Lesbók Morgunblaðsins - 07.01.2006, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 7. janúar 2006 | 5
A
llt frá árinu 1939 hefur Fílharmóníusveitin í
Vínarborg staðið fyrir nýárstónleikum í tón-
leikahöllinni Wiener Musikverein. Nýárstón-
leikarnir eru að sjálfsögðu fyrir löngu orðnir
að sterkri hefð, og var áætlað að um einn
milljarður áhorfenda í 44 löndum um allan
heim hafi horft á tónleikana á nýársdag nú fyrir skömmu.
Þetta uppátæki þeirra Vínarbúa, að halda sérstaka Vín-
artónleika, hefur farið eins og eldur í sinu um allan heim og
eru haldnir tónleikar undir yfirskrift „nýs árs“ með tilheyr-
andi tónlist, um allan heim, og er Ísland þar engin undan-
tekning.
Jafnan eru á nýárstónleikum fluttir valsar, polkar og
marsar eftir meðlimi Strauss fjölskyldunnar, þó að vissulega
fái aðrir samtímamenn stöku sinnum að vera með í för.
Þess má geta að verk eftir Wolfgang Amadeus Mozart var
í fyrsta sinn flutt á nýárstónleikum Vín-
arfílharmóníunnar í ár, forleikurinn að
Brúpkaupi Fígarós, en tilefnið var að
sjálfsögðu að 250 ár eru liðin frá fæðingu tónskáldsins.
Í ljósi þess hve vinsælt það er orðið víða um heim að halda
um eða í kringum áramót Vínartónleika með pomp og prakt,
er í raun ekki skrýtið að þessi ákveðna tegund tónlistar skuli
koma upp í huga margra þegar tónlist og Vínarborg eru
nefnd í sömu andrá.
En því fer fjarri að valsar, polkar og marsar séu það eina
sem samið hefur verið í þessari borg. Vínarborg hefur verið
suðupottur skapandi lista í árhundruð, ýmist verið íveru-
staður eða viðkomustaður margra helstu tónskálda og tón-
listarmanna síðustu aldirnar og er svo enn í dag.
Nútíma „Vínartónlist“
Til var hópur manna sem hefur verið kenndur við „Seinni
Vínarskólann“, og samanstóð hann af tónskáldinu Arnold
Schönberg og nemendum hans. Þekktastir þeirra voru Alban
Berg og Anton Webern.
Til gamans má geta þess að til er „Fyrri Vínarskólinn“ og
samanstendur hann meðal annarra af tónskáldunum Wolf-
gang Amadeus Mozart, Joseph Haydn, Ludwig van Beetho-
ven og Franz Schubert, en tekið skal fram að afar sjaldan er
vísað til þessara tónskálda sem meðlima Fyrri Vínarskólans
nú til dags.
Hins vegar eru Schönberg og hans nemendur iðulega
kenndir við Seinni Vínarskólann, en tónlist þeirra tónskálda
sem í Seinni Vínarskólanum voru einkenndist meðal annars
af því að vera ekki bundin við ákveðna tóntegund hverju
sinni, eða svokölluð atonal tónlist.
Arnold Schönberg var upphafsmaður tónsmíðatækni sem
nefnd er tólftónatækni, og lýsti Schönberg henni sjálfur sem
„tónsmíðaaðferð“ þar sem allir tólf tónar (einnar áttundar)
koma fyrir og eru eingöngu tengdir hver öðrum.
Á sama tíma og Schönberg kom fram með sínar kenningar,
þróaði tónskáldið Josef Matthias Hauer svipaða tækni, en
Hauer og Schönberg höfðu engin tengsl hvor við annan þeg-
ar þeir unnu að því að þróa þessa nýju tónsmíðatækni.
Aðferð Hauer byggðist á því að nota Hexacord, eða sex-
tóna tónstiga, sem raðaðist saman með tilviljunarkenndum
hætti. Aðferðin er kennd við trope, en hún hefur að mestu
fallið í gleymskunnar dá, á meðan tólftóna tónsmíðatækni
Schönberg skipar mikilvægan sess í tónlistarsögu 20. aldar.
Meðlimir Seinni Vínarskólans þóttu róttækir í gjörðum og
hugsun og mættu oft litlum skilningi hjá sínum sam-
ferðamönnum.
Það er langt í frá nýnæmi að samtímalist eigi undir högg
að sækja hjá almenningi.
Svo hefur nánast ávallt verið, í það minnsta gildir það um
ákveðnar tegundir listgreina, sem sumir kjósa að kalla æðri
listir.
Hvað í því orði, “æðri“ listir felst, er í raun ekki auðvelt að
henda með einhlítum hætti reiður á, enda hlýtur huglægt
mat hvers sem á hlýðir, horfir eða les að vera mælikvarði
hverju sinni og í raun erfitt að draga í dilka í þessum efnum.
Nútímalist hefur í gegnum aldirnar vakið upp deilur og
hörð viðbrögð.
Tónlist er þar að sjálfsögðu ekki undanskilin og hörð við-
brögð og hneykslan eru þekkt í tónlistarsögunni, jafnvel með
slíkum hætti að þeir sem að flutningi stóðu áttu fótum fjör að
launa. Líklega er eitt frægasta dæmi um hörð viðbrögð
áheyrenda þegar verk Igor Stravinsky, Vorblótið, var frum-
flutt í París árið 1913.
Tveimur mánuðum fyrr sama ár átti sér stað ekki með öllu
ólíkt tilvik, þegar Schönberg stjórnaði tónleikum í Vínar-
borg, þar sem á efnisskrá voru verk eftir hann sjálfan, Alban
Berg, Anton Webern, Alexander Zemlinsky og Gustav Ma-
hler. Tónlistin sem flutt var (ný tónlist á þeim tíma) olli slíku
fjaðrafoki og heiftarlegum viðbrögðum þeirra er á hlýddu, að
það þurfti lögreglu til að skakka leikinn. Í ýmsum ritum eru
þessir tónleikar Schönberg kallaðir „Das Skandal Konzert“
eða hneykslistónleikarnir.
Einkennilegt má því teljast að tónskáldið og stjórnandinn
Franz Schreker hafi um svipað leyti (árið 1913) stjórnað
tveimur tónleikum með nýrri tónlist þar sem viðtökur voru
hreint stórkostlegar. Allir voru á einu máli um hversu vel
hafi til tekist, gagnrýnendur sem og áhorfendur. Þó er ekki
hægt að segja að efnisskrá þessara tveggja tónleika undir
stjórn Schreker hafi verið hvað innihald varðar endilega
„auðmeltari“ eða „ómþýðari“. Á dagskrá þessara tónleika var
Gurrelieder eftir Arnold
Schönberg.
Árin eftir 1913 voru erfið,
ekki síst fyrir listamenn
sem höfðu nýjar hugmyndir
um listsköpun. Heimsstyrj-
öldin fyrri braust út, og það
gerði það að verkum að fólk
hafði þörf fyrir léttari teg-
und tónlistar en áður. Hin
„æðri“ list átti því í fá hús
að venda um tímabil, en
einnig barst Vínarbúum
ekki mikið til eyrna af því
sem var að gerast í listalífi
annars staðar í Evrópu,
sökum stríðs.
Á meðan stríðinu stóð og
eftir að því lauk, var eðli málsins samkvæmt minna um að
peningum væri varið til lista, hvort sem um var að ræða op-
inbert fé eða stuðning frá almenningi. Þetta gerði það að
verkum að barist var hart um brauðið og mynduðust tvær
fylkingar í Vín á þessum tíma, þeirra sem aðhylltust fram-
sækna nútímatónlist (modernistar) og svo þeir sem vildu veg
síð-klassíkur (neo-classic) sem mestan.
Verein für Musikalische Privatauffuhrungen
Í maí árið 1918 hélt tónskáldið Arnold Schönberg, að und-
irlagi nemanda síns, Erwin Ratz, röð opinberra æfinga (alls
10 talsins) á verki sínu, Kammersinfóníu op 9.
Tilgangurinn með þessu var að kenna fólki að hlusta á nú-
tímatónlist og læra að meta hana, en í lok hverrar æfingar
var verkið flutt í heild sinni. Eins var tilgangurinn að gefa al-
menningi kost á að heyra nútímatónlist vel flutta, en það
virtist vera regla fremur en undantekning á þessum tíma í
Vínarborg, að ekki væri vandað til verka, er undirbúinn var
flutningur á nýrri tónlist. Hafa nokkrar ástæður verið nefnd-
ar fyrir því, s.s. lítill skilningur þeirra sem leika áttu tónlist-
ina, tímaskortur eða jafnvel fordómar þeirra sem að tón-
leikum stóðu á þessum tíma, hvort heldur sem um var að
ræða skipuleggjendur eða flytjendur.
Þessi æfingaröð Schönberg lukkaðist afar vel og var mál
manna að þetta væri eitthvað sem gera ætti meira úr. Schön-
berg fékk þá hugmynd að stofna félag sem hefði það að
markmiði að flytja nýja og nýlega tónlist. Frá Gustav Mahler
og Richard Strauss til dagsins í dag var yfirskriftin.
Félagið, sem hlaut nafnið Verein für Musikalische Priva-
tauffuhrungen, sem gæti útlagst sem Félag um einkaflutning
tónverka (FET), var formlega stofnað í nóvember árið 1918.
Félaginu voru sett skýr markmið og reglur.
Markmiðin voru m.a. að flytja og kynna nýja/nýlega tónlist
á sem bestan hátt og með því auka skilning og þekkingu
þeirra sem á hlýddu. Eins voru tónverk flutt oftar en einu
sinni ef þurfa þótti.
Reglur FET voru um margt sérstakar, má því til stuðn-
ings nefna að ekki var selt inn á tónleika FET sem haldnir
voru vikulega, né heldur var efnisskrá tilkynnt fyrirfram.
Hið síðastnefnda átti að tryggja að áheyrendur létu ekki
fyrirfram gefna fordóma aftra komu sinni á tónleika. Gagn-
rýnendur fengu ekki að dæma tónleika á vegum félagsins. Til
að njóta þess sem á boðstólum var urðu áheyrendur að ger-
ast félagsmenn í FET. Í upphafi hverra tónleika, eða á undan
hverju verki hélt tónleikastjóri (Vortragsmeister) tölu um
verkin sem flytja átti, greindi þau og útskýrði með tón-
dæmum.
Að félaginu stóðu auk Schönberg, sem var forseti félags-
ins, Alban Berg, Anton Webern, Erwin Ratz og Eduard
Steuermann svo einhverjir séu nefndir. Þessi hópur sem að
þessu stóð hefur löngum verið kenndur við Vínarskólann
seinni.
Tónverkin sem flutt voru á vegum FET voru af ýmsum
toga, allt frá einleiksverkum og upp í risavaxin hljómsveit-
arverk. Einleiks- og kammerverk voru flutt í upprunalegri
mynd, en stærri verk, t.a.m. sinfóníur og tónaljóð voru útsett
fyrir kammersveit, en sér til halds og trausts hafði FET af-
bragðs góða kammertónlistarmenn og söngvara.
FET starfaði í um 3 ár og hélt á því tímabili 113 tónleika
þar sem 154 verk 42 tónskálda voru flutt, og mörg þeirra
bárust til eyrna Vínarbúum í fyrsta sinn, enda hafði borgin
verið einangruð sökum fyrri heimsstyrjaldar og því höfðu
t.a.m. verk ýmissa franskra og rússneskra tónskálda ekki
fengið að hljóma á tónleikum í Vínarborg.
Efnahagsástandið á þessum árum varð til þess að FET
varð að leggja upp laupana, þrátt fyrir að opnir fjáröfl-
unartónleikar, þar sem vínarvalsar í útsetningum þeirra
Schönberg, Berg og Webern voru fluttir, væru afar vel sótt-
ir.
„Öðruvísi“ Vínartónleikar
Íslenska óperan og Kammersveitin Ísafold standa fyrir Vín-
artónleikum með óvenjulegu sniði á morgun, sunnudaginn 8.
janúar.
Á efnisskránni eru verk sem öll eiga það sameiginlegt að
vera útsett af meðlimum FET og jafnvel beinlínis útsett fyrir
tónleika undir merkjum félagsins.
Þær útsetningar sem hljóma munu í Íslensku óperunni á
sunnudagskvöldið hafa sjaldan verið fluttar á tónleikum á
undanförnum árum. Eins eru fáar hljóðritanir til. Einhver
merki þess eru þó um það að menn séu að dusta af þessum
verkum rykið, og er full ástæða til, enda um áhugaverðan
kafla í tónlistarsögunni að ræða.
Eftir því sem best er vitað eru verkin sem flutt eru á tón-
leikunum í Íslensku óperunni að heyrast hér á landi í fyrsta
sinn í þessum útsetningum, með þeirri undantekningu þó að
Lieder eines fahrenden Gesellen hefur verið flutt undir
stjórn Hákons Leifssonar.
Alls eru fimm verk á efnisskrá tónleikanna
Weihnachtsmusik eftir Schönberg er fyrsta verkið á efnis-
skránni. Þetta litla tónverk er útsetning á tveimur þekktum
jólasálmum, „Es is ein Ros entsprungen“ (Það aldin út er
sprungið) og „Stille Nacht“ (Heims um ból) skrifar Schön-
berg fyrir 2 fiðlur, selló, píanó og harmoníum.
Fyrstu drög verksins eru líklega frá árinu 1912, en fullgert
mun það vera frá árinu 1921 og líklegt er talið að það hafi
verið flutt á tónleikum FET þótt heimildum beri ekki öllum
saman um það.
Annað verk efnisskráar er eftir Johann Strauss II, Schatz-
walzer úr óperu Johann Strauss II, Sígaunabaróninum, hér í
útsetningu Anton Webern. Þessi útsetning var gerð fyrir
fjáröflunartónleikana sem nefndir voru hér af ofan, en þeir
voru haldnir 27. maí árið 1921. Webern hvikar í raun í litlu
frá hljómsveitavölsum Strauss, en gerir honum skil með því
að umskrifa verkið fyrir strengjakvartett, píanó og harm-
óníum.
Þriðja verkið er Kaiserwalzer, einnig eftir Johann Strauss
II og hér útsett af Schönberg. Útsetningin var ekki flutt
undir merkjum FET, heldur verður hún til síðar, árið 1925
og var tilefnið tónleikaferðalag Pierrot hljómsveitarinnar til
Spánar, en í þeirri tónleikaferð var verk Schönberg Pierrot
Lunaire flutt. Þessi útsetning Schönberg á Keisaravalsi
Strauss var uppklappslag í ferðinni.
Fjórða verk tónleikanna er verk Debussy, Prélude a
l‘apres-midi d‘un faune í útsetningu Schönberg og Benno
Sachs, sem á þessum tíma var nemandi Schönberg. Þótt
ótrúlegt megi virðast, þá tekst að koma verki Debussy vel til
skila þrátt fyrir að hljómsveitin sem útsett er fyrir sé mun
minni en í upprunalegri útgáfu og Debussy sé þekktur fyrir
litmikla og blæbrigðaríka raddskrifan. Útsetningin er að
mestu leyti verk Benno Sachs, þó svo að iðulega séu hann og
Schönberg báðir titlaðir sem höfundar útsetningar.
Síðasta verk efnisskráar er verkið Lieder eines fahrenden
Gesellen eftir Gustav Mahler. Hvenær Mahler samdi þennan
ljóðaflokk sinn er umdeilt, en það mun að líkindum hafa verið
í árslok 1884. Hver höfundur texta við ljóðin, sem í upp-
runalegri mynd voru líklega sex að tölu, en eru fjögur í end-
anlegri mynd, er í raun ekki vitað með vissu. En oftast má
sjá Mahler sjálfan titlaðan sem höfund texta.
Tónamálið í Lieder eines fahrenen Gesellen notaði Mahler
síðar í sinni fyrstu sinfóníu. Schönberg útsetti verkið fyrir
kammersveit og barítónrödd og var það flutt hinn 6. febrúar
árið 1920 undir merkjum FET.
Öðruvísi Vínartónleikar
Íslenska óperan og Kammersveitin Ísafold standa fyrir Vín-
artónleikum með óvenjulegu sniði á morgun, sunnudaginn 8.
janúar. Á efnisskránni eru verk sem öll eiga það sameiginlegt
að vera útsett af meðlimum félags um einkaflutning tónverka
sem Arnold Schönberg stofnaði og jafnvel beinlínis útsett fyr-
ir tónleika undir merkjum félagsins.
Alban Berg Málverkið er eftir Schönberg.
Eftir Helga Jónsson
helgi18@yahoo.com
Höfundur er nemi í tónlistarfræðum
við Háskólann í Freiburg.
Arnold Schönberg Stofnandi FET.