Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Síða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Síða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. APRÍL 2004 7 E iríkur Guðmundsson og Oddný Eir Ævarsdóttir hafa sent frá sér bækur á Svörtu línunni hjá Bjarti. Bók Eiríks nefnist 39 þrep á leið til glötunar en hún byggist á óvenjuskörpum út- varpspistlum höfundar síðustu misseri. Í forgrunni er maður sem hefur fyllst miklu óþoli gagnvart íslensku samfélagi og yfirgefið landið en endað í tugt- húsi suður í Mexíkó fyrir óljósar sakir. Bók Oddnýjar Eirar nefnist Opnun kryppunnar og er sambland heimspekiritgerðar, sjálfsævisögu og fimm strengja tilraunaleikhúss, eins og seg- ir í káputexta. Blaðamaður hitti Eirík og Oddnýju Eir til að ræða bækurnar sem virðast báðar vera á ein- hverjum óljósum mörkum. Bæði eru þau að skrifa skáldskap. Bæði skrifa sjálfsævisögu. Bæði fást þau við heimspekilegar hugmyndir um samtímann, sannleikann, veruleikann, eirð- arleysið og uppreisnina í ritgerðarformi eða esseijuformi. Eiríkur er bókmenntafræðingur og unir sér best við lestur á góðum skáldskap en að degi til sinnir hann ritstjórn á þættinum Víðsjá á Rás 1. Oddný Eir er að leggja lokahönd á dokt- orsritgerð í heimspeki og mannfræði í París en sér sjálfa sig þó fyrst og fremst sem íslenskan bóndadreng. Blm.: Hvernig bækur eru þetta? Oddný Eir: Ja, ef við byrjum á bók Eiríks þá er hún eins konar vegamynd. Eða andþroskasaga. Eiríkur: Já, andþroskasaga. Það er ágætt. En ég hugsaði hana bara sem taugaviðbragð við samtímanum, rödd sem fer í gang við að neyta fjölmiðla og búa í Reykjavík síðustu misseri. Bókin lýsir því hvernig höndin skelfur undir þeim ósköpum öllum. Oddný Eir: En þú ert að sviðsetja þig í bókinni, og það er framvinda í henni, þú ert á ferðalagi, þannig að bókin er ekki ótrufluð taugaboð. Eiríkur: Nei, það er rétt. Röddin er eirðarlaus, hún er á sífelldri ferð en fer í raun aldrei neitt, kemst ekki burt, hún höktir bara áfram bókina á enda. Blm.: Er ekki ákveðinn samhljómur með bók- unum ykkar, Oddný? Oddný Eir: Jú, þetta hökt og óþol eiga þær allavega sameignlegt. Skopp og hopp ungrar manneskju sem er eins og að hita sig upp fyrir dauðann. Það er ákveðin tilvísun til ellinnar í bókinni minni en ég hef alltaf hlakkað mikið til þess að verða gömul, hef vonast til að verða þá loksins orðin heit og skilja hvað skiptir máli. En þá er þetta líka að verða búið, svo það er hálf sorgleg von. Bókin er tilraun til að flýta þessari ferð inn í ellina, hraða upphituninni með því að þjappa saman fortíð, nútíð og framtíð svo stund uppljómunar ellinnar verði aðeins lengri. En í slíkri viðleitni tekur maður þá áhættu að lifa í spennu og togstreitu og fara sífellt á mis við þetta blessaða og óskiljanlega nú. Lifa í eirð- arleysi en ekki þeirri ró sem maður öfundar ell- ina af. Blm.: Hvers vegna þetta eirðarleysi? Er hinn vegalausi flakkari mynd nútímamannsins? Eiríkur: Pessoa skrifaði Bók eirðarleysisins sem þvælist endalaust um hausinn á manni. Kannski er maður bara undir svona miklum áhrifum af henni! En ég held að við séum bæði að búa okkur til rými. Við tölum bæði um ellina, gamla fólkið sem hefur búið sér til herbergi þar sem það hef- ur alla sína hluti, myndir og aðra leikmuni úr lífinu. Þetta er hið ídeala rými sem maður er samt alltaf að rífa sig frá, kannski bara til þess að geta snúið aftur í sælureitinn. Að einhverju leyti er eirðarleysið því sjálfskaparvíti. Oddný Eir: Hver vill ekki dvelja í sínum heimi, innan um það sem honum þykir vænt um? En maður vill ekki kafna þar, verður að ögra þeim heimi, víkka út rýmið til að ná andanum. Eiríkur: Maður fer að hugsa: Ég er nú ekki nema 35 ára, maður getur ekki stoppað hér, ekki í þessari kytru, maður verður að halda áfram. En það er alveg satt að öðrum þræði er þessi bók bara viðbragð við því að neyta fjölmiðla á Íslandi, að hlusta á of marga spjallþætti ... Oddný Eir: ... hún er pirringur yfir spjallþátt- um ... Eiríkur: ... pirringur sem er að einhverju leyti klisjukenndur – menn eru alltaf að fárast út í fjölmiðlana – en samt á hann rétt á sér, hann verður til ekki aðeins vegna þess sem er sagt heldur líka vegna þess sem er ekki sagt og hvernig það sem er sagt er sagt og af hverju það er sagt. Oddný Eir: Þú ert eiginlega að leika nöldrara ... Eiríkur: ... sem er alltaf hættulegt ... Oddný Eir: ... eða mætti ekki segja að þú sért að afbyggja nöldrið á einhvern hátt? . Blm.: Mér þykir merkilegt að nánast allar bæk- urnar sem komið hafa út á Svörtu línunni hjá Bjarti eru sjálfsævisögulegar að meira eða minna leyti. Og Svarta línan er svo sem ekki ein um að gefa út sjálfsævisögur um þessar mund- ir. Hvers vegna er sjálfstjáningin svona rík í menningu samtímans? Eiríkur: Ég held að það sé verið að stinga gat á skáldsöguna en hún hefur tilhneigingu til að loka á mikilvæga hluti, eins og hún hefur þróast á síðustu árum hér á landi, þótt skáldsagan sé auðvitað í eðli sínu mjög opin bókmenntagrein. Þetta er þó ekki einhlítt. Höfundar eru að leika á sjálfa sig sem skáldaðar persónur. Þeir tefla sjálfum sér fram í uppdiktuðum aðstæðum, þó ekki sjálfum sér heldur einhverri mynd af sjálf- um sér. Það er eitthvað satt og það er eitthvað logið. Oddný Eir: Það er kannski verið að afhelga sagnagáfuna og stílsnilldina sem hefur verið heilög tvenning í íslenskum skáldskap. Eiríkur: Það er enn mikil lotning borin fyrir hinni breiðu, epísku skáldsögu, hinum miklu frásögnum. Oddný Eir: Svörtu línu sögurnar eru ekki sög- ur af stórum sögulegum sjálfum skrifaðar eins og á að skrifa slíkar sögur. Blm.: Kannski frekar hversdagssögur og hversdagssjálf. Oddný Eir: Já, í auðmýkt? Eða hroka? Eiríkur: Já, og sjálfsupphafningu. Oddný Eir: Á þeim mörkum minnimáttar- kenndar og mikilmennskubrjáls sem geðsýk- isfræðin hafa alltaf haft áhuga á. Blm.: Getur verið að við séum að lifa blómatíma sjálfstjáningar. Netið er til dæmis morandi í slíkum skrifum, bloggið hvetur til æ meiri op- inberunar og veruleikaþættirnir í sjónvarpinu eru gerðir til þess að afhjúpa fólk á viðkvæmum augnablikum. Einkalífið er varla lengur til. Er þetta að smitast meir og meir inn í bókmennt- irnar? Oddný Eir: Í gegnum alla söguna hefur verið gerð tilraun til að „segja allt“. Ágústínus op- inberaði sig kannski ekki eins í Játningum sín- um og bloggarar í dag en sagði alveg jafn mikið allt og þeir; skilgreiningin á því að segja allt hefur breyst. Ég held að í skjóli þess að segja allt séu menn stundum að forðast að segja það sem er áhugaverðast, það sem er óskiljanlegast í hverjum og einum. Eiríkur: En það er samt eitthvað í tíðarand- anum sem gerir það að verkum að fólk opinber- ar sig, þótt ég sé hreint ekki undir áhrifum af bloggi í mínum skrifum. Þórbergur gerði þetta líka í bókum sem eru sjálfsævisögur og skáld- sögur í senn. Spurningin er kannski frekar hvaða merkimiða við notum á hlutina en hvert innihaldið er. Oddný Eir: Munurinn er kannski sá að í sjálfs- ævisögu er því haldið fram að satt sé farið með en í Svörtu línu bókunum er ekkert sagt um það. Við erum að leika okkur með mörk sann- leika og lygi sem ekki er gert í hefðbundinni sjálfsævisögu. Blm.: Og það er líka gert í veruleikaþáttunum og blogginu, þar eru menn sífellt á óljósum mörkum sýndar og reyndar. Oddný Eir: Við búum til okkar eigin veruleika- þætti en látum ekki hafa okkur mikið út í þætti sem aðrir búa til. Eiríkur: Nei, þetta er okkar eigin þáttur á okk- ar eigin stöð. Oddný Eir: Og erum auðvitað flest gegnsýrð af afbyggingu síðustu áratuga á fyrirbærum eins og sannleikanum. Blm.: Og veruleikanum. Eiríkur: Já, og sjálfinu auðvitað. Blm.: Einmitt, það er allt komið á flot, við erum á floti. Oddný Eir: Svarta línan er öðrum þræði við- bragð við þessum hugmyndafræðilegu hrær- ingum. Þessar bækur eru sennilega eingöngu við- bragð og ekkert frumlegt við viðleitnina Blm.: Það er fyrir löngu búið að afskrifa frum- leikann. Eiríkur: Nei, þetta er alls ekki frumlegt. Blm.: En talandi um viðbragð, það er greini- lega sterkur þjóðfélagslegur tónn í bókinni þinni, Eiríkur, þú ert nánast að gefa skít í ís- lenskt samfélag, það verður að minnsta kosti ekki annað séð en að sögupersónan sé bara nokkuð ánægð með að vera tugthúslimur í Mexíkó. Eiríkur: Jú, þar er hann kominn í kytruna með fáeina muni í kringum sig, á öruggan stað, nær ekki neinum stöðvum, getur ekki horft á Silfur Egils. En það er auðvitað alltaf spurning hvaða möguleika maður hefur til þess að hafa áhrif í þessu svokallaða lýðræðisþjóðfélagi hér á Ís- landi. Sú rödd sem þarna talar hefur sannfærst um að hún hafi engin áhrif og geti þess vegna verið heima að lesa Italo Svevo eins og leggja sig eftir fréttum í dagblöðum. Annars held ég að okkar kynslóð hafi haft mikið langlundar- geð, við höfum ekki tekið þátt í mótmælagöng- um, við höfum reynt að vera sátt við hlutina eins og þeir eru. Síðan brestur þetta stríð á í Írak og Íslendingar eru svo vitlausir að láta egna sig til þátttöku. Þá urðu margir reiðir og segja má að það sé ein af kveikjum þessarar bókar. Oddný Eir: En í þessari reiði langar þig til að hafa áhrif. Eiríkur: Jú, mig langar til þess. Oddný Eir: Og svo gefurðu út bókina. Eiríkur: Já, en vitandi það að ég mun ekki hafa nein áhrif, bókin er eins konar sorgarmars um áhrifaleysið. Blm.: En þín bók, Oddný, er mun innhverfari. Oddný Eir: Já, ég get ekki talað, get ekki skrif- að þegar ég er reið, verð að skrifa á öðrum for- sendum. Spurningin um andófið hefur löngum elt uppi bókmenntirnar. Ég held að það sé gott að byrja á innhverfum andófsaðgerðum og skærum og sjá hvað það gefur enda er hætta á að bein gagnrýni verði innlimuð í kerfið og gelt, voff voff eins og Eiríkur talar um í sinni bók. Kannski þarf að byrja á því að ögra öllum mörkum í sjálfum sér áður en farið er að beina spjótunum annað, ögra tengslum sínum við um- heiminn og annað. Ef hver og einn býr til pínu- litla skekkju af þessu tagi þá skekkist heims- myndin smámsaman og verður kannski úr síðbúin bylting, það rennur vonandi ekkert blóð, bara blek! Blm.: Mætti nota hugtak eins og póstmódern- ismi um þessar bækur? Eiríkur: Tja, maður er nú orðinn mátulega þreyttur á þessum póstmódernisma, að minnsta kosti orðinu. Oddný Eir: Við þyrftum að sitja langt fram á nótt og koma okkur saman um skilgreiningu á hugtakinu póstmódernismi áður en við gætum svarað spurningunni. Vissuð þið að Derrida er líklega bara að deyja? Blm.: Eirðarleysið og vantrú á sannleikann og veruleikann eru einkenni á ástandi sem við höf- um verið að reyna að lýsa síðustu áratugina. Og ég geri ráð fyrir að ástæðan fyrir því að við skrifum bækur um samtíma okkar sé sú að við viljum reyna að ná tökum á honum. Eiríkur: Já, þessar bækur eru tvímælalaust viðbragð við tímum sem eru kallaðir póstmód- ern, þótt maður vilji ekki endilega gangast við því að vera póstmódernisti. Blm.: Og það er reyndar sitthvor hluturinn. Oddný Eir: Ég held að þessar bækur séu svar við svokölluðum samtíma en hvort svarið sjálft er póstmódern eða póst-póst-módern er ekki hægt að segja til um strax held ég. Blm.: Matthías Viðar Sæmundsson sagði að þessi kynslóð sem var á þrítugsaldri fyrir ára- tug væri teoretísk/póetísk, og sjálfsagt hafa menn búist við einmitt því að hún færi nú að skrifa bækur sem lýstu knýjandi skáldskapar- viljanum og kenningahrönglinu sem hún hefur verið að velta sér upp úr. Hvað segið þið? Kom ekki til greina að skrifa bara skáldsögu? Eða eru þetta skáldsögur? Eiríkur: Já, þetta eru skáldsögur. Oddný Eir: Þakka þér fyrir Eiríkur, gott að vita það! Eiríkur: Maður hefur kannski enga löngun til þess að setjast niður og skrifa það sem beinlínis hefur gengið undir nafninu skáldsaga. Ég hafði ekki áhuga á að pakka pirringnum og samtíma- greiningunni inn í þriðju persónu frásögn, mér þótti þetta beinskeyttara form. En ég held við getum samt kallað þetta skáldsögu, okkur langar jú til að selja fleiri bækur. Blm.: Munurinn á bókum ykkar og Hermanns Stefánssonar, Sjónhverfingum, sem kom út á Svörtu línunni í fyrra, er sá að þar eru fræðin mun meira uppi á borðinu en hjá ykkur. Eiríkur: Maður er orðinn pínulítið leiður á staðlaðri fræðilegri framsetningu, og maður er stundum leiður á ýmsu því sem tilheyrir skáldsögunni, hér á landi hefur vantað rit sem vega salt þarna mitt á milli, rit sem soga ein- hvern veginn allt í sig. Bókmenntagreinar mega ekki virka eins og spennitreyjur, og ég held að menn hafi verið kærulausari í þessum efnum fyrr á tímum, Don Kíkóti er galopinn upp á gátt, Tristram Shandy sömuleiðis – en það er því miður þannig að Íslendingar eiga erfitt með að taka á móti nýjungum, einfaldlega vegna þess að við höfum farið á mis við svo margt í heimsbókmenntunum, við erum í viss- um skilningi vanþróuð í bókmenntalegu tilliti, það er svo margt sem aldrei hefur komið til Ís- lands. Blm.: Já, þetta er löngu skeð úti í hinum stóra heimi. Oddný Eir: Og það býr til tímaskekkju í manni. Eins og maður sé að skrifa inn í gamla hefð sem hefur samt ekki fengið að verða almennilega til á Íslandi nema á einhverjum jaðri. Þá er eins og maður sé að skrifa eitthvað eldgamalt um leið og maður reynir að vera nýr. Blm.: Er þetta kannski útjaskað form? Oddný Eir: Nei, ég held reyndar að þessi skör- un milli skáldskapar og fræða sé enn frjó. Eiríkur: Já, maður lifandi, möguleikarnir eru óteljandi. Blm.: Og þá erum við komin í sæmilegan hring. Eiríkur: Já, höktandi gamalmenni. Eirðarleysið og vantrú á sannleikann og veruleikann eru einkenni á ástandi sem við höfum verið að reyna að lýsa síðustu áratugina. Eiríkur Guðmundsson og Oddný Eir Ævarsdóttir hafa sent frá sér bækur sem fjalla um þetta ástand. ÞRÖSTUR HELGASON ræðir við þau. EIRÐARLAUS OG VANTRÚUÐ Morgunblaðið/Jim Smart Oddný Eir: Við búum til okkar eigin veruleikaþætti en látum ekki hafa okkur út í slíka þætti sem aðrir búa til. Eiríkur: Nei, þetta er okkar eigin þáttur á okkar eigin stöð. throstur@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.