Morgunblaðið - 30.11.2005, Page 4
Lifandi kirkja
Hvernig kom það til að þið hófuð
þetta starf?
Kirkjan og prestar hafa unnið gott
starf fyrir syrgjendur á undanförnum
árum. Stofnaðir hafa verið
sorgarhópar og fræðsla átt sér stað
um sorg og sorgarferli. Sorgarhópar
hafa hist í tiltekinn tíma og svo
hefur því ferðalagi lokið. Þá halda
samtökin Ný dögun úti góðu starfi
yfir vetrarmánuðina. Stjórnarmenn
þar hafa hvatt presta til að stofna
hópa eða hefja annað starf með
syrgjendum. Ég vildi stofna opinn
vettvang þar sem fólk getur komið,
tjáð sorg sína og hlustað á aðra. Ég
hafði gengið með þessa hugmynd
nokkuð lengi þegar Kristjana Nanna
kom að máli við mig og var að leita
að vettvangi til að vinna með sorg
sína. Hún taldi slíka sorgarfundi
vera einmitt það hún væri að leita að
svo við ákváðum að setja slíkt starf
á fót.
Hvernig fara fundirnir fram?
Form fundanna er ekki ólíkt því sem
tíðkast innan sjálfshjálparhópa og
hreyfinga á borð við AA-samtökin.
Fundirnir standa í 55 mínútur og
hefjast með því að sá sem stjórnar
býður fólk velkomið. Í vetur munum
við dr. Sigurður Árni Þórðarson
stjórna fundunum til skiptis. Eftir
að fólk er boðið velkomið er farið
með bæn og svo hugvekju. Að þessu
loknu tjáir sá sem leiðir fundinn
sig um sorg og gefur næsta aðila
svo orðið. Fólk segir til nafns og
tjáir sig svo um sorg sína. Fólk þarf
þó ekki að tjá sig heldur getur það
einnig gefið til kynna að það vilji
aðeins hlusta. Fólk kemur á þessa
fundi á sínum forsendum og ræðir
það sem það vill út frá sínu eigin
hjarta. Þegar allir hafa tjáð sig er
opnað fyrir umræður. Sá sem leiðir
fundinn dregur svo saman í lokin og
farið er með bæn. Að loknum fundi
getur fólk fengið sér að snæða á
kaffistofunni í safnaðarheimilinu og
spjallað saman.
Hver hafa viðbrögðin verið hjá
sóknarbörnum?
Aðsóknin hefur verið með ýmsu
móti. Fólk hefur komið hvaðanæva að
úr borginni til að sækja þessa fundi.
Sorgin hefur engin sóknarmörk
en þessir fundir verða hugsanlega
settir á dagskrá í öðrum kirkjum í
framtíðinni. Allt fer það eftir þörf á
hverjumtíma,húngetursveiflastupp
og niður en sorgin er alltaf til staðar
í þjóðfélaginu. Það virðist einnig
vera svo að fólk telji að syrgjendur
ættu að vera útskrifaðir úr sorginni
eftir tiltekinn tíma. Hérna er enginn
útskrifaður úr sorginni. Á meðan
fólk hefur þörf fyrir að koma þá er
það velkomið. Það er mjög algengt
að nokkur tími þurfi að líða frá missi
áður en fólk er tilbúið að vinna úr
sorginni. Það er ekki hægt að komast
fram hjá sorginni, fólk verður að
komast í gegnum hana með því að tjá
líðan sína og þess vegna er mikilvægt
að fólk hafi aðgang fundum eins og
Samtali um sorg.
Eitthvað að lokum?
Samtal um sorg er vettvangur þeirra
sem glíma við sorg og missi og vilja
vinna úr áföllum sínum. Missir á sér
ekki aðeins stað við dauðsfall heldur
getur hann verið fólginn í fleiru
eins og t.d. skilnaði, atvinnumissi,
heilsubresti o.fl. Fundirnir eru
haldnir í hádeginu á fimmtudögum í
Neskirkju og hefjast klukkan 12.
Hvernig kom það til að þú byrjaðir að
sækja Samtal um sorg?
Ég kynntist séra Erni Bárði þegar
hann sá um jarðarför dóttur minnar
í fyrra. Í febrúar síðastliðnum fór
ég svo til hans í viðtal og var þá
tilbúin að vinna í sorg minni. Mig
langaði til að kanna hvort það væri
einhver vettvangur til staðar til að
ræða þessa hluti og þá sagði hann
mér frá þessari hugmynd sem hann
hafð fengið og langaði að hrinda í
framkvæmd. Í kjölfarið ákváðum við
að setja á fót sorgarfundi sem yrðu
opnir öllum. Við höfðum samband
við lítinn hóp fólks til að byrja með
og svo þróaðist þetta áfram.
Hvernig finnst þér fundirnir?
Mér finnst þessir fundir hjálpa mér
mikið. Þarna hittist fólk sem hefur
sameiginlega reynslu, missinn,
en samt með mismunandi og oft
ólíka reynslu að baki. Þó það hljómi
undarlega þá kom það mér svolítið
á óvart hversu mikla samleið
mér fannst ég finna með öðrum í
svipuðum sporum. Auðvitað eru
misjafnar aðstæður hjá fólki og
mismunandi ástæður fyrir komu
þeirra á fundinn. Mér hefur fundist
algengt hversu seint fólk tekst á
við sorgina því það hefur kannski
ávallt hugsað um aðra eins og maka,
foreldra eða börn. Þetta fólk hefur
kannski hugsað um alla aðra en sjálfa
sig en svo kemur að því að það verður
að vinna í eigin sorg. Það hefur opnað
augu mín fyrir ýmsu í sorgarferlinu
að hlusta á aðra tjá sig um sorgina
og ég hef lært ýmislegt. Það er líka
læknandi að geta grátið með öðrum
vegna þeirra sorgar og það gerir
manni gott að sjá og finna að maður
er ekki einn að ganga í gegnum eins
erfiða hluti og missir er.”
Er ekkert erfitt að tjá sig fyrir framan
aðra um sorg sína?
„Á fundunum ríkir fullur trúnaður á
milli þátttakenda. Þar myndast líka
mikil samkennd sem gerir það að
verkum að manni finnst auðveldara
að tjá sig. Hins vegar á fólk auðvitað
misjafnlega auðvelt með að tjá sig og
við höfum því haft þann háttinn á
að fólk er ekki skyldugt til að segja
neitt. Öllum er frjálst að koma og
bara hlusta. Á þessum fundum nær
fólk þó oft að losa um eitthvað og
tjá sig, þótt það sé erfitt. Það virðist
mjög algengt að þegar ár er liðið frá
missi telur samfélagið að fólk eigi
að vera útskrifað úr sorginni. Það er
bara alls ekki svo. Slíkri upplifun og
viðbrögðum frá umhverfinu getur
fólk deilt með öðrum á fundunum.
Ég vil leggja áherslu á það að fólk eigi
ekki að láta það aftra sér að koma á
fundina af því að það telur sig ekki
geta tjáð líðan sína. Það getur líka
hjálpað að bara mæta og hlusta og
jafnvel gráta saman.”
Verður fólk að vera trúað til að geta
mætt á sorgarfundina?
„Trúarlegi þátturinn er alls ekki
skilyrði fyrir þáttöku og fundirnir
eru öllum opnir. Trúin er vissulega
hluti af samverunni, við förum t.d.
með bæn fyrir og eftir fundinn. Sjálf
hef ég alltaf verið trúuð, ég bað t.d.
alltaf kvöldbænirnar með dóttur
minni. Það hjálpar líka tvímælalaust
í sorginni að trúa því að eitthvað taki
við eftir að jarðvistinni lýkur – ef við
trúum því að við öðlumst eilíft líf eins
og kristin trú boðar hljótum við að
trúa því að ástvinir okkar lifi áfram í
betri tilveru þar sem þeim líður vel.
Aftur á móti er líka mjög algengt að
það fari fram ákveðið uppgjör hjá
fólki varðandi trúna þegar það verður
fyrir missi. Það vakna að sjálfsögðu
ýmsar spurningar eins og af hverju
ég? Það er ekki óeðlilegt að það komi
upp reiði í manni gagnvart trúnni.
Sorgarfundundirnir eru einmitt góður
vettvangur til að ræða slíkt. En að
mínu mati er það mjög gott að leita í
trúna. Þar er vonin og ég vil trúa því
að dóttur minni líði vel þar sem hún
er núna. Ég veit ekki hvernig mér liði
ef ég hefði ekki þá von.”
Telurðu að þú komir til með að halda
áfram að sækja þessa fundi?
Já, ég stefni að því að halda áfram
starfinu í vetur. Þegar maður mætir
reglulega þá er gott að nota tímann
til að ræða líðanina í dag. Yfirleitt
kemur eitthvað fram á fundunum
sem maður hefur getað nýtt sér í
sorginni. Að vinna úr sorginni er
endalaust verkefni og þó að mér sé
farið að líða mikið betur í dag en fyrir
ári þá á ég ennþá langt í land.
Samkenndin er góð
Kristjana Nanna Jónsdóttir hefur sótt sorgarfundina Samtal um
sorg sem farið hafa fram í Neskirkju undanfarna mánuði. Kristjana
missti níu ára dóttur sína, Sunnevu, í fyrra af slysförum.
Samtal um sorg
Síðastliðinn vetur hófst nýtt starf í Neskirkju sem ber yfirskriftina Samtal
um sorg. Samtal um sorg eru fundir sem haldnir eru í hádeginu á
hverjum fimmtudegi nema þegar þann dag ber upp á almennan frídag
og eru fundirnir opinn vettvangur fyrir fólk til að tjá sorg sína eða hlusta á
aðra. Það er sr. Örn Bárður Jónsson sem hefur stýrt þessu starfi.