Dagur - 25.06.1988, Blaðsíða 11

Dagur - 25.06.1988, Blaðsíða 11
10 - DAGUR - 25. júní 1988 *'< t\ 25. júní 1988 - DAGUR - 11 Um nœstu mánaðamót tekur Bogi Ágústs- son við starfi fréttastjóra Sjónvarpsins. Margir telja hann ekki öfundsverðan, því nokkur órói og misjöfn umfjöllun hefur verið í kringum fréttastofuna í kjölfar brottvikningar fyrrverandi frétta- stjóra, en hann erhvergi banginn. íhelg- arviðtali Dags í dagfáum við að kynnast manninum, sem kemur á ný til með að verða tíður „gesturu á heimilum landsmanna. „Hver er Bogi Ágústsson?" var fyrsta spurningin sem við. lögðunt fyrir hann. „Ég er 36 ára Vesturbæingur. Þar er ég uppalinn og bjó í raun víða, en nánast alltaf í Vestur- bænum. Vesturbærinn er á ný orðinn mjög líflegur en á árunum í kringum 1975 var meðalaldur íbúa þar yfir 40 ár og maður sá varla til barna. Nú, ég var að sjálfsögðu mikill KR-ingur og æfði fótbolta frá því ég var smá polli þar til ég fór að fara til sjós hjá Eimskip 15 ára gamall. Það gerði ég áfram næstu 10 sumur. Fyrst fór ég sent 2. kokkur en þótti það heldur leiðinlegt og var feginn þegar ég komst upp á dekk sem háseti." - Ert þú fjölskyldumaður? „Já, konan mín heitir Jónína María Kristjánsdóttir, er kennari og við eigum saman 3 börn. Hún er Vesturbæingur eins og ég og við höfum þekkst síðan við vor- um 13-14 ára, næstum því síðan úr sandkassanum. Börnin eru 7 ára strákur, 2ja ára stúlka og önnur 6 mánaða.“ Klukkustund í læknisfræði - Hvaða leiðir fórst þú lil náms? „Fyrstu sporin voru um Mela- skólann og Hagaskólann en það- an lá leiðin í MR. Ég útskrifaðist úr náttúrufræðideild og var allsendis óákveðinn í því hvað ég ætlaði að læra í Háskólanunt. Ég skráði mig í læknisfræði eins og hvað annað, en það hefði alveg eins getað orðið viðskipta- eða lögfræði. Nema hvað, á fyrsta klukkutímanum þegar verið var að kynna bækurnar, sá ég að mig langaði alls ekki að læra þetta og ákvað samstundis að gera eitt- hvað annað. Stóð ég því upp eftir klukkutíma og hefði sennilega far- ið fyrr ef mér hefði ekki þótt dónaskapur að fara áður en tím- inn var búinn. Ég skipti yfir í sögu og hef ekki séð eftir því.“ - Þú blandaðir þér nokkuð í stjórnmál á þessunt árum. „Já og með mér voru ansi margir góðir menn, svo sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Kjartan Gunnarsson og fleiri. Vaka var alltaf undir í kosning- um á þessum tíma þó aldrei hafi munað miklu, skiptingin var að mig minnir 49-51. Ég hélt ekki áfram að vinna að stjórnmálum eftir skóla, hafði lítinn áhuga á að fara út í landsmálapólitík og hef ekki enn.“ - Hvernig kom til að þú fórst að starfa að fjölmiðlun? „Það var hrein tilviljun. Ég hafði verið aö kenna með Háskólanum, en síðan var aug- lýst eftir fréttamanni hjá Sjón- varpinu. Ég sótti um og fékk starfið. Áhuginn á starfinu var fyrir hendi, því ég hafði alltaf fylgst nokkuð vel með þeim hlut- unt sem voru að gerast. Metnaðurinn gífurlegur Þá var sr. Emil Björnsson frétta- stjóri og af fréttamönnum má nefna Eið Guðnason, Sigrúnu Stefánsdóttur, Guðjón Einarsson og Sonju Diego. Þetta var í árs- byrjun 1977, andinn á fréttastof- unni var mjög skemmtilegur og það var spennandi að vinna þarna. Metnaðurinn var mikill þó svo að við höfum verið mjög fá. Þá voru þrír fréttamenn á vakt hverju sinni, tveir í innlendum fréttum og einn í erlendum, svo það var takmarkað hvað hægt var að gera. Vinnan varð því ansi stíf og mikil, en metnaðurinn gífur- legur.“ - Manstu eftir fyrsta viðtalinu sem þú tókst? „Það var við Garret Fitzgerald sem var forsætisráðherra íra þar til í fyrra, en hann var utanríkis- ráðherra þá og kom til íslands. Ef til vill hefur það leitt til þess hversu mikinn áhuga ég fékk á írlandi, en þangað fór ég tveimur árum seinna og gerði mynd um ástandið þar.“ - Hvernig fer starfið á frétta- stofu Sjónvarpsins fram? „Við byrjum á morgnana með fundum þar sem allir leggja sín mál fram, síðan er ákveðið hvað tekið skal fyrir og síðan drífa menn sig út að vinna. í sjónvarpi er unnið meira með því að fara út, minna í gegnum síma eins og hjá öðrum miðlum. Við þurfum að fara á staðinn svo hver frétt tekur verulega lengri tíma, bæði í töku og vinnslu, en t.d. blaðafréttir.“ „Það er allt í lagi með þig“ - Þú varst fyrsti fréttamaður Sjónvarpsins sem starfaði í Dan- mörku, hvernig var tíminn í Kaupmannahöfn? - „Ég var í Kaupmannahöfn frá 1984-1986, rétt rúm tvö ár. Þar líkaði mér mjög vel. Sjónvarp- ið hafði tækniaðstöðu hjá danska sjónvarpinu, en annað vann ég mest heima hjá mér. Það var svo- lítið sérstakt að kynnast Dönum, m.a. vegna þess hversu stcrkur verkalýðsandinn er hjá þeim í vissum atvinnugreinum. Þetta er miklu verra en nokkurn tíma á íslandi. Sjálfsagt er þetta skiljan- legt í landi þar sem hefur verið mikið atvinnuleysi og verkalýðs- félögin eru að verja sig með kjafti og klóm. Þau verja sín störf þannig að aðrir geti ekki gengið í þau og enginn fái að sinna þess- um störfum nema þeir séu í til- teknu vcrkalýðsfélagi. Gagnvart mér birtist þetta þannig, að á íslandi þar sem eru hljóðmaður, kvikmyndatökumaður og einn fréttamaður að ferðast með fullt af tækjum, myndavélum, þrífót- um, ljósum og slíku og tíminn skiptir miklu máli, tekur frétta- maðurinn að sjálfsögðu til hend- inni og ber með hinum. Þegar ég byrjaði hjá Dönum gerði ég þetta orðalaust áfram. Þeir létu þetta átölulaust en litu dálítið ein- kennilega á mig, sem ég skildi auðvitað ekki hvers vegna var. Svo kom að því, þegar ég var far- inn að kynnast þessum mönnum betur, að þeir sögðu við mig að þetta mætti ég ekki gera. „Það er allt í lagi með þig, af því að þú ert útlendingur og skapar ekki for- dæmi, en við myndunt aldrei leyfa dönskum fréttamanni að gera þetta,“ sögðu þeir. í upp- tökuliði hjá þeim eru þeir með mann sem gegnir embætti bíl- stjóra og aðstoðarmanns, og Itann á að bera. Það er mjög ströng verkaskipting innan hópsins. Annað dæmi sem ég sá þarna, var unt manninn sem neitaði að fara í ólöglegt verkfall. Þá var verkalýðsbaráttan farin að snúast upp í andhverfu sína. Starfsfólk í verksmiðju ákvað að fara í verkfall, sem félagsdómur dæmdi ólöglegt, en einn fullorðinn, lög- hlýðinn borgari sagðist ekki láta fá sig til þess að fremja lögbrot. Síðar þegar samið var við starfs- fólkið, var það eitt af skilyrðun- um fyrir því að hefja vinnu að nýju, að þessi maður yrði rekinn og það var ekki um annað að ræða en reka hann.“ Kom heim að öskrandi síma - Nú kynntist þú Dönum nokk- uð vel á þessum árum, finnst þér einhver munur á þeim og okkur? „Þeir hugsa allt öðruvísi en við. Ég hló eitt sinn með sjálfum mér þegar ég hitti Dana sem sagði að það væri svo gott að koma til Islands, því þar væri allt svo afslappað. Hjá honum birtist þetta svona þegar hann kom til Islands í frí, en það er nú samt svo að danska samfélagið er miklu rólegra og kyrrlátara en það íslenska og lífsgæðakapp- hlaupið er ekki nálægt því eins hart og á íslandi. Þeir vinna mun minna og það sem er aðallega ólíkt með þessum tveimur þjóð- um er, að Danir kunna að njóta lífsins. Þeir kunna að slappa af og hafa það huggulegt, eru alltaf til- búnir til þess að „hygge sig“ á 5 mínútna fresti. Þetta hefur auð- vitað sínar neikvæðu hliðar líka, því ansi oft er áfengi með í spil- inu og þeir drekka almennt mjög mikið. Vinnuagi og „vinnumór- all“, a.nt.k. í Kaupmannahöfn, er mun slakari en á íslandi. íslendingar vinna mun harðar og meira, ekki bara lengur heldur afkasta þeir meiru á sama tíma. Þá er líf Dana í mun fastari skorðum en okkar. Þeir geta skipulagt hverja krónu langt fram í tímann því þjóðfélagið er miklu stöðugra. Hins vegar eiga þeir nú við óstjórnleg efnahagsvanda- mál að stríða og segja sjálfir að þeir séu á leið til helvítis „men pá förste klasse“.“ - Er eitthvert atvik frá þessum árum þér minnisstæðara en önnur í sambandi við starfið? „Ætli það sé ekki þegar við hjónin fórum út, í eitt af fáum skiptum. Við fórum nánast aldrei neitt því ég vann svo til allan sólarhring- inn. Ég var alltaf svo hræddur um að eitthvað myndi gerast og ég væri þá fjarri góðu gamni. Nú, þetta kvöld buðu kunningjar okk- ar úr breska sendiráðinu okkur í kvöldmat. Við fórum, slöppuð- um vel af og komum ekki heim fyrr en um þrjúleytið um nóttina, að öskrandi síma. Þá hafði Olof Palme verið myrtur nokkrum klukkustundum áður og þurfti ég því strax að fara að skipuleggja ferð til Stokkhólms með fyrstu vél, sem ég og gerði. Það þurfti að sjá fyrir tökuliði, gervihnetti, klippingum og slíku, svo það varð heldur lítið úr svefni þessa nótt. Morguninn eftir kom ég til Stokkhólms. Vélin var sneisafull af fréttamönnum, a.m.k. þekkti ég ansi mörg andlit þar. Fjöl- margir erlendir fréttamenn voru staddir í Kaupmannahöfn á þess- um tíma því þing Norðurlanda-- ráðs átti að hefjast á mánudegin- um, en þetta var á laugardags- morgni. Viðbrögð Svía við morð- inu voru mjög skrítin. Hægt var að sjá á fólki að eitthvað voðalegt hafði gerst og mikill drungi var yfir Stokkhólmi þennan dag. Það mátti sjá fólk gráta úti á götum og mikið af fólki safnaðist saman á staðnum þar sem Palme var myrtur.“ Mjög erilsamt starf - Snúum okkur nú að fréttafull- trúastarfi þínu hjá Flugleiðum, í hverju fólst það? „Þetta er mjög erilsamt starf, alveg óskaplega erilsamt. Það felst fyrst og fremst í því að ann- ast samskipti félagsins við aðila utan þess, fyrst og fremst blaða- og fréttamenn. Þá styrkja Flug- leiðir ótrúlega mikið af málefn- um og það var mitt hlutverk að ganga frá flestum þessara samn- inga. Stærsti aðilinn sem Flug- leiðir styrkja er HSÍ, en þeir hafa fengið sem svarar um 50 milljón- ir frá Flugleiðum á síðastliðn- um 4 árum, þar af 20 ntilljónir í ár. Þá er fjöldinn allur af öðrum aðilum sem nýtur stuðnings félagsins. Þetta gerir félagið vegna þess að það viðurkennir sína ábyrgð sem stór vinnuveit- andi og þar með skyldur við að efla þroskandi og uppbyggjandi starfsemi í landinu. Þeir vilja ljá þessum málefnum lið og vera þekktir fyrir það. Starfinu fylgja mikil ferðalög, fundir og ráðstefnur. Hjá félagi með starfsemi í jafn mörgum löndum og Flugleiðir, er augljóst að þörf fyrir ferðalög starfsfólks er mikil sérstaklega fyrir fulltrúa félagsins út á við. Þá krefst þetta starf þess, að vera mjög vel inni í öllum málefnum félagsins. Fulltrúar deilda láta mig vita um það sem er að gerast og svo heyrir starfið beint undir forstjóra, svo sam- starf við hann er bæði náið og gott.“ Eins og hvert annað hundsbit - Nú starfaðir þú aðeins í 6 mán- uði hjá Flugleiðum og tekur nú við fréttastjórastarfi hjá Sjón- varpinu, hvers vegna sóttir þú um það starf? „Þegar maður hefur unnið í 11 ár á fréttastofu Sjónvarpsins og þykist kunna þetta, þá er það óhjákvæmilega freistandi þegar þessi staða losnar. Það voru mjög margir sem skoruðu á mig og lögðu að mér að sækja um þetta starf. Ég vil ekki nefna nein nöfn, því þetta fólk hefur ekki verið að tala um það opinberlega, en einn get ég nefnt og það er Ingvi Hrafn Jónsson. Hann var einn af - segir Bogi Ágústsson í helgarviðtali þeim sem hvöttu mig til þess að sækja um, auk fjölda annarra sem sýndu mér það traust að telja að ég gæti sinnt þessu og ætti að sækja um, svo ég gerði það." - Það hefur verið mikið ritað og rætt um þessa ráðningu, hvernig finnst þér henni hafa ver- ið tekið? „Ég hef hvergi orðið var viö neikvæð viðbrögð, nema hjá Þjóðviljanum og ég tek þau ekki alvarlega. Þessari ráðningu hefur verið þokkalega tekið. Að vísu hef ég ekki enn hafið störf, en ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég held að starfsfólkið á fréttastof- unni hafi tekið þessu nokkuð vel, ég hef unnið með flestu þessu fólki áður.“ - Hvernig leggst starfið í þig? „Það eru ákveðnar leikreglur sem ég verð að vinna eftir, sem eru leikreglur ríkisins. Ég get t.d. ekki boðið góðum manni hærri laun til þess að halda í hann sern takmarkar það frelsi sem ég hefði ef ég væri hjá einkaaðilunt, en því verður að taka eins og hverju öðru hundsbiti og búa við það, Stöð 2 hefur náð fólki frá okkur með gylliboðum sem við getum ekki svarað." Ríkisútvarpiö er frjálst - Nú má reikna með því að þú farir niður í launum, en samt tek- ur þú starfinu, hvað er svona heillandi við það? „Það er eitt sent er alveg öruggt. Ég er ekki að fara frá Flugleiðum vegna þess að mér hafi ekki líkað vel þar. Mér þótti erfitt að taka þessa ákvörðun vegna þess að mér hefur líkað svo vel hjá Flugleiðum. Þar er gott starfsfólk og góður andi, flugið er spennandi atvinnugrein og ég hef Íært mikið. En, frétta- stjórastarfið er nánast eina starf- ið á landinu sem hefði getað dregið mig úr því starfi sem ég gegndi. Ætli þetta sé ekki bara fjölmiðlabakterían, hún er eins og hver annar sjúkdómur. Ég hef mjög ákveðnar skoðanir um hlut- verk ábyrgra fjölmiðla í því róti sem nú ríkir og þykir mikilvægt að einhver framfylgi svipaðri stefnu. Ég er íhaldssamur í fréttamálefnum og vil að ríkis- útvarpið sé traustur klettur í fjöl- miðlarótinu, setji þær gæðareglur sem eiga að vera í fréttamennsku ljósvakafjölmiðla, þ.e.a.s. haldi háum gæðum á fréttamennsku, hviki ekki frá þeim og sé óháð bæði flokkspólitísku valdi og auglýsingapeningum." Hvað varðar nýju ljósvaka- miðlana, hafði ég fyrirfram ekki búist við því að einkastöðvarnar, sem ég kalla ekki frjálsa fjöl- miðla því ríkisútvarpið er frjálst, kannski það frjálsasta sem er til; ég er mjög ánægður með það að nýju fjölmiðlarnir Bylgjan og Stöð 2 skuli hafa valið þann kost að fara í alvarlega frétta- ntennsku og keppa í raun við ríkisútvarpið á sama grund- velli.“ Erfitt að kenna blaðamennsku í skóla - Má búast við að sjá einhverjar breytingar á fréttaflutningi Sjón- varpsins? „Já og nei. Fréttastofa er nokkuð sem er í stöðugri þróun. Hlutirnir eru alltaf að breytast og það kemur til með að halda áfram að gerast. Þær breytingar sem ég hef í huga hef ég ekki enn rætt við starfsfólkið og hef ekki heyrt þeirra hugmyndir, sem eru mjög ntikilvægar því fréttastofa Sjónvarpsins var, þegar ég var að vinna þar, ntjög lýðræðislegur vinnustaður og hún verður það líka undir minni stjórn. Ég hef þá bjargföstu trú að traust sem borið er til einstaklinga í starfi, skili sér í betri vinnu. Þá hafa orðið gríðarlegar breytingar á mann- skap og ríkisútvarpið varð fyrir mikilli blóðtöku og tapaði mörg- um hæfunt fréttamönnum til einkastöðvanna. Það fólk sem fór var allt úrvals fólk, t.d. Einar Sig- urðsson sem ég fagna mjög að taki við ntínu starfi hjá Flugleið- um. En ríkisútvarpið hefur feng- ið gott fólk í staðinn, það er eng- inn vafi.“ - Að lokunt Bogi, þú hefur nokkuð ákveðnar skoðanir um menntun fréttamanna, hverjar eru þær? „Eg hef það og held að það sé mjög mikilvægt að sú hefð sem skapast hefur í íslenskri blaða- mennsku tapist ekki. Þar á ég við, að hún auðgist af því að fá fólk úr mörgum, mismunandi stéttum og nái þannig inn ólíkum sjónarmiðum og viðhorfum. Það eru ákveðnir hlutir sem hreint nám í fréttamennsku getur orðið til gagns, en á endanum þá held ég að það sé ntjög eríitt að kenna fólki í skóla að verða blaðamað- ur. Fólk þarf að hafa ákveðin persónueinkenni til þess að verða góðir blaðamenn. Það er hægt að tileinka sér ákveðna hluti á vinnu- stað, en mjög erfitt í skóla. Ég held að í raun sé það mikilvægara að fólk hafi stundað eitthvert háskólanám, en nákvæmlega hvaða nám það er. Þar kynnist það ákveðnunt vinnubrögðum t.d. hvað mig snertir hjálpaði sagnfræðin mér að virða og gagn- rýna heimildir án þess að vera neikvæður. Það þarf að vega og meta hvort heimildir eru trúverð- ugar eða ekki. Þá má ekki blanda eigin skoðunum inn í starfið. Þetta nýtist fréttamanni að sjálf- sögðu mjög vel. Það síðasta sem ég vildi sjá í íslenskri blaðamanna- stétt er, alla steypta í sama mót úr fjölmiðladeild Háskólans." Með þessum orðunt Boga ljúk- um við þessu viðtali. Við óskum honum velfarnaðar í nýju starfi. VG

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.