Þjóðviljinn - 12.03.1986, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 12.03.1986, Blaðsíða 4
LEIÐARI í anda í dag eru 70 ár síðan Alþýðusamband íslands var stofnað, heildarsamtök verkafólks í landinu. Sambandið var í árdaga í senn pólitískt og fag- legt samband launafólks. Tilgangur þess var að koma á samstarfi meðal íslenskra alþýðu- manna á grundvelli jafnaðarstefnunnar og miða að því að bæta hag alþýðu líkamlega og and- lega. Það var stefnt að alþýðuvöldum. Á þessum tíma var hagur launafólksins jafnvel enn frekar en nú háður mannréttindabaráttu meðfram kaup- og kjara- baráttu annarri. Baráttan fyrir auknum mannréttindum varð ekki háð nema sem pólit- ísk barátta. Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur sagði í grein um Alþýðusambandið á hálfrar aldar afmæli þess að ekki hefði verið hægt að koma íslenskri verkalýðshreyfingu svo fljótt á legg ef Alþýðusambandið hefði ekki sameinað í skipulagi sínu og starfi pólitíska og faglega bar- áttu verkamanna. „Og þetta skipulag gæddi ís- lenska verkalýðshreyfingu reisn og pólitískum sjálfsþótta sem hæglega hefði getað kafnað í einstrengislegu faglegu nostri", sagði Sverrir. Þegar fram liðu stundir reyndist upphaflegt skipulagsform Alþýðusambandsins þróun þess fjötur um fót, og í rúmlega áratug voru gífurlegar deilur og átök um skipulag sambandsins. Þeim lauk um 1940 er sambandið var opnað öllum. brautryðjendanna Þar var ákveðið að heildarsamtökin skyldu hafa forystu í stéttabaráttu og félagsstarfsemi alþýð- unnar í landinu. Hin skipulega verkalýðshreyfing hefur oftast háð baráttu sína í anda brautryðjendanna, með það að markmiði að alþýðuvöld yrðu á íslandi. Hugsjónin um bræðralagsþjóðfélagið, stétt- lausa þjóðfélagið hefur verið það hreyfiafl sem knúði fólkið saman í samtök og átök þegar ann- ars var ekki kostur. Verkalýðshreyfing hér á landi sem annars staðar barðist gegn þjóðfélagi misréttisins, gegn þjóðfélagsskipulagi sem skiptir mönnum í þjóðir, fáa ríka við allsnægtar- borðið og fjöldann snauða, sem leggur nótt við dag í vinnuþrælkun til að láta enda ná saman. Enn þann dag í dag á launafólkið ekki annan útveg betri en bindast samtökum, nota félags- skap og samtök til að verjast og sækja fram til mannlegrar reisnar og mannsæmandi lífs. Stundum miðar sorglega hægt í þessari bar- áttu, stundum logar skært á hugsjónakyndlin- um, sem brautryðjendurnir hófu á loft fyrir 70 árum. Sá logi brénnur þó aldrei heitar og lýsir aldrei skærar en þegar fólkið, fjöldinn allur, heldur hugsjónunum á lofti og berst fyrir þeim í samtökum sínum. Verkalýðshreyfingin hefur skilað íslensku launafólki og þjóðfélagi mörgum áfangasigrum. Hún hefur verið sér meðvituð um ábyrgð gagnvart sjálfstæði þjóðarinnar og menningar í landinu. Fyrsta allsherjarverkfallið á íslandi var háð til að mótmæla bandarísku hernámi á ís- landi og oft hefur verkalýðshreyfingin brotið ísa fordóma og afturhaldssemi í menningarmálum og mannréttindamálum á íslandi. í viðtali við Þjóðviljann fyrir réttum 20 árum, kvaðst Hannibal Valdimarsson þáverandi for- seti ASÍ vonast til að sambandið yrði aldrei ein- vörðungu stofnun. „Þeir sem hófu baráttuna áttu enga stofnun að bakhjarli en þeir áttu eld- móð og hugsjónir. Þeir ætluðu Alþýðusam- bandinu mikill hlut á stjórnmálasviðinu; það átti að verða tæki til að koma þjóðfélagi réttlætis og jafnaðar. Og auðvitað höfðu þeir rétt fyrir sér“. Þó nú hafi syrt að um hríð, þá munu meðan land byggist vera til menn á íslandi, sem varð- veita þá hugsjónaglóð sem bærðist í brjóstum brautryðjendanna. Sú glóð verður að hugsjóna- eldi áður en lýkur og íslensk launaþjóð mun vonandi ekki þurfa að bíða önnur sjötíu ár eftir alþýðuvöldum. Þjóðviljinn óskar Alþýðusam- bandinu til hamingju með sjötugsafmælið og heitir á launafólk allt til baráttu í verkalýðshreyf- ingunni í anda brautryðjendanna. -óg KUPPTOG SKORIÐ Hin nýja trú Eitt merkilegasta einkenni samtímans er það, að vinstri- menn sem áður trúðu á hamingj- una, sem biði þeirra rétt handan við næsta götuhorn sögunnar, eru orðnir kaldhæðnir og efagjarnir. En markaðssinnaðir hægrimenn ganga um með forkláraðan svip þess sem er nýskírður til réttrar trúar og aldrei mun bifast meðan heimur stendur. Þessum furðum skýtur upp í hugann alltaf öðru hvoru. Til dæmis þegar Klippari blaðaði á dögunum í grein eftir Hannes Hólmstein í Morgunblaðinu. Greinin heitir „Frjálshyggjan er mannúðarstefna“ og henni er ætl- að að sýna fram á það, að þeir sem fylgja vel og samviskusam- lega lögmálum markaðarins séu í raun réttri erindrekar Hins Góða, hvort sem þeir kæra sig um það eða ekki. í greininni segir meðal annars: „Stefna frjálsra viðskipta eflir með þessum hætti mannúð, óháð því hvort þeir, sem viðskipti stunda, eru sjálfir mannvinir eða ekki. En hún eflir einnig mannúð með öðrum hœtti. Menn fá að finna það í frjálsum viðskiptum, að þeir eru einhvers virði. Peir eru þar veitendur ekki síður en þiggj- endur ..." Það var og. Vanþakk- lætisskepna Klippara rak óneitanlega í vörðunar þegar hann sá þennan fallega boðskap. Hvernig í ósköpunum stendur á því, spurði hann sjálfan sig, að mér líður ekki vel þegar ég rétti peninga yfir búðarborð hins frjálsa mark- aðar? Af hverju mistekst mér að finna til stolts yfir því að eiga fyrir hakki, ýsuflaki og rúsínum? Hvers vegna finn ég ekki til sannrar jafnréttisgleði yfir því, að kaupmaðurinn veitir mér vöru og ég veiti honum peninga og þiggja svo báðir vinsemd og virðingu? Hvernig í ósköpunum stendur á því, að ég leyfi mér að láta mér gremjast verðlag á strigaskóm, málningarpenslum og svína- hrygg? Eða þá blátt áfram því, að ekkert er ódýrt á hinum frjálsa íslenska markaði annað en bækur síðan í hitteðfyrra? Kannski er Klippari illa upp alinn, fúllyndur og öfundsjúkur? Má vera. En einhvernveginn er það nú svo samt, að honum sýnist ekki hann sé einn í heiminum. Og þótt undarlegt megi virðast, þá man hann helst eftir kunningjum sínum rússneskum, þegar hann leitar í huga sér að þeim sem eru gripnir sælu þegar þeir hafa keypt eitthvað. En það skrýtna er að þeir búa við ófrjálsan markað og glíma við vöruskort frekar en verðlag - og eru þess vegna svo sælir þegar þeir „ná í“ eitthvað. sjaldséð að aðrar sorgir gufa upp í bili. Svona er heimurinn undar- legur og fullur með þverstæður. Mogginn og aðhaldið Kollurinn á frjálshyggju- mönnum er líka fullur með þver- stæðum eins og sjá mátti á leiðara Morgunblaðsins í gær. Þar er fjallað um fyrirheit sem gerð eru í tengslum við nýlega kjarasamninga um lækkun verð- lags. En margir hafa spurt sjálfa sig að því, hvort nokkuð væri að marka slík loforð: það sé að sönnu hægt að lækka tolla og ann- að, sem áhrif hefur til verðlœkk- unar, en það er engin trygging fyrir því í viðskiptafrelsinu - með öðrum orðum: álagningarfrels- inu, að verslanir fari eftir þvf og láti neytendur njóta góðs af. Jú, segir Morgunblaðið. Það þýðir ekki að hafa „opinbera miðstýringu á verðlagi“. Hún dugir ekki í verðbólguslagnum segir blaðið: „Markaðsöflin eru best til þess fallin að hafa hemil á verðlagi og veita þeim aðhald sem ganga of langt í hœkkunum. “ Mikil er trú þín kona, stendur þar. Það spaugilega við leiðarann er svo það, að rétt áður en kemur að trúarjátningunni um hið trygga verðlagseftirlit markaðsaflanna sjálfra, þá er vísað til þeirrar hlá- legu uppákomu, sem varð á dög- unum á bílamarkaði. Blaðið segir: „Þegar í Ijós kom, að lögin, sem Alþingi samþykkti strax eftir kjarasamninga, dugðu ekki til að lœkka verð á bílum eins og um hafði verið samið, ákvað Þor- steinn Pálsson fjármálaráðherra, að flytja nýtt frumvarp til að ná yfirlýstu markmiði. Skjót við- brögð ráðherrans í þessu efni eru staðfesting á því að stjórnvöldum er full alvara, þegar þau segja að verð skuli lœkka. “ Vont eða gott? Með öðrum orðum: Markaðsöflin munu sjá til þess, segir Morgunblaðið, að verð á til dæmis bílum lækki. Miðstýring og opinbérar tilskip- anir eru óþarfar, gagnslausar og gott ef ekki skaðlegar. En samt er það bæði gott og virðingarvert að opinbert vald, fjármálaráðherra sjálfur, semur sérstök lög til að tryggja það, að bílasalar geri það sem markaðsöflin og samkeppn- in og hin gagnkvæma virðing og vinsemd sem ríkir í viðskiptum í okkar góða heimi - áttu að tryggja að þeir gerðu! Andspænis þessari æðri guð- fræði verður Klippara ekki annað til ráðs en að raula gamlar hend- ingar: Eitt rekur sig á annars horn eins og graðpening hendir vorn. ÁB. DJOÐVILJINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Útgefandi: Útgáfufólag Þjóðviljans. Ritstjórar: Árni Bergmann, össur Skarphóðinsson. Ritstjórnarfulitrúi: Oskar Guðmundsson. Fróttastjóri: Valþór Hlöðversson. Blaðamenn: Garðar Guðjónsson, Guðlaugur Arason (Akureyri), Ing- ólfur Hjörleifsson, Kristín Ólafsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús H. Gíslason, Mörður Árnason, Sigurdór Sigurdórsson, Sigurður Á. Frið- þjófsson, Víðir Sigurðsson (íþróttir), Þröstur Haraldsson. Handrita- og prófarkalestur: Andrea Jónsdóttir, Elías Mar. Ljósmyndir: Einar ólason, Sigurður Mar Halldórsson. Útlit: Sævar Guðbjörnsson, Garðar Sigvaldason. Framkvæmdastjóri: Guðrún Guðmundsdóttir. Skrifstofustjóri: Jóhannes Harðarson. Skrifstofa: Guðrún Guðvarðardóttir, Magnús Loftsson. Útbreiðslustjóri: Sigríður Pétursdóttir. Auglýsingastjóri: Sigríður Hanna Sigurbjörnsdóttir. Auglýsingar: Ásdís Kristinsdóttir, Guðbergur Þorvaldsson, Olga Clausen. Símvarsla: Katrín Anna Lund, Sigríður Kristjánsdóttir. Húsmóðir: ólöf Húnfjörð. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Afgreiðslustjóri: Baldur Jónasson. Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Kristín Pétursdóttir. Innheimtumenn: Brynjólfur Vilhjálmsson, Ólafur Björnsson Utkeyrsla, afgreiðsla, auglýsingar, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, sími 681333. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 40 kr. Helgarblöð: 45 kr. Áskriftarverð á mánuði: 450 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miövikudagur 12. mars 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.