Lesbók Morgunblaðsins - 29.09.2001, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 29.09.2001, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. SEPTEMBER 2001 9 útbyggingu, talsvert mjórri en sjálft kirkju- skipið. Sérkennilegt er, að báðum megin kórsins eru steinsteyptar súlur, sem koma saman í boga að ofanverðu. Sjá má, að þessi bogi hefur ekki verið steyptur í mótum, held- ur er hann handgerður úr steinsteypu af miklum hagleik. Ekki var hann einungis gerður til skrauts. Það sést því miður ekki lengur, en neðst í súlunum voru kolaofnar til upphitunar á kirkjunni og reykurinn steig upp í gegnum súlurnar og bogana og þaðan upp í reykháf. Það endist oft illa sem ekki er notað og ef til vill hafa ofnarnir verið farnir að ryðga, eða ekki þótt vera prýði að þeim í svo prýðilegri kirkju. Þeir voru lagðir af og nú er rafhitun í kirkjunni. Til altaristöflunnar var ekkert sparað. Þór- arinn B. Þorláksson, einn af brautryðjend- unum í íslenzkri málaralist, fékk það hlutverk að mála stóra altaristöflu. Hvort Þórarinn valdi myndefnið er ekki vitað, en svo fór að hann málaði eftirmynd af altaristöflunni í Dómkirkjunni í Reykjavík; upprisumynd eftir danska málarann Wegner. Þessi eftirmynd Þórarins er þó talsvert skýrari í lit en fyr- irmyndin og ber þess vitni, að Þórarinn hefur kunnað vel sitt akademíska fag. Að hætti tíð- arinnar var veglegur rammi, bogadreginn að ofan, smíðaður utan um verkið. Ingjaldshólskirkja býr óvenjulega vel af altaristöflum, því að tvær eldri voru til og eru varðveittar í kirkjunni. Önnur þeirra er íburðarmikið verk sem sýnir guðspjallamenn- ina fjóra. Hana gaf kaupmaðurinn í Rifi, Pet- er Nocolai Winge, kirkjunni árið 1709. Bæði málverkið og skrautleg umgjörð bera vott um tízku barokktímans, sem var þó að víkja fyrir fínlegra afbrigði, rókókóstíl, um þetta leyti. Þegar þessi höfðinglega gjöf barst kirkjunni hefur þótt við hæfi að taka niður þá alt- aristöflu sem fyrir var, enda er hún mun frumstæðari og minni. Um aldur hennar er ekki vitað, en hún mun hafa verið í kirkjunni, sem endurbyggð var á Ingjaldshóli 1696. Í úttekt yfir gamla muni kirkjunnar segir Matthías Þórðarson fornminjavörður svo árið 1911: „Gömul altaristafla með tveimur engl- um, sól og tungli o.fl. Líklegt þykir, að veg- legri rammi hafi áður verið utan um þessa mynd, sem til stóð að farga, en tókst sem betur fór að bjarga.“ Nútímalist hefur ratað inn í kór kirkjunnar með því að Leifur Breiðfjörð hefur unnið glerlistaverk í tvo hliðarglugga. Þeir eru of litlir til þess að verkin skipti verulegu máli og þar að auki kann að vera vafasamt að steind- ir gluggar af þessu tagi eigi alls staðar við. Leifur er á heimsmælikvarða sem kirkju- listamaður, en gluggarnir í kór Ingjaldshóls- kirkju eru það smáir að glerið skiptir engum sköpum fyrir kirkjuna. Af öðrum gripum kirkjunnar má nefna gamla skírnarskál frá um 1700 og skírnarfont sem Ríkarður Jónsson skar út skömmu áður en hann lézt. Ekki hefur tekizt að halda prédikunarstólnum í þeirri mynd sem var í endurbyggðri Ingjaldshólskirkju 1782 og danskur maður lýsti m.a. svo, að þar væri prédikunarstóll skreyttur haglega skornum myndum af postulunum. Þessar tréskurð- armyndir urðu af einhverjum ástæðum við- skila við prédikunarstólinn og eru nú varð- veittar á Þjóðminjasafninu. Sjálfur prédikunarstóllinn er nú hvítmálaður og fremur fátæklegur, enda rúinn skarti sínu. Kirkjan er björt og falleg þegar inn er komið; súlurnar og tréverkið undir söngloft- inu hvítmálað, svo og veggirnir og steinbog- inn yfir kórnum. Hvelfingin er máluð dökkblá, sett gylltum stjörnum, rautt teppi á gólfi, en fallegur viður fær að njóta sín í kirkjubekkjunum. Á hvorri hlið eru þrír stór- ir járngluggar með 36 rúðum, bogadregnir að ofan. Til fyrirmyndar má telja hvernig gengið var frá safnaðarheimili, sem nýlega hefur verið tekið í notkun. Utan frá sést það ekki og skyggir því ekki á nokkurn hátt á kirkj- una. Úr forkirkju er gengið niður í safn- aðarheimilið, sem er neðanjarðar, en opnast vestur úr hólnum; þar eru dyr og gluggar. Sú saga hefur gengið frá kynslóð til kynslóðar, að Kristófer Kólumbus hafi haft vetursetu á Ingjaldshóli árið 1477. Hann hafi þá siglt skipi sínu að Rifi, þangað kominn til að kynna sér Vínlandssiglingar Íslendinga. Ekk- ert mun vera þessu til staðfestingar, en í safnaðarheimilinu er stórt málverk sem kirkjunni var gefið og fjallar um þetta efni. Það er eftir Áka Gränz og sýnir Kólumbus að skoða uppdrátt ásamt skipsfélaga sínum, en Ingjaldshólskirkju í baksýn, svo og Snæfells- jökul. Fyrri tíma kirkjur á Ingjaldshóli Ingjaldshóll var höfuðból og höfðingjasetur í margar aldir og kemur við sögu bæði í Víg- lundar sögu og Bárðar sögu Snæfellsáss. Bendir það til þess, að jörðin hafi verið talin höfuðból á ritunartíma sagnanna. Þar varð snemma kirkjustaður og lögskipaður þing- staður og þá um leið aftökustaður saka- manna. Undir staðinn heyrði Rifshöfn eða Rifsós, fiskihöfn og verzlunarstaður, þar sem Björn hirðstjóri Þorleifsson féll í viðureign við enska kaupmenn 1467. Ekki er talið að sóknarkirkja hafi verið á Ingjaldshóli fyrr en 1317, en áður hafði verið þar bænhús. Til er þjóðsaga um upphaf kirkju á Ingjaldshóli, sem varðveitt er í þjóð- sagnasafni Jóns Árnasonar. Þar segir frá sakamanni undan Jökli sem dæmdur var til lífláts um það leyti er kristni var lögtekin á Íslandi. Eitthvað er sú tímasetning undarleg, því maðurinn átti að hafa verið fluttur utan til aftökunnar og þar þáði hann líf af kóng- inum fyrir að vísa honum á mikla fjársjóði, en setti að skilyrði, að kóngur léti reisa timb- urkirkju á Ingjaldshóli á Snæfellsnesi. Sú kirkja reis; hún átti að hafa verið afar stór, en verið minnkuð fyrst eftir svartadauða og aftur eftir stórubólu. Þar segir og, að í ofsa- veðri árið 1694 hafi kirkjuna tekið ofan niður að bitum og að 1696 hafi hún verið byggð upp að nýju. Síðasta ártalið er að minnsta kosti rétt; þá var byggð á Ingjaldshóli stór og sterklega viðuð kirkja samkvæmt konungsbréfi. Hún kostaði 400 ríkisdali og lögðu allar kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi fé til hennar. Svo stór var þessi kirkja, að 360 manns voru þar við messu á nýársdag; ótrúlegt er þó að allir hafi fengið sæti. Þetta fjölmenni á sína skýringu í því, að á vetrarvertíðum var fjöldi aðkomu- manna í verstöðvunum undir Jökli. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sáu kirkjuna á yf- irreið sinni árið 1754 og segja svo um hana: „Á Ingjaldshóli er timburkirkja sem gengur næst dómkirkjunni að stærð allra kirkna landsins enda er hér fólkflesta sókn lands- ins.“ Í þessari kirkju hékk að líkindum uppi elzta altaristaflan og á prédikunarstólnum voru postulamyndirnar, sem áður var minnst á. Til var kirkjuklukka með ártalinu 1693, sem verið hafði í þessari kirkju. Af ein- hverjum ástæðum var hún ekki notuð, en geymd í Ólafsvíkurkirkju eftir því sem Matthías Þórðarson skráði 1911, en nú mun ekki vitað hvað af henni hefur orðið. Ef til vill hefur hún ekki þótt hljómfögur og verið tekin niður þegar Guðmundur Sigurðsson sýslu- maður og tengdafaðir Eggerts Ólafssonar gaf nýja kirkjuklukku. Hún er enn í kirkjunni, ársett 1743 og með henni önnur, ársett 1735. Þessi myndarlega kirkja var á níræðisaldri árið 1782 og þótti þá tímabært að endur- byggja hana. Orðlagður smiður var fenginn til verksins: Ólafur Björnsson bíldhöggvari á Munaðarhóli. Danskur kaupmaður í Ólafsvík gaf á henni svofellda lýsingu: „Kirkjan er úr timbri, klædd utan með borðum og tjörguð. Aðrar dyrnar eru á vest- urgafli en hinar á norðurhlið. Loft er í henni sem nær inn að prédikunarstólnum sem er hér um bil í miðri kirkju. Í kórnum eru fjórir bekkir – til allra hliða og sitja þar karlmenn. Við altarið og við prédikunarstólinn eru smá- gluggar og á þakinu eru nokkrar rúður. Fyr- ir tveimur innstu bekkjum eru vel útskornar tréhurðir og eins er fyrir kórnum. Prédik- unarstóllinn er skreyttur haglega skornum myndum af postulunum. Altaristaflan er mynd af kvöldmáltíðinni, vel máluð, gefin af þýzkum kaupmönnum sem hér hafa verzlað.“ Hér hefur sá danski blandað málum og á augljóslega við hina veglegu altaristöflu, sem Winge kaupmaður í Rifi gaf kirkjunni 1709. Eftirtektarvert er, að hurðir eru hafðar fyrir innstu bekkjunum og sömuleiðis fyrir kórn- um. En það er ljóst, að hér hefur verið vel búin kirkja og tréskurður Ólafs bíldhöggvara hefur ugglaust sett mikinn svip á hana. Enn er hún næst dómkirkjunum tveimur að stærð; það staðfestir Ebeneser Henderson árið 1815: „Kirkjan hér er næst kirkjunni að Hólum og í Reykjavík (áður Skálholti) að stærð. Hún er úr timbri en tekin að hrörna fyrir það að hafa ekki verið bikuð.“ Þessi kirkja stóð þar til steinkirkjan reis 1903. Hún var þó farin að láta verulega á sjá á síðasta tugi 19. aldarinnar og í vísitas- íugjörð frá árinu 1891 segir Hallgrímur bisk- up Sveinsson, að hún sé mjög gölluð og þarfnist mikillar endurbótar. Þessi síðasta timburkirkja á Ingjaldshóli stóð eins og áður var nefnt í kirkjugarðinum. Þar má sjá stóra og veglega legsteina Magnúsar Jónssonar lögmanns sem lézt árið 1694 og Guðmundar Sigurðssonar sýslumanns frá árinu 1753. Eggert Ólafsson tengdasonur hans lét gera steininn, en norðan við kirkjugarðinn og nær steinkirkjunni stendur nýlega reistur minn- isvarði um hjónin Eggert Ólafsson og Ingi- björgu Guðmundsdóttur: Tveir mannhæð- arháir steinar, sem Páll Guðmundsson myndhöggvari á Húsafelli hefur mótað lág- myndir í. Steinarnir standa saman; milli þeirra er aðeins mjótt bil. Þegar horft er í gegnum það sést yfir Breiðafjörðinn upp á Rauðasand, þar sem Eggert „ýtti frá kaldri Skor“. Kór kirkjunnar ofan af söngloftinu. Hér sést vel hinn handgerði steinbogi sem áður gegndi hlut- verki reykháfs, en ofnarnir eru ekki notaðir lengur. Ingjaldshólskirkja og minnismerki eftir Pál Guðmundsson um Eggert Ólafsson og Ingibjörgu Guðmundsdóttur. Brautryðjandinn Þórarinn B. Þorláksson málaði altaristöfluna. Hún er eftirmynd af altaristöfl- unni í Dómkirkjunni í Reykjavík, en lítið eitt frábrugðin í lit. Höfundur er blaðamaður.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.