Lesbók Morgunblaðsins - 05.11.2005, Síða 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 5. nóvember 2005
#4
Eitt sinn er ég labbaði inní danssal bauð dökkhærður herra mér upp. Sá
hávaxnasti á staðnum og aldrei hafði ég séð jafn stórar hendur. Svo dans-
aði hann einsog engill, ekkert flóknara en það. Ég elska þig, sagði hann
en dansinn var nýlega hafinn. Er hægt að elska ókunnuga persónu,
spurði ég með kurteisi. Hjartað mitt er skyggnt, svaraði hann, það skynj-
ar úr fjarlægð hvenær það elskar og hvenær ekki. Ég elska þig þess
vegna bið ég um hönd þína hér og nú. Trúðu mér, þú munt aldrei hitta
jafn ríkan mann og mig. Það ég veit afþví að ég er skyggn. En skemmti-
legt, svaraði ég hlæjandi en átti ekki von á öðru en að dansherra minn tal-
aði meir í gamni en af alvöru. Ég hlusta ekki á neitt nei, hélt hann áfram.
Blóðþrýstingurinn í mér hækkaði. Hvernig er best að bregðast við ef há-
vaxnasti herrann í salnum biður um hönd manns í miðjum dansi og alls
staðar í kring dansar ókunnugt fólk. Ég hrækti framan í herrann því
munnvatn mitt er eitrað og á svipstundu lamaðist andlitið á honum. Ég
hljóp úr salnum fram í anddyri og stefndi í átt að útidyrunum þegar
áhugasamir verðir handtóku mig en ég hrækti framan í þá. Fyrst þann er
greip í vinstri handlegginn svo hinn er greip í þann hægri. Andlit varð-
anna lömuðust á meðan ég hljóp útúr höllinni yfir dimmt engi og í fram-
haldi af því inní dimman skóg.
Kristín Ómarsdóttir
Á
nítjándu öld álitu margir að
framfarir væru einhvers konar
lögmál. Þessi framfarahyggja
studdist að nokkru við heim-
speki Georgs Hegel (1770–
1831) sem var hughyggjumaður
og áleit að veruleikinn væri andlegs eðlis og
hann væri sífellt að læra og öðlast dýpri og rétt-
ari skilning á sjálfum sér. Fram-
faratrú af þessu háspekilega tagi
blandaðist á ýmsan hátt saman við
hugmyndir um líffræðilega þróun.
Þessa sér til dæmis stað í kenningu ítalska
mannfræðingsins Cesare Lombroso (1835–
1909) sem áleit að glæpamenn væru ein-
staklingar sem hefðu fallið niður á lægra þróun-
arstig og stæðu milli apa og fullþroskaðs nú-
tímamanns. Ef náttúruleg framvinda leiðir til
þess að menn verði sífellt betri og betri þá
hljóta vondir menn að vera vanþróaðir, ein-
hvers konar leifar frá fyrra og frumstæðara
stigi.
Sumar hugmyndir vísindamanna frá
nítjándu öld um marksækna þróun eru dálítið
broslegar. Ég get t.d. ekki stillt mig um að
glotta út í annað yfir hugmynd Carls Vogt
(1817– 1895) sem áleit að víst væru menn komn-
ir af öpum en ekki allir af sömu öpunum því
hvítir menn væru afkomendur simpansa, svart-
ir komnir út af górillum og forfeður Asíumanna
væru órangútanapar. Það er eins og Vogt hafi
talið að aparnir væru allir á sömu leið, í átt til
manns, og þeir sem væru enn apar hefðu bara
tafist.
Þróunarkenning Lamarcks, sem gerði ráð
fyrir að áunnir eiginleikar erfist, hafði ekki síð-
ur áhrif á hugmyndasögu nítjándu aldar en
kenning Darwins um náttúruval. Hugmynd
Lamarcks styður framfarahyggju a.m.k. ef gert
er ráð fyrir að lífverur leitist við að bæta sig eða
þjálfa upp góða eiginleika, því ef slík viðleitni til
þroska ber árangur og hann erfist þá munu
framfarir hverrar kynslóðar skila sér í því að
næsta kynslóð fæðist með meiri og betri nátt-
úrugáfur. En hvað um kenningu Darwins. Gef-
ur hún okkur ástæðu til að trúa á framfarir?
Darwin svarar þessu í tíunda kafla Uppruna
tegundanna þar sem hann segir:
Mikið hefur verið rætt um það hvort núlifandi lífs-
form séu á æðra framvindustigi en þau eldri. Ég mun
ekki fjalla nánar um þessi efni hér, enda hafa nátt-
úrufræðingar ekki enn orðið á eitt sáttir um merk-
ingu hugtakanna æðra og lægra framvindustig. En
samkvæmt kenningu minni hljóta yngri lífsform í
vissum skilningi að vera æðri en þau eldri, því nýjar
tegundir myndast þegar þær öðlast einhvers konar
yfirburði í lífsbaráttunni við eldri lífsform. Ef lífverur
frá eósentímanum ættu þess kost að keppa við núlif-
andi lífverur í einum heimshluta eða öðrum, þá er
öruggt að fána og flóra eósentímans mundi láta und-
an og deyja út; (Bls. 475)
Þeir yfirburðir í lífsbaráttunni sem Darwin
talar um eiga ekkert skylt við siðferðilega yf-
irburði. Kenning hans gefur ekkert tilefni til að
ætla að glæpamenn séu „vanþróaðri“ en annað
fólk eða að menn séu „þróaðri“ en aðrar teg-
undir eins og til dæmis grös, maurar og termít-
ar sem hafa ekki síður en maðurinn náð mikilli
útbreiðslu og vikið öðrum tegundum til hliðar.
Samkvæmt kenningunni um náttúruval eru
yngri lífsform aðeins hæfari í þeim skilningi að
þau eru betur fær um að margfaldast og upp-
fylla jörðina, enda eru þau eldri horfin af sjón-
arsviðinu vegna þess að þau urðu undir í sam-
keppni þar sem líf og dauði ráðast sjaldan af
vitsmunum, siðferði né neinu öðru sem talist
getur til kosta á mannlegan mælikvarða. Ef ein
tegund nær að aféta aðra svo hún hverfi af sjón-
arsviðinu þá hefur hún að vísu sýnt yfirburði, en
þeir yfirburðir jafngilda því engan vegin að hún
sé eitthvað betri. Hugsum okkur t.d. að fram
komi nýtt afbrigði þráðorma sem éti hrogn
sandsílis með þeim afleiðingum að sandsílum
fækki og mávategund sem lifir á þeim deyi út.
Þá hefur þráðormategund lagt mávategund að
velli en auðvitað er ekki þar með sagt að þráð-
ormur sé æðri eða betri skepna en mávurinn.
Kenning Darwins um náttúruval er stundum
útskýrð með orðalagi sem ættað er frá Herbert
Spencer og sagt að hún kveði á um að hinir hæf-
ustu lifi. Spencer trúði því að framfarir væru
náttúrulögmál enda aðhylltist hann þróun-
arkenningu Lamarcks. En eigi orðalagið um að
hinir hæfustu lifi að lýsa kenningu Darwins um
náttúruval þarf að slá tvo varnagla. Annar er sá
að „hæfur“ merkir eingöngu betur fær um að
fjölga sér við þær aðstæður sem ríkja í um-
hverfinu. Hinn varnaglinn er flóknari, því það
þarf að tilgreina hver eða hvað það er sem býr
yfir þessari hæfni.
Árið 1962 kom út bók sem heitir Animal dis-
persion eftir skordýrafræðinginn V. C. Wynne-
Edwards. Í bókinni gerir hann grein fyrir
dæmum af hegðun skordýra þar sem svo virðist
sem einstaklingar fórni sjálfum sér fyrir hópinn
sem þeir tilheyra. Af þessum dæmum dregur
Wynne-Edwards þá ályktun að samkeppni í
náttúrunni sé ekki aðeins milli einstaklinga
heldur líka milli hópa og náttúruvalið geti því
stuðlað að útbreiðslu eiginleika sem gagnast
hóp jafnvel þótt þeir skaði einstaklingina.
Með skrifum Wynne-Edwards urðu kaflaskil
í umræðu sem hófst fljótlega eftir að Darwin
ritaði Uppruna tegundanna. Þessi umræða
snýst um hvað það er sem náttúruvalið velur:
Eru það hæfustu hóparnir eða hæfustu ein-
staklingarnir eða hæfustu erfðavísarnir? Kenn-
ingin um hópval virðist hafa þann kost að geta
útskýrt mótun og tilurð arfgengra eiginleika
sem hindra einstakling í að fjölga sér en stuðla
að viðgangi hóps eða tegundar. Við getum tekið
sem dæmi ófrjósemi flestra kvendýra í maura-
búi, þar sem drottningin ein eignast afkvæmi,
eða fórnfýsi dýra sem hætta lífi sínu til að
bjarga öðrum af sömu tegund. Dæmi af þessu
tagi virðast benda til þess að einstaklingsval
ráði þróuninni ekki að öllu leyti, því þá mundi
náttúruvalið aðeins móta einstaklinga með eig-
inleika sem gagnast þeim sjálfum til að auka
kyn sitt.
Síðan Wynne-Edwards setti hugmyndir sín-
ar fram hafa þær sætt nokkuð harðri gagnrýni
og nú um stundir munu flestir líffræðingar
þeirrar skoðunar að hópval sé fremur veikt afl
og dæmi um fórnfýsi í lífríkinu sé yfirleitt hægt
að skýra með öðrum hætti. Veigamestu rökin
gegn kenningunni um hópval eru að sé eigin-
leiki skaðlegur einstaklingum sem bera hann þá
eignast þeir einstaklingar að jafnaði færri af-
kvæmi en aðrir einstaklingar sömu tegundar
svo hversu gagnlegur sem eiginleikinn er teg-
undinni hlýtur hann að verða sjaldgæfari með
hverri nýrri kynslóð. Við getum til dæmis hugs-
að okkur fuglategund þar sem einstaklingar
gefa frá sér hljóð og vara hina við um leið og
þeir sjá rándýr. Sá sem hljóðar vekur athygli á
sjálfum sér sem veldur því að ögn meiri hætta
er á að hann verði sjálfur fyrir árás, en hljóð-
merkin valda því að miklu færri fuglar í hópn-
um eru veiddir en ella væri. Hugsum okkur nú
að upp komi einstaklingar í fuglahópnum sem
leggja strax á flótta þegar þeir sjá rándýr án
þess að vara hina við. Þessir einstaklingar eiga
þá meiri möguleika á að auka kyn sitt en hinir.
Ef andfélagsleg afstaða þeirra gengur í arf
vinnur hún því á og verður algengari með
hverri kynslóð.
Væri aðeins um að ræða tvo möguleika, ein-
staklingsval og hópval, þá væri kenningin um
náttúruval í klípu því einstaklingsval getur ekki
skýrt tilveru eiginleika sem stuðla að viðkomu
hóps en draga úr viðkomu einstaklinga, en hóp-
val dugar ekki til að skýra hvers vegna slíkir
eiginleikar eru varanlegir og víkja ekki smám
saman fyrir eigingjarnri hegðun. Á sjöunda
áratug síðustu aldar brugðust líffræðingar eins
og John Maynard Smith við þessu með því að
gera ráð fyrir að náttúruvalið velji hvorki fyrst
og fremst hæfustu hópana né hæfustu einstak-
lingana heldur hæfustu erfðavísana. Þessi
kenning er líklega þekktust af bókinni The Sel-
fish Gene eftir Richard Dawkins sem út kom
árið 1976. Á íslensku gæti hún heitið Eigin-
gjarnir erfðavísar. Meginhugmyndin er afar
einföld: Ef erfðavísir (eða gen) stuðlar að því að
einstaklingum sem bera hann fjölgar að jafnaði
meira en hinum þá verður hann smám saman
algengari og algengari.
Með þessa hugmynd að vopni er hægt að út-
skýra hvernig á því stendur að flest kvendýr í
maurabúi eru ófrjó. Það er enginn erfðafræði-
legur munur á ófrjóu vinnudýri og drottningu.
Það eru ekki erfðir heldur aðstæður sem ráða
því hvaða einstaklingur verður drottning.
Hugsum okkur að kvendýrin séu þúsund og 999
vinnukonur hjálpi einni drottningu að eignist
tíu þúsund afkvæmi. Erfðavísarnir sem stjórna
þessari hegðun eru sameiginlegir öllum ein-
staklingunum og valda því að þúsund kvendýr
eignast saman tíuþúsund afkvæmi, eða sem
svarar tíu afkvæmum hver. Keppi þessir erfða-
vísar við aðra sem valda því að hvert kvendýr
komi að jafnaði upp níu afkomendum, þá hafa
þeir betur.
Þessi sama kenning um að náttúruvalið velji
erfðavísa fremur en einstaklinga eða hópa skýr-
ir einnig fórnfýsi sem dæmi er um hjá fuglum
og fleiri lífverum. Dýr sem eru saman í hóp eru
oft nánir ættingjar og því líklegt að erfðavísir
sem er í einu þeirra sé líka í mörgum hinna. Al-
mennt gildir að fyrir hvern erfðavísi í ein-
staklingi eru helmings líkur á að systkin, og átt-
ungs líkur á að frændsystkin, hafi hann líka.
Erfðavísir eykur því eigin útbreiðslu ef hann
lætur einstakling fórna sér fyrir fleiri en tvö
systkini eða fleiri en átta frændsystkin. Hugs-
um okkur hóp af tíu dýrum þar sem helmingur
eða fimm dýr hafa erfðavísi sem fær þau til að
vara hin við árás þótt þau stofni sjálfum sér í
hættu með því. Hugsum okkur líka að dýr sem
gefur frá sér viðvörunaróp taki 1% áhættu (þ.e.
að í eitt skipti af hundrað valdi hljóðmerkið því
að rándýr finni það og veiði) en ef ekkert hljóð-
merki er gefið þá séu 10% líkur á að einn úr
hópnum lendi í rándýrskjafti. Þar sem helm-
ingur dýranna ber erfðavísinn sem veldur
þeirri óeigingjörnu hegðun að gefa hljóðmerki
eru samkvæmt þessu 5% líkur á að merkjagjöf
komi í veg fyrir að einstaklingum með þennan
erfðavísi fækki um einn en aðeins 1% líkur á að
hún valdi því að þeim fækki um einn. Erfðavís-
irinn sem veldur því að dýrin gefa frá sér við-
vörunarmerki stuðlar því að eigin viðkomu.
Erfðavísar láta lífverur gera það sem er hag-
stætt fyrir þá fremur en þær og „eigingjarnir“
erfðavísar skýra hvernig á því stendur að til eru
óeigingjarnir einstaklingar.
Eigingjarnir erfðavísar
Gefur kenning Darwins um náttúruval okkur
ástæðu til að trúa á framfarir? Þeir yfirburðir
í lífsbaráttunni sem Darwin talar um eiga ekk-
ert skylt við siðferðilega yfirburði. Kenning
hans gefur ekkert tilefni til að ætla að glæpa-
menn séu „vanþróaðri“ en annað fólk eða að
menn séu „þróaðri“ en aðrar tegundir eins og
til dæmis grös, maurar og termítar sem hafa
ekki síður en maðurinn náð mikilli útbreiðslu
og vikið öðrum tegundum til hliðar.
Eftir Atla
Harðarson
atli@fva.is
Morgunblaðið/Þorkell
Goggunarröðin „Hugsum okkur t.d. að fram komi nýtt afbrigði þráðorma sem éti hrogn sandsílis með þeim afleiðingum að sandsílum fækki og mávategund sem
lifir á þeim deyi út. Þá hefur þráðormategund lagt mávategund að velli en auðvitað er ekki þar með sagt að þráðormur sé æðri eða betri skepna en mávurinn.“
Höfundur er heimspekingur.
Uppruni tegundanna
Einu sinni saga
Höfundur er rithöfundur.