Alþýðublaðið - 24.12.1967, Blaðsíða 1

Alþýðublaðið - 24.12.1967, Blaðsíða 1
BLAÐII. sem ég sé Jólahugleiöing eftir dr. Jakob Jónsson „Systir góð, sérðu það, sem ég sé?“ Þannig lætur listaskáldið dreng- inn spyrja systur sína á grasafjallinu. Tveir menn geta haft það sama fyr- ir augum sér, og þó séð sitthvað. Oft fer þetta eftir því, hvers hugurinn leitar eða hvaða hugsanatengs! eru hverjum og einum tömust. Gerum ráð fyrir, að fjórir menn standi frammi fyrir mynd. Einn skynjar aðeins efnið, sem hún er gerð úr, mælir hæð hennar, breidd og lengd. — Skynjun hans getur haft mikla þýðingu í vissum samböndum, en þó munu flestir sammála um, að hann hafi ekki enn skynjað myndina til fulls. Annar gerir sjer grein fyrir, að myndin er af fæðingu Krists í fjárhúsinu í Betlehem. Hann virðir hana fyrir sér sem þjóðlífsmynd frá löngu liðn- um tímum og er undrandi, ef listamaðurinn lætur fólkið vera klætt nútíma búningum eða kindurnar eru af íslenzku fjárkyni. Hann hristir ef til vill höfuðið yfir þessu uppátæki listamannsins. Sá þriðji stendur andspænis myndinni og lætur hana verka á huga sinn. Hann skynjar í henni anda listamannsins, sem teiknaði og málaði, réð litum og línum. Þarna býr ekthvað, sem erfitt er að skýra, nema að því leyti sem áhorfandinn finnur innra með sjálfum sér skyldleika sinn við skapara verksins. Loks kynni fjórði maðurinn að koma til sögunnar. Hann skynjar ekki aðeins hið listræna. Hann finnur ekki aðeins anda listamannsins, heldur skynj- ar hann, að listamaðurinn sjálfur hefir skynjað anda, sem er sjálfum honum æðri og hans eigin vitund dýpri — og það er þetta, sem hann túlkar í myndinni. „Systir góð, sérðu það, sem ég sé?“ II. „Systir góð, sérðu það, sem ég sé?“ Lúkas guðspjallamaður hefir gefið oss gamla mynd, sem brugðið er upp í kirkjum og heimahúsum á jólunum. Þessa mynd er hægt að skynja með mörgu móti. Vísindalega menntaður guðfræðingur getur rannsakað þessa mynd, og fundið margt markvert. Hann getur borið innihald hennar saman við bókmenntir, rannsakað trú arsöguleg hugtök og hugmyndir, sem þar koma fram. Listfræðingur getur skynjað fegurð sögunnar og komizt að þeirri niðurstöðu, að alltaf sé Lúkas mesti rithöfundurinn meðal guðspjallamannanna. Sagnfræðing- ur, sem bundinn er af þekkingarfræði náttúruhyggjunnar kann að finna fegurð í frásögninni, en hann á bágt með að kalla það annað en hjá- trú, að verur úr ósýnilegum heimi geti sagt smalamönnum úti í haga, hvar nýfætt barn sé að finna. En trúmaðurinn — hvað skynjar hann? Hann finnur, að ritari sögunnar er snortinn af anda, sem hefir náð tökum á honym, og samkvæmt skilningi höfundarins sjálfs er guðsandinn að op- inbera sig í því, sem þarna gerist. Hann skynjar anda guðs að verki í fæðingu þessa sérstaka manns í heiminn, og því verki, sem honum er ætlað að vinna. „Systir góð, sérðu það, sem ég sé?“ III. En skiptir þetta nokkru máli? Ritstjórinn bað mig að skrifa dálitla jóla- grein, sem snerti daglega lífið, mannlegt líf, eins og við lifum því. Þann ig skildi ég hann að minnsta kosti. Þess vegna er ekki nema von ég spyrji? Snerti þessi skynjun hins guðdómlega í Kristi nokkurt atriði vors eigin lífs? Má ég snúa spurningunni við: Er til nokkurt atriði mannlegs lífs, sem þetta snertir ekki? Sá guð, sem ég skynja í Kristi, er ekki staðbundinn né tímabundinn. „í honum lifum, hrærumst og erum vér“. Hlýtur þá ekki af því að leiða, að einhverjir aðrir en ég hafi skynjað hann? Sumir h2fa fullyrt, að þeir skynjuðu guð í því náttúrlega, aðrir í hinu yfirnáttúrlega, kraftaverkinu. Sumir segja, að þeir hafi skynjað guð í diúpi sinnar eigin sálar. Aðrir í dýraríkinu, hafdjúpinu, himinblámanum, sólskininu. Hví skyldi það ekki geta verið rétt? Enn aðrir hafa skynjað guð í atburðarás mannkynssögunnar. Slík var trú Gyðinganna, sem væntu Krists, þegar tíminn væri fullnaður, og heimurinn undir komu hans búinn. „En systir góð, sérðu það, sem ég sé?“ Jesús Kristur hjálpar mér til aff skynja guS inni í mannlífinu hér á jörff- inni og þó að mér beri að virða og viðurkenna allt, sem frá öðrum kem- ur, án tillits tii þess, hvað þeir nefna sig, þá verður hann mér mælrkvarði alls. í honum skynja ég guð, sem réttir öllu mannkyni hönd sína til sátta, — og elskar öll sín börn. IV. Skiptir þetta máli? Sumir halda því fram, að trúræn skynjun mannkyns- ins sé í afturför. Guð verði að láta sér lynda að vera í þagnargildi. Ég er ekki sannfærður um, að þetta sé rétt. Mér virðist margt benda til þess, að mannkynið sé farið að þreytast á því að skynja tilveruna aðeins með augum náttúruvísinda, þótt vegleg séu, eða með augum hagfræðinnar, þótt vitur sé, eða með augum stjórnfræðinnar, þótt heilbrigð skynsemi viðurkenni nauðsyn hennar. En segjum samt, að guð verði að láta sér lynda að liggja í þagnargildi. Þá hættir hann samt ekki aS vera til. Sá, sem skynjar guð í fátæku mannsbarni, sem fæðist í fjárhúsjötu, þar sem foreldrar þess eru gestkomandi af því, að þeim hefir verið úthýst í gisthúsum - sá se-m skynjar guð í barninu, sem Lúkas dregur upp mynd- ina af í guðspjallinu, hann hlýtur að líta svo á, að guð sé ekki dauður,. þó að honum sé úthýst úr umræðum spekinganna, krossfestur af þeim, sem með völdin fara, eða hrækt á hann af skammsýnum bræðrum hans, eins og gert var forðum við hann, sem fæddist í Betlehem. GuS held- ur áfram að elska heiminn, jafnvel þótt enginn vilji við hann kannast. Og hann fer sínu fram, þó að hann eigi ekki um sig veglegri hirð á jörðinni en fáeina smalamenn. Og hversu oft sem guð er krossfestur, rís hann upp frá dauðum. V. „Systir góð, sérðu það, sem ég sé?“ Sérðu, hvernig sá guð, sem þú skynjar í Jesú Kristi, heldur áfram að kalla mennina í sitt björgunarlið — þjónustu kærleika og réttlætis á jörðinni? Sérðu, hvernig hann heldur áfram að fyrirgefa, og hvernig andi hans heldur áfram að sætta oss, færa oss hvern nær öðrum, þrátt fyrir öll vor mistök, — af því að hann blæs oss því í brjóst, að allir menn séu bræður hans. Af anda hans er sprottin trúin á mannhelgi, friðarstarfið mannréttindahugsjónin, samfé- lagshjálpin, heilbrigðisþjónustan, eining kirkjunnar, dýpri skilingur milli trúflokka, samstarf við fátækrahjálp. Og þannig mætti lengi telja. Hann byggir upp heimili, þjóðlönd og heiminn í heild sinni, af því að hann veitir skynjun á kærleika guðs. Jólin eru komin. Vér skynjum guð á jörð. Lokaðu ekki augunum. Gleðileg jól! Jakob Jónsson

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.