Íslendingaþættir Tímans - 08.02.1984, Side 2
t
Elsku afi minn.
Ég vil þakka þér fyrir alla þá handleiðslu og
þolinmæði sem þú sýndir mér, litlu barni, þegar
ég var í sveitinni hjá ykkur ömmu. Pú varst alltaf
boðinn og búinn til að hafa mig með þér, þegar
þú fórst til kinda og annað og óþreytandi að svara
mínum spurningum um lífið og tilveruna scm oft
voru erfiðar og barnalegar. Ég á ógleymanlegar
minningar um sveitaveru mína hjá ykkur ömmu.
Ég var sex ára þegar ég kom til að vera heilt
sumar. Svo vel líkaði mér hjá ykkur að ég kom
næstu sex sumur að Króki og hafði mikið gagn af.
Elsku afi minn ég þakka þér fyrir allt gott og man
vel vísuna sem þú sendir mér á fermingardaginn
minn.
Trúðu á tvennt í heimi
tign sem xðsta ber.
Guð í alheims geimi
Guð í sjálfum þér.
Elsku afi minn, Guð geymi þig og veri okkur
ættingjum og vinum hjálpsamur.
Þín dótturdóttir Unna.
t
Laugardaginn 14. janúar var til moldar borinn
í Bræðratungukirkjugarði elskulegur faðir minn
Egill Egilsson fyrrum bóndi á Króki, en þar hafði
hann lifað og starfað öll sín manndómsár, eða frá
1923 er hann gerðist þar bústjóri eða ráðsmaður
fyrir föður sinn Egil bónda á Galtalæk er hafði
fengið Krókinn til ábúðar auk sinnar eigin jarðar.
Þar munu þrjú elstu börn afa míns á Galtalæk hafa
stundað fjárgæslu og búskap til 1925 að faðir minn
festir ráð sitt og gengur að eiga eftirlifandi konu
sína Þórdísi ívarsdóttur sem hafði alist upp í
Norðurkoti í Grímsnesi. Þá fær hann Krókinn í
ábuð og þar búa foreldrar mínir í rúm fimmtíu ár
eða til ársins 1977 að fóstursonur þeirra Magnús
Heimir Jóhannesson tekur við búskapnum. Enn
áfram eru gömlu hjónin sjálfra sín á neðri hæð
íbúðarhússins á Króki, og njóta þess í ellinni að
sjá nýja kynslóð vaxa úr grasi.
Pabbi minn var með fádæmum barngóður
maður, og það er ýkjulaust þó eg segi að öll Iftil
börn bæði vandalaus og skyld hafi hænst að
honum. Það var sár söknuður barnabarnanna
hans sem sáu á bak elskulegum afa, og mín börn,
sem öll eru uppkomin vilja þakka honum afa fyrir
allt sem hann var þeim og gerði fyrir þau.
Þegar ég lít yftr farinn veg, er margs að mínnast,
ég man föður minn sem ferjumanninnn er alltaf
var til reiðu með litla bátinn sinn þegar einhver
þurfti að komast yfir Tungufljót, en á Króki var
lögferja um áraraðir, mér er ekki kunnugt hvenær
það hófst en það var mestan búskap föður míns
og löngu áður. Þetta hefur nú verið nokkur kvöð
á þeim bónda er á Króki bjó, það var sama hvernig
á sfoð. þessu kalli varð að sinna sumar og vetur.
Já vetur, mér er hann minnistæður í frosti og
jakaskriði dragandi bátinn fullan af mjólkurbrús-
um og öðrum flutningi, því oft voru sandeyrar á
þeirri leið sem fara þurfti yfir, þá óð hann oft í
mitti. Maður getur hugsað sér þann skelfilega
kulda og þá miklu þrekraun sem þetta hefur verið.
Sem barn og unglingur horfði ég á þetta með
skelfingu. Nú þekkist þetta ekki lengur við
Tungufljótið mitt fagra, sem líður oft í lygnum
straumi milli grænna bakka sem eru svo gjöfulir á
gott kindafóður með vallendi og smávíði. Þetta
kunni faðir minn að meta, því sauðféð var hans
yndi, ogþví var gaman að gefa ilmandi baggahey.
Þar man ég pabba minn síðast við slátt með orf og
Ijá, það heyvinnutæki er nú eitt af því sem heyrir
fortíðinni til, nú er ekkert slegið nema með vélum.
Við fjárskiptin sem urðu, þegar öllu fé var
slátrað, vegna mæðiveiki, var hann svo lánsamur
að fá lömb úr Bárðardal, frá Sigurðarstöðum
mestmegnis. Þetta voru mannelskar og gullfalleg-
ar gimbrar, sem urðu í miklu afhaldi hjá bóndan-
um Agli. Bárðdælingarnir, sem hann kallaði svo,
reyndust afurðasælar í hans meðferð, voru nær
alltaf með tvö lömb, enda sagði hann oft eitt lamb
aðeins borga kostnað við ána, tvö gefa nokkurn
arð. Pabbi minn var fjárglöggur og lagði mikið
upp úr að forðast skyldleikaræktun, sagði galla í
ætt gjarnasta og valdi líflömb af kostgæfni. Enda
held ég, að hann hafi fengið alla sína alúð og natni
við ærnar margborgaðar.
Fjallaferðir á afrétt vor og haust var það sem
árvíst var í lífi einyrkjabóndans, þeirra naut faðir
minn í ríkum mæli. Þessum þó oft svaðilförum, í
glímu við óbrúaðar stór ár og oft, illviðri á
reginfjöllum. Til þessara ferða hlakkaði hann
takmarkalaust í hópi góðra vina og nágranna. Þcir
voru fjármargir sumir bændur í Tunguhverfi og
það var fallegur hópur sem fór til fjalls og kom
aftur að hausti. Yndi bóndans í blíðu og striðu.
Mér var vel kunnugt um ást hans á Tungna-
mannaafrétti, fegurð fjalla og hrikaleik, sand-
auðna með geldingahnapp og holurt, grasgeira og
melöldur. Allt þetta vakti honum yndi og öðrum
fremur var hann kunnugur öllum örnefnum þar
innfrá. Hann fór mjög ungur fyrst til fjalls með sér
miklu eldri mönnum sem gjörþekktu alla staðhætti
og örnefni. Pabbi var stálminnugur og eftirtektar-
samur, og mér er kunnugt um að fræðimenn um
örnefni hafa haft samband við hann hin síðari ár.
Nokkru áður en hann veiktist, dreymdi hann
draum, þótti honum sem hann væri á leið til fjalls
ríðandi hesti, bleikum að lit. Fór sá á kostum sem
vakti furðu föður míns, því vel þekkti hann
hestinn og vissi hver átti, en að hann væri
gæðingur kom honum mjög á óvart. allt í einu
þykist hann kominn í Fremstaver, er þar allt
baðað í lita- og geisladýrð svo undur fallegu að
ekki verður lýst með orðum, enga sá hann sól,
aðeins þessa dásamlegu fegurð.
Æðrulaus vissi hann að hverju dró, og tii hinstu
stundar hélt hann sinni sálarró. tók á móti öllum
sem komu til hans á sjúkrahúsið með glaðværð og
spaugsyrðum. Fæsta gat órað fyrir að hann væri
svona sjúkur sem raun bar vitni.
Þeim fer ört fækkandi gömlu bændunum í
Biskupstungum, þrír eru farnir nú með skömmu
millibili, allir nágrannar og ferðafélagar í gegnum
áratugi. Nú síðast besti vinur og nágranni föður
míns, Jóhannes Jónsson í Ásakoti. Það munu vera
17 dagar milli dauða þeirra. Svona er lífsins
gangur, tveir aldurhnignir menn sem lifað hafa
mestu breytingartíma í sögu íslensku þjóðarinnar.
Barist við fátækt og allsleysi kreppuáranna í
byrjun síns búskapar, til velmegunar og allsnægta
hins nægjusama manns, sem metur gróður jarðar
mest af öllu.
Aldrei mun ég gleyma fögrum sumardegi í
sveitinni minni kæru fyrir nokkrum árum, þegar
ég var í heimsókn hjá foreldrum mínum og pabbi
sagðist ætla að sýna mér sína paradís. Við gengum
yfir margar nýræktir að stóru óræktuðu stykki
milli skurða. Við ræddum margt saman eins og
æfinlega, um trúmál í þetta sinn og andleg efni
sem við gerðum oft, sagðist hann verða alsæll ef
hann fyndi svo yndislegan blett í eilífðinni. Ég
beið í ofvæni að sjá þetta, og þvílík undur.
Blagresi, mjaðjurt, fjalldalafífill og þúsundir alls-
konar blóma og grasa, ilmandi reyrgras og hvönn,
allt í fegurð og þroska, eins og það getur aðeins
verið, þar sem engin húsdýr ná til að granda því.
Þvílík paradís. Svona er tilfinning bóndans til
jarðarinnar sem hann yrkir og ann. Nú er þessi
blómareitur orðinn að ræktuðu túni, allt er ræktað
til nytja sem hægt er, á því byggist Iíf hins íslenska
bónda. Ósk mín er sú að frændi minn og
uppeldisbróðir, sem tekið hefur við búi föður
míns og annast af miklum dugnaði, fái notið þess
sem best og lengst. Ég veit að foreldrum mínum
var mikil gleði að sjá það dafna og blómgast í
ungum höndum.
Mér er efst í huga á þessari stundu, þakklæti til
skapara míns fyrir þá gæfu, að hafa svo lengi notið
samvista við minn elskulega föður. Nú er hann
aftur kominn heim í sveitina sína, sem hann unni
svo mjög, og til hinstu hvíldar við hlið dóttur
sinnar sem burt.var kölluð í blóma lífsins. Ég trúi
því að hún hafi tekið á móti honum á ódáinslandi,
það veit ég að hann vonaði svo einlæglega, og
trúin megnar allt.
Megi alfaðir vernda þig og blessa elsku pabbi
minn og leiða þig um eilífðar lönd. Hafðu hjartans
þökk fyrir allt.
Þuríður Egilsdóttir.
Þeir sem
skrifa minningar-
eða
afmœlisgreinar í
íslendingaþœ t ti,
eru vinsamlegast
beðnir um að skila
vélrituðum
handritum
2
ÍSLENDINGAÞÆTTIR