Morgunblaðið - 03.03.2005, Qupperneq 15
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 3. MARS 2005 15
ERLENT
EINN þátturinn í þeirri lýðræðisvakningu sem
nú virðist hafin í Mið-Austurlöndum er sú
óvænta ákvörðun Hosni Mubaraks Egypta-
landsforseta um sl. helgi að leyfa fleiri en einum
manni að bjóða sig fram til forseta í haust. Her-
lög hafa gilt í landinu í nær 25 ár, fjöldafundir
og mótmæli eru bönnuð samkvæmt lögum en
forsetinn sagðist um helgina telja að svo „mikill
stöðugleiki“ ríkti nú í landinu að hægt væri að
auka þannig valfrelsið. En margir efast um heil-
indin að baki orðum hans.
„Ég get enn ekki trúað því að ég sé að tala um
frjálsar forsetakosningar í Egyptalandi,“ sagði
Hisham Kassem, sem hefur barist fyrir mann-
réttindum í Egyptalandi. „Ef ég verð ekki lam-
inn í klessu eða handtekinn og varpað í fanga-
klefa held ég núna að svo geti farið að lýðræði
verði að veruleika hér meðan ég er enn á lífi,“ er
haft eftir Kassem í bandaríska dagblaðinu The
Christian Science Monitor.
Egyptar eru rúmlega 70 milljónir og hafa
lengi verið taldir vera forystuþjóð arabaheims-
ins og bjartsýnismenn segja að Mubarak skynji
nú að lýðræðið liggi í loftinu. Og ekki má gleyma
því að Bandaríkjamenn þrýsta nú ákaft á um að
gerðar verði breytingar. Orð Bush eru þung á
metunum; að undanskildum Írökum og Ísr-
aelum eru Egyptar sú þjóð í heiminum sem fær
mesta fjárhagsaðstoð frá Washington.
Hálf öld flokkseinræðis
Egyptar hafa í um hálfa öld orðið að sætta sig
við að einn flokkur réði í reynd öllu í landinu.
Lýðræðislegi þjóðarflokkurinn kennir sig við
sósíalisma en á rætur í þjóðernishreyfingu
ungra liðsforingja. Þeir steyptu síðasta konungi
landsins, Farouk, 1952 og hann fór í útlegð.
Anwar Sadat forseti var myrtur í sprengju-
tilræði 1981. Mubarak, þá varaforseti, tók við og
hefur alltaf verið endurkjörinn forseti með
þorra atkvæða. Hann er nú 76 ára og talið lík-
legt að hann fari enn einu sinni fram. Ýmis teikn
hafa hins vegar verið á lofti um það síðustu árin
að forsetinn vildi að sonurinn, Gamal Mubarak,
sem er 41 árs, tæki við af sér. Fordæmi fyrir
slíku ættarveldi eru mörg í Mið-Austurlöndum.
Sem dæmi um stjórnarfarið hingað til má
nefna meðferðina á Ayman Nour, ungum
stjórnarandstöðuleiðtoga sem var handtekinn í
janúar. Var hann sakaður um að hafa falsað
undirskriftir á lista yfir meðmælendur og þykja
ákærurnar lítt sannfærandi. Egyptar hugðust
nýverið standa fyrir ráðstefnu átta ríkja um lýð-
ræði og framfarir í Mið-Austurlöndum en frest-
uðu henni þegar Condoleezza Rice, utanrík-
isráðherra Bandaríkjanna, ákvað að mæta ekki
til að mótmæla meðferðinni á Nour.
Engar skipanir að utan
Nokkrum dögum áður en Mubarak boðaði
aukin lýðræðisréttindi birtist á vefsíðu vikurits-
ins Al-Ahram grein þar sem vitnað var í hátt-
settan, egypskan embættismann um deilurnar
vegna Nours og vestræna gagnrýni á stjórn-
arfarið. Hann sagði að Egyptar væru „alls ekki
fúsir að taka við leiðbeiningum eða hrinda í
framkvæmd fyrirskipunum frá nokkrum höf-
uðborgum Vesturlanda um þeirra eigin for-
gangsröð umbóta í arabalöndunum – og svo
sannarlega ekki varðandi Egyptaland“.
Viðbrögðin heima fyrir við yfirlýsingu Mub-
araks hafa verið afar misjöfn. Hans eigin flokks-
menn hafa að sjálfsögðu fagnað ákaft eins og
vera ber þegar forsetinn talar. Herinn hefur
hins vegar ekki tjáð sig enn sem komið er en all-
ir forsetarnir eftir byltinguna 1952 hafa komið
úr röðum hans. Herinn hefur í hálfa öld haft
eins konar neitunarvald þegar kom að því að
láta þingið, þar sem meira en tveir þriðju hlutar
þingsæta eru skipaðir liðsmönnum stjórn-
arflokksins, ákveða hver fengi að bjóða sig fram
til forseta. Síðan hefur kjósendum verið falið að
segja annaðhvort já eða nei.
Hvað myndi lýðræði í Egyptalandi hafa í för
með sé? Bent hefur verið á að verði lýðræð-
islegar kosningar sé ekki ósennilegt að Bræðra-
lag múslíma, sem er bannað að starfa op-
inberlega og er mjög andvígt Bandaríkjunum,
fái mikið fylgi. Flokkurinn hefur nú 17 þingsæti
af alls 454 en fulltrúar hans kalla sig óháða
vegna bannsins. Mubarak forseti fær upplýs-
ingar um almenningsálitið með aðstoð útsend-
ara sinna og veit því um áhættuna fyrir sig og
flokkinn sigri lýðræðið.
Hefur þrýstingur af hálfu stjórnarandstæð-
inga og Bandaríkjamanna valdið þeim um-
skiptum að Mubarak og valdaklíkan hafi ákveð-
ið að breyta til en láta ekki duga að farða gamla
kerfið til að blekkja gagnrýnendur sína?
Tíminn mun leiða það í ljós. Ekki hefur enn
komið neitt fram um skilyrðin sem flokkar verði
að fullnægja til að bjóða fram forsetaefni og sé
viljinn fyrir hendi er ljóst að stjórnvöld geta
beitt lagalegum bolabrögðum til að stöðva
hættulega keppinauta. Yrði þá fyrirmyndin ef
til vill Túnis þar sem forsetinn hefur þrjóskast
við að leyfa raunverulega stjórnarandstöðu og
samt haldið vináttu Vesturveldanna.
Misjöfn viðbrögð stjórnarandstæðinga
Athyglisvert er að sjá að egypskir stjórnar-
andstæðingar skiptast mjög í tvö horn. Sumir
eru tortryggnir og efast um að nokkuð muni
breytast í reynd. Þeir benda á að leyfa verði
frjálsa fjölmiðla ef stjórnarandstaðan eigi að
hafa einhverja möguleika á að koma kosninga-
áróðri sínum á framfæri, forsetinn sé að
blekkja, segir í grein í The New York Times.
„Þetta er leið fyrir hann [Mubarak] til að bæta
ímynd sína hjá Bandaríkjamönnum og þóknast
þeim með formlegum breytingum,“ segir Ibrah-
im Eissa, stjórnmálaskýrandi í Kaíró. Aðrir eru
jákvæðari og segja að eina leiðin sé að nýta tæki-
færin sem nú geti boðist. Sayed Badawi, sem er
framkvæmdastjóri elsta stjórnmálaflokks lands-
ins, Wafd, er að vísu á því að Mubarak hyggist
aðeins reyna að lagfæra ásýnd kerfisins og búa
þjóðina undir valdatöku sonarins.
„En hvað sem líður göllum sem áfram verða
til staðar mun fólk endurheimta á næsta sex ára
kjörtímabili forsetans lýðræðislega arfleifð sína
og menningu og verður síðan fært um að velja
sér leiðtoga í frjálsum kosningunum,“ segir
Badawi. Hann segir að Egyptar muni nú ann-
aðhvort fá í sinn hlut kosningar eins og í Túnis
eða frjálsar og lýðræðislegar kosningar eins og
Palestínumenn.
„Ef ég verð ekki laminn í klessu“
Fréttaskýring | Deilt er um heilindin að baki nýrri lýðræð-
isást Egyptalandsforseta. Kristján Jónsson segir frá ein-
ræðisstjórnarfari Mubaraks og stjórnarandstöðunni.
Reuters
Stuðningsmaður stjórnarandstæðingsins
fangelsaða, Ayman Nours, hrópar slagorð
gegn ríkisstjórninni á útifundi í Kaíró.
’… að undanskildum Írökumog Ísraelum eru Egyptar sú
þjóð í heiminum sem fær
mesta fjárhagsaðstoð frá
Washington. ‘
kjon@mbl.is