Lesbók Morgunblaðsins - 24.08.2002, Side 4
U
M miðjan fimmta áratug
síðustu aldar vafrar ungur
maður um götur New
York borgar. Í staðinn
fyrir að vera í skólanum
er hann að fylgjast með
mannlífinu. Unglingurinn
kemur að sorgmæddum
sölumanni í blaðsöluturni. Maðurinn lætur
sig engu skipta þegar drengurinn tekur upp
myndavél og smellir af honum mynd.
Nokkrum dögum síðar birtist myndin á for-
síðu tímaritsins Look. Ljósmyndaranum
tókst að mynda tilfinningar heillar þjóðar í
sorg vegna dauða Franklins Delano Roose-
velts, forseta Bandaríkjanna, en fyrir vikið
festist nafn ljósmyndarans í huga glöggra
manna og frammistaða hans þar gaf honum
tækifæri til að reyna fyrir sér í kvikmynd-
um. Drengurinn var leikstjórinn frægi
Stanley Kubrick (1928–1999).
Hjá tímaritinu Look starfaði Kubrick í
lausamennsku frá árinu 1945 allt til ársins
1951. Þá fór fyrst að kveða að leikstjóra-
hæfileikum hans en á ferlinum gerði hann
þrettán kvikmyndir í fullri lengd. Það er
ekki ýkja mikið miðað við það hversu lengi
hann starfaði við greinina, þó er sérstaklega
aðdáunarvert að Kubrick gerði kvikmynd í
flestum kvikmyndagreinum. Slíkt vekur þá
spurningu hvort hægt sé að greina einhver
sérstök einkenni eða minni í annars ólíkum
kvikmyndum hans. Til að athuga það má
byrja á því að líta til ársins 1979 en um mitt
árið var hópur fólks að vinna við nýja kvik-
mynd í EMI Elstree Studios kvikmynda-
verinu við Borehamwood í Englandi. Við
stjórnvölinn var Stanley Kubrick og við-
fangsefnið var hryllingsmyndin The Shining
(1980).
Á því tímabili er leikstjórinn sagður hafa
hringt í Stephen King, höfund samnefndrar
bókar, en Kubrick hafði ásamt Diane John-
son gert handrit kvikmyndarinnar. Hann
vekur King snemma morguns með símtali
sem mun hafa verið í styttra lagi. Kubrick
vildi vita hvort King tryði á líf eftir dauðann
og svaraði King spurningunni játandi. Ku-
brick spyr þá aftur hvort það þýði að allar
hryllingssögur séu á endanum bjartsýnar;
hver er hryllingur dauðans ef það er líf eftir
dauðann? King spyr þá Kubrick: „Stanley,
hvað með helvíti?“ Kubrick svarar: „Ég trúi
ekki á helvíti!“ og slítur símtalinu.
Spurning Kubricks til Kings er síður en
svo flókin því yfirleitt trúir fólk annaðhvort
á líf eftir dauðann eða ekki. Afstaða Ku-
bricks er ekki augljós en önnur spurning
nokkuð skyld þessari væri hvort Kubrick
hafi trúað á Guð. Það er ekki hægt að svara
því með fullri vissu en eitt er víst, í kvik-
myndinni The Shining (1980) leika dularfull
öfl lausum hala og öll trú á skynsemi verður
að engu. Þarna er á ferðinni ákveðið minni
sem er ætíð sterkt í kvikmyndum Kubricks.
Átök tveggja heima: Í senn ytri þættir og
innra líf sálarinnar. Þetta eru ofuröfl og of-
urátök; átök raunveruleika og fantasíu.
Tvískiptingu þá er finna má í kvikmynd-
um Kubricks má kenna við tvo heima:
Venjulegan og óvenjulegan heim. Venjulegi
heimurinn er oft sá heimur sem „venjulegt“
nútímafólk þekkir kannski hvað best en
óvenjulegi heimurinn er hinsvegar dularfull-
ur og fjarstæðukenndur. Það er heimur án
reglna og ef það fyrirfinnast reglur í þeim
heimi eru þær undarlegar og óskynsam-
legar. Átök milli þessara tveggja heima má
að einhverju leyti finna í öllum kvikmyndum
Kubricks.
Til umfjöllunar hér á eftir eru tvær kvik-
myndir Kubricks sem virðast við fyrstu sýn
nokkuð ólíkar, enda tilheyra þær mismun-
andi kvikmyndagreinum, 2001: A Space
Odyssey (1968) er vísindakvikmynd og The
Shining (1980) er hryllingsmynd. Í þessum
kvikmyndum eru þó átök tveggja heima
skýr.
Togstreita tveggja heima
Í riti sínu The Birth of Tragedy (1967)
heldur Friedrich Nietzsche því fram að í
mannssálinni takist á tvö öfl. Það eru skyn-
semi og tilfinningar. Í gríska goðaheiminum
tákna Apollon og Díónýsus þessi öfl. Apoll-
on-aflið (skynsemin) leitar jafnvægis í
skipulagningu og álítur alla lífsfyllingu að
finna í þessum heimi. Fylgjendur Díónýsus-
ar (tilfinninga) trúðu hinsvegar á annan
heim þar sem hið sanna væri að finna. Með
drykkju og villtri hegðun gætu þeir komist í
samband við þennan heim.
Friedrich Nietzsche velur grísku goðin
Apollon og Díónýsus sem tákn fyrir tvö öfl
mannssálarinnar. Hagsýni og skynsemi eru
tákn guðsins Apollons en í kynlegum heimi
Díónýsusar ríkir brjálsemi og óstjórn.
Andstæðurnar skynsemi og tilfinningar,
tvö öfl sem herja á mannssálina og form
tveggja heima, eru því Nietzsche hugleikn-
ar. Birting þeirra í listum eru í formi
raunsæis og fantasíu. Þessi kenning
Nietzsches er grunnur margra fræðimanna
sem skrifað hafa um þessa tvo heima. Í bók-
inni The Fantastic: A Structural Approach
to a Literary Genre (1987), telur Tzvetan
Todorov fantasíuna vera „hikið“ sem verður
þegar ekki er mögulegt að ákveða hvort at-
riði í atburðarásinni gerist á raunverulegum
forsendum eða yfirnáttúrulegum. Að lokum
slítur lesandinn sig þó yfirleitt frá þessu
„hiki“ en þá hefur hann um tvennt að velja:
Ókennd (e. uncanny) eða hið undursamlega
(e. marvelous).
Þegar lesandinn upplifir ókenndina getur
atburður verið mjög dularfullur og jafnvel
ógnvekjandi en samt er hann móttækilegur
fyrir forsendum raunveruleikans – fantasían
er útskýrð. Hið undursamlega á sér hins-
vegar stað þegar lesandinn samþykkir und-
ur verksins á nýjum forsendum og jafnvel
nýjum lögmálum. Þar eru atburðir ekki mót-
tækilegir fyrir forsendum raunveruleikans,
og nær því lesandinn fullri innlifun í heimi
fantasíunnar — fantasían er samþykkt. Hin
fullkomna fantasía er togstreitan sem mynd-
ast milli þessara tveggja skiptinga.
STANLEY KUBRICK:
HÖFUNDUR
TVEGGJA HEIMA
E F T I R A R N A R PÁ L S S O N
Í kvikmyndinni The Shin-
ing (1980) leika dularfull
öfl lausum hala og öll trú
á skynsemi verður að
engu. Þarna er á ferðinni
ákveðið minni sem er
ætíð sterkt í kvikmyndum
Stanleys Kubricks. Átök
tveggja heima: Í senn ytri
þættir og innra líf sálar-
innar. Þetta eru ofuröfl og
ofurátök; átök raunveru-
leika og fantasíu. Auk
The Shining verður hér
fjallað um 2001: A
Space Odyssey.
Stanley Kubrick
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. ÁGÚST 2002