Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Page 6

Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Page 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. APRÍL 2004 L jóð er lífvera sem einhver hefur of- ið úr orðum, hugsunum, þrám, kenndum, minningum, órum og sögum. Það kemur úr fylgsnum skáldsins en við vitum ekki hvernig það rataði þangað inn og hvernig það breyttist í hugar- fylgsnunum áður en það leitaði á ný út í ljósið. Það fólk – það sárafáa fólk – sem er skáld hefur til að bera eiginleika sem kalla mætti sagnaranda eða ófreskigáfu, það sér þær huldu vættir sem búa innra með samferðafólkinu. Það skynjar með öðrum orðum kenndir annarra, gerir að sínum og færir í orð. Iðulega er þetta ómeðvitað. Þess vegna eru ljóð dularfull og geyma leynd- ardóm. Í þeim búa kenndir og þrár og orð- lausir draumar. Í ljóðum er það að finna sem ekki verður sagt berum orðum – þar eru orðin ekki ber, ljóð eru aldrei berorð. Í ljóð- um eru orðin umvafin slæðum því að skáldin eru ekki bara gædd sagnaranda og ófreski- gáfu heldur eru þau jafnframt og um leið svikamiðlar. Ljóðin eru miðilsfundir eins og Lára miðill hélt í byrjun 20. aldar og svip- irnir sem vakna af lestri þeirra reynast í dagsljósinu einungis vera skrautlegar slæð- ur. Ljóð eru ekki heimildir um líf og hugsanir þess skálds sem þau orti. Og þau eru al- mannaeign, skáldið hefur ekkert um það að segja hvað við lesum út úr þeim. Meðal þess sem við getum reynt að lesa úr gömlum ljóð- um eru grunsemdir um bældar hvatir fyrri tíma, dulda drauma sem svifu óhugsaðir og óhugsandi yfir vötnum – orðlausa drauma. Ljóð eru lífverur sem þvælast um sam- félagið löngu eftir að rauntími þeirra er lið- inn og verða sum æ afkáralegri eftir því sem þjóðfélagslegt samhengi þeirra verður and- stæðara þeim. Enn ganga um á meðal okkar meira og minna út úr kú ljóð Jónasar Hall- grímssonar, fölskvalaus og fögur og dálítið slompuð; ljóð Einars Benediktssonar ryðjast hér enn um bekki og halda að allir séu enn að hlusta, fjálgleg, sjálfumglöð og vel slomp- uð; einhvers staðar úti í horni liggja afvelta mansöngvar Sigurðar Breiðfjörð klökkir og langdrukknir. Tímaskekkjan hrífur mig. Ég opna gamla ljóðabók og við mér blasir spanskgrænan. Orðin lifna á gulnuðum síðum. Það er reimt í stofunni. * Þjóðfélagslegt hlutverk ljóðagerðar hefur breyst. Hún er einkalegri en áður, nánast prívatmál skáldsins sem yrkir. Fram að miðri tuttugustu öldinni gegndi ljóðlistin hins vegar miklu stærra hlutverki hér á landi – sennilega einstæðu í öllum hinum vestræna heimi – því skáldin höfðu stærri og samsettari áheyrendahóp en seinna varð hér og tíðkaðist annars staðar í Evrópu. Háir sem lágir lásu skáldin, lærðu kvæðin þeirra og gerðu að sínum, notuðu þau til að finna orðlausum draumum sínum stað. Þetta gilti sérstaklega um Davíð og Tóm- as. Þeir ortu ekki einungis fyrir sjálfa sig og kannski „sjálft Ljóðið“ heldur þurftu þeir að gera ráð fyrir því að ólíkt fólk reyndi að finna sér stað í ljóðum þeirra. Listamanns- gervi þeirra var vissulega mjög mótað: Dav- íð landshornaflagari með barðastóran hatt sem engri gat bundist og var rekinn áfram af stöðugri innri órósemi og hafði djúpa rödd og elskaði blóðþyrstar kynbombur sem hétu nöfnum eins og Tina Rondoni; Tómas mein- laus og kátur og pínulítið angurvær með svörtu stúdentshúfuna skakka á hausnum og fimmaurabrandara á vörum … Báðir leyfðu sér engu að síður tilraunir til að prófa ný gervi, nýjar raddir, nýja vitund – þeir þurftu líka að bregða sér í konulíki – eða svo við notum nútímalegra orðalag – að bregða sér í dragg. * Svartar fjaðrir eftir Davíð sló í gegn þeg- ar hún kom út árið 1919. Hún þótti ekki síst höfða til ungra og eignalítilla kvenna og var kölluð vinnukonubók í niðrunarskyni, enda þótti menntamönnum þá engir lesendur frá- leitari en vinnukonur. Sagt hefur verið að Davíð hafi gefið þessum ungu konum ljóð sem túlkuðu drauma þeirra og þrár – kannski það – ég er samt ekki alveg viss: hann höfðaði til þeirra kynferðislega, skap- aði handa þeim kynferðislegar fantasíur að skemmta sér við. Í ljóðum hans í þessari bók er kynferðislegur kraftur, jafnvel ofsi, sem enginn hefur í raun komist í hálfkvisti við – Davíð er með öðrum orðum umfram allt sexí skáld og eftir öðru að Íslendingar vissu ekki almennilega hvað þeir áttu að gera við slíkan mann eftir að hann náði hylli þjóðarinnar: reynt var að finna honum verkefni í þjóð- hagslegum tækifæriskveðskap uns svo var farin að dofna tíran á skáldgáfunni að hann fórnaði höndum og æpti upp: Brenni þið vit- ar! Í ljóði sem heitir Komdu bregður hann sér í líki ungrar stúlku. Ljóðið byrjar á ákalli um heitrof og talað er um álög sem ástin hafi lagt á stúlkuna. Karlmaðurinn sem hún elskar er farinn eitthvað burt og það sem eftir er af ljóðinu reynir hún að seiða hann til sín á ný. Óhætt er að segja að hún sé tilbúin að leggja á sig æði margt til að svo megi verða. Þetta byrjar að vísu ósköp elskulega: Komdu ég skal brosa í bláu augun þín gleði sem aldrei að eilífu dvín. Komdu ég skal kyssa í þig karlmennsku og þor hreystina og fegurðina og frelsisins vor. Smám saman verður hún auðsveipari og býðst til að gráta í hann göfgi og trú. Síðan leggst hún á hnén: Komdu ég skal glaðvekja guðseðli þitt og fá þér að leikfangi fjöreggið mitt. Þegar hún er búin að leggja líf sitt og fjör í hendur þessa manns sem rofið hefur heit sitt við hana herðir hún enn á því hversu mjög hún sé reiðubúin að fórna öllu fyrir ást hans: Ég skal lifa á beinunum af borðinu hjá þér og húsið þitt sópa með hárvendi af mér. Og hann þarf ekki einu sinni að verða var við þessa ambátt: Ekki skal það kvelja þig skóhljóðið mitt, ég skal ganga berfætt um blessað húsið þitt. Skyldi þetta vera ljóð um óskir, drauma og þrár venjulegrar íslenskar vinnustúlku í byrjun tuttugustu aldar? Að sjálfsögðu ekki. Þetta eru kynórar – en hvers? Ljóðið heldur áfram og verður sífellt ofboðslegra og endar loks á því að hún biður hann um að orna sér við ylinn af hjarta sínu: þíðir hann ekki ísgervið þitt? Logaðu logaðu litla hjartað mitt! Þetta ljóð er sennilega eina opinskáa út- málunin sem til er í íslenskum bókmenntum á masókisma og til þess að geta lýst þeim kenndum hefur skáldið talið nauðsynlegt að bregða sér í líki stúlku. Í ljóðum Davíðs eru fleiri dæmi um að ort sé í orðastað kvenna og yfirleitt er þar um að ræða ástarljóð til karlmanna sem líkjast grunsamlega mikið skáldinu sjálfu. Í rauninni má segja að hann noti kvenvitund í ljóðum sínum fyrst og fremst til að geta ort ástarljóð til sjálfs sín. * Tómas er allt öðruvísi. Hann er fínlegra skáld, virkar léttúðugur, gefinn fyrir smá- fyndni, þversagnir og glaðlyndi. Og þótt ást- in sé algengt yrkisefni hjá honum og tregi yfir stúlkum sem hurfu á brott – eða sáust jafnvel aldrei – þá er víðsfjarri sá losti sem einkennir ljóð Davíðs. Allt er sætt, nánast barnslegt, sakleysislegt, ólíkamlegt: hvítum örmum bregður fyrir bak við gluggatjöld; ljósir lokkar, lítill kjóll og stuttir sokkar ein- kenna stúlkuna sem mætti á stefnumótin fyrir sunnan Fríkirkjuna – elskendur Tóm- asar virðast stundum um það bil fimm ára. Þjóðvísa úr bókinni Stjörnur vorsins stingur í stúf við þessi sætu ástarkvæði. Það er dimmara yfir því en öðrum ljóðum Tóm- asar, það er rökkvaðra, dularfyllra, slæður blakta um orðin. Og það er kona sem talar. Á yfirborðinu er reyndar alveg ljóst hvað fjallað er um: ung stúlka hefur misst ástvin sinn og tregar hann enn, situr við rúmið hans autt og ímyndar sér að hann sé kannski bara sofandi. Í ljóðinu segir hún söguna af skammlífri ást þeirra og við fáum að vita að sorgin gleymir engum. Eða kannski að ungi maðurinn sé frumlag ljóðsins og unga stúlk- an rétt eins og hjá Davíð að sínu leyti ekki annað en fantasía hans, draumstúlkan sem hverfur þegar hann vaknar. Okkur kann að þykja allur þessi dauði í einu ljóði ósmekklegur nú á dögum en gleymum því ekki að ljóðið er ort handa fólki sem mundi vel þá tíma upp úr fyrra stríði þegar ungt fólk bjó við raunverulegan lífs- háska og margir dóu úr Spænsku veikinni eða berklum. Í greininni Perlan og blómið sem birtist í Skírni árið 1979 benti Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor á tengsl Þjóðvísu við annað af fegurstu ljóðum Tómasar: Jón Thoroddsen. Cand jur. In memoriam. Það ljóð endar á þessari líkingu um andlát Jóns sem lést af slysförum árið 1924 langt fyrir aldur fram: „Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki / um lífsins perlu í gullnu augna- bliki.“ Þessi perla tengist, eins og Sveinn Skorri bendir á, prósaljóði eftir Jón sem heitir Perlan og er síðasta ljóðið í bók hans Flugur sem kom út árið 1922. Í þeirri bók er flokkur ljóða sem geyma nokkurs konar uppgjör við konur, eins og Gísli Sigurðsson dró fram í formála sínum að útgáfu Flugna frá árinu 1986, og endar sá bálkur á ljóði sem ber heitið Vita nuova og sækir nafn sitt til Dantes. Í því er að sögn Gísla fyrst „dregin upp mynd af Oscari Wilde í fangelsi en þar sat hann vegna samkynhneigðar sinn- ar. Oscar Wilde mun hafa verið einn eft- irlætishöfunda Jóns. Í seinni hlutanum renn- ur ljóðmælandinn saman við Oscar og þeir kumpánar hrinda bát úr nausti sem er hefð- bundin líking fyrir yrkingar og sigla elsk- andi til fjarlægra stranda.“ Ljóðið Perlan geymir almennari lífsspeki. Það fjallar um ungan mann sem hittir þung- lyndu stúlkuna og vill kaupa af henni dýr- mætu perluna. Hún segist aðeins eiga und- arlega blómið. Það fær hann og ber við hjarta sér þar sem það vex og vex loks inn í brjóst hans – þá kippir hann því út: „Og sjá, milli róta þess liggur dýrmæta perlan.“ Perlan í ljóði Jóns táknar að sögn Sveins Skorra „hin æðstu verðmæti og fegurð, kjarna hlutanna, hið dýrmætasta í öllu lífi“. Tengslin á milli myndmáls Þjóðvísu og Perl- unnar eftir Jón Thoroddsen eru auðsæ. * Er Þjóðvísa ef til vill önnur atlaga Tóm- asar að því að yrkja minningarljóð um Jón Thoroddsen? Ég veit það ekki. Eða er Þjóð- vísa – rétt eins og Vita nuova Jóns – tilraun til að fjalla um þær ástir sem ekki mátti færa í orð, ástir karla? Ég veit það ekki. Hins vegar hefur mér alltaf þótt upphafið að ljóðinu bæði einkennilegt og sláandi: „Ég hélt ég væri smámey og hugðist vera til / eins og hitt fólkið um bæinn …“ Merking þessara orða er á ytra borði þessi: ég hélt að ég væri bara lítil og saklaus stúlka að njóta vorsins en þegar ég var sextán ára hitti ég ungan mann og hætti að vera til sem smá- mey því þetta breytti mér í konu. En við getum lesið þessar línur sem svo að þær snúist um tilverurétt: Og hugðist vera til eins og hitt fólkið um bæinn. Er ekki kynlegt sambland steigurlætis og feimni í þessum orðum? Er ekki orðuð þarna dauf von um að fá að vera það sem „ég hélt ég væri“ rétt eins og hver annar? Og niðurlagið: þessi ljóðmælandi sem hélt sig vera smámey og hugðist vera til eins og hitt fólkið – er í rauninni ekki til, nema sem dularfullt blóm í draumi ungs manns. Þessi smámey er með öðrum orðum einungis til sem vitund, sem kennd í draumi og getur því ekki tilheyrt vökunni, daglega lífinu, hinum svonefnda raunveruleika. Sé hún borin þang- að út í ljósið, þessi smámey, þá deyr hún – í dagsljósinu deyr hún, tilvist sína á hún undir svefni unga mannsins, tilvistarleysi hans, eða öllu heldur vitundarleysi hans; hún er kennd sem ekki má færa í orð, ekki má hugsa um, rétt eins og Tómas orðaði það í öðru ljóði: „En ég gat ei handsamað heldur/ þá hljóma sem flögruðu um mig,/ því það voru allt saman orðlausir draumar/ um ást- ina vorið og þig.“ Byggt á spjalli á menningarhátíðinni Hinsegin dögum árið 2000. ORÐLAUSIR DRAUMAR E F T I R G U Ð M U N D A N D R A T H O R S S O N Er masókismi í ljóðum Davíðs Stefánssonar? Orti hann ástarljóð til sjálfs sín? Eru elskendur í ljóðum Tómasar Guðmundssonar fimm ára? Gerir hann tilraun til að fjalla um ástir tveggja karla í ljóði sínu Þjóðvísa? Hér eru gamlar ljóðabækur lesnar í nýju samhengi. Höfundur er rithöfundur. Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson brugðu sér báðir í kvenmannsgervi í ljóðum sínum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.