Lesbók Morgunblaðsins - 05.11.2005, Page 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 5. nóvember 2005
við Háskóla Íslands undanfarið? Hefur ljóðið
nægilega mikið vægi í kennsluskrá bók-
menntafræðinnar og íslenskudeildarinnar
sem þið kennið við?“
Sveinn Yngvi: „Ég held ekki. Ég held að
ljóðið hafi ekki notið sín sem skyldi í skóla-
kerfinu, hvorki í háskólanum né á öðrum
skólastigum. En vonandi er það að breytast
og bókinni er einmitt ætlað að vekja athygli á
því hvað ljóð eru í raun fjölbreytilegt við-
fangsefni. Og það er kannski engin tilviljun
hvað þau höfða enn sterkt til okkar. Ég held
að hvað ljóðið varðar, náttúrusýn og fleira þá
lifum við á eftirrómantískum tíma. Með því er
ég ekki að halda því fram að ljóðið hafi sömu
stöðu nú og á nítjándu öld, ég tel að svo sé
alls ekki. En við leitum til ljóða á eftirróm-
antískan hátt. Við búumst við því að ljóðið
segi okkur eitthvað um heiminn.“
Ástráður: „Já, ég held að það sé rétt að
við erum að mörgu leyti enn börn rómantík-
urinnar. Það kemur til dæmis fram í því að
við neitum að gefa frumleikann upp á bátinn
sem er rómantískt einkenni.“
Sveinn Yngvi: „Við höldum enn í fjöl-
margar hugmyndir rómantíkurinnar, um
frumleikann og hina einstöku sýn, snillinginn,
höfundarmiðjuna og fleira.“
Ástráður: „Ég held reyndar að við þurf-
um að horfa lengra aftur þegar ljóðið er ann-
ars vegar. Það er erfitt að öðlast skilning á
bókmenntahefð nema með hliðsjón af ljóðinu.
Mikið af bókmenntum fyrri tíma er í bundnu
formi og það skiptir máli hvernig þeim hefur
verið miðlað inn í nútímann, frumleiki þýð-
endanna skiptir máli. Í grein minni í bókinni
kemur Helgi Hálfdanarson við sögu en hann
er eitt aðalljóðskáld síðari hluta tuttugustu
aldar á Íslandi, ekki síst í krafti þess hvernig
hann miðlar til okkar öllum þeim hefðum sem
hann hefur fengist við í þýðingum sínum.“
Sveinn Yngvi: „Ég held við eigum róm-
antíkinni mjög margt upp að inna. Við notum
hugtakaforða hennar nánast án þess að gera
okkur grein fyrir því.
Við köllum þessa bók Heim ljóðsins sem er
mjög rómantískur titill, minnir á tilhneig-
inguna til að líta á ljóðið sem lífræna heild, á
skáldskapinn sem heim út af fyrir sig. Það
kann að vissu leyti að vera gott að styðjast
við þessa orðræðu nítjándu aldarinnar en það
kann líka að byrgja okkur sýn að einhverju
leyti.“
Dagný: „Framúrstefnuhreyfingarnar á
tuttugustu öldinni reyndu að brjótast undan
þessum hugmyndalega og fagurfræðilega arfi
rómantíkurinnar en uppreisnin var ekki alltaf
eins róttæk og hún virtist vera.
Menn tókust til dæmis ekki á við kynjatví-
hyggjuna og héldu áfram að „feðra“ skáld-
skapinn.“
Ástráður: „Já, það reynist erfitt að losna
við „höfundinn“, jafnvel í ljóðum þar sem
tungumálinu er sundrað í einstök stafatákn
eða brugðið á leik með því að raða stöfunum í
mynd á blaði.“
Dagný: „Útilokun kvenna bæði úr hefð-
bundinni ljóðlist og uppreisnargjörnum
skáldahópum hefur verið notuð til að skýra að
þær leituðu frekar í prósa og náðu heil-
miklum áhrifum þar þó að framúrskarandi
skáldkonur hafi náttúrlega alltaf verið til.“
Ástráður: „Ljóðið sjálft er líka lífseigt.
Fólk heldur til dæmis fast í þá hefðbundnu
hugmynd að ljóðið geti miðlað lífsreynslu á
ögurstund.“
Blm.: „Það er reyndar merkileg þversögn
að á sama tíma og nánast allir virðast vera að
yrkja, ekki síst þegar mönnum finnst þeir
þurfa að tjá tilfinningar sínar, þá seljast
ljóðabækur mjög illa.“
Dagný: „Er það satt? Ef maður er svo
heppinn að hafa ferðast um í útlöndum með
Ingibjörgu Haraldsdóttur þá veit maður ekki
fyrri til en íslenskir aðdáendur eru komnir og
segjast sofa með ljóðabækur hennar á nátt-
borðinu og vitna í ljóð eftir hana eins og ekk-
ert sé sjálfsagðara. Það mætti halda að ljóða-
bækur hennar seldust í 250 þúsund
eintökum.“
Sveinn Yngvi: „Það er oft sagt að ljóðið
geymi minningar, það sé sameiginlegur minn-
ingabanki okkar. En svo er líka talað um það
sem einskonar sjálfshjálpartæki, það geti
hjálpað í sorg og neyð. Þetta kemur fram í
ýmsum greinum bókarinnar.“
Ástráður: „En það eru líka einhver
tengsl á milli þessa hlutverks og hins út-
breidda viðhorfs að ljóðið sé spariform, fag-
urfræðilegur hlutur sem ekki er hluti af hinni
hversdagslegu bókmenntareynslu.“
Blm.: „Ljóðið er ekki lengur deiluefni eins
og það var um og eftir miðja síðustu öld þeg-
ar formbyltingin svokallaða ætlaði allt um
koll að keyra.“
Ástráður: „Nei, en þetta tengist kannski
frekar viðtökum ljóðsins. Ljóð eru auðvitað til
í allri breidd og lengd, allt frá mjög formlegri
tjáningu til talmáls eða jafnvel spjalls og þau
gefa ítrekað tilefni til umræðna.
Kannski erum við orðin of feimin að ræða
ekki bara um heldur við ljóðið.“
Dagný: „Ég held að þetta sé enn arfur frá
rómantíkinni að ljóðið sé dýpri eða sannari
tjáning en prósinn, ljóðið spretti úr hug-
arfylgsnunum og sambandi okkar við æðri
máttarvöld og segi því satt. Þetta er kannski
skylt viðhorfi okkar til barnsins sem sé hreint
og saklaust og því eins konar sjáandi, það sjái
það sem sé öðrum hulið eins og barnið í sögu
H.C. Andersens um Nýju fötin keisarans.“
Blm.: „Tengsl ljóðsins við tónlistina skiptir
kannski máli í þessu samhengi líka, að það sé
fremur tjáning á tilfinningu en skynsemi. Því
hefur til dæmis verið haldið fram að prentið
hafi drepið ljóðið, það sé ekki hægt að kveða á
hvítum pappír.“
Sveinn Yngvi: „Já, það er stundum litið
á ljóðlistina sem eins konar tilfinningaflæði
eða tónlist sálarinnar, en svo eru auðvitað til
annars konar ljóð, ekki endilega ljóð sem eru
að öllu leyti ort með höfðinu heldur ljóð sem
eru ekki eins sönghæf ef svo má að orði kom-
ast. Ég held að samtímakveðskapur eigi að
ýmsu leyti uppruna sinn annars vegar í ímag-
ismanum, knöppum ljóðum þar sem myndin
er látin segja allt sem segja þarf, og hins veg-
ar hefð mælskulegs flæðistíls suður-
evrópskra eða rómanskra skálda eins og
Lorca og Neruda. Snorri Hjartarson og
Gyrðir Elíasson eru dæmi um hið fyrrnefnda
en hjá mörgum skáldum má finna hvernig
þessar tvær hefðir koma saman, til dæmis hjá
Vilborgu Dagbjartsdóttur, Matthíasi Johann-
essen og Sigurði Pálssyni. Vilborg yrkir jap-
anskar tönkur en hún kann líka að láta ljóðið
flæða.“
Dagný: „Mér þykir þetta forvitnileg kenn-
ing en það má þó benda á að samband mynd-
ar og ljóðs er eiginlega jafngamalt ljóðinu: Ut
pictura poesis, sagði Hóras, eins og myndin
svo er ljóðið. Þröstur nefndi samband tónlist-
ar og ljóðs áðan en það má segja að ljóðið hafi
verið í átakasambandi við myndina alveg frá
upphafi.“
Sveinn Yngvi: „En ég vildi nú einna
helst leggja áherslu á þessa tvo meg-
instrauma í samtímaljóðlist, knöppu myndina
og flæðið.“
Ástráður: „Ég veit ekki hvort þú nærð
utan um ljóð nútímans með þessari kenningu
þótt ég sé hrifinn af henni. Ezra Pound orti til
dæmis frægt ljóð í tveimur línum um neð-
anjarðarlestarstöð en hann orti líka geysilega
orðmörg ljóð. Við getum líka nefnt Eyðiland
Eliots og Tímann og vatnið eftir Stein Stein-
arr sem er vissulega myndasafn, einnig
Dymbilvöku Hannesar Sigfússonar og fleiri
ljóðabálka sem virðast sprengja þessa tví-
hyggju utan af sér.“
Sveinn Yngvi: „Þetta er ekki tvíhyggja í
merkingunni andstæðuhugsun heldur tvær
rætur eða tveir straumar í nútímaljóðinu sem
renna oft saman. Tíminn og vatnið er í raun
röð myndrænna smáljóða þó að þetta birtist
sem ljóðabálkur. Eliot yrkir saman brot, að
minnsta kosti í Eyðilandinu, en svo getur
hann líka ort streymandi ljóð.“
Ástráður: „En með því að yrkja eins kon-
ar brotasafn þá nær Eliot að skapa þennan
heim heildarinnar sem þú varst að tala um
áðan, og það er kannski eina leiðin til þess að
endurspegla heiminn. Frægar lokalínur
Eliots vísa einmitt til þess að í rústunum
safnar maður saman brotunum og býr til úr
þeim það sem maður getur. Og hvað með frá-
sagnarljóðið sem á sér mikla hefð? Líður það
undir lok?“
Sveinn Yngvi: „Ef þú átt við hið breiða
epíska ljóð þá er það ekki mjög áberandi síð-
ustu tvær aldirnar eða svo. Annars eru mörk-
in milli sögu, leikrits og ljóðs oft mjög óljós.
Forn skáldskapur sem við köllum jafnvel ep-
ískan er oft settur fram í ljóðaformi. Þannig
að það er erfitt að setja ljóðið á einhvern bás.
Þessi tenging við tónlistina, sem Þröstur
nefndi áðan, gengur síðan þvert á allar grein-
arnar og gerir málið enn flóknara.“
Dagný: „Ég held reyndar að söguljóðið,
ljóð sem segir sögu, hafi lifað áfram í ball-
öðunni og þaðan yfir í fjöldamenninguna.
Dægurlagatextar voru afar epískir eins og
frægt er orðið, „Won’t you wear my ring aro-
und your neck“, sem Presley söng, breyttist í
Lóu litlu á Brún sem segir dramatíska sögu
um flutninginn úr sveit í borg á Íslandi, átök
kynjanna og neysluvæðingu þjóðarinnar. Þar
er söguljóðið orðið að alþýðumenningu.“
Sveinn Yngvi: „Mér finnst þetta já-
kvætt. Ég held að ljóðið hafi að vissu leyti
gengið í endurnýjun lífdaga í dægurmenning-
unni eða afþreyingarmenningunni, gömlu
sagnadansarnir eða ballöðurnar til dæmis í
söngvum Megasar og fleiri tónlistarmanna.
Það hefur líka verið litið á rapp í ljósi alþýðu-
hefðar fyrri alda, þulukveðskaparins. Áhyggj-
ur manna af lífi ljóðsins eru því óþarfar, ljóðið
er spriklandi í þessum menningarkimum.“
Blm.: „En talandi um mörk ólíkra bók-
menntagreina þá hefur það verið lenska und-
anfarin ár að skáld yfirgefi ljóðið og snúi sér
að skáldsagnaritun. Þetta virðist vera algeng-
ara nú en fyrir fimmtíu árum þegar hrein-
ræktuð ljóðskáld, ef svo má segja, voru tals-
vert mörg. Hver er ástæðan fyrir þessu?“
Sveinn Yngvi: „Þetta er afkomuspurn-
ing.“
Ástráður: „Ef þetta er afkomuspurning,
var það þá ekki þannig áður? Eða hefur
skáldsagan svona mikið markaðslegt aðdrátt-
arafl?“
Blm.: „Segir þetta hugsanlega eitthvað um
innri styrk ljóðsins sem bókmenntagreinar nú
um stundir, nær hún ef til vill ekki utan um
tímann?“
Dagný: „Höfundar vilja ná út, bæði ungir
og eldri, og það er þulið aftur og aftur að eng-
inn lesi ljóð. Ég held að þetta hafi áhrif, ekki
síst á ungt fólk. Það skrifar annaðhvort ekki
ljóð eða skrifar kannski ljóð á ensku.“
Ástráður: „Það verður reyndar að nefna
skáld eins og Jónas Þorbjarnarson og Sig-
urbjörgu Þrastardóttur sem hafa sinnt ljóð-
inu fyrst og fremst, það gildir einnig um Sig-
urð Pálsson og Ágústínu Jónsdóttur, ásamt
svo ýmsum eldri ljóðskáldum. Og Gyrðir Elí-
asson hefur sýnt fram á það hvernig ljóðið og
sagnagerðin geta vaxið fram hlið við hlið.“
Sveinn Yngvi: „Mér þykir að minnsta
kosti óþarfi að leggja mikla áherslu á að
menn séu á æðisgengnum flótta frá ljóðinu.
Ég vil skilgreina ljóðið vítt. Mjög margt af því
sem við verðum vitni að í samtímamenningu
er ljóðrænt með einhverjum hætti, bæði í
poppi, rokki og jafnvel í auglýsingum. Ljóðið
á ekki að vera heilagt form í útgefinni bók
heldur megum við alveg tala um ljóðið sem
hið ljóðræna í samfélaginu. Grein Eiríks Guð-
mundssonar um bókmenntaástand samtímans
í Lesbók fyrir nokkrum vikum var til dæmis
bullandi póesía í bland við fræði. Til hvers
ættum við að aðgreina þessa hluti.“
Ástráður: „Hagmælska virðist líka í
sókn; stakan eða lausavísan blómstrar víða,
en ein grein bókarinnar fjallar einmitt um
hana.“
Blm.: „Tölvupósturinn hefur hleypt nýju
lífi í vísnagerð, það er augljóst til dæmis bara
á fjölmennum vinnustað eins og Morg-
unblaðinu þar sem fólk er að kveðast á um
ólíklegustu málefni með tölvupósti.“
Ástráður: „Og svo við höldum áfram með
ljóðrænuna, þá er hún líka frumefni í mörgum
skáldsögum. Sumir skáldsagnamenn, ekki síst
bahktínistar, kunna að líta á ljóðið sem eina
þeirra bókmenntagreina sem skáldsagan hafi
svelgt í sig. En það má líka horfa úr hinni átt-
inni. Nefna má rithöfunda eins og Thor Vil-
hjálmsson sem er að sumu leyti skrifandi
ljóðskáld samfellt á tugum síðna í sögum sín-
um. Einnig Guðberg Bergsson sem á marga
fallega ljóðræna spretti sem hann síðan gref-
ur gjarnan undan með andljóðrænu.“
Sveinn Yngvi: „Ég held við megum ekki
heldur binda okkur við hið hefðbundna ljóða-
form, það þurfi að vera á miðri síðunni og
skipt í línur og svo framvegis.“
Ástráður: „Getum við ekki brugðið á ráð
framúrstefnumanna, klippt nokkur orð út úr
dagblaði og sett í hatt sem við síðan drögum
ljóðin upp úr?“
Sveinn Yngvi: „Já, því ekki það, tilvilj-
unin getur verið ljóðræn.“
Ástráður: „Og líklega er ljóðið talsvert
tengt hinu óvænta.“
Blm.: „En að lokum, hvað segið þið um
ungu skáldin. Eysteinn Þorvaldsson gagn-
rýndi ungu skáldin í viðtali í Lesbók fyrir
skömmu: „Þau yrkja um hversdagsleikann og
einkalífið. Mér þykir vanta ástríðu í þennan
kveðskap, skaphita, afstöðu en kannski er
slíkt ekki lengur í tíðarandanum,“ sagði Ey-
steinn. Hann talar líka um að ljóðformið sé í
kreppu, ungu skáldin virðist ekki finna leiðir
til að breyta því, laga það að nýjum tíma, nýj-
um viðfangsefnum. Eruð þið sammála
þessu?“
Sveinn Yngvi: „Þetta er gagnrýni sem
áður hefur verið viðhöfð á tuttugustu aldar
skáldskap. Það hefur verið talað um skort á
lífsháska. Þorsteinn frá Hamri fjallar um
þetta í ljóði sínu Jórvík þar sem nútímaskáld-
ið fer halloka fyrir Agli Skallagrímssyni í
samanburði á háskalegu líferni. En ég held að
í ljóðum ungra skálda nú um stundir sé lífs-
háskinn kannski ekki á yfirborðinu. Mér sýn-
ist að í ljóðagerð tuttugustu aldar, alveg fram
til loka kalda stríðsins, ef því er þá lokið, sé
atómsprengjan undirtexti, kannski ekki endi-
lega sprengjan sjálf heldur hvers kyns vá og
gereyðingarógn. Þessi ógn birtist stundum í
myndmáli en oftast sem hið hálfsagða eða
ósagða. Á yfirborðinu er afskaplega hljótt en
það á líka við um örvæntingu yfirleitt.
Ég held því að það sé margt í hinni hljóð-
látu ljóðagerð, hinum knöppu myndrænu ljóð-
um til dæmis, brotaljóðunum eða þagnarljóð-
inu, sem við komum ekki svo auðveldlega
auga á. Ég held að atómskáld sé hrollkennt
réttnefni á þeirri kynslóð en kannski líka síð-
ari kynslóðum ljóðskálda.“
Dagný: „Ég held að Eysteinn sé eins og
margir fræðimenn og raunar listamenn af
hans kynslóð að tala út frá ákveðnu hand-
verki og tilfinningu sem tilheyrði módernist-
unum, fágaðri naumhyggju og skarpri tilfinn-
ingu fyrir myndmáli, vánni undir og
heimsendahljóminum sem hann Sveinn Yngvi
var að lýsa. Ég tel að ungu skáldin í dag séu
að vinna út frá allt annarri fagurfræði og það
sé ekki rétt að segja að þau vanti þetta og
hitt. Þeirra heimsendahljómur er allt annar
en módernistanna. Sú kynslóð sem er að
yrkja núna er undir áhrifum fjöldamenning-
arinnar, kvikmynda, tölvuleikja, annarra og
samsettari tjáningarforma en eldri skáld.
Mér þykir þessi skáld vera mjög áhugaverð
til dæmis Haukur Ingvarsson og Kristín Ei-
ríksdóttir svo tvö séu nefnd. En þau verður
að skoða út frá öðrum viðmiðum en klassískri
tuttugustu aldar fagurfræði.“
Ástráður: „Ég ætla ekki að svara þessu
beint en ég held það sé erfitt að dæma skáld
af fyrstu verkum þeirra. Ef ég má koma aftur
að höfundarhugtakinu sem við hófum þetta
spjall á, þá má ekki síður spyrja hvað komi
fram í æviverki skálds. Ég held að það eigi
við um mörg ljóðskáld á tuttugustu öld að
ljóðið sem lífsverkefni skipti öllu máli. Þegar
skáldið hefur ort sig í gegnum lífið kemur í
ljós einhver merkingarheimur. Pound er aug-
ljóst dæmi, Ted Hughes líka, og maður getur
fylgst með hvernig þetta er að gerast hjá Sea-
mus Heaney, Þorsteini frá Hamri, Ingibjörgu
Haraldsdóttur, Gyrði Elíassyni og fleirum.
Ég held það séu gríðarlega mikil menning-
arleg verðmæti í þeirri lífssýn sem birtist í
æviverki ljóðskálda og þess vegna held ég að
það sé mikill skaði ef skáld eru í auknum
mæli að hverfa frá ljóðinu.“
Morgunblaðið/Þorkell
Sveinn Yngvi, Dagný og Ástráður Þau ræða
meðal annars um arf rómantíkurinnar, veldi
höfundarins og ljóðrænuna í samfélaginu.Ljóðið
er lífseigt