Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 17.04.2004, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 17. APRÍL 2004 V ið sitjum í kaffistofunni í Litbrá, prentsmiðju Rafns Hafnfjörð. Á veggjum eru myndir Rafns af landslagi, frammi eru hillur og aftur hillur með kössum með póst- kortum hans, og handan við vegginn rymur prentvél. Rafn Hafnfjörð fæddist í Hafnarfirði árið 1928. Hann lærði það sem kallað var ljósprentun, síð- ar prentsmíði en hefur með tilkomu tölvunnar þróast yfir í grafíska hönnun. Rafn hefur í ára- tugi verið einn mikilvirkasti landslags- og nátt- úruljósmyndari þjóðarinnar og myndir hans hafa ratað víða. Þá hefur hann unnið til ýmissa viðurkenninga fyrir ljósmyndir, tekið þátt í sýningum og einkasýningu hélt hann á Kjar- valsstöðum árið 1979. Nú verður opnuð önnur sýning í dag, í Hafnarborg í Hafnarfirði, og kallast Lesið í landið. „Það þarf að tala með flestum myndverkum sem sýnd eru í dag, þau þarfnast útskýringa,“ segir Rafn. Og segir það ekki skipta máli hvar þessar myndir á sýningunni séu teknar, þetta séu myndverk sem standa fyrir sig sjálf og óstudd af einhvers konar orðfimi. „Ég er búinn að mynda svo til öll fjöll, alla fossa og alla jökla Íslands. Þú sérð öll þessi kort hérna, ég hef gert um 800 tegundir póstkorta. Og það er náttúrlega bara brot af öllu því sem ég hef verið að mynda. En það eru oftast allt öðruvísi myndir en þær sem ég er að sýna nú. Það var kominn tími til að fara að mynda lóð- rétt niður fyrir tærnar á mér. Og svo hef ég verið að horfa svolítið upp í loftið, á norður- ljósin.“ Rafn vill hvetja fólk til að líta sér nær í nátt- úrunni, í myndunum sé frekar nærsýni en fjar- sýni. „Íslensk náttúra er eitt allsherjar lista- safn,“ segir hann. „Þessi ferðalög um landið, með myndavél á annarri öxlinni og veiðistöng á hinni, hafa verið mín lífsfylling. Rétt eins og aðrir sem standa í rekstri þarf ég að vasast í fjármálum og hafa áhyggjur af hinu og þessu, en ferðalög hafa ver- ið mín útrás og afslöppun.“ Mývatn og Skaftafell Rafn hefur verið að mynda markvisst frá því um 1950 og fljótlega var hann farinn að taka myndir fyrir Loftleiðir. „Fyrirtækið þurfti að kynna sig erlendis,“ segir hann, „þurfti að kynna Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn og það var afar lítið til af heppilegu myndefni. Þeir landslagsljósmyndarar sem mest bar á á þeim tíma mynduðu í svarthvítu og voru meira í eins konar átthagaljósmyndum á meðan Loft- leiðir vantaði myndir af fólki í náttúrunni. Ég fór út í þetta og vann mikið með Sigurði Magn- ússyni. Hann gerði miklar kröfur til myndefn- isins, við áttum mjög gott samstarf. Árið 1954 prentaði ég fyrsta bæklinginn fyrir Loftleiðir; átti myndirnar, hannaði og prentaði gripinn, sem var óvenjulegt því áður hafði slík vinna verið gerð erlendis. En þetta gekk vel, og var gjaldeyrissparandi. Þessar myndatökur voru strax mikil áskorun og þetta var óskaplega skemmtilegt. Ég fór oft norður að Mývatni að mynda, fór þangað aftur og aftur, og í Skaftafell. Þær eru ófáar mynd- irnar sem ég hef tekið á þessum tveimur stöð- um. Í fyrstu ferðinni í Skaftafell flaug ég á Fag- urhólsmýri, því þá voru árnar óbrúaðar, og gekk síðan um allt svæðið. Þetta var um versl- unarmannahelgi og við vorum tveir áhugaljós- myndarar einir í tjaldi á svæðinu. Annan dag- inn var svo slegið upp öðru tjaldi, en það var ungt par frá Höfn sem var að setja upp hring- ana. Bóndinn á Kvískerjum ferjaði þau yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Flugferðin heim var ógleymanleg. Sól skein í heiði og landið var mjög þurrt, það var straumur bíla úr Þórsmörk og Þjórsárdal og rykið sem lá yfir ómalbikuðum vegunum var með ólíkindum.“ Þá tók Rafn sína frægustu ljósmynd í Skafta- felli og sýnir hún bæinn og grænan skóginn í forgrunni og bjartan jökulinn í baksýn. Þessi mynd hefur birst víða. „Fólk var að koma til heimamanna í Skaftafelli og spyrja: Hvaðan er myndin tekin?“ segir Rafn. „Það var ekkert að útskýra hvaða mynd það átti við, þetta var Myndin af staðnum.“ Þessar nýju ljósmyndir Rafns á sýningunni í Hafnarborg eru ólíkar mörgu sem menn eiga að venjast hjá honum en hann segist alltaf hafa tekið svolítið af myndum sem þessum, þótt hann hafi einbeitt sér meira að þeim upp á síð- kastið. „Það sem vakti fyrst áhuga minn á smærri mótífum voru bækur sem hétu Das Unbe- kannte Island, útgefin árin 1936, og Island, sem kom út 1939 og er mun betri. Hún er með myndum eftir Alfred Erhart. Tengdafaðir minn, Jóhann Pétursson skipstjóri, gaf mér þá bók árið 1950. Prófessorinn sem ritaði formál- ann gaf Jóhanni bókina sem þakklætisvott fyrir smjörlíki, kaffi og fleira sem hann fékk er Jó- hann sigldi til Þýskalands fljótlega eftir að stríðinu lauk. Mér þótti þetta afar merkileg ljósmyndun, en þarna var verið að mynda hveri og steina, þetta smáa í náttúrunni; þessi fínu form.“ Ástríða fyrir myndlist Í þessum nýju myndum sést meira en fimm- tíu ára þjálfun Rafns sem ljósmyndara, í agaðri formbyggingunni og samstillingu lita. „Þetta hafa vissulega verið miklar pælingar en bak við þessar myndir er mikill áhugi á myndlist. Ég stundaði listsýningar af ástríðu, fór svo að segja á allar sýningar fram undir um 1980, og sá sum- ar oftar en einu sinni. Ég stúderaði myndir og safnaði málverkum. Ég er afar þakklátur fyrir kynni mín af mörgum þessara snjöllu lista- manna, ég lærði mikið af því að kynnast þeim og vinnubrögðum þeirra. Þetta voru til dæmis þeir Bragi Ásgeirsson, Hringur Jóhannesson og Kristján Davíðsson, þá kynntist ég Einari Þorlákssyni líka vel, sem og Sverri Haralds- syni. Og náttúrlega Kjarval. Ég heimsótti hann tvisvar, þrisvar, án þess að taka myndavél með. Það var mjög gaman. Og svo eftir að hann yfir- gaf vinnustofu sína í síðasta sinn, fékk ég að mynda hana hátt og lágt. Það er merkileg sería. Af kynnum mínum af myndlistinni held ég að þessi nálgun í ljósmyndunum sé sprottin. Þetta var svo mikið nám fyrir mig. Við Dieter Roth störfuðum talsvert saman og hann hafði mikil áhrif á mig. Hann var sífellt að hvetja mig áfram á þessari listrænu braut, og því að vinna út frá hvers kyns smámótífum í náttúrunni. Við Dieter ferðuðumst töluvert saman og kenndi ég honum að veiða. Í einni slíkri ferð fékk hann sinn fyrsta lax. Það var í Straumunum, ármót- um Norðurár og Hvítár. Ég tók einnig á móti Bernd Koberling er hann kom í fyrsta sinn til Íslands. Fór ég þá með honum í Elliðavatn og Hlíðarvatn og upp- lýsti hann um árnar í Þistilfirði sem hann þá heimsótti og veiddi vel. Báðir þessir snillingar hvöttu mig mjög til áframhaldandi listrænnar myndatöku og vildu fá mig með slíkrar myndir til Þýskalands. En ég hafði þá hvorki tíma né ráð.“ Norðurljós og laxveiðar Það er greinilegt að Rafn hefur alla tíð verið óhræddur við hverskyns tilraunamennsku með ljósmyndirnar. Á Heimssýningunni í Montreal árið 1967 voru allar ljósmyndirnar eftir hann, en þær vann hann á grafískan máta sem hann fann upp með tilraunum. Áður hafði hann starf- að í merkum félagsskap, Litla ljósmynda- klúbbnum, en þar voru menn að vinna með framsæknar hugmyndir. Klúbburinn hélt sýn- ingu í Bogasalnum árið 1961 sem vakti mikla athygli. „Þegar börnin voru lítil komst maður minna frá en síðar varð, en þá vann maður hins vegar oft í myrkraherberginu hálfa nóttina. Mér þótti það afskaplega skemmtilegt. Starfið með Litla ljósmyndaklúbbnum var mjög gefandi. Við fengum marga góða menn til að fræða okkur og segja okkur til. Hörður Ágústsson kom og Björn Th. Björnsson. Við vorum í góðu sambandi við Kaldal; hann gagn- rýndi myndirnar okkar, og svo var Hjálmar R. Bárðarson mjög hjálplegur. Við sendum mynd- ir til erlendra klúbba, til að fá umsögn frá þeim, og fengum myndir frá þeim í staðinn. Við vorum að takast á við mjög krefjandi verkefni, fyrst í svarthvítu og svo fórum við út í litinn.“ Við förum yfir myndirnar á sýningunni, skoðum fínlegan gróður og steina, útfellingar við hveri og samspil lita. „Þessar myndir eru litur og form, athugun á því hvað gerir sig sem mynd,“ segir Rafn. „Einu sinni var ég að mynda við Ölkelduhnúk sem er á Hengilssvæðinu. Ég bograði þarna og var að mynda við tærnar á mér, en heyrði skyndilega mannamál og þá var þar kominn tuttugu manna gönguhópur. Þau horfðu vítt yf- ir þar sem þau marseruðu og áttuðu sig sjálf- sagt ekkert á því hvað ég sá þarna í sverðinum. En mér fannst þau ganga fram hjá öllu því sem mér fannst fallegast á svæðinu. Svona getur upplifunin verið ólík. Ég hef svo verið að eltast við norðurljósin síðustu þrjú ár. Það er margt sambærilegt með því að mynda norðurljós og fara í laxveiði. Mað- ur fer út klukkan tíu um kvöld, keyrir upp í Hvalfjörð eða austur á Þingvelli, bíður til klukkan eitt, tvö um nóttina en sér engin norð- urljós. Þú ferð í laxveiði, átt von á fiski en veiðir stundum ekkert. Samt er gaman. Svo fer mað- ur aðra ferð og þá logar himinninn, maður nær fínum myndum; rétt eins og í veiðinni, þegar næsta vakt hefst getur maður verið í bullandi töku.“ Morgunblaðið/RAX Rafn Hafnfjörð við tvö verka sinna. Ljósmyndir/Rafn Hafnfjörð Steinar, hverir, fínlegur gróður og kísilútfellingar; ljósmyndirnar á sýningu Rafns Hafnfjörð í Hafnarborg snúast um liti og form í náttúrunni. Svo er þarna líka straumur norðurljósamynda. Rafn, sem hefur verið einn fremsti náttúruljósmyndari þjóðarinnar í hálfa öld, sagði EINARI FAL INGÓLFSSYNI frá myndunum. EITT ALLSHERJAR LISTASAFN

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.