Morgunblaðið - 17.04.2002, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 17.04.2002, Blaðsíða 4
Hugvísindastofnun Háskóla Íslands stendur fyrir ráð- stefnu um Halldór Laxness í tilefni af því að 100 ár verða liðin frá fæðingu hans 23. apríl næstkomandi. Ráðstefnan verður sett í Háskólabíói föstudaginn 19. apríl kl. 16.30 en setningarerindið flytur Magnús Magnússon rithöfundur og sjónvarpsmaður í Skot- landi. Bókmenntafræðistofnun, Edda – miðlun og út- gáfa, Stofnun Sigurðar Nordals og Morgunblaðið standa að ráðstefnunni ásamt Hugvísindastofnun. Reykjavík – Menningarborg, menntamálaráðuneytið og Sænska akademían styrktu ráðstefnuna. HALLDÓR Laxness er án nokkurs vafa einn af merkustu skáldsagnahöf- undum 20. aldar hvernig sem á það er litið. En þó að þetta sé almennt við- urkennt og þekktir fræðimenn og rit- höfundar hérlendis og erlendis láti það í ljósi, ekki síst um þessar mundir á 100 ára afmælisári skáldsins, er ekki hægt að segja að séu stundaðar víða Lax- nessrannsóknir. Þó að til sé ein ítarleg heildarúttekt á verkum Halldórs og ís- lenskir fræðimenn hafi gert mörgum einstökum þáttum í höfundarferli Hall- dórs skil í fræðiritum og greinum, þá vantar enn mikið upp á heilsteyptar og ítarlegar rannsóknir á ævi og verkum hans. Ævisaga Halldórs hefur ekki verið skrifuð ennþá og raunar ekki vitað til að hún sé í smíðum, fræðilegar útgáfur verka hans eru ekki til og svo má áfram telja. Þetta merkir auðvitað ekki að þögn sé um Halldór. Á undanförnum árum hafa aftur og aftur skapast líflegar umræður og deilur um hann í samfélaginu. Það sýnir hve miklu hann skiptir í ís- lenskri samtímamenningu. Íslenskir bókmenntafræðingar fjalla að sjálfsögðu um Halldór með margvíslegum hætti í skrifum sínum og verk hans skipta þvílíku máli í íslenskri bókmenntasögu að um hana verður tæplega fjallað án þess að greinilega finnist fyrir nærveru nóbelsskáldsins. Nú á 100 ára afmæli Halldórs er rétti tíminn til að gera verkum hans skil með þeim hætti sem aðeins er hægt á fjöl- mennri fræðilegri ráðstefnu. Það er von þeirra sem að ráð- stefnunni standa að það sem þar fer fram muni verða Lax- nessfræðum ferskur andblær. Slíkur andblær ætti einmitt að geta haft áhrif um þessar mundir. Upp á síðkastið hafa komið út nýjar þýðingar á verkum Halldórs í Evrópu og í Bandaríkjunum hafa uppseldar þýðingar verið gefnar út á nýjan leik við merkjanlegan fögnuð þarlendra fjölmiðla. Þá hafa komið út yfirlitsrit um líf Halldórs og verk hans, nú síðast bók eftir Halldór Guðmundsson í Þýskalandi. Hinar miklu og síendurteknu umræður um Halldór Lax- ness koma ekki í stað raunverulegra fræðilegra rannsókna. Hvort Halldór Laxness var stalínisti eða fórnalamb stalín- ismans breytir engu um það hvernig verk hans verða metin þegar fram líða stundir. Það sem skiptir máli í mati og end- urmati samtíðarinnar á Halldóri eru fyrst og fremst skrif og rannsóknir fræðimanna sem hafa lagt sig eftir verkum hans að hluta eða í heild sinni og fjalla um þau af skilningi og lærdómi. Tilgangurinn með Laxnessþingi er að halda áfram, efla og auka fræðilega umræðu um ævi og verk Halldórs Laxness. Á ráðstefnunni koma saman fræðimenn af ólíkum sviðum hugvísinda til að skiptast á skoðunum og rökræða ævi hans og verk einarðlega og spyrjast fyrir um erindi þeirra við okkar tíma. Hvernig á túlkun á verkum Halldórs eftir að breytast, hvernig munu verkin lifa án nálægðar höfundarins sjálfs? Þinginu er skipt í átta þematískar málstofur þar sem leit- ast er við að vekja umræður um tiltekinn þátt í ferli Hall- dórs. Fyrirlestrar eru allir jafnlangir eða 15 mínútur í flutn- ingi og gert er ráð fyrir að tækifæri gefist til umræðna í lok hverrar málstofu. Ætlunin er að skoða sem flestar hliðar höfundarverks Halldórs á þinginu: Glímt verður við leikrit hans og leikgerðir á verkum hans, greinaskrif, ljóð, skáld- sögurnar, stjórnmálaskrifin, goðsöguna Halldór Laxness og bækur hans skoðaðar í ljósi verka annarra höfunda. Túlkanir á Laxness hafa verið mjög bundnar við persónu hans, samfélagsádeilu og siðferðilegan boðskap verkanna. En nýjar kynslóðir fræðimanna og rithöfunda sjá Laxness í nýju ljósi og endurskapa verk hans með ferskum lestri. Laxnessþing á þannig að verða leið til þess að kafa ofan í höfundarverk Halldórs um leið og kynni við það eru end- urnýjuð og skilningur endurskapaður. Laxnessþing Ráðstefna um ævi og verk Halldórs Laxness Háskólabíó 19.–21. apríl 2002 Jón Ólafsson formaður framkvæmdastjórnar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.