Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.1990, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.1990, Blaðsíða 7
Sama sagan Klukkan var að ganga tólf þetta laugardags- kvöld. Rigningarsuddi lá þungt yfir borginni og lagði hauströkkrinu lið við að fela hverja ljósskímu. Leigubíllinn rann áreynslulaust eft- ir blautri götunni og undan hjólunum gusaðist „Hefurðu eitthvað heyrt af Birnu,“ spurði hún. „Ég frétti að hún sé farin að búa. - Ekkert skil ég í svona fólki - eiga yndislegan mann, einbýlishús og Volvó og fara svo með - falla fyrir pípulagningarmanni, PIPULAGNINGAR- MANNI“ Smásaga eftir ÞÓRÐ HELGASON vatnið langt upp á gangstéttirnar og rann síðan saman í litla læki sem seytluðu niður í vatnselginn að nýju. Leigubílstjórinn ók þegjandi og maðurinn í aftursætinu bryddaði ekki upp á samræð- um. Hann virtist vera milli þrítugs og fer- tugs. Hann var ekki áberandi ölvaður en þrútin augun í teknu andlitinu komu upp um hann. Skær ljósin frá Hótel Sögu teygðu sig í átt til himins, til dapurlegra stjarnanna sem reyndu að brjótast gegnum regnskýin en máttu sín lítils gegn ofureflinu. Það var löng og óskipuleg biðröð fyrir framan and- dyrið þegar ieigubíllinn renndi í hlað. Bílstjórinn nefndi gjaldið og maðurinn borg- aði þegjandi. „Góða skemmtun vinur,“ sagði bílstjór- inn. Það mátti heyra á honum að hann vissi allt um þessa skemmtun. Maðurinn tók sér stöðu aftast í röðinni og lét fara lítið fyrir sér í troðningnum. Hann gaf sig ekki að neinum og svaraði ekki ef á hann var yrt. Stundum var kallað á hann, „Hjálmar, Hjálmar...“, en hann virtist ekki heyra. Flestir í hópnum voru drukknir, margir dauðadrukknir. Sumir gerðu hróp að dyra- vörðunum sem horfðu áhyggjufullir á fólks- mergðina fyrir utan og hleyptu við og við nokkrum gestum inn í ríki útvalinna. Yms- um tókst að segja brandara sem þegar féllu í góðan jarðveg. Sumar konurnar reyndu áhyggjufullar að halda aftur af mönnum sínum en fórst það ekki vel úr hendi. Kona um fimmtugt hallaði sér upp að súlu og grét hátt með miklu táraflóði og milli ekka- soganna kallaði hún á einhvem mann sem greinilega var kominn inn. Síðan gekk hún völtum fótum brott og hvarf út í sortann. Það var greinilega fullt út að dyrum á Hótel Sögu þetta kvöld eins og önnur laugar- dagskvöld. Leigubílarnir komu hver af öðr- um og þungbúnir bílstjórar kvöddu farþega sína og óskuðum þeim góðrar skemmtunar. Sumir bflstjórarnir sögðu ekkert er kóf- drukknir farþegar þeirra klöngruðust út úr bflunum og bættust í röðina. Skyndilega var kallað háum rómi: „Hjálmar, hæ, Hjálmar, þú hér, gamli. seigur. . . auðvitað ert þú hér? Hvernig spyr ég.“ Hjálmar leit við og sá þann sem hrópað hafði. Hann var að koma út úr leigubíl og hélt á axlafullri Vodkaflösku. „Sæll, Siggi,“ sagði Hjálmar og rétti hon- um höndina. „Ert þú einn?“ „Nei, því miður. Heldurðu að maður sleppi einn út? Auðvitað er Hadda með mér. Hadda, hvar í andskotanum ertu?“ Nú kom Hadda til þeirra út úr þrönginni. „Jesús, ert þú hér,“ sagði hún, „ertu einn?“ Maður hennar svaraði fyrir Hjálmar: „Auðvitað er hann einn, ertu eitthvað skrítin manneskja? En hann verður ekki lengi einn, sannaðu til.“ Hann beindi orðum sínum að Hjálmari. „Þið getið það. Þið get- ið það, þessir karlar. Þið getið það sko.“ Hann rétti flöskuna að Hjálmari. „Þessir karlar geta það. Munur en við hinir.“ Siggi tókst allur á loft. „Djöfull maður! Þið getið allt. Allt. Svo megum við hinir ekkert." „Ji, Siggi, reyndu nú einnu sinni að þegja, fíflið þitt. Geturðu aldrei þagað? Aldr- ei getur þú haldið kjafti.“ Hadda horfði á mann sinn með fyrirlitningu og tók undir handlegg Hjálmars eins og til að vernda hann. Siggi tók við flöskunni hjá Hjálmari og fékk sér sopa. „Þegja manneskja, ertu vitlaus! Þetta er hann Hjálmar, þú þekkir hann Hjálmar. Auðvitað þekkirðu hann Hjálmar. Hjálmar á skrifstofunni. Hann er að halda upp á það að vera loksins laus og liðugur, fijáls eins og fuglinn. Maður verður að samgleðjast gömlum vini og starfsfélaga. Þessir karlar, þið þessir karlar. Djöfull maður. Þessir karl- ar!“ Hadda reif í bindið á Sigga og kippti honum að sér. Hún leit ásakandi á hann og reyndi að lækka róminn. „Já, en það var hún sem stakk af, asni. Veistu ekki að það var hún sem fór. Þú veist að hún stakk af með öðrum, fíflið þitt. Aldrei getur þú verið eins og maður.“ Hadda reyndi ekki lengur að hvísla. En Siggi tók engum sönsum. „Fór. Fór. Hvaða helvítis máli skiptir það? Sérðu ekki tækifærin manneskja. Sérðu ekki möguleik- ana sem þessir gæjar fá upp í hendumar? Sérðu aldrei neitt? Þú sérð aldrei neitt. Þessir karlar. Djöfull maður. Af hvetju ferð þú ekki? Þá fengirðu að sjá...“ Siggi tók andköf. Hann var orðinn skræk- róma og athygli fólksins beindist að þeim. Siggi rétti Hjálmari flöskuna. Hadda fór frá þeim og fann sér nýja viðmælendur. Siggi hallaði sér upp að Hjálmari. „Sérðu þessa,“ sagði hann og benti á áberandi drukkna konu sem stóð við dyrnar og beið. „Sérðu hana. Sérðu. Hún hleypir öllum upp á sig, bókstaflega öllurn." Sigurð- ur lækkaði róminn og skáskaut augunum til Höddu sem virtist alveg hafa gleymt þeim. „Ég komst einu sinni upp á hana. Og þá var hún meira að segja gift. Hún er skilin núna, alveg eins og þú, lukkunnar pamfíll. Ég skal kynna ykkur. Hvað gerir maður ekki fyrir vini í nauð. Hún er bijál- uð, alveg bijáluð, uss, uss!“ Siggi þagnaði snögglega enda var Hadda komin til þeirra aftur og lét nú sem ekkert væri. Hún tók undir arma þeirra beggja og leit á Hjálmar. ,,Af hvetjú kfehiúrðu ekki í níát' til dkkár einhvern tíma? Það hlýtur að vera alveg hræðilegt að vera alltaf einn á kvöldin. Við skulum ná í þig ef þú vilt. Það hlýtur að vera agalegt að vera svona einn.“ Hadda hallaði sér upp að Hjálmari. „Hvaða helvítis kjaftæði er þetta í þér manneskja?“ Sigurður starði á konu sína. „Hann hefur sko annað að gera á kvöldin en éta, skal ég segja þér.“ Siggi gaf Hjálm- ari kankvíst olnbogaskot. „Sérðu ekki mögu- leikana manneskja, tækifærin. Éta, éta! Hver heldurðu að hafi áhuga á því, svona, fáðu þér einn drengur. Éta, hún er bijál- uð.“ Siggi rétti Hjálmari flöskuna. Hadda starði á mann sinn eins og hún sæi hann í fyrsta sinn. Öll viðleitni til að tala lágt og hvísla var nú gleymd. „Alltaf þarftu að láta eins og fífl. Ætlarðu aldrei að verða eins og maður, aldrei ALDREI. Heldurðu að þú getir nokkurn tíma orðið öðruvísi en þetta pakk sem ól þig upp, PAKK!“ Siggi starði á konu sína þegjandi. Síðan leit hann undan, fékk sér sopa úr flöskunni og gekk burt. Hann gaf sig á tal við fólk sem hann virtist þekkja vel. Hadda greip í handlegg Hjálmars og hallaði sér upp að brjósti hans. „Ekki veit ég hvernig ég get verið gift þessu fífli — tólf ár — TÓLF ÁR — hugs- aðu þér. Tólf ár með þessum idíót.“ Tárin runnu niður kinnar Höddu. „Aldrei neinar tilfinningar — engin blíða.“ Hún beit á vör- ina. „Ég hefði náttúrlega getað losað mig við hann og fengið eitthvað betra. Maður hefur auðvitað fengið tilboð. — Bara aldrei þorað neitt, eitt eða neitt. Svo eru það börn- in. — Jesús minn, komdu einhvern tíma í mat til okkar. Það er aldrei hægt að tala við þennan aumingja." Hjálmar játti og þakkaði fyrir. „Hefurðu eitthvað heyrt af Birnu,“ spurði hún. „Ég frétti að hún sé farin að búa. — Ekkert skil ég í svona fólki — eiga yndisleg- an mann, einbýlishús og Volvó og fara svo með — falla fyrir pípulagningarmanni, PÍPULAGNINGARMANNI! Hvað er hægt að tala um við pípulagningarmann — klós- ettið kannski — ég meina — hann getur ekki verið eins — þú veist — ekki alveg eins. Ég er náttúrlega ekki fordómafull — en drottinn minn — pípulagningarmaður. Hvaða matur finnst þér bestur? Komdu annaðkvöld. Hvert skyldu þau fara að skemmta sér? Ætli þau fari ekki í Glæsibæ, almáttugur GLÆSIBÆ!" Nú kom Siggi til þeirra og.veifaði flösk- unni. Hann var sýnu drukknari en áður. „Hvað ertu að hanga utan í honum mann- eskja — ætlarðu að eyðileggja allt fyrir honum? Heldurðu að hann hafi komið hing- að til að hanga með þér í allt kvöld? Ætl- arðu að eyðileggja fyrir honum heilt laugar- dagskvöld? Tækifærin manneskja — MÖGU- LEIKARNIR. Gamli seigur. Lukkunnar pamfíll. Þessir karlar geta það. Hérna fáðu þér einn. — Blessaður góði vertu ekki að koma til okkar að éta. Það er bara tímasó- un. Þú færð bara lambalæri hvort sem er. Það er það eina sem hún kann að malla.“ Siggi beindi nú orðum sínum til Höddu. „Hvað hefur hann að gera við steikt lamba- læri þegar nóg er af lifandi og sprellfjörugu lamba...“ „Geturðu aldreið þagað, idótinn þinn, þegar almennilegt fólk er að tala saman. Ekkert nema kjafturinn. Læri — lifandi læri.“ Hadda var nú farin að beina orðum sínum til allra viðstaddra. „Hann veit ekk- ert um þau, það eitt get ég sagt ykkur.“ Hún benti á lærin á sér. „Hvað er þetta, Siggi, geturðu sagt mér það?“ Rödd hennar var nú orðin há og skræk. „Eru þetta ekki lifandi læri. Eða ertu kannski búinn að gleyma því eftir allan þennan tíma? Hvenær komstu síðast við ...“ „Haltu kjafti, helvítist bikkjan þín.“ Siggi þreif til Höddu og slengdi henni niður í götuna. Flaskan féll á eftir henni og brotn- aði. Einhver greip í hann og hélt honum. Hadda hágrét meðan Hjálmar reisti hana á fætur og reyndi að koma lagi á fötin hennar. Nú brast stífian skyndilega. Dyrnar opn- uðust og fólkið þyrptist inn. Siggi barst inn með straumnum. Síðan var dyrunum lokað. Hadda var nú farin að ná sér. „Ég fer ekki þarna inn. Til hvers líka. Þessi ljand- ans fauti má eiga sig. Ég fer sko heim. Sá skal fá fyrir ferðina.“ Um leið og Hjálmar studdi hana inn leigubílinn stundi hún: „Þú kemur einhvern tíma í mat til okkar, ha? — Pípulagningar- maður ... Hvað er hægt að tala um við .. Bílhurðin skall að stöfum og Hadda hvarf út í nóttina. Hann gekk að dyrunum. Hann var einn. Fyrstu leigubílarnir voru farnir að bíða eft- ir fólki. Höfundur er kennari í Reykjavik. LESBÖK MORGUNBLAÐSINS 17. FEBRÚAR 1990 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.