Tíminn - 14.07.1989, Síða 9
8 Tíminn
Föstudagur 14. júlí 1989
Föstudagur 14. júií 1989
Tíminn 9
y V'-
Hin rámu reginajúp byltingar
Eftir Birgi Guðmundsson
í dag fagnar hinn vestræni heimur 200 ára
afmæli frönsku stjórnarbyltingarinnar.
Fram að þessu hefur hlutur Islands í
frönsku byltingunni ekki verið talinn
mikill, en með nýrri þekkingu á áhrifum
eldgosa á veðurfar sem safnast hefur upp
á undanförnum árum er full ástæða til að
ætla að ísland komi þar við sögu. Fimm
árum fyrir byltinguna geisuöu Skaftáreld-
ar á íslandi og móðan, mettuð brenni-
steinssýru, dró svo úr geislum sólar í
Evrópu að árshitastig næstu árin á eftir
var Iangt undir meðallagi. Viðkvæm og
ónóg landbúnaðarframleiðsla í Frakk-
landi þoldi illa slíkt kuidaskeið og líkur
eru á að fyrir vikið hafi aukist harðræði
almennings og almenn óánægja. Þegar
þetta kemur upp á sama tíma og önnur
þjóðfélagsleg skilyrði eru fyrir hendi er
eðlilegt að álykta að kuldaskeiðið hafi
verið eitt nauðsynlegra skilyrða fyrir
frönsku stjórnarbyltingunni.
Ekki ber að skilja það svo að byltingin
hafi orðið á einum degi, þó byltingaraf-
mælið beri upp á I4. júlí. En fall
Bastillunnar í París, illræmds kastala-
fangelsis sem oftaren ekki hýsti gagnrýn-
endur einveldisstjórnar Loðvíks 16., hef-
ur þótt slíkur vendipunktur í veraldarsög-
unni að það langa og margslungna ferli,
sem byltingin var, hefur miðast við þessa
dagsetningu. Vitrir menn hafa stundum
haft það til marks um hversu merkiicgur
atburöur fall Bastillunnar var að heim-
spekingurinn Immanúel Kant fór allur úr
skorðum. Formfastur, húmorslaus og
djúphugsandi snillingur siðferðilegra
skylduboðorða og skynsemishyggju hafði
farið í síðdegisgöngu í heimabæ sínum
Koeningsberg um margra ára skeið. Allt-
af á sama tínra og alltaf sömu leiðina.
Bæjarbúar stilltu klukkur sínar eftir síð-
degisgöngum Kants. Hins vegar gleymdi
Kant göngutúrnum þegar hann fékk frétt-
ir af falli Bastillunnar og bæjarbúar vissu
að veröldin var ekki lengur sú sama. Er
þar ólíkum saman að jafna Loðvík 16. og
Kant, en Loðvík hafði skrifað í dagbók
sína eftir að hafa verið á veiöum: „14.
júlí, tíðindalaus dagur.“ Hann mun þó
hafa orðið undrandi blessaður maðurinn
þegar hann fékk fregnir af athæfi þegna
sinna í París og sagt: „Þetta er uppreisn."
Svörin sem hann fékk voru: „Nci, yðar
hátign, þetta er bylting.“
Ótrúleg áhrif
Áhrif frönsku byltingarinnar á vestrænt
samfélag verða seint metin til fulls. Hún
gaf tóninn fyrir þróun þess samfélags og
þeirra hugmynda sem við tökum sem
sjálfgefna hluti í dag. Breski sagnfræð-
ingurinn E.J. Hobsbawm segir í einni
bóka sinna: „En það var Frakkland sem
gerði stjórnarbyltingarnar og færði um-
heiminum að gjöf hugmyndir. Sú gjöf
varð svo áhrifamikil að hinn þríliti fáni
varð í einhverri mynd tákn sérhverrar
þjóðar sem var að vakna til vitundar.
Evrópsk stjórnmál (raunar öll stjórnmál)
á tímabilinu frá 1789 fram til 1917 snerust
í raun um baráttu fyrir eða baráttu gegn
þeim grundvallaratriðum sem komu fram
1789, og útfærslunni á þeim frá 1793. Sá
orðaforði og þau málefni sem frjálslynd
viðhorf og róttæk lýðræðisstefna snerist
um víðast hvar í heiminum komu frá
Frakkiandi. Þaðan kom einnig fyrsta
áhrifamikla dæmið um þjóðernisstefnu,
og þar voru hugtök og baráttumál þjóð-
ernisstefnunnar mótuð. Þaðan komu líka
grunnleikreglur lögskipunar og fyrir-
mynd annarra að þjóðfélagsskipan sem
byggði á tækni-og vísindalegum kerfum,
s.s. metrakerfinu sem mjög víða var
tekið upp. Það var í gegnum frönsk áhrif
sem hugmyndafræði nútímans tókst í
fyrsta sinn að setja mark sitt á fornar
siðmenningar annarsstaðar í heiminum.
Þetta má allt rekja beint til frönsku
stjórnarbyltingarinnar."
Hobsbawm er einn af mörgum sem
telur að grundvallaratriði vestræns lýð-
ræðis, jafnt uppbygging stjórnskipunar
sem það sem við í dag köllum grundvallar
mannréttindi, megi fyrst og fremst rekja
til frönsku stjórnarbyltingarinnar. Aðrir
fræðimenn vilja leggja meiri áherslu á
amerísku byltinguna og fordæmis
hennar. Slíkur ágreiningur er í raun
aukaatriði því hvort tveggja eru greinar
af sama meiði.
Hafi þetta verið brot af því sem franska
stjórnarbyltingin fékk áorkað, þá ætti að
vera ljóst að slíkar breytingar gerast ekki
upp úr þurru. Þær áttu aðdraganda,
langan aðdraganda. Fall Bastillunnar var
aðeins fyrsti vendipunkturinn af mörgum
í löngu ferli sem trúlega verður aldrei
skilið til fulls. Þó hefur ekki staðið á
fræðimönnum að gera það að viðfangs-
efni sínu. Eitt af þvi sem löngum hefur
heillað fræðimenn er einmitt aðdragand-
inn að slíkri byltingu, að finna svör við
spurningunni: hvers vegna varð bylting-
in? Allir eru á einu máli um að orsakirnar
séu bæði almennar og sértækar, þ.e. að
þeirra sé að leita í almennri þróun í
hinum vestræna heimi annars vegar og
svo hafi þurft að koma til sértækar
aðstæður í Frakklandi, sem gerðu það að
verkum að sagan fór eins og hún fór.
Engin tilraun verður gerð hér til að rekja
hugmyndir fræðimanna um orsakir bylt-
ingarinnar og látið duga að segja að öll
stjórnskipan einveldisins, og þeir hags-
munir sem voru því samofnir, var orðin
það stirðnuð umgjörð um franskt samfé-
lag og saug úr því svo mikið blóð að
eitthvað hlaut undan að láta. Forsendurn-
ar voru fyrir hendi. Hin nýja hugmynda-
fræði skynsemisstefnunar hafði hreiðrað
um sig meðal menntamanna. Ánauðin
var orðin þrúgandi á fjölmennustu stétt
landsins smábændurna. Aðallinn var í
raun klofinn í fylkingar, svo eitthvað sé
nefnt.
Stöðnuð landbúnaðarframleiðsla
En bylting verður ekki án umfangs-
mikillar óánægju þegnanna, og þegnar
Loðvíks 16. höfðu mátt þola mikið harð-
ræði. Ólíkt því sem gerðist í Bretlandi,
tókst Frökkum af ýmsum ástæðum ekki
að endurskipuleggja hjá sér landbúnað-
arframleiðsluna og auka hana þrátt fyrir
að á sama tíma ætti sér stað gífurleg
fólksfjölgunarsprenging. Þannig hefur sá
kunni sagnfræðingur Lefebvre áætlað að
bændum hafi fjölgað um 2 milljónir á
árunum milli 1770 og 1790. í einu af mörg
hundruð leiðbeiningaskjölum, sem al-
menningur sendi fulltrúum sínum á
stéttaþingi (Cahiers),segir höfundurinn:
„Ómegð vor hefur gert oss örvæntinga-
full.“ Tilfellið var að fólksfjölgunin bitn-
aði verst á þeim sem minnst máttu sín og
eftir því sem munnarnir voru fleiri kom
minna í hlut hvers um sig, því landbúnað-
arframleiðslan óx ekki í nokkru samræmi
við fólksfjöldann. Því má segja að Frakk-
land hafi á þessum tíma verið gífurlega
háð uppskerunni. Ef uppskeran var slæm,
gátu hinir tiltölulega fáu stóru landeig-
endur og kaupmenn e.t.v. grætt á verð-
hækkun kornsins, en það þýddi hins
vegar skort og hungur hjá alþýðu manna,
hvort sem var í borg eða sveit. Sagnfræð-
ingurinn C.B.A. Behrens orðar þetta svo
á einum stað að „verðið á brauði (og á
víni í vínræktarhéruðunum) var alltaf
grunnstærðin í hagkerfinu. Hækkaði verð
Kastillan að morgni 14.júlí 1789.
vegna skorts á þessum vörum takmarkaði
það jafnframt möguleika hinna fátækari
til að kaupa aðrar vörur. Þess vegna
höfðu sveiflurnar í landbúnaðarfram-
leiðslu bein áhrif á alla atvinnustarfsemi
hvort heldur í borg eða bæ“.
En þessi vandamál Iandbúnaðarfram-
leiðslunnar mátti líka rekja til forns
skipulags við sjálfa akuryrkjuna, sem
gerði það að verkum að hverju sinni urðu
stór svæði lands að liggja ónotuð í hvíld
áður en unnt var að sá í þau aftur.
Ófrjósemi var vandamál í landbúnaðar-
framleiðslu og nokkur köld ár í röð höfðu
því miklu meiri áhrif á allt þjóðfélagið í
Frakklandi en t.d. í Bretlandi þar sem
uppstokkun landbúnaðar hafði átt sér
stað.
Benjamín Franklin
Á árunum fyrir byltinguna var Benjam-
ín Franklin sendiherra hins unga lýðveld-
is Bandaríkjanna við hirð Loðvíks 16. í
fyrirlestri sem hann flutti í desember
1784 í Hinu heimspekilega fræðafélagi í
París gerir hann að umtalsefni óvenju
harðan vetur árið 1783-84 og verður
fyrstur manna til að benda á samhengið
milli kuldans um veturinn og eldvirkni á
íslandi. Orðrétt sagði Benjamín Franklin
í fyrirlestrinum: „Sumarmánuðirnir 1783,
þegar áhrif sólargeislanna ættu að vera
mest, var stanslaus móða yfir allri Evrópu
og stórum hluta Norður Ámeríku.. ..Sól-
argeislarnir dofnuðu raunar svo mikið
við að skína í gegnum móðuna, að þegar
reynt var að safna sólargeisla í brennidep-
il með stækkunargleri, var varla hægt að
brenna brúnan pappír. Vitaskuld dró
verulega úr áhrifum þessara sólargeisla
við að hita upp jörðina.
- Þar af leiðandi fraus yfirborð jarðar-
innar snemma.
- Þar af leiðandi héldust fyrstu snjóar á
jörð án þess að bráðna og nýr sjnór
bættist við í sífellu.
- Þar af leiðandi var lofthitinn kaldari og
vindurinn miklu naprari.
- Þar af leiðandi, var veturinn 1783-4 ef
til vill sá kaldasti í fjöldamörg ár.“
Benjamín Franklin fer síðan að velta
fyrir sér þessari móðu og telur líklegt að
hún geti hafa komið frá Heklugosi á
íslandi, en ruglar þar saman Skaftáreld-
um og Heklugosi.
Kuldaskeið eftir Skaftárelda
Haraldur Sigurðsson prófessor við
Rhode Island háskólann í Bandaríkjun-
um skrifaði fyrir nokkrum árum grein í
hið virta vísindatímarit EOS um áhrif
Skaftárelda á veðurfar í Bandaríkjunum
og í Evrópu. Þar færir hann rök fyrir því
að Benjamín Franklin hafi vissulega haft
rétt fyrir sér. Raunar hafa fleiri íslenskir
vísindamenn samþykkt svipaðar kenn-
ingar, enda bendir flest til að í kjölfar
mikilla eldsumbrota, svo ekki sé talað um
eldsumbrot af þeirri stærðargráðu sem
Skaftáreldar voru, komi í kjölfarið á
stórum svæðum nokkur köld ár. í grein
Haraldar kemur fram að mælingar á
hitastigi sem framkvæmdar hafi verið á
Austurströnd Bandaríkjanna á níunda
áratug átjándu aldar bendi til þess að
hitastig þar hafi lækkað verulega í kjölfar
Skaftárelda. Þannig var meðalhitinn á
austurströnd BNA mánuðina frá desem-
ber 1783 til febrúar 1784 4,8 celciusgráð-
um lægri en meðaltal sömu mánuðina
miðað við 225 ára meðaltalshitastig sem
mælingar ná til. Haraldur sýnir einnig
þróun hitastigs næstu árin á eftir og
kemur þá í ljós að það er ekki fyrr en um
1790 sem hitinn er aftur kominn að þeim
mörkum sem hann var fyrir Skaftárelda.
Samkvæmt upplýsingum sem aflað var
hjá Páli Bergþórssyni á Veðurstofu ís-
lands sýnir sama mynstrið sig í Evrópu.
Samkvæmt hans upplýsingum var árs-
meðaltalshiti í París á 100 ára tímabilinu
frá 1851-1959 10,9 celsiusgráður. Frá
1783 fram að byltingu er hitastigið veru-
lega undir þessu meðaltali og skera þessi
ár sig nokkuð úr. Þannig var ársmeðatalið
0,1 gráðu undir meðaltali 1783, 1,9
gráðum 1784, 1,5 gráðum 1785, 1,3
gráðum 1786, 0,3 gráðum yfir meðaltali
1787, 0,3 gáðum undir meðaltali 1788, og
0,8 gráðum 1789. Páll segir að vissulega
skipti hitastig yfir sumarmánuðina mestu
varðandi uppskeru en hann segir þetta þó
mikil frávik frá meðalárshita. „Þetta eru
mjög mikil frávik í árshita, meira að segja
hér á landi þættu þetta mikil frávik þó hér
séu yfirleitt meiri frávik heldur en sunnar
í álfunni. Þannig að þarna hefur komið
harðindaskeið," segir Páll. Hitastigs-
mælingar frá Mið- Englandi á sama tíma
sýna sömu þróun og staðfesta að veturinn
1783-84 hafi verið óvenju harður og
svipaða sögu er að segja frá Basel í Sviss
og Berlín.
Móðudropinn sem fyllti mælinn
í móðunni frá Skaftáreldum var mikið
magn af brennisteinssamböndum, eink-
um í formi brennisteinssýru í móðudrop-
unum, en brennisteinssýran myndast við
það að brennisteinsdíoxið gengur í sam-
band við vatnsgufu í andrúmsloftinu.
Vegna þess að þessir móðudropar komust
i mjög miklu magni upp úr veðrahvolfinu
og upp í heiðhvolfið hékk móðan þar
miklu lengur en ef hún hefði aðeins náð
til veðrahvolfsins. Haraldur segir frá því
í grein sinni að vegna samspils móðudrop-
anna og andrúmsloftsins koma fram bein
áhrif á sólarmagnið og þar af leiðandi á
verðurfar. Síðan segir Haraldur:
„Brennisteinssýröir móöudropar í lieið-
hvolfinu. eins og þeir sem verða til viö
eldgos draga í sig sólarljós á leiðinni
niður þannig að heiðhvolfið hitnar en
veður kólnar að sama skapi við yfirborð
jarðarinnar.“ Hans niðurstaða er sú sama
og Bcnjamíns Franklins, móðan hafði
áhrif til lækkunar hitastigs í Evrópu og
Ameríku.
Miðað við þær upplýsingar og þekk-
ingu sem raunvísindin hafa aflað á síðari
árum um hugsanleg áhrif eldgosa á
veðurfar, og lauslega hafa verið rakin
hér, er þaö mjög trúlegt að lækkun
meðalhita í Evrópu vegna móðunnar frá
Skaftáreldum, hafi skipt talsverðu máli
fyrir landbúnaðarframleiðsluna á megin-
landinu og alveg sérstaklega í Frakklandi
þar scm landbúnaðaruinbreyting hafði
ekki orðiö og öll ræktun var sérlega
viðkvæm. Þegar hefur Benjamín Frankl-
in sagt frá kuldanum veturinn 1783-84 og
því hversu snemma haustið kom. Páll
Bergþórsson hefur veitt upplýsingar um
að árin fram að byltingu voru líka
verulega undir meðallagi hvað árshita
varðar og næsta víst verður að teljast að
uppskeran hafi því orðið rýrari en ella,
þó sé beinlínis ekki hægt að tala um
uppskerubrest fyrr en 1788-89. Nærgjald-
þrota ríkissjóður einveldisins krafðist
meiri skatta sem fyrst og síðast komu af
afrakstri landbúnaðar. Munnarnir voru
orðnir of margir fyrir það magn matvæla
sem hægt var ná út úr ófrjósömum og
ofnýttum jarðveginum. Önnur skilyrði
voru einnig fyrir hendi til byltingar.
Nokkur köld ár, sem enn juku á harðræð-
ið gætu hafa skipt verulegu máli. Marga
dropa þurfti til að fylla mæli þessarar
stórkostlegu stjórnarbyltingar og nútíma
vísindi benda á að einn þessara dropa
hafi komið frá íslandi - það hafi verið
móðudropi með brennisteinssýru. Ef til
vill var það mikilvægt framlag íslands til
mótunar vestræns lýðræðis.
■ ■
...