Alþýðublaðið - 25.03.1987, Blaðsíða 4
alþyðu-
blaðlð
Miðvikudagur 25. mars 1987
Alþýðublaðið, Armúla 38, 108 Reykjavík
Sími: (91) 681866, 681976
Útaefandi: Rlafl hf
Rilstjórar: Árni Gunnarsson og Ingólfur Margeirsson
Blaðamenn: Örn Bjarnason, Asa Björnsdóttir, Kristján Þor-
valdsson og Jón Daníelsson
Framkvæmdastjóri: Valdimar Jóhannesson
Skrifstofa: Halldóra Jónsdóttir og Eva Guömundsdóttir
Setmng og umbrot Alprent hf., Armúla 38
Prentun: Blaðaprent hf., Síðumúla 12
Askriftarsíminn
er 681866
Myndaröð af einni og sömu persónu var sérgrein tVarhols. Hér sjást nokkrar mynda hans af Ingrid Bergman.
ANDY
WARHOL
Verksmiðjulist og samfélagsspegill
Með andláti bandaríska popplistamannsins Andy War-
hol, í síðasta mánuði er lokið all-sérstæðum kafla í lista-
sögu eftirstríðsáranna. Svo frægur og umtalaður var
hann fyrir framlag sitt til samtíma listsköpunar, að nær
allir vissu hver hann var og við hvað hann fékkst. Þótt
fagurfræðilegt gildi verka hans væri umdeilt, vakti sér-
kennileg notkun hans á kunnuglegu myndefni af síðum
dagblaðanna óskipta athygli.
Þótt listsköpun Andy Warholshafi vakiðmismikla hrifningu, mynda verkhanssérstakt listasögulegt timabil. Hér
er listamaðurinn ásamt myndum af Marilyn Monroe.
Það var í byrjun 7. áratugarins að
Warhol vakti fyrst verulega á sér at-
hygli í listaheiminum sem hálfgild-
ings „frík“ eða fyrirbæri, með þvi
að stofna fjárgróðafyrirtæki kring-
um listaverkaiðnað og reisa verk-
smiðju, „The Factory", iðnfyrir-
tæki sem 40 manns störfuðu við
þegar hann lést.
Sú staðhæfing hans að list list-
anna væri að græða peninga,
hneykslaði ekki aðeins kollega hans
af Bítlakynslóðinni, heldur varð
hún lika til þess að rjúfa skarð í
ævagamlan varnarmúr kringum
listamannsgoðsögnina. Á meðan
aðrir listamenn brutu sér nýjar
brautir í Iistsköpun, gekk Warhol
um og hugleiddi söluhorfur og
ágóðahlut, fullviss þess að listin
breyti ekki lífinu, en sé hins vegar
góður söluvarningur.
Þegar Andy Warhol kom fram á
sjónarsviðið var tímabili módern-
ísku frumherjanna að ljúka og við
tók síðmóderníska tímabilið með
kæruleysislegri sjálfshæðni sem
helsta einkenni. Vitsmunalegar
dyggðir voru á bak og burt, en eftir
stóð yfirborðsleg glansmynd versl-
unarhyggjunnar. Warhol notfærði
sér það með betri árangri en flestir
aðrir.
Vélmenni
Andrew Warhola, eins og hann
hét réttu nafni, var af tékknesku
foreldri, fæddur í Fíladelfíu í
Bandaríkjunum árið 1930. Eftir að
hafa stundað nám við.tækniskóla,
fór hann til New York árið 1952 og
gerðist auglýsingateiknari og hönn-
uður. Mál auglýsinganna varð síðar
uppistaðan í öllu því sem hann tók
sér fyrir hendur sem listamaður.
Almennt var litið á hann sem lítt
áhugaverðan millilið milli óska
kaupandans og hinnar tilbúnu
vöru. Sjálfur kaus hann einnig að
líta þannig á. Hann skoðaði sjálfan
sig sem hinn kalda og ópersónulega
framleiðanda, sem aldrei þarf að
taka afstöðu með eða móti. „Ég vil
vera vél“, var ein af yfirlýsingum
hans, þveröfugt við listamenn
næstu kynslóðar á undan, sem
höfðu lagt áherslu á hið huglæga og
óútreiknanlega í verkum sínum. Og
árangurinn lét ekki á sér standa.
Warhol sigldi hraðbyri upp á
stjörnuhimininn sem meistari í list-
rænni túlkun á ofhleðslu og firr-
ingu nútíma samfélagshátta.
Hann sló í gegn árið 1962 með
nokkrum myndum, þar sem mynd-
efnið var sótt til þekktra hluta í vin-
sælda- og neyslusamfélaginu. Þar
gat m.a. að líta Campbells súpudós-
ir, fyrst einar sér á hvítum grunni,
síðan með ummerkjum um að þær
hefðu verið notaðar, líkt og á aug-
lýsingaspjöldum. En fáeinar súpu-
dósir segja litla sögu. Næsta skref
var að mála mynd þar sem 200
súpudósum var staflað upp í beinar
óendanlega langar súpudósaraðir,
líkt og í verksmiðju eða á stórmörk-
uðum.
Snargalinn
Flestir litu á þetta tiltæki, að gera
myndir af mörg hundruð súpudós-
um, kókflöskum eða hvað það nú
var, sem merki um að maðurinn
væri snargalinn. Og víst var þetta
geggjað uppátæki — svo geggjað
að það vakti athygli, bæði þá og síð-
ar.
Warhol öðlaðist frægð og viður-
kenningu einmitt vegna þess hve
samkvæmur hann var sjálfum sér í
öllu sem hann sagði og gerði.
Myndir hans, sem lýstu engu nema
yfirborðslegri glópsku, hafa með
tímanum orðið safngripir og verð-
mæti sem teljast hafa sögulegt gildi.
Fáir aðrir hefðu getað gert myndir
af leikfangabrúðum með bjánalegt
bros á andlitinu og haldið lista-
mannsnafni sínu eftir sem áður. Og
margir hefðu ekki átt sér viðreisnar
von eftir að hafa gefið út bók um
lífsfílósófíu sína, sem fólst í lýsing-
um á konfektáti og sjónvarpsglápi í
rúminu og bar titilinn „Frá A til B
og til baka aftur“.
Samræðulist Warhols þykir vel
lýst í eftirfarandi samtali við rithöf-
undinn William Burroughs, en ein
bóka hans varð upphaflega kveikj-
an að súpudósalistaverkunum.
Warhol: Ég skil ekki að strákur
skuli aldrei hafa gengið með barn.
Það hlýtur að vera hægt. Það hlýtur
að vera til eitthvert viðundur sem
vill reyna. Skrýtnir menn eru kall-
aðir snillingar, vegna þess að það
vantar í þá helminginn af heilanum
og þess vegna finna þeir upp ýmis-
legt sem engum öðrum dettur í hug,
eins og t.d. kjarnorkusprengjuna.
Þetta hlýtur að vera hægt.
Burroughs: Til er saga um það að
Múhameð sé endurfæddur, af karl-
manni.
Warhol: Hvaða Múhameð?
Burroughs: Uuuhhhmmm Mú-
hameð spámaður.
Warhol: Ah. Ég þekki marga bar-
þjóna sem heita Múhameð.
Rafmagnsstóllinn
Samt kom það fyrir að Warhol
gerði myndir sem höfðu sýnilegan
boðskap. Árið 1963 gerði hann
myndaseríu þar sem hann yfirfærði
endurtekningar auglýsingamálsins
yfir á endalausar endurtekningar
forsíðumynda dagblaðanna af stór-
slysum og ofbeldi. Sömu limlestu
líkin komu fyrir í mynd eftir mynd,
einnig rafmagnsstóllinn og annað
hrollvekjandi myndefni, þar til
áhrifamáttur myndarinnar var
þrotinn og ekkert var eftir nema
venjuleg fjölfölduð mynd úr dag-
blaði. Snjöll sálfræði brella til að
sýna fram á slævandi áhrif síendur-
tekinna mynda og frásagna fjöl-
miðlanna af ofbeldi og hörmung-
um.
Ofbeldi og sex, ásamt gersamlega
meiningarlausum hversdagsvið-
burðum voru einnig rauði þráður-
inn í kvikmyndum sem hann gerði á
7. áratugnum, myndum sem sýndar
voru í klúbbum og kjöllurum og
gerðu vægðarlaust grín að þeim
sem nenntu að horfa á þær. En þær
seldust og einnig þær hljómplötur
sem Warhol stóð að útgáfu á.
En allra frægastur er hann samt
fyrir andlitsmyndaseriur af þekktu
fólki, sem hann vann á léreft og í
silkiþrykk og fjöldaframleiddi.
Marilyn Monroe var sú fyrsta sem
hann tók fyrir á þennan hátt og
sennilega hefði stjarnan ekki orðið
ýkja hrifin, hefði hún séð árangur-
inn. Warhol sýndi hið fríða andlit
leikkonunnar óhamingjusömu sem
sálarlausa grímu, með því að end-
urtaka það 25 sinnum í glannaleg-
um, ósamstæðum litum.
Nærri allar andlitsmyndir hans
hafa yfir sér þessa ópersónulegu
fjarlægð, s.s. myndir af Liz Taylor,
Jackie Kennedy, Elvis Presley og
mörgum fleiri. Einstaka undan-
tekningar má þó finna, t.d. Goethe
og Maó, sem ekki verða innantóm-
ar grímur í meðferð hans og einnig
hefur nunnumyndin af Ingrid Berg-
man þótt sérkennilega vel unnin
með ferhyrningum og þríhyrning-
um í mismunandi litum sem mynda
kross.
Klessuverk
Andy Warhol vakti ekki aðeins
athygli fjölmiðla, heldur einnig
listagagnrýnenda. Fjöldi greina og
bóka hafa verið skrifaðar um hann
og list hans. Þar á meðal eru þó
nokkrir doktorar og þeir senda
honum óspart tóninn. Robert
Hughes, einn af þeim allra nei-
kvæðustu segir í bók sinni,
„Hneykslandi nýjungar“ að War-
hol sé út í gegn boðberi verslunar-
hyggjunnar og hann gagnrýnir
mjög þá listfræðinga sem efndu til
sérstakrar Warholsmessu til að rýna
í þá samfélagsádeilu sem þeir töldu
sig sjá á bak við tómlátt yfirborð
verka hans. Frumstætt fúsk, segir
Hughes.
Svo merkilega vill til að eitt af þvi
síðasta sem kom frá Warhol var ein-
mitt eitt ógurlegt svart klessuverk á
hvítu lérefti, sem gæti bent til þess
að staðhæfing hans „Ég les aldrei,
ég skoða bara myndir", hafi ekki
verið algerlega sönn.
Því verður varla neitað að það
listasögulega tímabil sem Warhol
skapaði, ef hægt er að kalla það því
nafni, hefur þó alltjent endurspegl-
að nokkuð af veruleika samtímans.
H'-. *t hann var aðeins hæfileika-
laus u ''’færissinni eða e.t.v. djúp-
hyggnari og glöggsýnni á samtím-
ann en flestir aðrir, má liggja milli
hluta í bili. Hvort heldur sem er var
hann svo þekktur og umdeildur að
nafn hans mun tæplega falla í
gleymsku.