Tíminn - 20.11.1983, Síða 9
SUNNUDAGUR 20. NÓVEMBER 1983
9
Sveitarfélögin mega ekki
þyng|a byrði heimilanna
■ Jón Sigurðsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar.
Kaupmáttur
tekna
■ Eins og áður hefur verið getið hér
í blaðinu, flutti Jón Sigurðsson for-
stjóri Þjóðhagsstofnunar erindi á
fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem
haldin var í Reykjavík 10. þ.m. Þar
sem Jón Sigurðsson hreyfði þar hug-
mynd um skatta sveitarfélaganna á
næsta ári, sem mjög hlýtur að verða til
umræðu í náinni framtíð, þykir rétt að
segja hér nokkru nánara frá efni þess.
í erindi sínu ræddi Jón um líklegan
kaupmátt tekna á næsta ári. Kaupmátt-
ur þeirra hefur lækkað verulega á
þessu ári, einkum á síðustu mánuðum
þess. Ekki þykir líklegt, að kaupmátt-
urinn geti aukizt á næsta ári, en hins
vegar er gert ráð fyrir, að hann haldist
svipaður og á síðustu mánuðum þessa
árs. Samkvæmt þessari áætlun yrði
kaupmáttur tekna fyrir skatt um 4-5%
minni á árinu 1984 en á árinu 1983,
þegar miðað er við allt árið.
Eins og fram kemur í fjárlagafrum-
varpi er að því stefnt, að álagðir beinir
skattar til ríkissjóðs hækki um sama
hlutfall og tekjur heimilanna, þ.e. að
skattbyrði vegna ríkissjóðs þyngist
ekki í þessum skilningi. 1 fjárlagafrum-
varpinu er ekki gerð tillaga um það í
nánari atriðum, hvernig þessi álagning
verður framkvæmd. Tillaga um fram-
kvæmd þessara skattabreytinga verður
þáttur í almennri tiilögugerð um
skattamál, sem í vændum er.
Sveitarfélögin geta hins vegar haft
úrslitaáhrif á skattbyrði beinna skatta
á næsta ári. Með öllu er ljóst, að eins
og nú horfir í efnahagsmálum er þyng-
ing skatta á almenning ekki ráðleg, en
samtímis er einnig mikilvægt, að fjár-
hagur sveitarfélaga sem annarra opin-
berra aðila standi sæmilega traustum
fótum og ekki sé stofnað til skulda-
söfnunar, sem á endanum getur grafið
undan árangri hagstjórnar á öðrum
sviðum. Þessi tvö sjónarmið togast
óhjákvæmilega á við gerð fjárhagsáætl-
ana fyrir næsta ár.
Fjárhagur
sveitarfélaga
Jón Sigurðsson vék þessu næst í
erindi sínu að fjárhagsstöðu sveitarfé-
laga. Hann sagði:
„Meira en fjórir fimmtu hlutar skatt-
tekna sveitarfélaganna eru af sköttum,
sem lagðir eru á skattstofna frá fyrra
ári. Þessi tímatöf í skattstofninum
veldur vandkvæðum, þegar tekjur og
verðlag breytast mjög mismikið frá
einu ári til annars, einkum séu þessar
breytingar óvæntar.
Þegar verðbólga fer vaxandi ár frá
ári er hætt við, að tekjur sveitarfélag-
anna dragist aftur úr gjöldum, enda
langstærsti hluti teknanna skatttekjur,
sem miðast við breytingar fyrra árs
(útsvör, aðstöðugjöld og fasteigna-
skattar). Gjöldin fylgja hins vegar
kostnaðarbreytingum á líðandi ári að
mestu leyti.
Áætlanir fyrir árið 1982 og spár fyrir
1983, sem Þjóðhagsstofnun hefur gert
m.a. á grundvelli upplýsinga frá
stærstu sveitarfélögum, sýna að fjár-
hagur sveitarfélaganna hefur veikst á
síðustu tveimur árum. Mikilvægur
mælikvarði á hag sveitarsjóða er það
fjármagn, sem fá má úr rekstrinum til
framkvæmda og eignabreytinga. Sem
hlutfall af heildartekjum sveitarsjóða
hefur þetta fé rýrnað verulega. Þetta
hlutfall var talið 30,7% árið 1981, en í
áætlun fyrir 1982 er það komið niður í
29% og samkvæmt spá fyrir 1983
lækkar það enn, eða niður í 25-26%.
Þetta eru mun lægri hlutföll en árin
næst á undan. Meginskýringin er auð-
vitað sú, að tekjubreytingar hafa verið
minni en breytingar rekstrargjalda.
Áætlað er, að heildartekjur sveitar-
félaganna (að meðtöldum gatnagerð-
argjöldum og vaxtatekjum) hafi aukizt
1982 um nálægt 65% frá fyrra ári, en
rekstrargjöld (fyrir afskriftir) um 68%.
Þessi munur á hækkun tekna og gjalda
virðist fara vaxandi á þessu ári. Á
grundvelli fyrirliggj andi upplýsinga um
útsvarsálagningu og greiðslu fasteigna-
gjalda, svo og með hliðsjón af þróun
annarra þátta, sem snerta rekstursveit-
arfélaganna, er því spáð, að tekjur
þeirra aukist á árinu um 58-59% en
rekstrargjöld (án afskrifta) um 66-
67%.
Þær áætlanir og spár, sem hér hafa
verið raktar, benda því til þess, að
fjárhagsstaða sveitarfélaganna sé um
þessar mundir óvenjulega erfið. Vegna
tekjusamdráttar kunna framkvæmda-
áform að raskast, nema til komi önnur
fjármögnun, og raunar hefur þegar
verið dregið úr áformuðum fram-
kvæmdum margra sveitarfélaga. Ann-
að atriði, sem kynni að breyta fjárhags-
horfum og þar með framkvæmda-
áformum enn frekar, felst í óvissu um
innheimtu tekna á síðustu mánuðum
ársins, sem er óvenju mikil nú, þegar
saman fer rýrnandi kaupmáttur launa
og afturkippur í þjóðarbúskapnum.
Vísbendingar, sem fengnar eru frá
12 sveitarfélögum, sem saman leggja á
70% af útsvörum, aðstöðugjöldum og
fasteignasköttum, benda til þess, að
heildarskuldir sveitarsjóða í hlutfalli
við tekjur hafi hækkað til muna á árinu
1982. Á sama tíma hafa útistandandi
sveitarsjóðsgjöld einnig hækkað, þ.e.
innheimta hefur slaknað. Þetta er
viðsjárverð þróun, því á sama hátt og
sveitarfélögin eru grunneining stjóm-
arfarsins, er það grundvallaratriði í
heilbrigðum efnahag landsins, að fjár-
hagur þeirra sé í sæmilegu jafnvægi.
Líkur benda til, að lausaskuldir sveit-
arsjóða vaxi til muna á þessu ári. Erfitt
er að festa þessa þróun nákvæmlega í
tölur, en hér gæti verið um að tefla 200
til 300 milljón króna greiðsluhalla á
árinu í heild, sem þó mun ákaflega
misskipt milli sveitarfélaga, og ráða
víða sérstakar ástæður. Þessa stöðu
þarf að laga á næsta ári. Þar með er ég
kominn að fjárhagshorfum fyrir sveit-
arfélögin 1984.“
Fjárhagshorfur
sveitarfélaga 1984
>,Að gefnum þeim forsendum um
breytingar gengis, launa og verðlags,
sem á er byggt í efnahagsáætlunum
ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1984 og
efnahagsstefna hennar miðast við, em
nú horfur á, að við óbreytta skattálagn-
ingu, hækki tekjur sveitarfélaga mun
meira en svarar verðbreytingum út-
gjalda þeirra á árinu 1984. Slík þróun
væri vafalaust kærkomin í mörgum
sveitarfélaganna eftir erfitt fjárhagsár.
Á hinn bóginn fæli hún í sér, að
skattbyrði einstaklinga af völdum
skatta til sveitarfélaga þyngdist vem-
lega.
Þjóðhagsstofnun hefur gert athugun
á því, hversu mikil hækkun skatttekna
sveitarfélaga yrði að óbreyttum álagn-
ingarreglum að öllu leyti. Niðurstaðan
er sú, að útsvör myndu hækka um
55%, aðstöðugjöld um 56%, en fram-
lög úr Jöfnunarsjóði munu hækka um
27% samkvæmt forsendum fjárlaga-
frumvarps. Verðhækkun fasteigna-
mats hefur nú verið ákveðin 57% á
höfuðborgarsvæðinu en 47% utan
þess. Að meðtöldum áhrifum endur-
mats og aukningar gæti þetta falið í sér
um eða yfir 55% hækkun fasteigna-
matsins í heild, þótt hækkunin sé
vitaskuld mismunandi eftir stöðum. í
heild fengist út úr þessu dæmi rösklega
50% hækkun þessara helztu sveitar-
sjóðsgjalda milli áranna 1983 og 1984,
að meðtalinni fjölgun gjaldenda um
1%. Þessi hækkun fer langt fram úr
áætlaðri hækkun tekna almennings á
næsta ári og langt fram úr áætlaðri
hækkun verðlags rekstrargjalda sveit-
arsjóða, sem hvort tveggja er talið
hækka um 20 til 21% í áætlunum
ríkisstjórnarinnar. Þessi mismunur er
svo mikill, að í honum felst aukin
skattbyrði einstaklinga af útsvari og
fasteignagjöldum, sem næmi hvorki
meira né minna en 2% af tekjum
heimilanna. Erfitt er að sjá almenn rök
fyrir slíkri skattahækkun við ríkjandi
aðstæður. Þvert á móti virðist nú
sérstök ástæða til þess, að á það reyni,
hvort sveitarfélögin geti ekki veitt þá
þjónustu, sem þeim ber án hækkunar
á sköttum umfram hækkun tekna
heimilanna."
Lækkun útgjalda
nauðsynleg
Jón Sigurðsson vék síðan að mögu-
leikum sveitarfélaga til að draga úr
útgjöldum á næsta ári og gera þannig
mögulegt, að skattabyrðin á heimilun-
um yrði ekki aukin. Hann sagði:
„Samneysluútgjöld á vegum sveitar-
félaganna hafa farið vaxandi um langt
skeið. Síðastliðinn áratug hafa þau
reyndar vaxið hraðar en þjóðartekjur
og einkaútgjöld. Við þær erfiðu efna-
hagsaðstæður, sem nú blasa við, verð-
ur ekki hjá því komizt að halda aftur
af vexti þessara útgjalda. Samband
íslenzkra sveitarfélaga hefur nýlega átt
frumkvæði að samstarfi við fjármála-
ráðuneytið um hagræðingu í opinber-
um rekstri, þetta er sérstaklega tíma-
bært og vel til fundið.
Framkvæmdir á vegum sveitarfélaga
einna - þegar fyrirtæki sveitarfélaga
eins og hitaveitur eru frátaldar - hafa
vaxið ójafnar og ekki nærri eins ört og
samneyziuútgjöldin, en hafa þó haldið
sæmilega sínum 'nlut. ( fjárfestingar-
og lánsfjáráætlun er með því reiknað,
að almennar framkvæmdir sveitarfé-
laga verði nokkru minni að raungildi
1984 en 1983, eða um 5-6% minni. Sé
reiknað með lítt breyttum samneyzlu-
Þórarinn Þórarinsson,
ritstjóri, skrifar
gjöldum og 5-6% minni framkvæmd-
um má setja upp dæmi'um fjárhag
sveitarfélaganna í heild með forsend-
um fjárlagafrumvarps um verðlag,
kaupgjald og gengi. Niðurstaðan er á
þann veg að einsætt virðist, að ekki sé
þörf á því að beita hækkunarheimild
útsvarslaga á næsta ári, og reyndar
virðist mega draga nokkuð úr nýtingu
annarra gjaldstofna, en ná þó því
marki, sem nauðsynlegt er að rétta við
greiðslustöðu þeirra sveitarsjóða, sem
átt hafa í erfiðleikum að undanförnu.
Hér getur auðvitað verið mikill mun-
ur milli staða eftir aðstæðum. Ég tek
það einnig fram, að ég tala hér auðvit-
að einungis fyrir sjálfan mig. Ég kann
engu að spá um það, hvernig félags-
málaráðherra muni veita álagsheimild-
ir, ef eftir verður leitað. Hins vegar sé
ég ekki, að almenn þörf ætti að vera
fyrir hærra útsvaren 11% á árinu 1984,
fremur hið gagnstæða, ef efnahags-
stefna stjórnvalda nær fram að ganga.
Hins vegar er nauðsynlegt að líta til
nokkurra ára í senn, þegar álagning-
arhlutföll eru ákveðin."
Mikilvægt hlut-
verk sveitarfélaga
Jón Sigurðsson sagði að lokum:
„Horfur um þjóðarhag eru ekki
bjartar um þessar mundir. Tillögur
Hafrannsóknastofnunar um 200 þús-
und tonna þorskafla á næsta ári í stað
300 þúsund tonna í fyrri ráðgjöf, hljóta
að raska áætlunum fyrir næsta ár.
Þverrandi þorskafli er mikið áfall fyrir
þjóðarbúið. Hið efnahagslega um-
hverfi okkar er einnig á annan hátt
ótryggt. Óvissa ríkir um markaðsverð
á mikilvægum útflutningsafurðum,
gengi Bandaríkjadoilars, sem verið
hefur hátt og íslendingum hagstætt, er
talið standa tæpt og gæti farið lækk-
andi, og óvissa ríkir um olíuverð á
næstu misserum.
Þessi óvissuatriði eru ekki ný, og
ekki er ástæða til að ætla að allt fari á
verri veg, en þjóðin verður að horfast
í augu viö þennan blákalda veruleika
og haga sínum búskap í samræmi við
hann. Taka verður til óspilltra málanna
bæði við það að bæta úr, þar sem
okkur hafa verið mislagðar hendur, í
stjórn okkar innri mála og að bregðast
við öndverðum ytri aðstæðum á raun-
sæjan og fjárhagslega ábyrgan hátt. f
þessu felst meðal annars, að nú sé enn
meiri þörf en fyrr að sigrast á verðbólg-
unni. Það tjá og tundur, sem henni
fylgir, hefur of lengi villt mönnum sýn
í viðureigninni við raunverulegan
vanda efnahagsmálanna. í þessu efni
gegna sveitarfélögin mikilvægu hlut-
verki, og á miklu ríður, að fjárhags-
áætlanir þeirra fyrir næsta ár verði við
það miðaðar að auka hvorki skatta né
skuldir, og að útgjöldum sveitarfélaga
verði stillt í það hóf, sem samrýmzt
getur viðunandi jafnvægi í viðskiptum
við önnur lönd og hjöðnun verðbólgu
á næsta ári.“
Þessi viðvörunarorð Jóns Sigurðs-
sonar eru tvímælalaust fullkomlega
réttmæt og tímabær. Það er ekki
minna hagsmunamál sveitarfélaga en
annarra aðila að taumhald náist á
verðbólgunni. Þess vegna verða þau
að leggja fram sinn skerf, þótt það
dragi eitthvað úr þjónustu þeirra og
framkvæmdum í bili. Hækkun á skatt-
byrði heimilanna, undir núverandi
kringumstæðum, myndi kippa fótum
undan viðnámi gegn verðbólgunni.
Hér verða ríkið og sveitarfélögin að
hjálpast að í baráttunni gegn verðbólg-'
unni.