Fréttablaðið - 15.12.2003, Blaðsíða 6
6 15. desember 2003 MÁNUDAGUR
■ Írak
Veistusvarið?
1Talnakönnun hefur reiknað út eftir-launaskuldbindingar ríkisins vegna
frumvarps um hækkun lífeyrisréttinda
æðstu embætta. Hversu há er upphæðin?
2Háhyrningurinn Keikó drapst á föstu-dag. Hvert var banameinið?
3Hvaða knattspyrnulið er nú í efstasæti ensku úrvalsdeildarinnar?
Svörin eru á bls. 46
Margir arabar ósáttir við handtöku Saddams:
Vonbrigði og sorg
KAÍRÓ, AP Viðbrögð almennings og
ráðamanna í Mið-Austurlöndum
við handtöku Saddams Husseins
voru blendin og endurspegluðu
þau miklu ítök sem hann hafði á
þessu svæði þegar hann sat í for-
setastól í Írak.
Margir áttu erfitt með að sætta
sig við það að Saddam skyldi hafa
endað feril sinn á þennan hátt.
„Ég átti von á því að hann myndi
veita mótspyrnu eða svipta sig lífi
áður en hann félli í hendur Banda-
ríkjamanna. Hann hefur valdið
okkur miklum vonbrigðum,“
sagði ungur Jemeni.
Stuðningsmenn Saddams á
Vesturbakkanum og Gaza-strönd-
inni brugðust hart við fregnum af
handtökunni. Margir Palestínu-
menn telja sig standa í þakkar-
skuld við Saddam fyrir að hafa
skotið eldflaugum á Ísrael í
Persaflóastríðinu og stutt palest-
ínskar andspyrnuhreyfingar með
fjárframlögum. „Ég elska hann
svo mikið að ég þoli ekki að horfa
á hann í haldi Bandaríkjamanna,“
sagði ungur Palestínumaður þeg-
ar myndir birtust af Saddam í
sjónvarpinu.
Nokkrar arabískar sjónvarps-
stöðvar kusu að sýna ekki myndir
af handtökunni. Yfirmaður
Al-Jazeera gagnrýndi Bandaríkja-
menn fyrir að birta myndir af
Saddam þar sem þeir hefðu verið
ósáttir við það þegar arabískar
sjónvarpsstöðvar sýndu banda-
ríska stríðsfanga. ■
Gleðistund hjá
íröskum borgurum
Handtöku Saddams Husseins var fagnað ákaft í borgum Íraks. Íraskir ráðamenn hétu því að
forsetinn fyrrverandi yrði dreginn fyrir rétt svo þjóðin fengi að heyra um þá glæpi sem hann
framdi. Ekki voru þó allir á eitt sáttir.
BAGDAD Mikil fagnaðarlæti brut-
ust út í Bagdad og fleiri borgum í
Írak þegar fregnir bárust af því
að Saddam Hussein, fyrrum for-
seti, hefði verið handsamaður.
„Loksins erum við laus við
þennan glæpamann,“ sagði
kúrdískur karlmaður í Kirkuk í
Norður-Írak. Hundruð Kúrda
þustu út á götur borgarinnar til að
óska hver öðrum til hamingu.
„Þetta er mesta gleðistund lífs
míns,“ sagði einn íbúanna.
Í Bagdad var skotið úr byssum
upp í loftið, útvarpsstöðvar léku
fjöruga tónlist og ökumenn þeyttu
bílflautur. Kaupmenn lokuðu
verslunum sínum af ótta við að
óeirðir brytust út á götum borgar-
innar. „Nú getum við byrjað upp á
nýtt,“ sagði 35 ára gömul kona bú-
sett í höfuðborginni. Meðlimir
Íraska kommúnistaflokksins, sem
var bannaður í stjórnartíð Sadd-
ams Husseins, drógu rauða fána
að húni við höfuðstöðvar flokks-
ins í miðborg Bagdad.
Ekki glöddust þó allir við tíðind-
in af handtöku Saddams Husseins.
„Við höfum glatað okkar einu von
og nú sitjum við eftir með Banda-
ríkjamenn,“ sagði öryggisvörður á
Palestínu-hótelinu í Bagdad. „Við
erum miður okkar,“ sagði ung kona
í Adwar, bænum þar sem Saddam
var handtekinn. „Þetta eru slæmar
fréttir fyrir alla Íraka. Við viljum
vera frjáls og óháð Bandaríkja-
mönnum.“
Ráðamenn í Írak hafa farið
fram á það að réttað verði yfir
Saddam Hussein við nýstofnaðan
stríðsglæpadómstól í Írak.
„Saddam verður dreginn fyrir
rétt svo að íraska þjóðin fái að
heyra um þá glæpi sem hann
framdi,“ sagði Ahmad Chalabi,
sem er meðlimur framkvæmda-
ráðsins í Írak.
Skömmu áður en fregnirnar af
handtöku Saddams bárust til
eyrna almennings í Írak sprakk
sprengja í bíl fyrir utan lögreglu-
stöð í Bagdad með þeim afleiðing-
um að að minnsta kosti sautján
manns fórust og 33 særðust. Talið
er að um sjálfsmorðsárás hafi
verið að ræða. ■
SADDAM FÆR ÞAÐ ÓÞVEGIÐ
Íbúar Bagdad börðu myndir af Saddam Hussein með skóm til að sýna andúð sína á forsetanum fyrrverandi.
FORSETINN BRENNDUR
Íraskur karlmaður kveikir í peninga-
seðli með mynd af Saddam Hussein í
miðborg Bagdad.
SADDAM Í SKOÐUN
Læknar tóku lífsýni úr Saddam Hussein
strax eftir að hann var fluttur á öruggan
stað. Lífsýnið var kannað á mjög skömm-
um tíma.
DNA-próf Saddams:
Unnið á tólf
tímum
RANNSÓKNIR DNA-prófun eins og
þá sem gerð hefur verið á Saddam
Hussein til að staðfesta að hann sé
sannanlega rétti maðurinn er
hægt að gera á 12 klukkustundum,
þannig að óyggjandi niðurstöður
liggi fyrir, að sögn réttarsérfræð-
ings.
DNA-rannsóknarstofnun í New
York hefur framkvæmt slíkar
flýtirannsóknir í forgangsmálum.
Ef fyrir liggur eitt einasta sýni og
öll áhersla er lögð á að fá niður-
stöðu með því að leggja alla aðra
vinnu í rannsóknarstöðinni niður
á meðan er hægt að ná henni inn-
an ofangreindra tímamarka. Þetta
er meðal annars gert þegar lög-
reglan hefur handtekið grunaðan
einstakling og getur aðeins haft
hann í haldi tímabundið, nema
DNA-rannsókn leiði í ljós tengsl
hans við alvarlegan glæp. ■
SADDAM IÐRAST EINSKIS
Háttsettur meðlimur stjórnmála-
flokks shíta-múslíma segir að
Saddam Hussein hafi ekki sýnt
nein merki um iðrun eftir að
hann var handsamaður af banda-
ríska hernámsliðinu. Adel Abdel-
Mahdi segir að Saddam hafi sýnt
sér hroka og neitað að horfast í
augu við það að íraska þjóðin
hefði snúið við honum baki.
SADDAM HYLLTUR
Meðlimur í palestínskri ungliðahreyfingu heldur á mynd af Saddam Hussein í göngu í
flóttamannabúðunum í Rafah á Gaza-ströndinni til stuðnings forsetanum fyrrverandi.