Lesbók Morgunblaðsins - 18.08.2001, Síða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. ÁGÚST 2001
L
AGARFLJÓT er lygnt og líkist
helst stóru stöðuvatni“ ritar Egg-
ert Ólafsson í Ferðabók sinni
(1772). Hann kallar Lagarfljót
mesta vatnsfall landsins, og má það
til sanns vegar færa. Þó að nokkur
fljót séu lengri og vatnsmeiri, er
ekkert fljót á Íslandi til jafnaðar
eins djúpt og breitt eins og Lagarfljót. Það er
að miklum hluta skipgengt, eina straumvatnið
sem áætlunarbátar hafa gengið um hérlendis
og ganga enn. Þannig séð er það eina íslenska
vatnsfallið sem getur jafnast við stórfljótin í
útlöndum. Lygnt og breitt sígur það fram í
sinni „dreymnu ró“, víðast án þess að straumur
verði greindur, uns það fellur fram af kletta-
stalli, síðan aftur jafn værðarlegt, uns það
minnist við Jöklu í sameiginlegum ósi. Djúp
þess geymir marga dul sem vísindin hafa ekki
megnað að skýra. Fljótsdalur er kenndur við
Lagarfljót og Héraðið við dalinn.
Helstu einkenni
Lagarfljót er þannig skapað, að það er bæði
stöðuvatn og straumvatn, án þess að nokkur
glögg skil séu þar á milli. Eiginlega er það röð
af stöðuvötnum, sem vatnsfall rennur í gegn-
um. Það er 92 km að lengd, en 140 km ef Jök-
ulsá í Fljótsdal er talin með.
Efsta vatnið, sem nú kallast Lögurinn, er
langstærst, það þriðja stærsta á Íslandi að flat-
armáli og rúmmáli, um 25 km langt, allt að 2,5
km breitt, um 53 ferkm og rúmar um 2700 gl.
(Þingvallavatn og Þórisvatn eru stærri að fleti
en rúma svipað. Blöndulón er líka nokkru
stærra að fleti, en mun minna að rúmmáli). Það
er líka eitt dýpsta vatn landsins, um 50 m að
meðaltali og 112 m mest. Vatnsflöturinn er um
20 m yfir sjávarmáli, og nær botninn því allt að
92 m undir sjávarmál. (Sigurjón Rist: Vatns er
þörf. Rv. 1990). Þó ekki gæti sjávarfalla í Leg-
inum, eru þar breiðar fjörur, eins og á sjáv-
arströndum, en það stafar af vatnsborðssveifl-
um, sem geta verið nokkrir metrar. Ströndin
er á köflum nokkuð vogskorin og töngótt. Einn
tanginn heitir Skarfatangi. Nokkrir hólmar
eru við Lagarfljótsbrú vaxnir kjarri.
Utan við Egilsstaði eru fjögur minni stöðu-
vötn í farvegi fljótsins, sem kallast flóar og eru
kenndir við bæi sem við þá standa. Þeir eru
innan frá talið: Vífilsstaðaflói, Straumsflói,
Steinsvaðsflói og Víðastaðaflói. Flóarnir eru 1-
1,5 km á breidd og 1- 6 km á lengd. Dýpi hefur
lítið verið mælt í þeim, en talið er að flestir séu
grunnir, um 1-5 m.
Í Fljótinu er einn foss, sem fyrrum var tal-
inn einn mikilfenglegasti foss landsins, en er
nú ekki nema svipur hjá sjón, eftir að fall hans
var virkjað um 1975. Hann var oftast nefndur
Fossinn í Lagarfljóti, en í seinni tíð Lagarfoss,
eftir að samnefnt skip kom til sögunnar. Foss-
inn var tvískiptur, og var austurhlutinn fall-
foss, um 10 m hár, sem minnti á Goðafoss, en
vesturhlutinn flúð, um 100 m breið, með um 17
m falli. Nú er aðeins flúðin eftir, og getur enn
orðið býsna tilkomumikil þegar mikið vatn er í
fljótinu. (Glettingur 6 (2), 1996).
Vegna aðrennslis Jökulsár í Fljótsdal er
Lagarfljót með jökulvatnslit allt til ósa. Samt
er það mjög breytilegt að lit eftir árstíðum og
veðri, grátt, grágrænt, blágrátt, jafnvel heið-
blátt. Ekki er víst að það hafi alltaf verið svo.
Hluti þess a.m.k. var fjörður á síðjökultíma, og
á hlýskeiði fyrir um fimm þúsund árum, var
Vatnajökull svo lítill að það gæti hafa verið
tært. Gagnsæi er breytilegt eftir árstímum,
minnst á vorin í vatnavöxtum, um ½ m, mest
síðla vetrar, allt að 2,5 m.
Ytri og grynnri hluta fljótsins leggur vana-
lega í nóv.-des., en dýpsta hluta Lagarins
sjaldan fyrr en í febr.-mars, og stundum ekki.
Margar þversprungur myndast í Lagarísnum,
heyrast oft miklar drunur þegar hann spring-
ur, og stundum rís ísinn meðfram þeim. Ísinn
er fagurblár og tær þrátt fyrir gruggið í vatn-
inu, en kólfar og verður þá grænn á vorin. Ísa-
brot er vanalega um mánaðamótin apríl-maí.
Þverár
Fljótsdalsárnar eru í beinu framhaldi af
Lagarfljóti, en teljast þó ekki til þess í daglegu
tali. Keldá fellur af Hraunum, um Suðurdal
Fljótsdals, oftast blátær, enda kennd við keld-
ur í merkingunni lindir, með miklum hyljum og
fögrum fossaföllum í dalbotni, skemmtileg sil-
ungsveiðiá. Jökulsá kemur undan Eyjabakka-
jökli við rætur Snæfells, grá af jökulkorgi á
sumrum, og fellur um Norðurdal Fljótsdals.
Meðalrennsli er 27 m³/sek. Í henni er eitthvert
mesta fossaval sem um getur í jökulsám hér á
landi. (Glettingur 8 (1) og 8 (2-3), 1998).
Helstu þverár að austanverðu eru Gilsá,
Grímsá og Eyvindará. Grímsá kemur úr Skrið-
dal. Í henni er Grímsárvirkjun, byggð 1956-58
við Grímsárfoss, sem þá var þurrkaður. Allar
eru dragár og hafa mjög breytilegt rennsli.
Morgunblaðið/Guttormur
Lagarfljót er að miklum hluta skipgengt, eina straumvatnið sem áætlunarbátar hafa gengið um hérlendis og ganga enn. Myndin er tekin frá Geitargerði.
LAGARFLJÓT – MESTA
VATNSFALL LANDSINS
E F T I R H E L G A H A L L G R Í M S S O N
„Lagarfljót er þannig skapað, að það er bæði stöðu-
vatn og straumvatn, án þess að nokkur glögg skil séu
þar á milli. Eiginlega er það röð af stöðuvötnum, sem
vatnsfall rennur í gegnum. Það er 92 km að lengd, en
140 km ef Jökulsá í Fljótsdal er talin með.“