Lesbók Morgunblaðsins - 11.02.2006, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 11.02.2006, Blaðsíða 15
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. febrúar 2006 | 15 KRISTÍN Helga Káradóttir er ung myndlist- arkona sem sýnir sína fyrstu einkasýningu hér- lendis í kjallara Kling & Bang gallerís. Sýn- inguna nefnir hún „Hérna niðri“ og er innsetning með þremur skjávörpum sem sýna stutt myndskeið á veggjum gallerísins. Fyrst ber að nefna myndskeið þar sem listakonan svífur á dúnmjúku skýi og veifar niður til áhorf- andans klædd rauðum kjól. Frásögnin er alger- lega opin til túlkunar en tilfinning mín segir að myndskeiðið hafi í sér léttleika, draumóra og yf- irborðsmennsku í senn. Annað myndskeið sýnir hvítklædda mær hlaupa á grasi. Maður veit ekki hvers vegna hún hleypur en hún sýnist í einhverri örvæntingu eða tilhlökkun. Eitt sem Kristín virðist nota sem táknrænu innan atburðarásar myndskeiðanna er litur kjólanna sem konurnar klæðast. Þeir gefa myndunum sameiginlega sjónræna vigt. Rauð- ur kjóllinn sker sig frá skýinu og táknrænt séð er þetta litur blóðs og losta, sem eru líkamleg fyrirbæri og andstæð draumkenndu svifi. Hvít- ur er hins vegar tákn tærleika eða sakleysis og er ójarðneskur, enda stendur hann fyrir fjar- veru lita. Þriðja myndbandið er sýnt í afkima kjall- ararýmisins niður við gólf. Svartklædd kona liggur á svartri ströndu í vætu og rökkri. Mynd- skeiðið hefur í sér tómleika og þyngd og mun þægilegra er að stilla sig af við andardrátt hafs- ins en endalaus hlaup. Virkar því vel að slíta það frá áðurnefndum myndum. Auk kjólanna sýnist mér myndskeiðin eiga það sammerkt að vísa til eftirlífs. Það kann að vera tilviljun en engu að síður er konan á skýinu að kveðja okkur sem erum hér niðri. Svart- klædda konan virðist einnig lögst til hinstu hvílu og hvít klæði hlaupamærinnar kunna að vísa til afturgangna. Allavega hugsaði ég strax til Kathy í skáldsögu Emilys Bröntes, „Fýkur yfir hæðir“, þegar ég horfði á stúlkuna hlaupa. Uppsetningin myndanna er einföld og rök- ræn í kjallararýminu. Hófstillt myndskeið og innsetning sem ganga prýðilega upp en er held- ur áhættulaust og fjarrænt. Eins og það vanti áræðni eða festu og sýningin fellur dálítið inn í fjöldann. Konur í kjólum Jón B.K. Ransu Morgunblaðið/Ásdís Kristín Helga Káradóttir, „Hér niðri“. MYNDLIST Kling & Bang gallerí Opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 14–18. Sýningu lýkur 19. febrúar. Kristín Helga Káradóttir Leiklist Við mælum með Glæp gegn diskóinusem sýnt er í Borgarleikhúsinu. Þetta er svört kómedía um þrjá náunga sem hver hefur sína sögu að segja og gerir það í formi frísklegra eintala. Það er leikhópurinn Steypibaðsfélagið sem stendur að sýningunni á Litla svið- inu, í samvinnu við Leikfélag Reykjavík- ur. „Glæpur gegn diskóinu er sýning leik- aranna. Þeir ná allir að skapa sterkar og eftirminnilegar persónur, standa með þeim og skila þeim til okkar,“ sagði m.a. í mjög jákvæðri umsögn gagnrýnanda blaðsins eftir frumsýningu. Kvikmyndir Kvikmyndin Walk the Line fjallar umævi bandaríska sveitasöngvarans Johnny Cash. Kvikmyndin fékk fjórar stjörnur hjá Sæbirni Valdimarssyni gagnrýnanda Morgunblaðsins en hann hafði meðal annars þetta um myndina að segja: „Satt að segja er með ólíkindum að tekist hefur að flytja slíkt fjall yfir á hvíta tjaldið, og það með jafn svip- sterkum árangri og raun ber vitni. Vita- skuld er það öðrum snillingum að þakka, og þá fyrst og síðast Joaquin Phoenix, sem tekst það ógerlega: Að fara í svörtu fötin og láta þau smellpassa. Leiksig- urinn kemur ekki alveg á óvart því Jamie Foxx lék svipaðan leik í fyrra, sem hin holdi klædda hliðstæða goðsögn, Ray Charles. Phoenix slær honum jafnvel við því hann gerir sér lítið fyrir og syngur Cash. Syngur Cash! Það er nokkuð sem menn verða að sjá og heyra til að skilja hvílíkt afrek þessi ungi hæfileikamaður er að vinna. Án hans hefði Walk the Line aldrei orðið til, frekar en Ray án Foxx.“ Myndlist Bandaríski myndlistarmaðurinn RoniHorn er orðin jafn samgróin ís- lensku myndlistarlífi og hver annar – og það jafnvel þótt lítið hafi sést af hennar stærstu verkum hér á landi. Líkt og um heim allan hafa verk hennar vakið verð- skuldaða athygli hér, ekki síst þau sem að einhverju leyti byggjast á íslenskum minnum, mýtum og mærum. Heiti sýn- ingar á verkum hennar sem opnuð verður í Safni í dag – „Relaxness“ – er dæmigert fyrir þann afhjúpandi leik að orðum sem Horn stundar gjarnan. Túlkast óhjá- kvæmilega sem skilaboð er á sinn tví- tyngda hátt skila bæði framandleika og kunnugleika, þvert á tímann og þvert á söguna. Tónlist Glænýr óbókonsert eftir eitt besta ogvirkasta tónskáld okkar, fluttur af einum besta óbóleikara okkar er nokkuð sem Lesbók hlýtur að mæla með. Á tónleikum Kammersveitar Reykja- víkur í Ými, annað kvöld kl. 20 frumflytur sveitin óbókonsertinn Cantus eftir John Speight, og einleikari með Kammersveit- inni er Daði Kolbeinsson. Tónskáldið seg- ir konsertinn lýrískan, og að óbóið fái að njóta sín vel. Lesbók Við mælum með Morgunblaðið/Ómar Glæpur gegn diskóinu „Þetta er svört kómedía um þrjá náunga sem hver hefur sína sögu að segja og gerir það í formi frísklegra eintala.“ Lesarinn Bob Dylan: Chronicles, Volume One, Simon & Schuster UK 2004. Engan veginn samfelld sjálfsævisaga frægðarmannsí stílnum „allt var gott sem gerði hann“. Enn síður játningabók á persónulegum nótum þar sem höfuð höf- uðskálds hvílir makindalega á lárviði og rifjar upp „fræga menn sem kynntust mér“. Miklu fremur þroskasaga og jafnvel misþroskasaga gríðarlega einbeitts listamanns sem veit allt frá fyrsta degi kannski ekki beint HVAÐ hann ætlar sér, heldur AÐ hann ætlar sér það. Dylan fjallar um rætur sínar, allt frá fæðingu vorið 1941 í Dulúð í Minnesota og uppvaxtarárum í Hibbing. Dýfir sér í fimm köflum hér og hvar ofan í eigin feril á ýmsum tímum og litast um. Greinir frá og greinir sund- ur af ótrúlegri snerpu og skerpu. Grobb og drýldni ekki til. Stíllinn svo leiftrandi og beittur að unun er að. Slík- ur aragrúi spaklegra setninga, hittinna líkinga og djúpra pælinga að blýantur lesandans er stöðugt á lofti og spássíurnar hrökkva varla til. Þórarinn Eldjárn Dagbókarbrot Úr dagbók Tolstoys, 11. febrúar 1890. Í Yasnaya Polyana. Skrýtið – munúðarfullur draumur. Ég sef ekki mikið.Vanmætti. Ég vil skrifa en vantar kraft. Hugsaði í dag: um bréfið sem ég byrjaði að skrifa til Kolechka; helsta freistingin í þessari stöðu er sú staðreynd að líf í óvenjulegum lúxusaðstæðum, sem maður lætur yfir sig ganga fyrst í stað til þess að spilla ekki fyrir ástinni, nær á endanum tökum á manni með freistingum sínum og þá veit maður ekki lengur hvort maður sættir sig við slíkar aðstæður til þess að spilla ekki fyrir ástinni eða vegna þess að maður hefur látið undan freistingunum. Merki um að hið fyrrnefnda sé reyndin – til dæmis að maður standist freistinguna aðeins vegna þess að mað- ur óttast að spilla fyrir ástinni – sjást á því að manni hefur ekki tekist að friða samviskuna heldur bítur hún æ fastar. Þórarinn Eldjárn SUMIR trúa því að sjö sé happatala. Og hvað varðar tónskáldin Harald Vigni Svein- björnsson og Eirík Árna Sigtryggsson þá held ég að það sé alveg rétt. Á tónleikum Myrkra músíkdaga í Háskólabíói á fimmtu- dagskvöldið lék Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Rumons Gamba tónsmíðina Sjö byltur svefnleysingjans eftir Harald Vigni, en Sjöstirni eftir Eirík Árna. Bæði verkin fá góða dóma hér. En reyndar ekki fyrir neina heppni, því verkin voru prýðilega unnin og ákaflega skemmtileg. Þó jaðraði við að flutningurinn á Sjöstirni heppnaðist ekki sem skyldi, a.m.k. voru margir tón- arnir ekki eins hreinir og þeir áttu að vera. Er sjö þá kannski óhappatala hljómsveit- arinnar? Sjö byltur svefnleysingjans dregur nafn sitt af því að Haraldur Vignir mun hafa fengið hugmyndina að tónlist sinni að næt- urlagi, og hún hélt fyrir honum vöku. Eins og titillinn gefur til kynna er hún í sjö köfl- um og eru þeir fremur stuttir og hnitmið- aðir. Verkið hélt athygli minni allan tímann, enda samanstóð það af snörpum andstæðum ólíkra tónhugmynda og einnig andstæðra blæbrigða mismunandi hljóðfæra. Hvergi var neinu ofaukið; tónlistin samsvaraði sér prýðilega, hún var snyrtilega byggð upp og grípandi; áheyrendur fögnuðu líka ákaft. Ekki eins mikið var um leik ólíkra lita í verki Eiríks, enda eingöngu strengjaleik- arar hljómsveitarinnar sem fluttu það. En það var samt ekkert síðra. Sjöstirni vísar til sjöundahljóma sem voru áberandi í fyrri hluta tónsmíðarinnar, en síðar tók völdin stef sem minnti á sykursæta kvikmynda- tónlist úr Hollywood um miðbik síðustu ald- ar. Merkilegt nokk hljómaði það mun betur á tónleikunum en það gerir hér. Eiríkur beitti fyrir sér einhvers konar ýkjustíl, Hollywoodstefið var keyrt áfram af kald- hæðnislegri ákefð og þegar ómstríðum tón- bilum var blandað saman við velluna af mikilli list var útkoman undarlega heillandi, þrátt fyrir nokkuð subbulegan flutning. Tvær aðrar tónsmíðar voru leiknar á tón- leikunum, Þrenjar eftir Þorkel Sigurbjörns- son og Sinfónía eitt eftir Þorstein Hauks- son. Sú fyrrnefnda var konsert fyrir fiðlu, selló, píanó og hljómsveit og einleikarar voru þau Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Örn Magnússon píanóleikari. Þau stóðu sig yfirleitt ágætlega. Þrenjar þýðir þríeggjað sverð (hvernig sem það nú lítur út) og byggðist tónlistin á einfaldri hendingu sem tónskáldið lék sér með á allan hugsanlegan hátt. Hugmyndaauðginni virtust engin tak- mörk sett og antiklímaxinn í lokin, þ.e. lág- stemmdur endirinn (vanalega enda konsert- ar á tónrænni flugeldasýningu) var hrífandi skáldlegur. Konsertinn var líka snyrtilega skrifaður fyrir einleikshljóðfærin, a.m.k. gat ég ekki betur heyrt en að möguleikar þeirra væru nýttir á markvissan hátt. Er þrír kannski happatala Þorkels? Þrátt fyrir að verkin sem hér hafa verið til umfjöllunar væru öll hin skemmtilegustu verður að segjast eins og er að hápunktur tónleikanna var Sinfónía eitt eftir Þorstein Hauksson, sem fyrr var nefndur. Hún var í þremur köflum og einkenndist af sjald- heyrðri dirfsku sem fór samt aldrei yfir strikið. Brjálæðislegur slagverksleikur í fyrsta þættinum var þrunginn ógn og síend- urtekin, einföld hending í næsta kafla var dáleiðandi, enda ísmeygileg undiraldan auð- fundin. Skrautlegur þriðji þátturinn, þar sem allskonar tónefni ægði saman en var þó raðað á snilldarlegan hátt, var jafnframt einstaklega seiðandi. Flutningurinn undir nákvæmri stjórn Gamba var líka glæsi- legur. Þessi fyrsta sinfónía Þorsteins lofar svo sannarlega góðu; óskandi er að þær verði miklu fleiri. Vonandi er einn ekki eina happatala Þorsteins! Eru einn, þrír og sjö happatölur? Jónas Sen TÓNLIST Háskólabíó Myrkir músíkdagar: Sinfóníutónleikar Tónverk eftir Harald Vigni Sveinbjörnsson, Eirík Árna Sigtryggsson, Þorkel Sigurbjörnsson og Þorstein Hauksson. Flytjandi var Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Rumon Gamba. Einleikarar: Auður Haf- steinsdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir og Örn Magn- ússon. Fimmtudagur 9. febrúar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.