Tíminn - 16.12.1986, Síða 12
Framsóknarflokkurinn ára
EYSTEINN JÓNSSON:
- Hvert var verksvið þingflokks-
formanns framsóknarmanna á þeim
tíma er þú gegndir því starfi?
„Verksvið formannsins mótaðist
að mjög miklu leyti af því, að
þingflokknum var ætlað að koma
áieiðis og helst í höfn þeim málum,
sem flokksþing og miðstjórn gerðu
samþykktir um og einnig þeim, sem
þingflokkurinn og einstakir þing-
menn flokksins lögðu fram og sam-
ræmdust stefnu flokksins.
þegar ég segi „koma í höfn“ á ég
við að koma málum í lög eða
ályktanir frá Alþingi, sem gætu leitt
til framkvæmda.
Það vantaði því ekki margþætt
verkefni fyrir þingflokksformanninn,
sem sé að stjórna þessu verki í
samráði við stjórn þingflokksins.
Kom þar til ekki síst að samræma
sjónarmið þingmanna flokksins til
þess að áhrif á gang þingmála gætu
orðið sem mest. Þá kom það að
sjálfsögðu í hans hlut að hafa sem
nánasta samvinnu við formann
flokksins og raunar miðstjórn til
þess að enginn meiriháttar tvískinn-
ungur myndaðist milli þingflokks og
flokksstjórnar.
Kannski setti það dálítið sitt mark
á stjórnina á þingflokknum þessi 26
ár, sem ég var formaður hans, að ég
var jafnframt ritari flokksins lengi
fyrst og síðan formaður hans þennan
tíma. Menn virtust vilja hafa þetta
svona þá og ég var til í þetta. Fannst
þetta tryggja samræmi og gera sam-
tök auðveldari. Þetta þýddi að ég
var þar með allan tímann líka í
aðalstjórn flokksins utan þings, en
18 ár af þessu tímabili var Hermann
formaður flokksins. Samband okkar
Hermanns var því alltaf afar náið og
nýttist það held ég nokkuð vel þótt
við værum að sjálfsögðu ekki alltaf
sammála um allt.
Þingflokksformaður stýrði að
sjálfsögðu fundum þin^flokksins,
hafði forustu um að skipta með
mönnum verkum í þinginu t.d.
nefndarstörfum, flutningi mála, sem
flokkurinn stóð fyrir - og þá eftir
því, sem við varð komið í samræmi
við áhugamál einstakra þingmanna
o.s.frv. Þingflokksformaður hafði
samráð fyrir flokkinn við forseta
þingsins, formenn annarra flokka og
ríkisstjórn, þegar það átti við, um
þingvinnuna og þinghaldið yfir
höfuð. Þá var formanni þingflokks
ætlað að koma fram á þingfundum
fyrir flokksins hönd, þegar þess
þurfti við, nema svo stæði á að
eðlilegt þætti að flokksformaðurinn
tæki það að sér. Aldrei reyndist
erfitt að ákveða þá skiptingu verka.
Geta má þess til gamans kannski
helst, að við Hermann sátum aldrei
í sömu þingdeild.
Af og til voru sameiginlegir fundir
miðstjórnar og þingflokks - og síðari
hluta þessa tímabils mættu aðal-
menn framkvæmdastjórnar á þing-
flokksfundum afar oft og allt tíma-
bilið stjórnmálaritstjóri Tímans og
aðrir sem skrifa áttu um pólitík í
blaðið, ennfremur framkvæmda-
stjóri flokksins og gjaldkeri og r'itari
þótt ekki væru þingmenn.
Eins og menn vita sitja ráðherrar
ekki í þingnefndum, og þegar við
fórum í stjórnarandstöðu rétt um
áramótin 1958-’59 beitti ég mér fyrir
því að formaður þingflokksins væri
ekki hafður í þingnefndum, til þess
að betri tími gæfist til yfirlits um
þingstörfin í heild og til að samstilla
kraftana í þingvinnunni. Veit ég
ekki hvort þessi tilhögun stendur
enn.
Loks má þess geta að jafnan hafði
þingflokksformaður mikil afskipti af
stjórnarmyndunum og stjórnarslit-
um, sem nærri má geta þar sem það
er verkefni þingflokksins að taka
ákvarðanir um þau efni.“
- Nú var Framsóknarflokkurinn
ýmist í stjórn eða stjórnarandstöðu
þann langa tíma sem þú gegndir
formennsku fyrir þingflokkinn.
Hverju skipti það fyrir verkefni
þingflokksformanns?
„Það skipti að sjálfsögðu miklu
máli fyrir vinnuna í þingflokknum,
hvort flokkurinn var í stjórn eða í
stjórnarandstöðu. Þetta lá meðal
annars í því, að ráðherrar flokksins
stóðu mjög fyrir undirbúningi mála
þegar flokkurinn var í stjórn og urðu
oftast að semja urn stærri málin í
ríkisstjórn, helst áður en þau voru
lögð fram á Alþingi. Lögðu ráðherrar
þá málavexti fyrir þingflokkinn jafn-
óðum og samið var við hina, eftir því
sem frekast var hægt, og loks endan-
lega áður en þau voru lögð fram.
Þetta á við um þau mál, sem stjórn-
arsamvinnan byggðist mest á eða
ágreiningur var um.
Þá hafði þingflokkurinn mál, sem
koma þurfti á framfæri beint inn á
þingið og einstakir þingmenn sín
áhugamál, sem þeir báru fram í
þingflokknum eða a.m.k. sýndu yfir-
leitt í þingflokknum áður en þeir
lögðu þau fram - „hlustuðu" menn
og leituðu fulltingis.
Þegar flokkurinn var í stjórnar-
andstöðu hvíldi undirbúningur þing-
mála meira á framkvæmdastjórn og
þó mest á þingflokki. Var þá gjarnan
sá hátturá hafðura.m.k. síðari hluta
tímabilsins, sem ég er að segja frá,
að þingflokknum var strax og hann
kom saman skipt í starfshópa eða
nefndir eftir málaflokkum, til þess
að semja frumvörp eða þingsálykt-
anir, útfæra þannig stefnu flokksins
og færa í þingbúning með því móti
-, einnig fyrirspurnir til ráðherr-
anna. Jafnframt komu einstakir
þingmenn með sfn áhugamál og
leituðu oft liðsinnis. Voru þá oft
haldnir þingflokksfundir utan þing-
tíma - oftast með framkvæmda-
stjórn.
Þetta var feikna vinna í stjórn-
arandstöðunni og erfitt hlutskipti,
því þingmenn unnu nálega með tvær
hendur tómar á þessum árum, en
ríkisstjórnir höfðu her sérfræðinga
og aðstoðarmanna af öllu tagi. Samt
var stjórnarandstæðingum ætlað að
vita allt betur en stjórnin eins og
gengur og hafa allt á takteinum til að
sýna fram á að hún væri landsmönn-
um betri kostur en þeir, sem við
völdin voru.
Þá olli það nokkrum vandkvæðum
að fréttnæmara þótti að setja það í
fréttir handa almenningi, sem stjórn-
in var að gera en hitt, sem stjórnar-
andstaðan lagði til eða fann að.
Eiginlega var á brattann að sækja í
þessu.
Það var alltaf mikið um að vera
hvort sem þingflokkurinn studdi
ríkisstjórnina eða var henni andvíg-
ur. Ég veit ekki hvort meira reyndi
á.“
- Að lokum: Telur þú að starf
þingflokksformanns hafi breyst á
þeim langa tíma sem þú fórst með
formennskuna, og þá í hvaða veru?
„Ég á satt að segja dálítið erfitt
með að meta þetta. En held þó að
sú breyting hafi helst orðið, að
verkaskipting þingmanna f flokkn-
um fór vaxandi og við það vannst
betur. Ennfremur fór í vöxt að
framkvæmdastjórn sæti fundi með
þingmönnum.
Að sjálfsögðu varð þingflokkur-
inn jafnan að vera til taks, fylgjast
með og taka ákvarðanir þegar samn-
ingar um stjórnarmyndanir fóru
fram eða stjórnarslit voru ákveðin.
Það breyttist ekki þetta tímabil og
gildir enn.
Það má vel koma fram, að ólíkt
betur er búið að þingmönnum og
þingflokknum nú en var á þessum
árum. Þótti mér vænt um að eiga
nokkurn hlut að því að bæta vinnu-
skilyrði þingmanna og þingflokks
áður en ég fór af þingi, en eftir að ég
hætti formennsku í þingflokknum.”
16. desember 191 < S-1 oo Œ>
ÞÓRARINN ÞÓRARINSSON í: 1INGVAR GÍSLASON
Ég varð formaður þineflokks
Framsóknarflokksins eftir að Ólafur
Jóhannesson myndaði vinstri stjórn-
ina sumarið 1971, því að hann taldi
það ekki fara saman að vera bæði
forsætisráðherra og formaður þing-
flokksins. Ég gegndi síðan for-
mennskunni óslitið meðan ég átti
sæti á þingi, eða til þingkosninganna
1978.
Það var happ mitt að þetta var
mjög ánægjulegur tími og einn hinn
merkasti í sögu Framsóknarflokks-
ins. Á þeim árum var undir forustu
Framsóknarflokksins fiskveiðilög-
sagan færð úr 12 mílum í 50 mílur og
hrein bylting varð í framfaramálum
landsbyggðarinnar. Fólksflóttinn
þaðan var að mestu stöðvaður og
margir kaupstaðir og kauptún
breyttu algerlega um svip til hins
betra vegna framkvæmda á sviði
sjávarútvegs og fiskvinnslu.
Þessar framfarir komu að ómetan-
legu gagni, þegar hin mikla verð-
hækkun á olíunni gekk í garð og olli
stórfelldri verðbólgu hér eins og
annars staðar Þá má ekki gleyma
tjóninu, sem Vestmannaeyjagosið
olli.
Að verulegu leyti vegna framfara
á árunum 1971-1978 býr þjóðin við
betri kjör nú en nokkru sinni fyrr.
Rétt þykir mér að taka fram, að
þetta er ekki verk vinstri stjórnarinn-
ar einnar, því að framfarasóknin
hélt áfram í stjórnartíð Framsóknar-
flokksins og Sjálfstæðisflokksins
1974-1978, þrátt fyrir erfiðari að-
stöðu en áður sökum olíuverðhækk-
unarinnar. Þá var fiskveiðilögsagan
færð úr 50 í 200 mílur, en það
reyndist að mörgu leyti auðveldara
en útfærslan í 50 mílur, því að með
henni var ísinn brotinn.
Ég minnist margra ánægjulegra
stunda frá formannstíð minni í þing-
flokknum. Samvinnan við formann
Framsóknarflokksins, Ólaf Jóhann-
esson, var góð og árekstralaus,,
en Ólafur var óumdeilanlega mesti
valdamaður flokksins á þessum
árum. Þá var ekki síður ánægjuleg
samvinnan við meðstjórnendur
mína í stjórn þingflokksins, Einar
Ágústsson og Halldór E. Sigurðs-
son. Þá minnist ég ekki síst Eysteins
Jónssonar, sem þá eins og endranær
var sá maður, sem ég leitaði mest til,
þegar vanda bar að höndum.
Ég hafði sem stjórnmálaritstjóri
Tímans átt sæti á fundum þingflokks-
ins alllöngu áður en ég tók sæti á
þingi. Ég hafði fylgst með stjórn
fyrrverandi formanna þingflokks-
ins, Jónasar Jónssonar, Eysteins
Jónssonar og Ólafs Jóhannessonar'
og lært mikið af því. Þó var það
fundarstjórn Hermanns Jónassonar
í miðstjórn flokksins sem ég tók mér
helst til fyrirmyndar. Hermann Jón-
asson hafði oft þann sið að hlusta á
mál manna áður en hann lét skoðanir
sínar í ljós. Ég fylgdi nokkurn veginn
þeirri reglu að hlusta á álit þing-
manna flokksins áður en ég reyndi
að marka þá afstöðu í viðkomandi
máli, sem mest samstaða væri um og
flokkurinn ætti að fylgja. Fyrir mér
vakti sama sjónarmið og við stjórn-
málaritstjórn Tímans og fólst í stuttu
máli í því að reyna að halda flokkn-
um saman, þótt stundum væru mis-
munandi sjónarmið, og halda hon-
um til vinstri við miðju, eins og frá
upphafi hafði verið afstaða hans, en
hlaut að hafa hliðsjón af breytingum
á þjóðarhögum og nýjum viðhorfum
í heiminum.
Að lokum vil ég minnast þess
atburðar, sem ég tel ánægjulegastan
á þingmannsferli mínum. Það hvíldi
að vissu leyti á mér sem þingflokks-
formanni stærsta stjómarflokksins og
formanni utanríkisnefndar að reyna
á þingi 1972 að ná sem víðtækastri
samstöðu um útfærslu fiskveiðilög-
sögunnar í 50 mílur og niðurfellingu
samningsins við Breta frá 1961. Þetta
hafði verið eitt mesta deilumálið í
þingkosningunum árið áður. Svo fór
að algert samkomulag náðist og áttu
þeir ekki minnstan þátt í því stjórn-
arandstæðingarnir Jóhann Hafstein
og Gylfi Þ. Gíslason, en við í
meirihlutanum tókum líka tillit til
sérstöðu þeirra.
Á örlagastundum þurfa þingflokk-
arnir allir að geta fylkt saman liði,
eins og gerðist í þetta sinn. Þá verða
flokkshagsmunir að víkja fyrir þjóð-
arhagsmunum.
Ég varð formaður þingflokksins
eftir alþingiskosningar í desember
1979. Halldór E. Sigurðsson hafði
gegnt formannsstörfum á þinginu
1978-1979, en hann hætti þing-
mennsku, gaf ekki kost á sér til
endurkjörs til Alþingis, og for-
mannssæti hans var því laust þegar
kom til þess að kjósa formann þing-
flokksins í desember 1979. Ég bauð
mig frant til formannsstöðunnar og
fékk ágætan stuðning í þingflokkn-
um, sem ég var og er afar þakklátur
fyrir, því að þetta er mikið virðingar-
starf. Hins vegar stóð formennska
mín mjög stutt, um það bil tvo
mánuði, því að ég var skipaður
menntamálaráðherra í ríkisstjórn
GunnarsThoroddsens í febrúar 1980
og sagði þá af mér formennsku í
þingflokknum. Páll Pétursson var þá
kosinn í ntinn stað og hefur verið
formaður síðan við góðan orðstír.
Eins og gefur að skilja einkennd-
ust þessar átta vikur, sem ég var
þingflokksformaður, af pólitíska
ástandinu og andrúmsloftinu á þess-
um tíma. Allur tíminn fór í viðræður
milli flokkanna um hvernig mynda
skyldi ríkisstjórn. Þar tók hver
flokksformaðurinn við af öðrum að
stjórna tilraunum til myndunar ríkis-
stjórnar. í því efni rak hvorki né
gekk lengst af og umtal um myndun
utanþingsstjórnar gerðist býsna há-
vært þegar leið að lokum janúarmán-
aðar. Þá var það sem Gunnar Thor-
oddsen, varaformaður Sjálfstæðis-
flokksins - og reyndar nýkjörinn
fyrri varaforseti Sameinaðs þings,
auk þess sem hann var aldursforseti
þingsins - bauðst til að freista þess
að mynda meirihlutastjórn. Það
tókst Gunnari á þann hátt, sem
flestir muna, að hann fékk til þess
stuðning nokkurra þingmanna Sjálf-
stæðisflokksins, gegn mikilli and-
stöðu meirihlutans í flokki sínum,
og Framsóknarflokkurinn og Al-
þýðubandalagið stóðu að stjórnar-
mynduninni með honum. Þetta var
afar djarflegt fyrirtæki af Gunnars
hálfu, en næstum ótvírætt eini mögu-
leikinn sem þá var fyrir hendi að
mynda meirihlutastjórn á Alþingi.
Þessi stjórnarmyndun verður alltaf
talin eftirminnilegur viðburður, svo
einstæð mátti hún teljast. Þetta hlýt-
ur að verða mér minnisstæðast af
viðburðum þess stutta tíma sem ég
gegndi formennsku í þingflokknum.
---1 S—Iil
HALLDÓR E. SIGURÐSSON:
í dag eru liðin sjötíu ár frá stofnun
þingflokks Framsóknarflokksins.
Tildrög að stofnun Framsóknar-
flokksins voru allsöguleg. En þar
sem um stofnun flokksins og sögu
hans hefur verið skráð merk frásögn,
allt fram á sjötta áratug þessarar
aldar, ætla ég ekki að víkja frekar að
henni, enda er hún skráð af merkum
fræðimönnum og sérstaklega ritfær-
um mönnum, þeim Þorsteini M.
Jónssyni og Þórarni Þórarinssyni.
Ég ætla því að færa þingflokknum
og þá um leið Framsóknarflokknum
í tilefni af hinu merka afmæli óskir
um giftu og farsæld um langa
framtíð, og að þjóðin njóti ekki
síður hagsældar af forustu hans hér
eftir en hingað til, þá mun henni vel
vegna.
Árið 1956 kom ég sem nýliði inn í
þingflokk Framsóknarflokksins og
var þar óslitið að störfum til haust-
kosninganna 1979, er ég gaf ekki
kost á mér til framboðs.
Ég minnist margs frá þessum
árum. Þau atvik eru hvort tveggja
ánægjuleg og merkileg. Ég minnist
formanna flokksins, þeirra þriggja,
er voru þeir Hermann Jónasson,
Eysteinn Jónsson og Ólafur Jóhann-
esson.
Allt voru þetta miklir sæmdar- og
merkismenn, sem skildu eftir sig
mikil og farsæl verk, er þjóðin mun
njóta um langa framtíð.
Þingflokksformenn voru þeir
einnig Eysteinn Jónsson í meira en
hálfan annan áratug og Ólafur Jó-
hannesson frá 1969 til 1971, er
Þórarinn Þórarinsson varð formaður
þingflokksins, þar til hann lét af
þingmennsku 1978. Þórarinn var,
sem þeir fyrirrennarar hans í for-
mennskunni, mikilhæfur maður.
Árið 1968 var ég kjörinn í stjórn
þingflokksins og var þar til loka
þingmennsku minnar. Formaður
hans varð ég haustið 1978. Auk
Ólafs Jóhannessonar var Einar Ág-
ústsson með mér í stjórn þingflokks-
ins. Einar var, sem þeir forustumenn
er ég vitnaði til hér að framan,
mikilhæfur og ánægjulegur sain-
starfsmaður.
Að sjálfsögðu voru mörg og oft
erfið verk, sem féllu til úrlausnar
stjórnar þingflokkins. Þar nefni ég
fyrst til myndun tveggja ríkisstjórna,
- þeirra er myndaðar voru undir
forsæti Ólafs Jóhannessonar 1971 og
Geirs Hallgrímssonar 1974. Mikil
vinna fór í myndun þessara ríkis-
stjórna og oft var útlitið tvísýnt um
hvort því takmarki yrði náð er að var
stefnt, en það tókst.
Ekki orkar það tvímælis, að mikl-
um áfanga var náð fyrir forustu
þessara ríkisstjórna, svo sem fyrr
með ríkisstjórnir, er flokkurinn
hafði farið með forustu fyrir eða
tekið þátt í. Ég nefni landhelgismál-
ið þar fyrst. Þar var á tímabilinu frá
1956 til 1976 lagður grundvöllur að
efnahagslegri framtíð þessarar
þjóðar, eins og er nú ljóst orðið. Ég
minni einnig á atvinnu- og byggða-
stefnuna, er var hrint í framkvæmd
á stjórnarárum Ólafs Jóhannesson-
ar, þrátt fyrir stór áföll eins og gosið
í Heimaey. Þar tókst að snúa vörn í
sókn. Byggðinni í Vestmannaeyjum
var bjargað, bæði atvinnulega og
menningarlega. Ég minni einnig á,
að það tókst að efla atvinnuuppbygg-
ingu í landinu, þrátt fyrir að í kjölfar
Heimaeyjargossins kæmi slík hol-
skefla yfir þjóðina sem olíuverð-
hækkunin var. Það má augljóst
verða nú, þegar ljóst er hvað olíu-
verðlækkunin hefur reynst stjórn-
völdum þjóðarinnar mikil happadís
í baráttunni við verðbólguna. Enda
nýtur þjóðin nú einnig þeirra mörgu
góðu verka frá áttunda áratugnum,
þrátt fyrir stór áföll af náttúruham-
förum og verðáföll, sem áttu rætur
að rekja til erlendra vöruverðshækk-
ana s.s. olíu, tókst fyrir dugnað,
þrek og framsýni að búa þjóðina
undir framtíðina með lausn land-
helgismálsins, uppbyggingu atvinnu-
lífsins, stórfelldum framkvæmdum í
samgöngumálum, svo sem hringveg-
inum. Einnig á sviði fjármála og
menningarmála.
Ljóst er að enginn þingflokkur
hefur verið áhrifameiri og mikilvirk-
ari á þessu framfaraskeiði þjóðarinn-
ar en þingflokkur Framsóknar-
flokksins. Þess vegna leyfi ég mér í
tilefni af 70 ára afmæli Framsóknar-
flokksins, að bera þá ósk fram
þjóðinni til handa, að hún megi nú
sem áður njóta giftudrjúgrar forustu
hans um langa framtíð.
■ecíh
í dag, 16. desember eru 70 ár liðin
frá stofnun Framsóknarflokksins.
Á flokksþingi Framsóknarflokksins
6.-9. nóvember s.l. var þessa afmælis
minnst, m.a. með sérstakri
hátíðarsamkomu í Háskólabíói, og í
Tímanum, en gefin voru út tvö sérblöð
tileinkuð Framsóknarflokknum og
afmæli hans.
Á þessum degi er rétt að minnast
afmælisins að nokkru í Tímanum, og
þá sérstaklega þingflokksins en fyrstu
árin starfaði Framsóknarflokkurinn
sem slíkur. Hér á opnunni segj a fimm
þingflokksformenn frá störfum sínum.
PÁLL PÉTURSSON:
Hinn 12. desember 1916 var þing-
flokkur framsóknarmanna stofnaður
og telst stofndagur þingflokksins af-
mælisdagur flokksins.
í tilefni þessarar sjötíu ára veg-
ferðar er rétt að staldra við og reyna
að meta hvað áunnist hefur, hver
þurfi að vera næstu verkefni og að
hverju beri að stefna í framtíðinni.
Ekki orkar tvímælis að Framsókn-
arflokkurinn hefur hrundið í fram-
kvæmd mörgum þeim málefnum
sem efst hafa verið í huga alþingis-
mannanna átta sem þingflokkinn
stofnuðu og enn eiga þær hugsjónir
sem þeir börðust fyrir fullt erindi við
þjóðina.
Framsóknarflokkurinn hefur
lengst af þessi 70 ár verið áhrifaríkur
um stjórn landsins, bæði sem þátt-
takandi í samsteypustjórnum, þar
sem flokkurinn reyndar oftast hefur
haft forystu, en einnig í stjórnar-
andstöðu. Hlutverk stjórnarand-
stöðu er oft vanmetið, en áhrif
ábyrgrar, gagnrýninnar og þrótt-
mikillar stjórnarandstöðu geta og
hafa oft verið mikil. Stjórnarand-
staða í lýðræðisríki á að veita
ríkisstjórn aðhald og leiðbeiningu
þannig að ríkisstjórn kappkosti að
vanda verk sín.
Þjóðlegur metnaður, menningar-
viðleitni og frelsisþrá ungmennafé-
laganna, ásamt með samvinnuhug-
sjóninni, það er að einstaklingunum
beri að hjálpast að við lausn verk-
efnanna, svo best verði þeir sterkir
og frjálsir að þeir aðstoði hver
annan, hafa markað störf framsókn-
armanna allt til þessa dags og lagt
drýgstan skerf til þeirrar þjóðfélags-
gerðar sem við höfum á íslandi í
dag. Við höfum reist hér menningar-
og velferðarþjóðfélag þar sem listir
og vísindi dafna í skjóli menntaðrar
og mannaðrar þjóðar. Við höfum
haft forystu um það að ná fullum
yfirráðum yfir landgrunninu og þar
með auðlindum hafsins og þannig
skapað efnahagsleg skilyrði til þess
að viðhalda í framtíðinni menning-
ar- og velferðarríki. Við höfum með
samræmdu átaki náð tökum á efna-
hagslífinu og fjötrað verðbólguna
þannig að þjóðin getur átt bjarta
framtíð fyrir höndum.
Hvert ber að stefna?
Hvert á svo að vera hlutverk
Framsóknarflokksins í framtíðinni?
Framsóknarflokkurinn á áfram að
standa vörð um það gildismat sem
hann hefur ætíð gert, að setja
manneskjuna ofar peningunum og
berjast fyrir hugsjónum samvinnu
og samhjálpar.
Við íslendingar eigum gott land.
Framsóknarmenn verða í framtíð-
inni að vera í fylkingarbrjósti þeirra
er vilja full og óskoruð yfirráð ís-
lendinga sjálfra í landi sfnu. Við
eigum að kappkosta að utanríkis-
stefnan sé þannig að við komum
hvarvetna fram af þjóðlegri reisn,
stuðlum hvarvetna þarsem við kom-
um við sögu að friði og afvopnun en
leggjumst gegn hernaðarhyggju og
vígbúnaðarbrjálæði bæði á jörðu og
í geimnum.
Eign okkar Islendinga er landið
og hafsvæðið í kringum það. Þetta
er grundvöllur tilveru okkar. Landið
og hafið verðum við að nýta, en nýta
skynsamlega og ekki spilla með
ofnotkun eða skammsýni. Fram-
sóknarflokkurinn er „grænn flokkur“
og á að vera það í framtíðinni. Við
eigum að hafa forystu um umhverf-
isvernd. Við erum svo heppnir að
búa í umhverfi sem er tiltölulega
ómengað og það verðum við að
varðveita.
Til þess að auðlindir landsins og
hafsins verði skynsamlega nýttar
verður byggðin að vera dreifð um
landið. Framsóknarmenn verða að
reka í framtíðinni öfluga byggða-
stefnu þannig að hvarvetna sé eftir-
sóknarvert að búa.
Framsóknarmenn verða í framtíð-
inni að standa vörð um efnahagslegt
sjálfstæði þjóðarinnar. Það útheimt-
ir að við höfum ætíð eignarhald,
íslendingar, á atvinnulífi okkar og
virk yfirráð. Við verðum, framsókn-
armenn, að muna að ekki þýðir að
eyða meiru en aflað er, slíkt endar
með ósköpum. Þess vegna þarf
glögga stjórn efnahagsmála. Við lif-
um á því sem landið og sjórinn gefa
af sér, því verður það ætíð að vera
forgangsverkefni að þær atvinnu-
greinar er verðmætanna afla, land-
búnaður og sjávarútvegur, búi við
góð ytri skilyrði og tekið sé tillit til
þarfa þeirra.
Við framsóknarmenn verðum
áfram að standa vörð um velferðar-
ríkið, sjá til þess að þegnarnir búi
við félagslegt öryggi og sem jafnasta
lífsaðstöðu, vel sé hugsað fyrir þeim
sem eru sjúkir og hrumir eða standa
höllum fæti.
Við framsóknarmenn verðum að.
standa vörð um jafnrétti til náms og
menntunar, þannig að þeir sem hafa
vilja og hæfileika fái þroskað þá.
Manndáð, þekkingoghugvit þjóðar-
innar er ein af forsendum fyrir
bættum lífskjörum í framtíðinni.
Frarnsóknarmenn verða áfram að
setja manngildið ofar auðgildinu og
til þess bætum við lífskjörin að þjóðin
geti lifað menningarlífi, einstakling-
arnir verði hamingjusamir og
mannaðir. Þjóðmenning okkar
greinir okkur frá öðrum þjóðum, á
þeim grunni eigum við að byggja.
Sjötíu ár eru liðin af sögu Fram-
sóknarflokksins. Sagan er ekki öll.
Framsóknarflokkurinn á áfram
miklu hlutverki að gegna í þjóðlíf-
inu. Ég hef drepið á nokkrar þær
hugsjónir sem hann á og mun berjast
fyrir. Þjóðin þarf á því að halda að
þær hugsjónir rætist, þessvegna þarf
hún á Framsóknarflokknum að
halda. Afl flokka til þess að koma
stefnumálum sínum í framkvæmd
ræðst af því hve margir fylkja sér um
flokkinn. Þessvegna verða þeir sem
aðhyllast þær hugsjónir sem fram-
sóknarmenn berjast fyrir að styðja
hann og gefa honum þannig afl til
þess að hrinda þeim í framkvæmd.
Hugur minn hvarflar með virðingu
og þökk til þeirra framsóknarmanna
sem undanfarin sjötíu ár hafa unnið
að því að skapa hér betra og réttlát-
ara þjóðfélag.
Ég óska framsóknarmönnum
heilla á þessum tímamótum og flyt
þeim og þjóðinni allri kærar kveðjur
þingflokks framsóknarmanna.