Þjóðviljinn - 08.03.1985, Síða 17
8. MARS
Menningar- og friðarsamtök ísl. kvenna
Samstaða
og samvinna
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars á rætur sínar
að rekja til ársins 1857, en þá lögðu konur í baðmullar-
iðnaði í New York niður vinnu til að krefjast sömu launa
fyrir sömu vinnu og karlar í sömu störfum.
Á alþjóða kvennaráðstefnu í Kaupmannahöfn árið
1910 lagði þýska baráttukonan Clara Zetkin það til, að
þessi dagur yrði gerður að alþjóðlegum baráttudegi
kvenna og var það samþykkt.
Árið 1945 tókst kvenföngum í fangabúðum nasista í
Ravensburg að halda með sér leynilegan fund á þessum
baráttudegi. Þar strengdu þær þess heit að kæmust þær
lifandi til síns heima stæðu þær að stofnun alþjóðlegra
kvennasamtaka sem stuðluðu að varðveislu alheims-
friðar. Þetta heit efndu þær 1. des. 1945 er Alþjóða-
samtök lýðræðissinnaðra kvenna voru stofnuð. Eru sam-
tökin því 40 ára á þessu ári.
Árið 1951 voru Menningar- og friðarsamtök íslenskra
kvenna stofnuð sem deild í þessum alþjóðasamtökum.
Þar sem 8. mars getur talist lífdagur samtakanna þá er
það eðlilegt að þessi dagur skipi háan sess hjá alþjóða-
samtökunum og aðildarfélögum þess. Menningar- og
friðarsamtök íslenskra kvenna hafa því frá upphafi hald-
ið baráttufundi í tilefni af 8. mars. Voru þau ein um það
alveg fram á síðustu ár að önnur kvennasamtök fóru að
gefa þessum degi gaum.
Það er markmið samtakanna að vinna að friðarmálum
og réttindamálum kvenna og barna á eins breiðum
grundvelli og unnt er hverju sinni, því hefur félagið jafn-
an hvatt til samstarfs meðal kvenna 8. mars sem og aðra
daga og gerir það einnig nú. Samtökin töldu það eðlilegt
að árið 1985, sem er lok kvennaáratugarins, stæði ’85
nefndin, sem saman stendur af 23 kvennasamtökum,
sameiginlega að dagskrá á þessum degi. Hafa samtökin
því unnið að undirbúnings slíks fundar, en þau fögnuðu
jafnframt fyrirhuguðum fundi Samtaka kvenna á vinnu-
markaði og fl. og vildu gjarnan standa að honum líka. Á
þann hátt mætti ná til enn fjölbreyttari hóps kvenna og
full ástæða er til að helga heila helgi þessu málefni, og því
eðlilegt að velja fundunum sinn hvorn tímann. Af því gat
ekki orðið því báða fundina skyldi halda sjálfan baráttu-
daginn 8. mars. Svo heilagur hefur 8. mars aldrei verið
okkar samtökum að ekki mætti hnika til fundardegi ef
hentugra þótti og markmiðið kæmist þannig betur til
skila.
Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna fagna
því hve mikill áhugi er nú meðal kvenna fyrir þessum
alþjóðlega baráttudegi kvenna, en harma jafnframt þá
sundrungu sem upp hefur komið og telja að á þann hátt
sé markmiðum þessa dags ekki þjónað heldur öðrum
hagsmunum. Sérstaklega þykir stjórn félagsins það mið-
ur ef þessi ágreiningur verður til að sundra þeirri sam-
stöðu, sem náðst hefur um veglega baráttu fyrir málefn-
um kvenna á þessu ári, og vonar að til þess komi ekki.
Samtökin eru aðili að sameiginlegum fundi í Háskólabíói
8. mars, en hefðu viljað styðja fund Samtaka kvenna á
vinnumarkaði og fl. og þykir leitt að hann skuli haldinn
samtímis fundinum í Háskólabíói.
Fyrir hönd
Mcnningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna,
Steinunn Harðardóttir formaður.
Fern kvennasamtök
Gegn launastefnu
ríkisstjórnarinnar
Réttindaleysi kvenna birtist skýrast hjá fiskvinnslu-
konum sem atvinnurekendur kasta útaf og inná launa-
skrá eins og ómerkilegu jójói. í dag er stór hluti kvenna
sem ekki nær því að vera matvinnungur og einu svörin
sem fást við hógværustu kröfum kvenna eru tilboð um
ölmusubætur, þannig að við getum skrimt sem ódýrt og
meðfærilegt vinnuafl.
Berjumst fyrir bættum kjörum!!
Síðustu samningar endurspegla niðurlægingu launa-
fólks.
• Tvöfalda launakerfið felur í sér að ýmsir hópar - fyrst
og firemst kvenna - fá greidda eftir- og næturvinnu eftir
launatöxtum undir lágmarkslaunum.
• Reiknitalan fyrir bónusvinnu kvenna er einnig undir
lágmarkslaunum.
• Lágmarkslaunin sjálf, 14,900 kr., munu ekkert hækka
til 1. desember.
• Vinna kvenna er enn sem fyrr minnst metin til launa.
Það eru konur sem fylla lægstu launaflokkana.
• Að semja án dýrtíðarbóta er það sama og semja um
stöðugt kjararán.
Verkalýðsforystan getur ekki skorast undan þeirri
ábyrgð að setja fram og styðja kröfur, sem miðast við
raunverulegar þarfir fólks.
Á ráðstefnu róttækra kvenna í Kaupmannahöfn árið
1910 var ákveðið að gera 8. mars að alþjóðlegum baráttu-
degi fyrir réttindum kvenna. Frá 1921 hefur dagurinn
verið helgaður alþjóðlegri baráttu verkakvenna og rót-
tækar konur víðsvegar um heim hafa haft frumkvæði af
því að halda uppi merki dagsins. Það er því mjög í anda
dagsins að hafa Gladys Baez, fulltrúa kvenna í Nicarag-
ua, sem sérstakan gest okkar. En einmitt í Nicaragua
hafa konur risið uppúr myrkri miðalda, verið mjög virkar
í byltingarbaráttunni og náð geysilegum réttindum, þrátt
fyrir efnahagslega undirokun og karlaveldi sem þar hefur
ríkt. Þessa ávinninga hljótum við og verðum að styðja.
í janúar sl. var hafinn undirbúningur að baráttufundi
8. mars og haft samband við ýmis kvennasamtök sem
líkleg þóttu til að taka undir kröfur dagsins. í febrúar
fréttist loks af fyrirhuguðum fundi í Háskólabíói, sem
undirrituðum samtökum sem aðild eiga að „’85-
nefndinni“ var alls ókunnugt um að halda ætti í nafni
nefndarinnar þann 8. mars. Reynt var að ná samkomu-
lagi um fundinn í Háskólabíói. í raun snerist ágreiningur-
inn um það hvort halda ætti baráttufund eða ekki, en
úrslitum réði að meirihluti „85-nefndarinnar“ hafnaði
alfarið að Gladys Baez ávarpaði fundinn.
Konur geta barist og sigrað
Við sýndum það í verkfalli BSRB. Við stóðum í farar-
broddi: við felldum samningana í Sstarfsmannafélagi
Reykjavíkurborgar eftir nótt hinna löngu hnífa Davíðs;
við vorum tilbúnar að halda áfram - og nú verðum við að
skipuleggja sigurinn. Við getum ekki treyst öðrum tilað
taka frumkvæði að segja upp samningum.
TÖKUM MÁLIN í EIGIN HENDUR - ÖÐRUM ER
EKKI TREYSTANDI.
Samtök kvenna á vinnumarkaði
Kvennaframboðið í Reykjavík
Kvennafylking Alþýðubandalagsins
Kvennalistinn
’85-nefndin
Tökum höndum
saman
Föstudaginn 8. mars er alþjóðlegur baráttudagur
kvenna. Þann dag gangast 19 aðilar fyrir baráttufundi í
Háskólabíói undir kjörorðinu: „TÖKTJM SAMAN
HÖNDUM“. Þeir sem að fundinum standa eruj
Kvenréttindafélag íslands, Kvenfélagasamband íslands,
Kvennalistinn, Landssamband Sjálfstæðiskvenna, Sam-
band Alþýðuflokkskvenna, Landssamtök Framsóknar-
kvenna, Framkvæmdanefnd um launamál kvenna, Frið-
arhreyfíng kvenna, Menningar- og friðarsamtök ísl.
kvenna, Verkakvennafélagið Framsókn, Verkakvennafé-
lagið Framtíðin, Starfsmannafélagið Sókn, Samtök um
kvennaathvarf, Jafnréttisráð, Málfreyjur, Undirbún-
ingsnefnd v/Nairobi ’85, Jafnréttisnefnd Reykjavíkur,
Jafnréttisnefnd Kópavogs, Jafnréttisnefnd Hafnarfjarð-
ar, Jafnréttisnefnd Keflavíkur.
Þessi félög og samtök eiga það sameiginlegt að þau
standa öll að ’85 nefndinni, samstarfsnefnd um lok
kvennaáratugar SÞ. Eins og flestum er í fersku minni,
tóku konur á fslandi höndum saman og efndu til Kvenna-
frídagsins 24. október 1975. í ár hafa konur hug á að
vinna saman að ákveðnum verkefnum undir kjörorðum
Sameinuðu þjóðanna: Jafnrétti - Framþróun - Friður.
Verður starf ’85 nefndarinnar kynnt á fundinum á föstu-
daginn.
Dagskrá 8. mars fundarins tekur mið af baráttu kvenna
á íslandi fyrir jafnrétti á vinnumarkaði, jafnt til launa
sem annarra kjara.
Dagskráin hefst kl. 20.30 með söng 10 ára barna undir
stjórn Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur. Erla Þuríður Péturs-
dóttir, 10 ára, flytur stutt ávarp. Þá verður starf ’85
nefndarinnar kynnt og Anna Júlíana Sveinsdóttir, óperu-
söngkona, syngur nokkur lög við undirleik Láru Rafns-
dóttur.
Nokkrar leikkonur munu flytja frásögn af baráttunni
fyrir jafnrétti og lesa úr bók Ónnu Sigurðardóttur „Um
störf kvenna í 1100 ár“ og úr bók Jóhönnu Egilsdóttur um
launabaráttuna. Sigrún Valbergsdóttir stjórnar þessum
dagskrárlið.
Sex konur, þær Guðríður Elíasdóttir, Ingibjörg R.
Guðmundsdóttir, Margrét S. Einarsdóttir, Sigrún Elías-
dóttir, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og Svanhildur Kaab-
er, flytja stutt ávörp um kjarabaráttu kvenna og nauðsyn
samstöðu um launajafnrétti kynjanna.
Loks mun Sesselja Kristjánsdóttir, iðnverkakona,
flytja stutt ávarp, en fundinum lýkur síðan með fjölda-
söng. Fundarstjóri verður Lilja Ölafsdóttir.
Vakin er athygli á því, að í anddyri Háskólabíós verður
kynning á starfsemi þeirra félaga er að fundinum standa,
og verður húsið opnað kl. 20.
’85 nefndin hvetur konur eindregið til að fjölmenna á
fundinn í Háskólabíói og sýna á þann hátt ótvíræðan vilja
sinn til samstöðu til eflingar jafnrétti kynjanna.
TÖKUM SAMAN HÖNDUM!
Föstudagur 8. mars 1985 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 17