Lesbók Morgunblaðsins - 09.04.2005, Page 9

Lesbók Morgunblaðsins - 09.04.2005, Page 9
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 9. apríl 2005 | 9 hópum, fiskiskipum að veiðum, Sogsvirkjun og náttúruperlum á borð við Gullfoss og Þingvelli. Táknrænn gullfótur þessara seðla fólst í nátt- úruauðlindum Íslands. Eins og fyrr sagði var hins vegar söðlað um með seðlaröðinni 1981 og höfuðáhersla lögð á menningararfinn. Svo virð- ist sem táknrænn gullfótur þeirrar raðar sé varðveittur á Árnastofnun, í Þjóðarbókhlöðunni og í Þjóðminjasafni. Með útgáfu 2000 króna seðilsins bættust Listasafn Íslands og Kjar- valsstaðir í þann hóp. Við hlið andlitsmyndarinnar af Kjarval fram- an á 2000 krónunum er stílfærður hluti af mál- verki listamannsins, Úti og inni. Á bakhliðinni er síðan mynd af öðru þekktu málverki hans, Flugþrá, og teikningunni Kona og blóm. Þar er líka að finna undirskrift Kjarvals sem kallast á við undirskriftir bankastjóra Seðlabankans á framhliðinni. Þetta og fleiri atriði eru til marks um það hvernig seðillinn sameinar skírskotun eldri og yngri seðlaraða til náttúru, menningar og peningakerfis. Síðast en ekki síst virðast 2000 krónurnar staðfesta að hægt sé að „nota íslenzkt grjót sem baktryggingu“ seðlaútgáf- unnar. Það eins og Kjarval hafi séð fram í tím- ann með þeirri frumlegu hugmynd því með landslagsmálverkum sínum tókst honum, öðr- um mönnum fremur, að opna augu Íslendinga fyrir gildi íslenska grjótsins. Það raungerist nú á dögum ekki aðeins í þeim gjaldeyristekjum sem við höfum af ferðamönnum heldur einnig í ágætu gengi Kjarvalsmyndarinnar í gegnum tíðina á hlutabréfamarkaði myndlistarinnar. Matthías Johannessen vísar væntanlega til þess í Kjarvalskveri þegar hann segir að verk Kjarvals hafi „gefið hærri vexti en vísitölu- tryggðar bankainnistæður“.6 Í bók Matthíasar minnist Kjarval einnig á kaupmennina Silla og Valda sem voru duglegir að kaupa af honum myndir. Kjarval segist viss um að þeir séu listelskir og bætir við: „Kaup- menn eru yfirleitt listelskir, og þeir höfðu velti- féð. Þeir höfðu líka smekk fyrir svo mörgu. Nú eru þeir búnir að yfirfylla hjá sér allt og ekki komast myndirnar allar inn í skáp. Og ekki er hægt að leggja þær inn á banka, svo að þeir verða líklega að losa sig við þær, til að geta byrjað að safna upp á nýtt.“7 Með útgáfu 2000 króna seðilsins leysti Seðlabankinn þetta vandamál, innlimaði listina í peningakerfið og gerði um leið flestum ef ekki öllum Íslend- ingum kleift að eignast Kjarvalsmálverk. Merkilegt viðbragð við þessum samruna hins andlega og veraldlega birtist mér nýlega í íbúð nýgiftra hjóna í Reykjavík sem höfðu hengt innrammaðan 2000 króna seðil upp á vegg. Í þessu samhengi fékk seðillinn nýja og marg- ræða merkingu, sem rímar að ýmsu leyti við eitt Kjarvalsmálverk Einars Garibalda frá 1999 þar sem talan 2000 var í aðalhlutverki. Í báðum tilvikum er ýjað að því að þeir sem hafa ósvikn- ar Kjarvalsmyndir hangandi í stofunni væru í og með að skreyta hýbýli sín með peningum. Landslagsmyndin Líklega er óþarfi að taka fram að ekki er minnst einu orði á tekjur Jóhannesar S. Kjar- vals í tekjublaði Frjálsrar verslunar árið 2004. Þær voru hins vegar til umræðu í neðri deild Alþingis árið 1913. Bjarni Jónsson frá Vogi mæltist þar til þess að styrkur hins unga lista- manns, sem var þá við nám í Kaupmannahöfn, yrði 1000 krónur í stað 800 króna eins og fjár- málafrumvarpið kvað á um. Bjarni gaf í skyn að fjárveitingavaldinu munaði lítið um þessa hækkun, „en lítið dregur vesalan, og svo er um þennan mann, sem orðið hefir að éta kálmeti í vetur til þess að geta lifað. Það kostar ekki nema 20 kr. á mánuði, en ekki verða menn feit- ir á því“. Meginrökstuðningur þingmannsins fólst þó í því að hér væri um að ræða einn efni- legasta listamann þjóðarinnar. Fyrir því nefndi hann þrjár ástæður. Í fyrsta lagi væri meðferð hans á litum með ólíkindum, þrátt fyrir tak- markaða menntun. „Gott dæmi þessa er það, að þegar hann var um tíma í London fyrir nokkru, þá gerði hann þar mynd eina með vatnslitum og náði þegar í hana nákvæmlega þessum enska þjóðlega blæ, sem varla þekkist ann- arstaðar.“ Í öðru lagi hefði Kjarval í hyggju að gera málun andlitsmynda að aðalstarfi sínu en fagmann á því sviði hafi skort á Íslandi. „Meðal annars hefir hann nýlega gert vangamynd af mér,“ sagði Bjarni, „og er hún alllík og vel lif- andi, og ber, eins og flest frá hans hendi, auð- kenni listamanns, sem kann að lífga verk sín.“ Í þriðja lagi taldi þingmaðurinn víst að Kjarval mundi velja myndum sínum söguleg viðfangs- efni, „sýna oss Íslendingum það, sem vér eigum fegurst í endurminningum þjóðar vorrar og klæða það holdi og blóði. Þá eigum vér ekki lengur þær myndir í hugskoti voru eingöngu, heldur sýnilegu gervi frá hendi góðs lista- manns.“8 Enda þótt ástæða sé til að taka þessum um- mælum með fyrirvara – líklega sagði Bjarni samþingmönnum sínum það sem þeir vildu heyra – eru þau fróðlegur vitnisburður um hvaða eiginleikar þóttu prýða góðan myndlist- armann í upphafi tuttugustu aldarinnar. Í öll- um tilvikunum var lögð áhersla á getu Kjarvals til að gera góðar eftirmyndir, hvort sem fyr- irmyndirnar voru enskar vatnslitamyndir, ís- lenskir þingmenn, eða sögulegir viðburðir. Kjarval virðist hins vegar frá upphafi hafa ver- ið í meðvitaðri uppreisn gegn slíkum viðhorfum og haft skömm á þeim sem létu sér nægja að kópera fyrirmyndir. Í bók Thors Vilhjálms- sonar kemur afstaða hans í þessu efni skýrt fram: „Málarinn taki úr sjáaldri mannsins, seg- ir Kjarval: það sem býr á regnbogahimnunni af reynslu og færi það á myndflötinn. Hann hefur talað um að málarinn láti landslag ljósmynda sig, – málarinn noti landslagið til að sýna sjálf- an sig andstætt því að gera eftirlíkingu af landslaginu.“9 Þessi sjálfstæða afstaða til viðfangsefnisins átti vafalaust drjúgan þátt í því að Íslendingar fóru snemma að tala um að tiltekið landslag væri „kjarvalskt“, rugla saman frummynd og eftirmynd. Thor Vilhjálmsson hefur orð á þessu í bók sinni: „Kjarval hefur gefið okkur nálægð- ina. Fólk sem allt í einu sér litaspil í mosa seg- ir: Nei sko hvað þetta er fallegt. Þetta er bara alveg einsog Kjarvalsmálverk.“10 Taka má um þetta fleiri dæmi. Í Árbók Ferðafélagsins árið 1933 rifjar Pálmi Hannesson til að mynda upp fimm daga ferð sem hann hafði farið tveimur árum fyrr í Kýlinga, svæði sem er skammt fyr- ir austan Landmannalaugar. Pálmi segir að fyrsti dagurinn hafi verið fegurstur: „Þá vorum við uppi á Kirkjufelli. Veðrið var svo kyrrt, að ekki blakti hár á höfði, sólin skein í heiði, og loft- ið var tært, eins og dögg á heiðamosa. Á aðra hönd breiddust öræfin blá og hvít milli Hvannadalshnjúks og Hlöðufells, eins og undursamleg opinberun, en á hina lágu líparítfirnindi Torfajökuls með æfintýralegt óhóf forms og ljósra lita, en eitthvað laus í bönd- unum, líkt og málverk Kjarvals og kvæði séra Matt- híasar. Nóttina áður dreymdi mig, aldrei þessu vant. Mér þótti ég vera kominn á málverkasýningu for- kunnarfagra, og meistarinn tók mér ljúfmannlega og sýndi mér málverkin. Draumurinn varð fyrir daglát- um, því þennan dag sá ég mikil listaverk, og meist- arinn var mér ljúfur. Aldrei hefi ég séð öræfin fegri en þá.“11 Hér ber reyndar að hafa í huga að fleiri les- endur Pálma þekktu á þessum tíma málverk Kjarvals en þær afskekktu slóðir sem fjallað er um í Árbókinni en það breytir því ekki að lista- maðurinn og skaparinn hafa gengið hvor í ann- ars hlutverk, öræfaferðin jafnast á við heim- sókn á magnaða málverkasýningu. Nýlegra dæmi er úr skáldsögunni Borg sem skáldið og myndlistarkonan Ragna Sigurð- ardóttir sendi frá sér árið 1993. Lokakafli verksins lýsir gönguferð tveggja aðalpersóna, þeirra Vöku og Loga, um Þingvelli. Þau ganga hægt og leiðast. Hér myndi Shostakovich eiga vel við, segir Logi. Við okkur á göngu, við landslagið og birtuna. Hann er mátulega dramatískur og einnig kyrrlátur inn á milli. Það er á honum sunnudagsblær, sérstaklega strengjakvartettunum. Og þessi sunnudagsmorgun er svo dæmigerður að ég finn næstum lykt af lambalæri í ofninum. Þeir eru kannski að elda lamb niðrá Valhöll, segir Vaka. Strengjakvartett númer fjögur, spilaður af Borodin String Quartet. Ég er nýbúinn að kaupa geisladisk með þeim. Logi hleypur fram fyrir Vöku og rammar inn andlit hennar með höndunum. Nærmynd, andlit Vöku, segir hann. Vaka: Eins og að ganga inn í málverk Jóns Stef- ánssonar. Logi: Eða ofaná Kjarval. Vaka: Birtan minnir á Munk. Logi: Mér dettur í hug Tarkowsky, sérstaklega þoku- slæðingurinn yfir vatninu. Vaka: Frú Bovary; þar sem Emma gengur með ást- manni sínum í skóginum og dalalæðan þéttist, lyftist og leysist upp á víxl. Logi: Þetta væri góður bakgrunnur í auglýsingu fyrir líftryggingar.12 Fyrir þeim Loga og Vöku virðist náttúran vera óraunverulegt fyrirbæri, eftirlíking tákna og stemninga sem þau þekkja af málverkum, úr bíómyndum eða auglýsingum, en Logi starfar einmitt við auglýsingagerð. Sjálfur kunni Kjarval illa við slík viðbrögð við verkum sínum. Í Kjarvalskveri hefur Matt- hías Johannessen eftir honum: „Það er móðgun við alnáttúruna, þegar fólk sér eitthvað fallegt í henni og segir: „Þetta er kjarvalskt.“ Svoleiðis fólk ætti að fá kárínur fyrir. Í staðinn fyrir að það ætti að segja eins og þeir í Brazilíuför- unum, þegar þeir sáu eitthvað fallegt: „Nú ætti bróðir minn að vera kominn og sjá þetta með mér.““13 Staðreyndin virðist engu að síður sú að rétt eins og Jóhannes og síðar Kjarval hafi horfið úr andlitsmyndinni sem birtist á forsíðu Frjálsrar verslunar þá hefur íslensk náttúra orðið landslagsmálverkinu og táknrænum eft- irmyndum þess að bráð. Einar Garibaldi hefur glímt við þau örlög í fjölda verka sinna, meðal annars röð mynda þar sem tákn Vegagerð- arinnar fyrir áhugaverða staði er í aðal- hlutverki (ein þessara mynda var á sýningunni Bláma 1999). Sömu hugmyndir liggja til grund- vallar röð nýlegri mynda Einars þar sem fyr- irmyndirnar eru kort Landmælinga ríkisins af Íslandi. Þar glímir hann með enn almennari hætti við það „hvernig við skoðum landslag og málverk“, svo vitnað sé til fróðlegrar greinar Hlyns Helgasonar um þessar myndir, „en einn- ig hvernig við myndum okkur heildarmyndir úr hlutum sem alls ekki eiga eða geta passað sam- an“.14 Á nýjustu myndinni í þessari kortaröð tekur Einar jafnframt upp þráðinn frá myndunum sem hann sýndi á Kjarvalsstöðum árið 1999. Fyrirmynd þessarar myndar er göngukort sem Kjarvalsstofa í Borgarfirði eystri hefur gefið út í því augnamiði að vísa ferðafólki á fjóra staði sem Kjarval málaði. Á þremur þessara staða, segir á kortinu, „finnur þú eftirprentanir af málverkum, sett upp á trönur þar sem talið er að þau hafi orðið til. Á þeim fjórða finnur þú rústir af smalakofa Kjarvals“. Í þessu tilviki er náttúran ekki treyst til að tala fyrir sig sjálfa heldur þiggur hún merkingu sína af því að vera fyrirmynd tiltekinna málverka Kjarvals. Ferða- fólki er ætlað að taka sér stöðu við trönur lista- mannsins, með eftirlíkingar Kjarvalsmálverka fyrir framan sig, væntanlega til að leggja mat á hve vel náttúrunni tekst að líkja eftir listinni. Að lokum Ég hóf þessa grein á að ræða um þann mun sem Jorge Luis Borges gerði á Borgesi og sér og gaf mér að með áþekkum hætti hefðu eitt sinn verið til tveir menn, einstaklingurinn Jó- hannes og listamaðurinn Kjarval. Til er skemmtileg heimild sem virðist staðfesta þenn- an klofning. Ólafur Maríusson segir að eitt sinn hafi menn verið að setja upp sýningu á verkum listamannsins í Listamannaskálanum og voru allir þar gjammandi að honum: „Kjarval, Kjar- val.“ Þá segir hann við Ólaf: „Heyrðu, heldur þú að þú vildir ekki kalla mig Jóhannes. Þetta er alveg eins og hundar séu að gelta.“14 Umfjöllun mín, sem innblásin er af mál- verkum Einars Garibalda, hefur miðað að því að skoða framhald þessarar þróunar, því sjálf- stæða lífi sem Kjarval hefur átt sem tákn, löngu eftir að þeir Jóhannes voru allir. Ég hef annars vegar látið að því liggja að Kjarval sé horfinn úr myndinni framan á Frjálsri verslun og hins vegar að verk hans séu farin að skyggja á íslenska náttúru. Ef við bætum við þessa rök- færslu þeim ummælum listamannsins sjálfs að landslagsmyndir hans séu í raun sjálfsmyndir má álykta sem svo að Kjarval hafi ekki málað andlit sitt á vegg í afskekktu húsi, eins og Steinn Steinarr, heldur á striga landslagsins sjálfs. Þessi niðurstaða virðist fullkomlega órökrétt en hún kemur með einkennilegum hætti heim og saman við „Epilogue“, annan magnaðan texta eftir Borges: „Árin líða og maður byggir lönd, uppfyllir heim sinn. Hann dregur upp myndir, af hjálendum, konungsríkjum, fjöllum, flóum, skipum, eyjum, herbergjum, tólum, stjörnum, hestum og fólki. Skömmu fyrir and- látið verður honum ljóst að allt það völund- arhús sem hann af slíkri elju hefur fullkomnað, er í sérhverju smáatriði línanna nákvæm eft- irmynd af andliti hans sjálfs.“15  Tilvísanir: Jorge Luis Borges. „Borges og ég.“ Suðrið. Þýð: Guðbergur Bergsson. Reykjavík 1975, s. 31. 2 Einar Garibaldi Eiríksson. Blámi. Reykjavík 1999. 3 Sjá Jón Karl Helgason. Hetjan og höfundurinn. Reykjavík 1998, s. 197–207. 4 Thor Vilhjálmsson. Kjarval. 2. útgáfa. Reykjavík 1978, s. 132 5 Jón Karl Helgason. Hetjan og höfundurinn. Reykjavík 1998, s. 200. 6 Matthías Johannessen. Kjarvalskver. Reykjavík 1968, s. 69. 7 Sama rit, s. 73. 8 Alþingistíðindi 1913. C: Umræður í neðri deild. Reykjavík 1913, dálkar 1699–1700. 9 Thor Vilhjálmsson. Kjarval. Reykavík: Iðunn, 1978, s. 109. 10 Sama rit, s. 108. 11 Pálmi Hannesson. „Leiðir að Fjallabaki,“ Ferðafélag Ís- lands: Árbók 1933. Reykjavík 1933, s. 38-39. 12 Ragna Sigurðardóttir. Borg. Reykjavík 1993, s. 164–165. 13 Matthías Johannessen. Kjarvalskver. Reykjavík 1968, s. 29. 14 Sjá http://www.dada.is/ 15 Mappa með gögnum um Kjarval. Listasafn Reykjavíkur, I:232. 16 Jorge Luis Borges. „Epilogue.“ Blekspegillinn. Þýð. Sigfús Bjartmarsson. Reykjavík 1990, s. 115. alnáttúruna“ Höfundur er bókmenntafræðingur. De somniis Málverk eftir Einar Garibalda sem sýnt var á sýningunni Bláma á Kjarvalsstöðum 1999.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.