hafði við rekstri lyfjabúðarinnar í Reykjavík, vildi r e y n a , hversu Geysi yrði við, ef hann væri mataður duglega á sápu. Hélt hann því austur í Hauka- dal sumarið 1894 og dengdi tíu pundum af sápu í hverinn. Og af því er skemmst að ,segja: Geysir þáði fórnina og gaus myndarlega fyrir Tveða, eins og íslendingar nefndu ,hann. Þar með var fundin vægilegri aðferð en áður hafði tíðkazt til þess að sjá gos, ef menn tímdu að sjá af nógu mikilli sápu og nenntu að reiða hana austur v Haukadal. Enskir ferðamenn fóru að dæmi lyfsalans, og sumarið 1895 létu þeir til dæmis Eð- varð Ehlers, holdsveikra læknirinn danski, og föru- nautur hans, tíu pund af grænsápu og eitt stykki af handsápu í hann. Virtist þessi aðferð þá hafa verið orðin al- siða, því að daginn áður hefði Indriði Einarsson tvívegis sett í hann pund af Marseille- sápu. Og oftast gaus Geysir, þegar honum voru færðar sápufórnir. ☆ Þó rak að því, að Geysir hætti að bæra á sér, hve ör- látir sem menn voru á sápuna við hann. Og hér fór svo sem oft vill verða með dvínandi gengi: Hinn útlendi eigandi lét hann sig litlu varða. Hann var honum ekki lengur veru- leg skrautfjöður. Landsmenn lögðu kollhúfur. En það var svipað með Geysi og son ekkjunnar Nain: Hann var ekki dáinn, heldur svaf hann. Árin liðu> bróðursonur gamla Rogers, Hugh Rogers í Bristol, eignaðist Geysi. En hann var enn þá fjær því að skeyta um þessa eign sína en föðurbróðir hans. Svo var það einhvern tíma upp úr 1930, að hann fékk bréf frá Islandi, þar sem falazt var eftir leigu eða kaupum á hverunum. Boga A. J. Þórðarsyni á Lága- felli hafði dottið í hug, að hag- fellt kynni að vera að baka brauð við þá. Rogers var kunnur forstjóra tóbaksverk- smiðju, sem átti skipti við Is- lendinga, og fór hann þess nú á leit við hann, að hann benti sér á lögfræðing á Islandi til þess að semja fyrir sig um Geysi. Forstjórinn þekkti Sig- urð Jónasson, forstjóra Tó- bakseinkasölunnar, og sneri sér til hans, og varð það úr, að Sigurður tók sjálfur að sér að fara með umboð Rogers hérlendis. Það gerðist árið 1934. Um þessar mundir hafði dr. Trausti Einarsson lagt stund á að rannsaka hveri og hvera- svæði. Höfðu þeir Sigurður stundum verið saman á slík- um ferðalögum, enda var með þeim mikill kunningsskapur. Barst nú tal með þeim, hvort ekki myndi unnt að vekja Geysi af svefni. Þeir Jón Jónsson frá Laug og Guð- mundur Gíslason læknir höfðu verið saman í Græn- landsleiðangri dr. Wegeners, hins þýzka vísindamanns, og hafði hið sama borið á góma þeirra á milli. Áttu þeir einn- ig viðræður um þetta við Trausta. Varð það úr, að hann fór, í samráði við Sigurð aust- ur að Geysi til rannsókna í aprílmánuði 1935. — í júlí- mánuði um sumarið var svo afráðið að freista þess að endurlífga Geysi. Fóru þeir austur fjórir saman, dr. Trausti, Hákon bróðir hans, Jón frá Laug og Guðmundur Gíslason, hjuggu þeir áttatíu sentimetra djúpa rauf í skál- arbarminn, svo að lækkaði í hvernum og yfirborðshiti yk- ist. Settu þeir síðan í hann sápu og biðu átekta. Þetta hreif bæði fljótt og vel. Að fimmtán mínútum liðnum brá tröllið nálega tuttugu ára blundi sinum. Vatnið hófst með buldri og dunum, og brátt stóð súlan hátt í loft upp. Fólkið í nágrenninu hafði þótt tómlegt síðan Geysir hætti að gjósa. — Gömul kona. Vilborg Jónsdóttir á Laug. móðir Jóns Jónssonar. var stödd úti á túni, þegar gosið hófst. Hún var ein af þeim, er lengi hafði þráð að heyra gosdrunurnar. Þær höfðu verið þáttur í lífi henn- ar á manndómsárunum, og þær voru eitt af því, sem hún saknaði og bjóst ekki við, að ætti afturkvæmt. Hún var þar stödd, að hún sá ekki til hversins, en hljóðið þekkti hún samstundis. Þannig hafði Geysir kveðið henni óð sinn, þegar hún var í blóma lífsins. Hún gleymdi því, að hún var komin á áttræðisaldur, farin að heilsu. Hún tók á sprett, eins og fætur toguðu, til þess að sjá undrið, og minntist ekki aldur síns og hrörnunar, fyrr en hún var komin í sjón- færi. Þá lá við, að hún hnigi niður. Svona ákaft fögnuðu gömlu kunningjarnir því, að Geysir var vaknaður. Nú leið einn mánuður, án þess að til tíðinda bæri, nema hvað fólk streymdi austur að Geysi til þess að sjá fjör- spretti hans. Svo var það 30. dag ágústmánaðar, að for- sætisráðherra landsins, Her- manni Jónassyni, barst ó- vanalegt bréf. Það var frá Sigurði Jónassyni. í bréfi Framhald á bls. 8.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.