Dagur - 07.11.1986, Blaðsíða 6

Dagur - 07.11.1986, Blaðsíða 6
6 - DAGUR - 7. flóvember 1986 „Mér hefur liðið ákaflega vel hérna á hölnurrr - í heimsókn hjá Sigmundi Jónssyni bónda og gamanvísnahöfundi á Vestari-Hóli í Flókadal Sigmundur Jónsson bóndi á Vestari-Hóli. Hverri sveit er nauðsynlegt að eiga menn sem geta sett saman gamanefni fyrir samkomur sem þar eru árlega haldnar, svo sem þorrablót. Sigmundur Jónsson bóndi á Vestari-Hóli í Flókadal hefur verið afar drjúgur að leggja til skemmti- efni á þorrablótin í Fljótunum sem fram fara í félagsheimilinu Ketilási. Hafa þar oft og einatt verið fluttir langir bragir eftir Simba þar sem afrek íbúa sveitarinnar hafa verið tíund- uð. Það var í vor þegar undirritað- ur var á ferð um Flókadalinn að hann færði í tal við Sigmund að eiga við hann stutt spjall ein- hvern tímann. Ég hitti hann við veginn fyrir neðan bæinn. f>að var komið undir miðnættið og sólin að síga bak við sjónarrönd úti á firðinum. Sigmundur var að koma neðan úr nesjunum, svolít- ið þreytulegur enda vinnutíminn hjá bændum um þetta leyti oft nokkuð langur. Þessi stund frá því í vor rifjaðist upp fyrir mér á leiðinni heim að Vestari-Hóli kvöldið sem Sigmundur var tek- inn tali. Þó klukkan væri orðin tíu að kvöldi og Sigmundur nýkominn úr fjósinu hafði hann fallist á spjall, en sagðist ansi lítið hafa að segja. Það var Guðrún Sigmundsdóttir móðursystir Sig- mundar sem hefur verið ráðs- kona hjá honum lengst af sem kom til dyra og vísaði komu- manni til eldhúss þar sem kaffi og meðlæti vár innbyrt til að byrja með. Að gömlum og grónum sveitasið var ekki annað viðlit en gesturinn fengi viðurgjörning hið bráðasta. Hef dundað hérna á hólnum Kaffinu og kökunum voru gerð góð skil og eftir spjall um daginn og veginn dágóða stund fórum við Simbi að skyggnast aðeins inn í fortíðina. Honum sagðist svo frá uppvexti sínum. „Ég er fæddur hérna á Vestari- Hóli fyrir 59 árum. Hér ólst ég svo upp við mikið ástríki hjá afa mínum og ömmu Sigmundi Jóns- syni og Halldóru Baldvinsdóttur sem hér bjuggu. Ég held að afi hafi ekki skammað mig nema einu sinni og hló þá um leið. For- eldrar mínir fluttu fljótlega eftir að ég fæddist að Hálsi, býli sem var hérna hinum megin við ána og faðir minn var síðasti ábúandi á. Þegar ég var á sjöunda árinu veiktist svo pabbi og þá fluttu þau suður ásamt systur minni. Hér undi ég mér svo við leik og störf til fullorðinsáranna. Sumar- ið 1956 fór ég í fyrsta skipti í burtu til að vinna, fór þá í vega- vinnu. Um veturinn var svo hald- ið á vertíð til Vestmannaeyja. Síðan kom ég heim um vorið og var í vegavinnu um sumarið. Fljótlega upp úr því tók ég svo við búi hér á Vestari-Hóli og hef dundað hér á hólnum síðan.“ - Hvað er þér nú einna minnisstæðast frá bernskuárun- um? „Það er auðvitað margt sem maður minnist úr bernskunni. En ég held að mér sé ekkert eins minnisstætt og eitt skiptið sem von var á mömmu í heimsókn. Ég var smápolli þegar þetta var. Ég var búinn í mín bestu föt og sagt að hafa hægt um mig. A þessum árum var hver lækjar- spræna hér full af fiski og ég hafði ákaflega gaman af veiðiskap. Ég gat ómögulega stillt mig um að prófa að veiða í Hólsánni hérna norðan við þó að ég væri kominn í sparifötin. Þessi veiðiferð mín endaði með því að ég steyptist á hausinn í ána og það þurfti að draga hverja spjör rennblauta af mér. Svo var það í annað skipti sem ég var við veiðiskap í Hólsánni og var þá einnig afar kappsamur. Ég veiddi fiskinn þannig að ég lá á bakkanum með ullarvettlinga, óð ofan í ána og greip fiskinn og henti honum upp á bakkann. Það var svo gott að vera með ullar- vettlinga vegna þess að fiskurinn var svo stamur á þeim að það var alveg nóg að ná í sporðinn á hon- um þá fékkst hald. Veiðin gekk vel þennan dag og ég henti hverj- um fiskinum á fætur öðrum upp á bakkann. Þegar ég svo ætlaði að taka veiðina saman og fara með liana heirn, þá var enginn einasti fiskur á bakkanum. Ég hafði ekki gáð að því að bakkinn hallaði svo mikið að þeir náðu allir að sprikla út í aftur." - Hvernig var svo að vera á vertíð í Eyjum? „Það var ágætt, þá var mikið líf á vertíð í Eyjum eins og er sjálf- sagt enn. Mikil vinna, sérstaklega um tíma þegar algjör landburður var af fiski. Þá var unnið eins lengi og menn þoldu. Eftir nokkra daga var liðið farið að grisjast ansi mikið, menn upp- gáfu sig gjörsamlega og mæt- ingarnar versnuðu til muna. Ég kunni ágætlega við vinnuna og hefði vel getað hugsað mér að setjast að í Eyjum ef ekki hefði komið eitt til. Ég fann að mig bráðvantaði skepnurnar.“ Huldufólk í hólnum? - Eitthvað þér minnisstætt frá búskaparárunum? „Það hefur nú ekki neitt svona sérstaklega merkilegt gerst. Mér hefur liðið ákaflega vel hérna á hólnum. Sáttur við guð og menn og sveitastörfin hafa verið mér hugleikin. Þó ég hafi búið hérna einn þá hef ég aldrei komist í nein vandræði með það sem ég hef verið að gera. Ef mig hefur vantað aðstoð þá hafa sveitungar mínir alltaf verið tilbúnir að rétta mér hjálparhönd. Ég minnist þess að þegar ég byggði fjósið árið 1977 og þurfti á þó nokkru liði að halda í steypuvinnu, að þá var aðeins einn maður sem gat ekki hjálpað mér og ég vissi að hann gat það alls ekki. Þessa hjálpsemi hjá sveitungum mínum er erfitt að fullþakka. Það er kannski eitt atvik sem ég get sagt þér frá, sem sýnir að þó menn þekki hverja þúfu á sín- um heimaslóðum verða þeir að fara varlega. Það hagar svo til í hnjúknum hérna fyrir ofan að klettabelti eru bæði að norðan og sunnan, á milli er svo móhella. Maður var vanur að fara þarna yfir og markaði þá aðeins ofan í móhelluna. Það var svo einu sinni þegar ég var í göngum þarna og gekk út á móhelluna að ég markaði ekki ofan í og var í þann veginn að renna. Ég náði að halda mér með fingurgómunum við klettabeltið og fikra mig yfir. Þegar ég kom á skeiðina hinum megin skalf ég alveg eins og hrísla og þurfti að hvíla mig þar langa stund. Það höfðu verið miklir þurrkar fyrir göngurnar sem gerðu móhelluna svona eitil- harða. Haustið eftir hrapaði vet- urgömul kind til dauða á þessum sama stað.“ - Hefur þú eitthvað orðið var við huldufólk hérna á hólnum? „Ja, ég veit ekki hvað ég á að segja um það. Ég get þó ekki neitað því að eitt atvik gerðist hér sem ég hef ekki fengið neinn botn í. Það var þannig að þegar ég var með fé í gömlu fjárhúsun- um hérna fyrir ofan átti ég kú- bein sem ég lagði alltaf frá mér á sama bitann og gat þar gengið að því. Svo einu sinni þegar ég ætl- aði að fara að nota kúbeinið, var það ekki á bitanum. Mér fannst þetta ansi einkennilegt en gleymdi þessu svo er frá leið. En nokkrum vikum seinna sá ég svo mér til undrunar að kúbeinið var komið aftur á bitann. Ég hef aldrei getað fundið neina áþreif- anlega skýringu á hvarfi kúbeins- ins.“ Ekki nógu andlegur til að setja saman eftirmæli Tími var nú kominn til að huga að vísnagerð Sigmundar. Hann kvað langt síðan hann hafi byrjað að semja gamanefni fyrir skemmtanir sem haldnar hafa verið hérna í Fljótunum og aldrei samið öðruvísi efni en í léttari kantinum. „Ég hef aldrei samið eftirmæli eða neitt þvíumlíkt, er ekki nógu andlegur til þess,“ sagði hann. Húsavík: Með Víbrum Hljómsveitin Víbrar: Karl, Bragi, Kristján, Þórhallur. Víbrar leika fyrir dansi..... í haust er þessi setning farin að sjást og heyrast í auglýsingum aftur. Víbrar voru með vinsæl- ustu danshjómsveitum norðan- lands á árunum eftir 1965, en hljómsveitin hætti um 1970 og hefur ekki komið fram síðan, að undanskildu einu kvöldi, það var á stjörnumessu björg- unarsveitarinnar 1983. Þegar blaðamaður Dags kom að félagsheimilinu til að líta inn á æfingu hjá hljómsveitinni heyrð- ist Bragi Ingólfsson syngja: „Kvöldið er fagurt...“ og síðan, „Sofðu litla barnið mitt...“ Það leyndi sér ekki að þetta var eitthvað líkt gömlu, góðu Víbrunum. Það kom í ljós að tveir sem voru í Víbrunum í „gamla daga“ eru í nýju hljómsveitinni, Bragi trommuleikari og söngvari og Þórhallur Aðalsteinsson hljóm- borðsleikari. Auk þeirra skipa hljómsveitina Karl Hálfdánarson sem leikur á bassa og Kristján Flalldórsson gítarleikarí. Það var Þórhallur sem gekkst fyrir stofnun hljómsveitarinnar fyrir um það bil tveim mánuðum. Aðspurður um nafnið sagði hann: „Mér þykir afskaplega vænt um þetta nafn, engin ástæða er til að láta það gleymast og við vonumst til að sjá aftur andlitin sem voru í Hlöðufelli fyrr á árum.“ Víbrar segjast ætla að vera með að mörgu leyti svipaða mús- ík og leikin var á árum áður, það er að segja gömul, góð lög en einnig leika þeir þau lög sem vin- sælust eru í dag. Þeir sögðust hafa stofnað hljómsveitina vegna þess að þörf hefði verið fyrir slíka hjómsveit á staðnum, sér til ánægju og til að afla aukatekna en ef hljómsveit ætti að ganga vel þá væri þetta vinna og aftur vinna. Þegar spurt var hvort mikið væri að gera rankaði Karl umboðsmaður við sér: „Það er alveg nóg að gera, þó er hægt að reyna að fá okkur og við spilum fyrir hverja sem er, hvar sem er og umboðssíminn er 41657.“ En nú dugði ekki að tefja strákana lengur frá æfingunni: „Bless, og gangi ykkur vel.“ IM

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.