Þjóðviljinn - 24.08.1986, Page 20
Stendur heima, stýft og gagnbitað
Marka-Leifi tekinn tali
í síöasta sunnudagsblaði Þjóð-
viljans var nokkuð sagt frá Hjör-
leifi Sigfússyni, Marka-Leifa. Var
jafnframt látið að því liggja, að
e.t.v. myndi síðar birtast hér í
blaðinu viðtal, sem tekið var við
Leifa þegar hann bar að garði á
Frostastöðum og bauð mér vind-
ilinn fyrir 25 árum. Fer nú spjall
okkar hér á eftir.
Og nú er hann kominn hér
heim á hlað til mín, þessi kynja-
kvistur, og farinn að gæða sér á
vindlunum sínum áður en mér
hefur gefist ráðrúm til þess að
bjóða honum í bæinn.
- Hvað heldurðu að ég sé búinn
að reykja marga vindla frá þér
um dagana, Leifi?
- Ég veit það ekki. Þeir eru nú
varla margir. Ég tel ekki svo-
leiðis. Ætli þeir séu þá ekki hvort
sem er gerðir til þess að reykjast.
Ég finn að það er vonlaust að
ætla að hnekkja svona rök-
semdum og við löbbum inn.
- Ertu nú ekki til með að segja
mér eitthvert hrafl af ævisögu
þinni, Leifi, og jafnvel lofa mér
að birta það kannski ein-
hverntíma á prenti?
-O, sussu nei, góði minn, ekki
hægt, ekki hægt. Fyrst og fremst
er nú mín ævisaga ekkert merki-
leg og svo, - á prenti, nei, það
dugar ekki, það dugar alls ekki,
skal ég segja þér. Ég er ekki orð-
inn nógu minnisgóður. Man þetta
ekki nógu vel í samhengi, og það
verður að fara rétt með, um að
gera að fara rétt með.
- Ekki ertu þó farinn að tapa
minni á mörkin?
- Jæja, nei, kannski ekki svo
mjög, en það er allt annað. Það er
eins og það komi af sjálfu sér að
muna þau. Það er þægilegra að
muna mörk en nokkuð annað.
Fimm merkur
við fœðingu
- Mér finnst ég reyndar muna
ýmislegt nokkuð vel frá uppvaxt-
arárunum, já, og meira til. Ég
held ég geti t.d. talið upp alla bæi
þar sem ég hef verið til heimilis
og eru þeir þó orðnir nokkuð
margir, enda leiðin orðin býsna
löng, o-já.
Ég er fæddur á Stóru-Ökrum í
Blönduhlíð. Var tvíburi og þótti
að vonum enginn merkispening-
ur þegar ég kom í heiminn, einar
5 merkur, aðeins rúmlega hálf-
drættingur við Jónas tvíbura-
bróður minn, því hann var þó 9
merkur. Hann dó eftir viku en ég,
sem var þó sýnu ómerkilegri, lifi
enn. Svona vildi nú guð hafa það.
Kannski hefur hann viljað láta
mig lifa til þess að fást við bless-
aðar skepnurnar. Já, það er nú
hætt við því. Maður botnar ekki
mikið í svoleiðis löguðu.
Frá Ökrum fór ég með
mömmu í Víðimýri, til sr. Jakobs
heitins Benediktssonar. Þaðan í
Húsey. Átta ára fór ég frá Húsey í
Hafgrímsstaði og var þar smali í
eitt ár. Þaðan fór ég í Starrastaði
og var þar smali í annað ár. Frá
Starrastöðum í Mælifellsá. Nú,
nú, svo var ég hér og þar. Hjá sr.
Jóni Magnússyni á Mælifelli var
ég í tvö ár. Gaman þar. Ungt fólk
og skemmtilegt og mikið fjör. Þar
var Kristbjörg Marteinsdóttir,
sem seinna giftist Sigurði í Ysta-
Felli. Ég kom einu sinni til þeirra
hj óna í Ysta-Felli. Þar var gott að
koma. Þá var ég £ innheimtutúr
austur um sýslur fyrir Svein
heitinn á Mælifellsá. Og svo var
ég hjá sr. Jóni í þrjú ár eftir að
hann flutti að Rípu.
Á Sjávarborg var ég í fjögur ár,
hjá Pálma heitnum Péturssyni.
Þá byrjuðu mínar suðurferðir,
sem síðan eru orðnar nokkuð
margar. Fór með stóð. Mark-
aðshross. Já, það var leiðinlegt
að vera að selja þessi blessuð
hross úr landi. Það var sagt að
mörg þeirra lentu í kolanámum
hjá enskinum og væri farið illa
með þau. Ég veit það nú ekki. Ég
vil trúa því, að þau hafi hlotið
góða meðferð. Það er voðalegur
glæpur að fara illa með blessuð
dýrin. Sem betur fer gera það
fáir. Vonandi engir, núorðið. En
það er sama. Ég er hræddur um
að hrossunum hafi leiðst, þótt vel
hafi verið farið með þau. Held-
urðu ekki að þau hafi saknað
frelsisins og fegurðar öræfanna
íslensku? Heldurðu ekki að þau
hafi stundum hugsað um vornæt-
urnar heima? Því þau hugsa,
hrossin. Það gera allar skepnur.
Já, miklu meira en sumir menn.
En skepnurnar hugsa aldrei
nema um eitthvað fallegt. Það er
nú það. Blessuð dýrin.
Nú, nú, um hvað vorum við nú
að tala? Já, Sjávarborg.- Svo var
ég í Glæsibæ hjá Sigurjóni Berg-
vinssyni og Ónnu konu hans,
Þorkelsdóttur frá Flatatungu.
Þau fóru til Ameríku. Leiðinlegt
hvað margir fóru til Ameríku.
Tvö ár var ég í Glaumbæ hjá
Birni, sem síðar var lengi á Seylu.
Og eitt ár hjá Albert á Páfastöð-
um. Sitt árið var ég á hvorum
staðnum Efrakoti og Skíðastöð-
um. Jónas heitinn, sem síðar var
á Álfgeirsvöllum, var þá í Efrak-
oti en Hannes Pétursson, faðir
Pálma rektors og þeirra systkina,
á Skíðastöðum. Éitt ár var ég á
Krithóli hjá Jóni Ólafssyni og
fjögur ár hjá Ólafi heitnum
Briem á Álfgeirsvöllum. Síðar
var ég svo aftur tvö ár á Ál-
fgeirsvöllum.
Horfið ó vit
Húnvetninga
- Varstu svo ekki um eitt skeið
í Húnavatnssýslu?
- Jú, ég held nú það. Tuttugu
ár, ekkert minna. Þar var ég nú
raunar ekki víða. Miklu minni
flækingur á mér en í Skagafirði.
Af þessum 20 árum í Húnavatns-
sýslu var ég 15 ár á tveimur bæj-
um: 7 ár hjá Pétri á Bollastöðum
og 8 hjá Páli á Guðlaugsstöðum.
Pállvar fjármargur. Hann hafði
um 600 fjár. Það var afbragðs fé
og vel með farið. Margar tví-
lembdar. Og alltaf hafðar sér í
húsi. Halldór var þá stráklingur.
Hann var óskaplega glöggur.
Þekkti hornin af ánum eftir að
búið var að lóga þeim. - Jæja,
bíddu nú við. Tvö ár var ég í
Brattahlíð hjá þeim merka manni
Jónasi Illugasyni og þrjú ár í
Austurhlíð hjá Sigurjóni. Hann
var faðir Jóns Baldurs, sem lengi
var kaupfélagsstjóri á Blönduósi.
Eftir þessa 20 ára útivist kom
ég aftur í Skagafjörðinn. Og síð-
an hef ég átt heima í Álftagerði
hjá Ólafi bróður mínum og nú í
Hátúni hjá þeim mætu hjónum,
Gunnlaugi og Ólínu. Hvað eru
þetta nú orðnir margir bæir?
- Sjáum nú til. Líklega einir 23.
- Tuttugu og þrír, jæja, ætli
það sé þá ekki komið?
Alltaf
lausakall
- Og hefurðu nú stundað öðru
fremur einhver sérstök störf í
þessum vistum?
- Jæja, ég hef nú urinið hvað
sem fyrir hefur komið en þó mest
við fjárgeymslu. Það hefur mér
líka þótt skemmtilegast.
- Óg mörgum ertu nú búinn að
kynnast um dagana?
- Já, sussu já, mörgu fólki. Og
góðu fólki. Hef yfirleitt ekki
kynnst nema góðu fólki.
- Það hljóta að hafa verið
margar fallegar heimasætur á
þessum bæjum, sem þú hefur
dvalið á. Varstu aldrei skotinn í
neinni þeirra?
- Jú, mikil ósköp, margar fal-
legar, já, gullfallegar. Og
skotinn, þú spyrð að því, blessað-
ur, það er von, það gengur nú
þannig til. Mér þótti svo sem
obbolítið vænt um þær ýmsar, en
skotinn, ekki man ég nú eftir að
það hafi nokkurntíma orðið til-
finnanlegt. Nei, ég hef alltaf ver-
ið lausakall. Alltfa einn að
skrölta, - þannig lagað. Enda
lengst af við fjárrag.
Fimmtán sinnum
í undanreið
- Hvað varstu gamall þegar þú
fórst fyrst í göngur?
- Ellefu ára, svarar Hjörleifur
viðstöðulaust.
- Var þá á Mælifellsá. Fór fyrir
Ólaf Briem áÁlfgeirsvöllum. Fór
á Eyvindarstaðaheiði. Var í svo-
nefndum „Austflokk". Þú kann-
ast við það. Var einhesta, enda
ekki ýkja þungur. En þetta var
afbragðs hestur. Grákinnóttur,
þýður. Hafði meðferðis heila
pottköku handa honum. Fengum
ágætt veður. Þetta var hreinasta
skemmtiferð, eins og göngur eru
nú oftast, já, að minnsta kosti
þegar maður lítur til baka. Ég
held nú það. Síðan hef ég ótal
sinnum farið í göngur. Þessi 7 ár,
sem ég var hjá Pétri á Bollastöð-
um, fór ég 14 sinnum í göngur
fyrir hann.
Og 15 sinnum hef ég farið í
undanreið í Gránunes. Undan-
reiðarmenn gengu einn dag með
Árnesingum. Svo var dregið
sundur í Gránunesi. Þannig gekk
það til áður en pestargirðingarn-
ar komu og tóku fyrir samgang
fjár af Norður- og Suðurlandi.
Érá þessum árum á ég marga
kunningja suður í Biskupstung-
um: Jörund frá Skálholti, Sigurð
Greipsson, Guðmund á Efri-
Reykjum, svo að einhverjir séu
nefndir. Og það var alltaf veisla
hjá Árnesingum. Og mikið sung-
ið og með röddum. Tungnamenn
voru góðir söngmenn og við gát-
um nú tekið undir, Norðlending-
ar, o-já. Ja, bassinn hans Bjarna
á Bóli. Aldrei gleymi ég honum.
Hann var stórkostlegur. Hann
gengur næst Benedikt heitnum á
Fjalli, þeirra bassamanna, sem ég
hef heyrt til.
Og glöggir voru þeir. Alveg
hárglöggir. Ég man ekki til að
eftir yrði kind að sunnan nema
einu sinni. Það var lamb, sem
Ingvar í Halakoti átti. Það þótti
þeim ansi snubbótt.
- Þú hefur nú sennilega ekki
tafið sundurdráttinn?
- Ja, maður gerði það, sem
maður gat. Það gerðu allir. Einu
sinni þótti drátturinn ganga venju
fremur seint. Ég var ofboðlítið
lasinn og lá inni í tjaldi. Allt í einu
kom gangnaforinginn askvað-
andi til mín með kaffi og svolítið
út í það. Óg ég upp. Það var ekki
hægt að liggja inni í tjaldi þegar
maður hafði fengið kaffi og út í
það. Jafnvel ekki þótt maður væri
dálítið lasinn. Ég skal ekki for-
taka að drátturinn hafi gengið
eitthvað betur eftir að ég kom.
En ég held að það hafi ekki
beinlínis verið mér að þakka. Ég
held, að það hafi stafað af því, að
nú vantaði engan í hópinn. Menn
eru glaðari þegar engan vantar í
hópinn. Og þegar menn eru glað-
ir gengur verkið vel. Þarna voru
veturgömul gimbur og lamb, sem
vafi þótti leika á hvaðan væru. Ég
sagði þau vera norðan úr Víðidal
en mundi ekki í svipinn frá hvaða
bæ og taflan inni í tjaldi. Hún var
sótt. Jú, kindurnar voru frá Dæli í
Víðidal.
Engan má meiða
Hjörleifur hefur farið fjöl-
margar ferðir suður yfir öræfi,
sem fylgdarmaður, bæði útlendra
og innlendra ferðamanna.
En þær ferðir eru svo sem ekk-
ert frásagnarverðar, segir hann, -
þó að stundum hafi oltið á ýmsu.
Það vill svo til, að mér er kunnugt
um að á þeim ferðalögum hefur
hann oftar en einu sinni bjargað
mönnum úr bráðri lífshættu með
fyrirhyggju sinni og útsjónar-
semi. En hann vill ekki að neitt sé
skrifað um það, þótt hann segi
mér sitt hvað frá þeim ferða-
lögum. - En ég er hræddur um að
ég geti ekki sagt frá þessu án þess
að það meiði einhvern, bætir
hann við. Seinast nú fyrir örfáum
vikum fór Hjörleifur aleinn suður
um fjöll með hesta fyrir kunn-
ingja sinn.
Það situr
blýfast
- Áttu ekki orðið mikið safn af
markaskrám?
- O-jú, það er dálítð, sem ég á
af þeim. Og Hjörtur minn á Mar-
bæli hefur bundið töluvert af
þeim fyrir mig. Þær eru víðsvegar
að af landinu. Þeir eru að senda
mér þetta svona til þess að horfa á
það.
- Og gengur vel að muna mörk-
in ennþá?
- Já, sæmilega og eins að læra
ný. Og boðum, bréfum eða pen-
ingum, sem ég er beðinn fyrir,
gleymi ég ekki. Það situr allt fast,
blýfast.
- Nú ert þú 89 ára, Leifi, ætl-
arðu í réttirnar í haust?
- Já, ætli þaðekki, já. Verði ég
við sömu heilsu hef ég hugsað
mér það.
- Undarlegt er annars hvað
sumar skepnur geta flækst langt.
Til dæmis tvílembda ærin, sem
kom fyrir í Mælifellsrétt fyrir
nokkrum árum. Hún fannst uppi
í Jökulkrók og var óþæg. Auðvit-
að rammvillt. Enginn kannaðist
við markið og það lá ekki á lausu í
markaskrám. Jóhannes hrepp-
stjóri á Reykjum sagði að ég yrði
að finna eiganda að þessum kind-
um. Ég fór að grúska í mínum
markaskrám. Og loks fann ég
markið í töflu, sem ég fékk einu
sinni hjá Birni heitnum í Grafar-
holti. Ærin var sunnan úr
Grindavík. Og komin norður í
Mælifellsrétt. Það er nú meira
röltið. Og hvernig var það með
kollóttu ána hans Sigurðar í
Borgarfelli, sem tapaðist þriðju-
daginn síðastan í vetri? Um
haustið kom hún fyrir austur í
Vopnafirði. Hún hefur hlotið að
fara með jöklum. Eða hryssurnar
tvær, heimaldar, frá Bjarna-
staðahlíð og Litlu-Hlíð? Þær
hverfa allt í einu að heiman og
finnast loks austur á Fosshóli.
Nei, það skal enginn taka fyrir
það hvað skepnan getur farið.
- Jú, ég er að hugsa um að fara í
réttirnar í haust. Hver veit nema
hægt verði að greiða eitthvað
fyrir einni og einni kind. Eða
hrossi. Og ég er ekki viss um að
það sé rétt af guði að láta mig lifa
lengur en það, að ég geti farið í
réttirnar. Nei, ég er alls ekki viss
um það.
-mhg
„Ég er ekki viss um að það sé rétt af guði að láta mig lifa lengur en það, að ég geti farið í réttirnar". Hjörleifur Sigfússon
með eina markaskrána, kannski þá frá Birni í Grafarholti.