Lesbók Morgunblaðsins - 07.01.2006, Qupperneq 12
12 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 7. janúar 2006
Kvikmyndin er hundur,“ sagði leikstjór-inn. „Hausinn er viðskipti; rófan erlist. Og aðeins einstöku sinnum dillarrófan hundinum.“ Sé kvikmyndin
hundur, sem hljómar sennilega, megum við
þakka fyrir að til séu íslenskir hundar, eins og
ástandið er.
Nýliðið ár var ekki beinlínis ár íslenska hunds-
ins, þótt nokkrir álitlegir væru þar á vappi. Á
nýju ári er, samkvæmt upplýsingum Hundaveitu
ríkisins, les: Kvikmynda-
miðstöðvar Íslands, von á fjór-
um til fimm nýjum afkvæmum
stofnsins: Blóðbönd eftir Árna
Óla Ásgeirsson, Börn og For-
eldrar sem eru samvinnuverk-
efni Ragnars Bragasonar leikstjóra og Vest-
urports, Bjólfskviða eftir Sturlu Gunnarsson og
hugsanlega Köld slóð í leikstjórn Björns Brynj-
úlfs Björnssonar, en tökur á henni hefjast í
næsta mánuði. Aðrar fimm bíómyndir verða
væntanlega teknar á árinu: Mýrin í leikstjórn
Baltasars Kormáks, Óvinafagnaður í leikstjórn
Friðriks Þórs Friðrikssonar, Veðramót eftir Guð-
nýju Halldórsdóttur, Astrópía í leikstjórn Gunn-
ars B. Guðmundssonar og The Good Heart eftir
Dag Kára.
Það vekur athygli að þrír helstu leikstjórar
okkar, Baltasar, Friðrik Þór og Dagur Kári, eru
farnir að vinna sínar myndir að stórum hluta á
erlendum tungumálum, ensku eða dönsku. Þegar
ég spyr Laufeyju Guðjónsdóttur, forstöðumann
Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, hvort þróunin sé
að verða sú að dýrari myndir íslenskra leikstjóra
séu á erlendum málum með stórum eignarhlut
erlendra framleiðenda en ódýrari leiknar myndir
og heimildarmyndir miðist við heimamarkaðinn
segir hún að tilviljanir ráði því að hluta að stóru
og dýru verkefnin raðist niður með þeim hætti
þessi misserin. „Framleiðendur tala þó sumir um
að erfiðara sé að fjármagna myndir á íslensku en
áður,“ bætir hún við. Íslenskir kvikmynda-
framleiðendur hafi alla tíð, ekki síst vegna tak-
markaðra fjárráða Kvikmyndamiðstöðvar og
smæðar heimamarkaðarins, verið mjög háðir er-
lendu fjármagni og samstarfsaðilum. „Eign-
arhlutdeildin er í flestum tilvikum svipuð í pró-
sentum, þótt vissulega séu tölurnar hærri hvað
varðar A Little Trip To Heaven, Bjólfskviðu og
Óvinafagnað.“
Laufey kveðst þeirrar skoðunar að rétt sé að
fara sér hægt í þessum efnum, en um leið sé erf-
itt að binda hendur leikstjóra listrænt. „Þær
myndir á ensku, sem KMÍ hefur styrkt eða veitt
styrkvilyrði, þ.e. Bjólfskviða, Little Trip, The Go-
od Heart og Óvinafagnaður, eru myndir leik-
stjóra sem vakið hafa mikla athygli erlendis. Því
hefur þetta vissulega nýst allri íslenskri kvik-
myndagerð.“ Spurningunni um það hvort álita-
mál sé að fjármagni frá íslenska ríkinu eigi að
verja í miklum mæli til áhættusamra stórverk-
efna á ensku svarar Laufey eindregið játandi. En
hún vekur um leið athygli á því að í þeim loflegu
umsögnum sem birst hafa um A Little Trip To
Heaven minnist hún þess ekki að einn einasti
gagnrýnandi hafi svo mikið sem nefnt tungu-
málið. Sú spurning vaknar því hvort íslensk kvik-
mynd á ensku sé í huga Íslendinga alveg jafn ís-
lensk sem væri hún á íslensku.
KMÍ hefur einnig veitt fjárstyrki til verkefna
erlendra leikstjóra gegnum íslenska meðfram-
leiðendur. „Slíkar ákvarðanir hafa byggst á þátt-
töku íslenskra listamanna og lykilstarfsfólks og/
eða tökum og vinnslu myndanna hérlendis. Á sl.
þremur árum höfum við þannig styrkt gerð Guy
X, The Last Winter, Den brysomme mannen og
When Children Play In the Sky, auk Voksne
mennesker eftir Dag Kára. Hér er líka byggt á
því prinsippi samframleiðslu að hún getur ekki
bara farið aðra leiðina. Einnig er Ísland aðili að
Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum,
Media og Eurimages, auk samframleiðslusamn-
inga við Kanada og Bretland sem beinlínis byggj-
ast á samstarfi og stofnað til þeirra á þeim for-
sendum. Því er ljóst að við getum ekki bara verið
þiggjendur í erlendu samstarfi og tengslaneti.“
Laufey Guðjónsdóttir segir að fjölbreytnin í
öllum greinum íslenskrar kvikmyndagerðar hafi
aldrei verið meiri, „infrastrúktúr“ hennar sé orð-
inn vel mótaður og fagkunnátta ekki síður. Þótt
hún hafi vissar áhyggjur af aðsókn á íslenskar
myndir sé hún prósentulega enn vel fyrir ofan
meðallag miðað við nágrannalöndin. Mikið velti á
því í framtíðinni að íslensku sjónvarpsstöðvarnar
leggi aukna áherslu á leikið íslenskt efni.
Ef við viljum íslenskt voff í bland við enskt
woff þarf að rækta stofninn.
Er sama voff og woff?
’Er íslensk kvikmynd á ensku í huga Íslendinga alveg jafníslensk sem væri hún á íslensku?‘
Sjónarhorn
Eftir Árna
Þórarinsson
ath@mbl.is
Á
rið 2003 gaf Swofford endurminn-
ingar sínar út og sat bókin í níu vik-
ur á lista New York Times yfir
mest seldu bækur í Bandaríkj-
unum. Sagan hefur nú verið kvik-
mynduð í leikstjórn Sam Mendes
sem hlaut Óskarsverðlaunin árið 2000 fyrir kvik-
myndina American Beauty. Á meðal leikara í Jar-
head eru Jake Gyllenhaal (Donnie Darko, The Day
After Tomorrow) og Óskarsverðlaunahafarnir
Jamie Foxx (Ray, Collateral) og Chris Cooper
(Adaptation, American Beauty).
Í myndinni segir frá því
hvernig hinn tvítugi Swoff upp-
lifir stríðið, en það er með allt
öðrum hætti en greint var frá í
fjölmiðlum á sínum tíma. Hann lýsir miskunn-
arleysi og ofbeldi stríðsins, en á köflum verður
hann kaldhæðinn og jafnvel kómískur í lýsingum
sínum á því sem hann upplifði. Að auki veltir hann
fyrir sér því sem svo oft hefur verið spurt að; hver
sé tilgangur stríðs. Umfram allt fjallar hann þó um
vináttuna og traustið sem myndaðist milli hans og
annarra hermanna undir þessum skelfilegu kring-
umstæðum við Persaflóa árið 1990.
Segja má að Jarhead sé stríðsádeila, en fjöl-
margar slíkar kvikmyndir hafa verið gerðar og
verður hér stiklað á stóru og fjallað um fimm þeirra
bestu.
Paths of Glory (1957) segir frá því þegar frönsk
herdeild neitar skipun þess efnis að ganga út í op-
inn dauðann á vígvellinum í fyrri heimsstyrjöldinni.
Yfirvöld ákveða að láta velja þrjá hermenn úr her-
deildinni af handahófi og eru þeir síðan dæmdir til
dauða fyrir hugleysi, sem einhvers konar víti til
varnaðar fyrir aðra hermenn. Kirk Douglas fer fyr-
ir öflugum leikarahópi undir styrkri leikstjórn
Stanley Kubrick í einni af hans sterkustu myndum.
The Deer Hunter (1978) fjallar um þrjá vini frá
Pennsylvaníu í Bandaríkjunum sem kvaddir eru til
herþjónustu í Víetnam. Þar lenda þeir í klóm óvin-
anna sem koma fram við þá eins og skepnur. Þeir
sleppa lifandi með naumindum en atburðirnir hafa
djúpstæð áhrif á þá alla, bæði líkamlega og and-
lega. Myndin fjallar öðru fremur um mannlega
þáttinn í stríðinu og hversu slæm áhrif það gat haft
á þá, sem í það fóru, og aðstandendur þeirra. The
Deer Hunter hlaut fimm Óskarsverðlaun á sínum
tíma, þar á meðal sem besta myndin og fyrir bestu
leikstjórn. Þá hlaut Christopher Walken verðlaunin
fyrir bestan leik í aukahlutverki enda eftirminnileg-
asta frammistaða þessa frábæra leikara. Robert
DeNiro var tilnefndur fyrir bestan leik í aðal-
hlutverki og var frammistaða hans engu síðri en
Walkens. Hann varð þó að láta í minni pokann fyrir
Jon Voight sem fékk Óskarinn fyrir leik sinn í
myndinni Coming Home.
Dr. Strangelove or: How I Learned to Stop
Worrying and Love the Bomb (1964) er háðsádeila
sem gerir grín að kalda stríðinu, þótt fáum hafi lík-
lega verið hlátur í huga þegar kjarnorkustyrjöld
vofði yfir heiminum. Myndin fjallar um þær erfiðu
aðstæður sem myndast í kjölfar þess að bandarísk-
ur hershöfðingi brjálast og sendir eina af flugvélum
sínum af stað til að varpa kjarnorkusprengju á Sov-
étríkin. Forseti Bandaríkjanna boðar í kjölfarið til
neyðarfundar til að bregðast við aðstæðum og
hringir meðal annars í forseta Sovétríkjanna til að
segja honum hvað sé að gerast. Peter Sellers fer á
kostum í þremur hlutverkum í myndinni, og þá sér-
staklega sem forseti Bandaríkjanna og sem Dr.
Strangelove sjálfur. Stanley Kubrick leikstýrði
myndinni sem var tilnefnd til fjögurra Óskars-
verðlauna en var ekki hampað frekar af akademí-
unni.
Apocalypse Now (1979) er byggð á skáldsögunni
Heart of Darkness eftir Joseph Conrad og gerist á
tímum Víetnamstríðsins. Í miðju stríðsins er Will-
ard höfuðsmaður (Martin Sheen) sendur ásamt
nokkrum hermönnum inn í frumskóga Kambódíu
til að finna Kurtz ofursta (Marlon Brando) og
myrða hann. Samkvæmt upplýsingum frá hernum
er Kurtz orðinn geðveikur og búinn að koma sér
upp sínum eigin her í miðjum frumskóginum. Eftir
því sem leiðangurinn sækist betur kemur tilgangs-
leysi hans betur og betur í ljós og geðveikin fer að
ná tökunum á Willard og hans mönnum. Leiðang-
urinn er táknmynd fyrir það stríð sem Bandaríkja-
menn háðu í Víetnam og Willard og hans menn
táknrænir fyrir þá bandarísku hermenn sem börð-
ust í stríðinu. Apocalypse Now er ógleymanleg fyr-
ir margra hluta sakir. Upphafsatriðið er glæsilegt
sem og hið fræga þyrluflug undir kröftugum tónum
Richards Wagners, enda hlaut myndin Óskars-
verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku og besta hljóð-
ið. Robert Duvall stendur upp úr leikarahópnum
sem hinn ofurmannlegi Kilgore ofursti, en þeir
Sheen og Brando fylgja fast á hæla hans. Auk
þeirra leika Dennis Hopper og Laurence Fis-
hburne minni, en þó skemmtileg hlutverk. Gerð
myndarinnar var ekki áfallalaus og náði geðveikin á
köflum tökum á þeim sem að henni stóðu, þar á
meðal leikstjóranum Francis Ford Coppola sem
varð nánast gjaldþrota við gerð hennar. Þá fékk
Martin Sheen hjartaáfall og Marlon Brando var ill-
viðráðanlegur þannig að tökur töfðust um marga
mánuði. Fræg voru orð Coppola á blaðamanna-
fundi skömmu eftir frumsýningu Apocalypse Now,
og segja þau kannski margt um þessa miklu mynd:
„Þessi mynd fjallaði ekki um Víetnam. Hún var
Víetnam.“
Full Metal Jacket (1987) fjallar um hóp ungra
manna sem gengur í gegnum herþjálfun í Banda-
ríkjunum og er síðan sendur beint á vígvöllinn í
Víetnam, en myndin skiptist í þessa tvo meg-
inhluta. Fyrri hluti myndarinnar er ógleymanlegur
þeim sem hann sjá. Þar er fjallað um hvernig
óharðnaðir ungir drengir eru sendir í miskunn-
arlausa herþjálfun undir stjórn Hartmans liðþjálfa,
sem er leikinn af R. Lee Ermey, lítt þekktum leik-
ara í sínu besta hlutverki. Liðþjálfinn er gríðarlega
strangur við drengina og rekur þá áfram með
harðri hendi. Karakter hans, og ef til vill þjálfuninni
sjálfri, er líklega best lýst þegar hann dásamar
hvernig Lee Harvey Oswald gat hitt skotmark á
hreyfingu af eins löngu færi og raun bar vitni, en að
sögn Hartmans var það eitthvað sem Oswald lærði
í herþjálfun. Samkvæmt Hartman skiptir því engu
máli hvernig mennirnir nýta sér þjálfunina, svo
lengi sem þeir læra og skilja það sem þeim er
kennt. Hans markmið er að gera drápsvélar úr
drengjunum ungu. Í síðari hluta myndarinnar eru
þessir sömu drengir komnir á vígvöllinn í Víetnam
þar sem þeir eiga í höggi við óvin sem í ljós kemur
að er allt annar en þeir bjuggust við, líkt og raunin
varð með stríð Bandaríkjamanna í Víetnam. Auk
Ermey verður að minnast á Vincent D’Onofrio sem
er mjög minnisstæður sem óbreyttur Pyle. Full
Metal Jacket er óvægin og raunsæ kvikmynd um
þetta hræðilega stríð og ein sú besta í flokki stríðs-
ádeilna.
Jarhead og stríðsádeilurnar
Á föstudaginn kemur verður kvikmyndin Jar-
head frumsýnd hér á landi. Myndin er byggð á
endurminningum Bandaríkjamannsins Anthony
Swofford sem var sendur til að berjast í Persa-
flóastríðinu árið 1990, tvítugur að aldri.
Persaflóastríðið séð með augum Swoff.
Eftir Jóhann
Bjarna Kolbeinsson
jbk@mbl.is
Leikararnir John Travolta og TimAllen eiga nú í samninga-
viðræðum við Disney kvikmyndafyr-
irtækið um að þeir leiki í kvikmynd-
inni Wild Hogs.
Þar munu þeir
fara með hlut-
verk tveggja mið-
aldra manna sem
leggja af stað í
langferð á mót-
órhjólum í æv-
intýraleit. Það vill
þó ekki betur til
en svo að þeir
lenda beint í klón-
um á Hells’s Angels, mótorhjólaklík-
unni alræmdu. Tim Allen er hvað
þekktastur fyrir leik sinn í gam-
anþáttunum
Home Improve-
ment og í gam-
anmyndunum
Santa Claus. Þótt John Travolta sé
hvað þekktastur fyrir alvarlegri
hlutverk hefur hann þó leikið í gam-
anmyndum á borð við Get Shorty og
Look Who’s Talking.
Kúrekamyndin BrokebackMountain hlaut flestar tilnefn-
ingar til kvikmyndaverðlauna sam-
taka bandarískra kvikmyndaleikara,
SAG, alls fjórar. Heath Ledger er
tilnefndur fyrir bestan leik í aðal-
hlutverki, Jake Gyllenhaal sem besti
karlleikari í aukahlutverki og Mich-
elle Williams sem besta leikkona í
aukahlutverki, öll fyrir hlutverk sín í
myndinni Brokeback Mountain.
Næstflestar tilnefningar hlutu
myndirnar Capote og Crash, þrjár
tilnefningar hvor. Aðrir leikarar sem
tilnefndir voru fyrir bestan leik í að-
alhlutverki voru Russell Crowe fyrir
Cinderella Man, Philip Seymour
Hoffman fyrir Capote, Joaquin
Phoenix fyrir Walk The Line og
David Strathairn fyrir Good Night,
and Good Luck. Þær leikkonur sem
tilnefndar voru fyrir bestan leik í að-
alhlutverki voru Judi Dench fyrir
Mrs. Henderson Presents, Felicity
Huffman fyrir Transamerica, Char-
lize Theron fyrir North Country,
Reese Witherspoon fyrir Walk the
Line og Ziyi Zhang fyrir Memoirs of
a Geisha. Aðrir leikarar sem til-
nefndir voru fyrir bestan leik í auka-
hlutverki voru Don Cheadle fyrir
Crash, George Clooney fyrir Syri-
ana, Matt Dillon fyrir Crash og Paul
Giamatti fyrir Cinderella Man. Aðr-
ar leikkonur sem tilnefndar voru
fyrir bestan leik í aukahlutverki
voru Amy Adams fyri Junebug, Cat-
herine Keener fyrir Capote, Fran-
ces McDormand fyrir North Co-
untry og Rachel Weisz fyrir The
Constant Gardener. Verðlaunin
verða afhent hinn 29. janúar.
Jon Stewart verður kynnir á Ósk-arsverðlaunahátíðinni í ár, að
því er skipuleggjendur hennar hafa
tilkynnt. Stewart
hefur ekki verið
þar kynnir áður.
Í fyrra var Chris
Rock kynnir há-
tíðarinnar. Stew-
art er umsjón-
armaður þátt-
arins The Daily
Show with Jon
Stewart á sjón-
varpsstöðinni
Comedy Central.
Hann hlaut Emmyverðlaun fyrir
þáttinn í fyrra. Stewart kvaðst
ánægður með að fá þetta hlutverk.
Hann fetar í fótspor annarra
þekktra uppistandara á borð við
Billy Crystal, Whoopi Goldberg og
Davids Lettermans. Miklar vanga-
veltur voru um það hver tæki við af
Rock og heyrðust nefnd nöfn Steves
Martins, Jays Lenos og Conans
O’Briens.
Óskarsverðlaunin verða afhent
hinn 5. mars í 78. sinn.
Erlendar
kvikmyndir
Jake Gyllenhaal og Heath Ledger.
Jon Stewart
John Travolta