Morgunblaðið - 30.11.2005, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 30.11.2005, Blaðsíða 9
Lifandi kirkja Í hverju felst starf vímuvarnar- prestar? Starfið beinist fyrst og fremst að því að tala við fólk sem hefur farið illa út úr áfengis- og vímuefnaneyslu. Ég fer reglulega í heimsóknir á meðferðarstöðvarnar Vog, Krísuvík, Staðarfell og Vík ásamt því sem ég hef heimsótt gistiskýli í bænum þar sem heimilislausir alkóhólistar og aðrir fá inni. Á meðferðarstöðvunum er ég með uppbyggjandi fyrirlestra og í sumum tilfellum helgistundir sem miða að því að hjálpa fólki að öðlast á ný rétt sjálfsviðhorf. Í flestum tilfellum er um að ræða fólk sem hefur mjög slæmt álit á sjálfu sér eftir neyslu og erfiðleika. Það hefur jafnvel lent í að gera hluti sem hafa strítt algjörlega á móti siðferðiskennd vegna misnotkunar áfengis og annarra vímuefna. Það hefur þá spurt sjálft sig af hverju það gerði þessa hluti þegar það óskar þess að það hefði ekki gert þá. Í neyslunni endurtaka þessi hlutir sig jafnvel og fær viðkomandi þá minnimáttar- og vanmetakennd í kjölfarið og fer jafnvel að líta á sig sem hálfgert úrhrak. Í þessu skiptir engu máli hvort um er að ræða efnað fólk í góðum stöðum eða fólk sem á ekki neitt. Þegar svona er komið er orð Guðs mjög mikilvægt. Þar segir að fyrir Guði séu allir jafndýrmætir. Þú ert mikilvægur, þú ert mikils virði og Guð elskar þig. Hvað með sorgina sem oft fylgir slíkum erfiðleikum? Svo hef ég einnig verið að ræða við fólk um sorg. Hvernig sorgin er og um ferli hennar. Þar hef ég fjallað um hvað gerist þegar fólk verður fyrir missi, hvernig lífið breytist í einni svipan. Slík sorg getur t.d. komið upp þegar fólk skilur, verður fyrir veikindum eða missir ástvin. Vanmáttur, reiði, sektarkennd, depurð eru t.d. allt tilfinningar sem koma upp við sorgina og þarf að vinna úr. Þessar tilfinningar koma einnig oft upp við meðferð, sorgin knýr þá oft dyra, jafnvel vegna löngu liðinna atburða og áfalla. Þegar sorgin knýr dyra er auðvitað óhjákvæmilegt að við mætum þessum kenndum og tilfinningum. En við hljótum að stefna að því að þær búi ekki í okkur alla tíð, heldur að von og trúartraust komi inn í slíkar aðstæður og hjálpi til svo að syrgjandinn geti smám saman farið að lifa eðlilegu lífi. Langvinnur drykkjuskapur leiðir líka til vanmáttar, reiði, sektarkenndar og depurðar, þess vegna er líka ágætt að vera með fyrirlestur um sorg og sorgarviðbrögð. Það opnar oft augu alkóhólistanna fyrir eigin tilfinningum og líðan. Telurðu mikla þörf fyrir þetta starf? Ég tel að það sé mjög jákvætt að stofnað hafi verið til þess. Í upphafi sá ég fyrir að þetta yrði fræðslu- og umsjónarstarf en hins vegar hefur það þróast á þann veg að ég hef meira verið að ræða við fólk og styðja það, verið á gólfinu eins og sagt er. Mig dreymir reyndar um að koma meira að fræðsluþættinum og því öllu saman. Margir foreldrar hafa komið til mín vegna neyslu barna sinna. Að sama skapi hafa bæði einstaklingar sem glíma við erfiðleika sem og aðstandendur komið til mín í viðtöl. Mitt hlutverk er oft að vísa fólki á meðferðarúrræði eins og t.d. hjá SÁÁ. Það er ótrúlegt hvað margir hafa orðið fyrir einhvers konar skakkaföllum vegna alkóhólisma. Á leiðinni til batans gegnir trúin og trúarleiðsögnin miklu hlutverki. Á hverju fimmtudagskvöldi er boðið upp á sérstakar hugleiðslumessur í Háteigskirkju sem kallaðar eru Taizé-messur. Nafnið er dregið af Taizé, litlu þorpi sem liggur hálffalið milli hæða í austurhluta Frakklands skammt frá bænum Cluny. Þar er starfrækt bræðraregla sem þróaði þetta bæna- og íhugunarþel sem nú nýtur vinsælda víða um heim. Upphafsmaður þessara sam- verustunda er bróðir Roger en hann kom til Taizé árið 1940, þá 24 ára gamall. Á þeim tíma geisaði stríð og hann gerði að veruleika þann draum sinn að stofna samfélag sem hefði „Krist og fagnaðarerindið að grundvelli“. Hann valdi þessu samfélagi stað þar sem mikil mannleg þjáning réð lífi fólks og heimili hans varð athvarf margra flóttamanna, sérstaklega gyðinga sem flúðu undan yfirgangi nasista. Bróðir Roger stóð fyrir sameiginlegri helgistund kristinna manna sem þjóna Guði, óháð kirkjudeildum. Frá upphafi hefur takmarkið verið að sætta og sameina sundraða kristna kirkju. Sáttargjörðin nær til allra vegna þess að kirkjan er öllum athvarf. Margir koma til Taizé til að reyna íhugun og þögn kyrrðardaganna en starfið er ekki einvörðungu bundið við Taizé. Bræðurnir kynna og breiða út markmið samfélags síns með heimsóknum og þátttöku í mótum víða um heim. Þannig geta hundruð þúsunda manna komist í kynni við boðskap Taizé-bræðranna. Taizé-bræðurnir vilja ekki mynda „hreyfingu“. Þeir leggja stöðugt áherslu á ábyrgð einstaklingsins, að hver einstaklingur iðki kristna trú og líferni í umhverfi sínu. Svölun og huggun Tómas Sveinsson, sóknarprestur í Háteigskirkju, hefur staðið fyrir Taizé-messunum frá árinu 1992. Hann segir að nafni hans, Tómas Guðmundsson í Hveragerði, hafi flutt Taizé til landsins. „Þegar Karl Sighvatsson orgelleikari lést á sviplegan hátt í bílslysi dró hann fram blöð með Taizé-söngvum sem kórinn sönglaði og sótti þangað svölun og huggun í sorg sinni.“ Tómas segir sjálfa Taizé-messuna taka klukkustund „en í heild má segja að athöfnin taki um tvær klukkustundir. Við opnum kirkjuna klukkan 19.00 til þagnaríhugunar og lýsum kirkjuna með kertum og brennum reykelsi rétt fyrir kl. 20.00 en þá hefst Taizé-messan. Reykelsið er gjarnan tákn fyrir bænina sem stígur upp til Guðs, við viljum ítreka það en um leið viljum við láta reykelsið tákna nærveru Krists sem fólk finnur fyrir þegar það dregur að sér ilm reykelsisins.“ Tónlistin skiptir miklu máli Að sögn Tómasar skiptir tónlistin miklu máli í Taizé-messunum. Tónistinerbæna-ogíhugunartónlist. Bæði lögin og textarnir eru í styttri kantinum og þessi stuttu vers eru endurtekin í sífellu til þess að hreinsa hugann og leiða fólk inn í íhugunina svo að einstaklingarnir eigi auðveldara með að mæta Guði innra með sjálfum sér. Þegar hinni eiginlegu athöfn er lokið er boðið upp á fyrirbænir, handayfirlagningu og smurningu. Taizé-messurnar eru lágstemmdar athafnir og í Háteigskirkju, sem og annars staðar, er Taizé-messan hafin yfir kirkjudeildir og því er presturinn ekki frammi fyrir altarinu heldur á gólfinu með kirkjugestum og hann reynir að vera sem minnst áberandi enda grundvallast samverustundin á íhugun og bæn kirkjugesta.                                             !     "      !  #        $                      Trúin er ekki spariflík Hversdagsmessurnar sem séra Ólafur Jóhannssonar sóknarprestur í Grensáskirkju heldur öll fimmtudagskvöld klukkan 19.00 njóta mikilla vinsælda. Hugmyndafræðin bak við messurnar er einföld, að sögn Ólafs. „Í þessar messur kemur fólk eins og það er klætt, enda er trúin ekki eins og spariflík sem fólk klæðist á sunnudögum og stórhátíðum því trúna á að nota hversdags”. Að sögn Ólafs er létt yfir hversdagsmessunum, „það er mikil tónlist og minna mas en gengur og gerist. Þorvaldur Halldórsson sér um tónlistina sem kirkjugestir kunna vel að meta og þeir taka vel undir í söngnum. Boðið er upp á fyrirbænir í hversdagsmessunum og kirkjugestir geta kveikt á bænakertum,” segir Ólafur. „Við leggjum áherslu á notalegt andrúmsloft og sjálfur er ég borgaralega klæddur lungann úr athöfninni, en skrýðist í lokin meðan á altarisgöngunni stendur.” Taizé-messur í Háteigskirkju Bænir og íhugunartónlist Kirkjan og vímuvarnir Sr. Karl V. Matthíasson hefur undanfarin tvö ár starfað sem vímuvarnarprestur kirkjunnar ásamt því að starfa í hlutastarfi í Áskirkju. Í starfi sínu fer hann reglulega í heimsóknir á meðferðarstöðvar þar sem hann ræðir við fólk sem á við vímuefnavanda að etja.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.