Lesbók Morgunblaðsins - 08.04.2006, Síða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 8. apríl 2006
!
Um daginn sat ég málþing
uppi í Háskóla Íslands þar
sem umræðuefnið var menn-
ing heyrnarlausra. Slíkt mál-
þing hefur aldrei áður verið
haldið hér á landi og var því
um stórviðburð að ræða.
Enga fjölmiðla sá ég á svæð-
inu og finnst mér það til skammar
hversu lítinn áhuga fjölmiðlar (og aðr-
ir) sýna menningu heyrnarlausra og
heyrnarlausum almennt. Mér finnst
heyrandi fólk al-
mennt fávíst um
landa sína sem ekki
heyra. Margir telja
að enga menningu
sé að finna í samfélagi heyrnarlausra
og það hljóti bara að vera leiðinlegt að
heyra ekki. En raunin er önnur. Meðal
heyrnarlausra blómstrar menning líkt
og í öðrum samfélögum og flestir
heyrnarlausir sem ég þekki vilja ekki
fá heyrn, enda þekkja þeir mun betur
inná sitt eigið samfélag heldur en sam-
félag heyrandi.
Það hlýtur þó að vera erfitt að búa í
litlu samfélagi, eins og Íslandi, þar
sem tungumál manns er ekki við-
urkennt. Ef við viðurkennum ekki
tungumálið, getum við þá viðurkennt
einstaklinginn sem talar það tungu-
mál? Á meðan sænska þjóðin heldur
uppá 25 ára afmæli sænska táknmáls-
ins sem móðurmáls í Svíþjóð hefur ís-
lenska þjóðin ekki enn viðurkennt ís-
lenska táknmálið sem móðurmál
hérlendis. Heyrnarlausir einstaklingar
eru stoltir af uppruna sínum og móð-
urmáli, táknmálinu, líkt og við heyr-
andi og íslenskutalandi erum stolt af
okkar uppruna og íslenskunni okkar.
Þar sem aðeins lítill hluti Íslendinga
talar táknmál geta samskipti milli
þessara tveggja hópa oft verið erfið og
því kannski auðveldast að sleppa þeim
bara.
Heyrnarlausir hafa í aldanna rás bú-
ið við kúgun hins heyrandi heims og
tel ég lítið lát vera þar á. Vissulega
hefur eitthvað breyst til batnaðar en
alls ekki nóg. Í könnun sem unnin var
fyrir félagsmálaráðuneytið árið 2004
kom fram að heyrnarlausir búa enn í
dag við félagslega einangrun – líka
hérna á Íslandi. Samskipti heyrn-
arlausra við heyrandi eru skamm-
arlega lítil og hverju er um að kenna?
Eins og áður sagði eru fáir Íslendingar
sem tala táknmál og því lítið um sam-
skipti utan samfélags heyrnarlausra.
Ég tel að í öllum grunnskólum lands-
ins ætti að vera boðið uppá táknmál
sem valnámskeið, ef ekki bara skyldu-
námskeið. Með því gætu allir borgarar
þessa lands fengið grunn í íslensku
táknmáli og lært að tjá sig við landa
sína sem ekki tala íslensku. Táknmál
er kennt í örfáum framhaldsskólum og
er sú kennsla sem þar fer fram skref í
rétta átt. En betur má ef duga skal.
Frumvarp til laga um táknmálið sem
fyrsta mál heyrnarlausra, heyrn-
arskertra og daufblindra hefur enn
ekki fengið þá umræðu sem það á skil-
ið á Alþingi þrátt fyrir að hafa fyrst
verið lagt fram alþingisárið 2003–2004.
Lítið sem ekkert hefur komið útúr
þeim nefndum sem áttu að skoða mál-
efni heyrnarlausra. Heyrnarlausir fá
einungis átta mínútna fréttatíma dag
hvern. Hversu lengi á þetta að ganga
svona? Mér finnst mál til komið að við
tökum okkur saman í andlitinu og ger-
um eitthvað í málunum. Ég skora á
heyrandi Íslendinga að líta í eigin
barm og ímynda sér þann veruleika
sem blasti við ef tungumál ykkar væri
ekki viðurkennt af meirihluta þjóð-
arinnar. Viðurkennum alla Íslendinga!
Kúgun
hins
heyrandi
heims
Eftir Fanneyju Dóru
Sigurjónsdóttur
fds@hi.is
Höfundur stundar nám í félagsráðgjöf við
Háskóla Íslands.
Í
nýlegu verðlaunaverki sínu The
Economy of Prestige: Prizes, awards,
and the circulation of cultural value
fjallar James F. English um hlutverk
menningar- og vísindaverðlauna í
vestrænum nútímasamfélögum, en
fjöldi verðlauna- og viðurkenningarsjóða hefur
vaxið ótrúlega á undanförnum árum. Bók Eng-
lish hefur hlotið jákvæða dóma, t.d. í hinum
virtu tímaritum The New
Yorker og TLS, en bók-
menntafræðingurinn
Elaine Showalter segir í
umfjöllun um verkið í
TLS að á netsíðu „The International Congress
of Distinguished Awards“ sé að finna lista yfir
26 þúsund verðlaun á sviði lista og vísinda, en
þar af séu veittar 9.000 viðurkenningar innan
kvikmyndageirans eins.
Bók English er mótuð af kenningum franska
félagsfræðingsins Pierre Bourdieu og í henni
leitast hann við að útskýra hvernig viðurkenn-
ingarkúltúrinn hafi áhrif á menningarlegt og fé-
lagslegt auðmagn. Hvað kosta verðlauna-
samkeppnir og hverjir hljóta helst verðlaun?
Hvaða áhrif hafa deilur um verðlaunahafa á
vægi verðlauna og hvað ræður ferðinni hjá þeim
sem kosta verðlaunin og þeim dómnefndum
sem jafnan verja löngum tíma á litlu kaupi við
að úthluta þeim?
Miklum fagurkerum á sviði menningar og
lista þykir jafnan lítið til menningarverðlauna
koma en andúðin sem þessir einstaklingar sýna
verðlaunakerfinu er hluti af tíðarandanum og
styrkir kerfið í sessi. Gagnrýni er mikilvægur
liður í kynningarferlinu, ekki síst fyrir þá sök að
í henni birtist sú hugmynd að sönn list sé hafin
yfir pólitíska flokkadrætti, forpokaða fag-
urfræði, smekk, skoðanir þrýstihópa eða jafnvel
spillingu. Fagurkerarnir, sem telja sig hafa
sannleikann einan að leiðarljósi, hefja á loft þá
mikilvægu hugmynd að listin sé óháð mark-
aðnum, en sú trú er afskaplega mikilvæg eigi
listiðnaðurinn sem slíkur að viðhalda sérstakri
stöðu sinni og þá um leið viðurkenningarkerfið.
English leggur einmitt áherslu á að það sé ekki
síður mikilvægt að „rangir“ einstaklingar hljóti
mikilvæg verðlaun. Með því erum við minnt á
sérstöðu listarinnar sem er auðvitað aldrei
lengra frá hugmyndinni um samkeppni en þeg-
ar einhver kemur óverðskuldað fyrstur í mark.
English telur helst að almenn viðurkenning á
félagslegu mikilvægi verðlauna ógni verðlauna-
hefðinni því að slík hugsun dragi úr nauðsyn-
legri upphafningu fyrirkomulagsins og veiki því
það virðingarhagkerfi sem veitendur og þiggj-
endur sjá sér hag í að viðhalda.
Í ljósi þess að ég var í síðustu viku tilnefndur
til menningarverðlauna DV er það síst af öllu
vilji minn að grafa undan upphefðarkerfinu með
því að reyna að greina úr því vegtylluna. En þar
sem ég mun að öllum líkindum þurfa að bíða í
önnur fjörutíu ár eftir næstu tilnefningu get ég
ekki stillt mig um að velta fyrir mér vægi ís-
lenskra menningarverðlauna um leið og ég leit-
ast við að skýra þá skyndilegu gengishækkun
sem á mér hefur orðið við tíðindin.
Eftirfarandi þættir hafa áhrif á táknrænt
vægi íslenskra verðlaunaveitinga:
1) Menningarverðlaun DV eru innlend við-
urkenning. Í huga íslensks almennings er upp-
hefð innflutningsvara. Íslensku bókmennta-
verðlaunin vega til að mynda ekki eins þungt og
bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs ef Ís-
lendingur fær þau. Alþjóðlegur er lykilorð í
þessu samhengi.
2) Peningar. Hversu miklu er eytt í verð-
launapakkann – jafnt í kynningu sem verð-
launafé. Verðlaunafé tæplega 110 af 165 virt-
ustu verðlaunum í heimi er meira en 100
þúsund dalir (skv. „The International Congress
of Distinguished Awards“), en kostnaðurinn við
sjálfa verðlaunaveitinguna er alltaf miklu meiri.
Peningum fylgir einnig sýnileiki. Einfaldasta
leið til að gefa verðlaunum vægi er að ausa í þau
peningum.
3) Hverjir hafa hlotið verðlaunin? Vægi verð-
launa fer vitaskuld eftir því hverjir vinna þau og
svo auðvitað eftir því hvort þessir einstaklingar
sjái sér hag í því að taka við verðlaununum
(ekki er nóg að senda fulltrúa sinn).
4) Vægi verðlauna vex gjarnan með aldr-
inum. Rótgróin verðlaun eru venjulega betri en
þau sem eru ný af nálinni (ekki má heldur
gleyma því að til þess að verðlaun haldi velli um
áratuga skeið verða að fylgja þeim traustir
sjóðir). Háar fjárupphæðir geta þó stytt biðtím-
ann verulega. Abel-verðlaunin norsku og Dan
David verðlaunin frá Ísrael eru til að mynda að-
eins fjögurra ára gömul en þegar orðin mjög
eftirsóknarverð í vísindaheiminum vegna þess
að verðlaunaféð er um milljón dalir í báðum til-
vikum (þau síðarnefndu eru einnig menning-
arverðlaun). Nóbelsverðlaunin hefðu heldur
ekki náð yfirburðastöðu jafnt fljótt og raun bar
vitni ef verðlaunaféð væri ekki yfir 80 milljónir
króna.
5) Hver er opinber samfélagsstaða verð-
launaveitandans? Hér væri forvitnilegt að
greina DV-verðlaunin sérstaklega og spyrja um
ítök DV í íslensku menningarlífi. Það ætti að
styrkja stöðu verðlaunanna að þau hafa nú ver-
ið veitt í tæpa þrjá áratugi eða mun lengur en
önnur íslensk menningarverðlaun. Sú skoðun
margra í íslensku samfélagi að DV sé lágkúru-
legt götublað vegur þó án efa þyngra og dregur
úr táknlegu vægi verðlaunanna, ekki síður en
hamagangurinn í kringum fyrrverandi ritstjóra
DV og afsögn þeirra í janúar síðastliðnum. Í
stærra samfélagi væri hugsanlega hægt að
samræma menningarstefnu blaðsins ritstjórn-
arstefnunni, gera hana ögrandi og beitta, en ís-
lenskt menningarlíf er afskaplega einhæft og
býður upp á lítið svigrúm fyrir menning-
arstefnu af því tagi.
6) Hverjir láta sig menningarverðlaun blaðs-
ins varða? Það er til marks um stöðu DV-
verðlaunanna að þau vekja ekki sama umtal og
sömu bræði og t.a.m. tilnefningar í flokki Ís-
lensku bókmenntaverðlaunanna. Það má jafn-
vel halda því fram að gjá sé að finna milli blaðs-
ins og þeirra sem tilheyra mennta- og menn-
ingarelítunni en fulltrúar úr þessum hópum
fylla gjarnan dómnefndir og eru í hlutverki
álitsgjafa. Ef þessi hópur sýnir verðlaununum
áhugaleysi má annaðhvort vinna hann á sitt
band eða ögra honum opinskátt og reyna þann-
ig að draga úr táknrænum ítökum hans.
7) Það er ekki nóg að vera tilnefndur.
Hagfræði upphefðarinnar
Fjölmiðlar
Eftir Guðna Elísson
gudnieli@hi.is
’Í ljósi þess að ég var í síðustu viku tilnefndur til menn-ingarverðlauna DV er það síst af öllu vilji minn að
grafa undan upphefðarkerfinu með því að reyna að
greina úr því vegtylluna.‘
I Við gerð klámmyndar fer ein stelpnanna– ljóshærð með svart flauelsband um
hálsinn – í gegnum allar stellingarnar án
þess að bregða svip. Áhugaleysi hennar er
tælandi.
Í gleðskapnum miðjum hvíslar maður í
eyra hennar: „Hvað
ertu að fara að gera
eftir orgíuna?“
II Þessi texti er úr bókinni Cool MemoriesI (Svalar minningar) eftir Jean
Baudrillard. Hann vekur með einföldum
hætti athygli á því furðulega andrúmi sem
einkennir klámmyndir, það er eins og leik-
ararnir séu fjarverandi þótt þeir séu þarna
í öllu sínu veldi, þeir eru viðstaddir á und-
arlega ópersónulegan hátt og leikstíllinn
einkennist af fálæti. Hugsanlega er þetta
varnarháttur manneskju sem afhjúpar sig
algjörlega, setur sjálfa sig á svið með þeim
hætti að hún getur ekki verið nein önnur en
hún sjálf (og er því ekki leikari í eiginlegum
skilningi), grímulaus og án hlutverks í öll-
um skilningi þeirra orða, hreint viðfang
raunverulegra aðstæðna, sem er ekki hægt
að dylja sem neitt annað en það, og auðvit-
að myndavélarinnar og glápsins. Það er
ekki nema von að leikararnir reyni að hafa
hugann við það sem gerist eftir að orgíunni
er lokið, við möguleikana handan hins raun-
verulega svalls.
III Það er einhver skyldleiki með klám-myndum og raunveruleikaþáttum.
Klámmyndir eru raunveruleikaþættir vegna
þess að fólkið sem tekur þátt í þeim er ekki
leikarar. Og raunveruleikaþættir eru klám
vegna þess að þeir miðast að því að afhjúpa
fólk algjörlega, girða niður um það fyrir
allra augum, rjúfa varnir þess allt þar til að
fálætið eitt er eftir, helbert tómlætið, hel-
blár kuldinn sem streymir til okkar í gegn-
um skjáinn.
IV Við lifum á tímum menningar án ná-lægðar, raunveruleika án ímyndunar,
gjörða án afleiðinga, kerfis án greiningar.
Hvað ertu að fara að gera eftir orgíuna?
Neðanmáls
Að baki hverjum trefli er hnakki. Þetta tel ég fullljóst og margsannað.Hitt er svo annað að mér finnst Gillzenegger, guðblessihann, kominná síðasta söludag. Hann stamar of mikið. Treflar mega stama.
Hnakkar mega það ekki. Svo er þessi bók hans víst líka leiðinleg. Sem er
leiðinlegt, fyrir hann og alla aðra. Kannski er ég samt bara þreyttur. Ljót
ljóð. Ég hata enn þá fegurðina. Og er ósammála Sölva Birni um flest sem
kom fram í Lesbókargreininni. En það ætti svo sem ekki að koma neinum á
óvart. Ég hafði sjálfur gríðargaman af ömurlegu ljóðakeppninni, þó ég geti
reyndar líka lofað því að hún verður aldrei nokkurn tímann endurtekin. En
mér finnst líka ágætt hún fari fyrir brjóstið á fólki. Fólk er alltof vant að
virðingu sinni, og mætti alveg þola að leika sér aðeins meira. Ég veit reynd-
ar ekki til þess að til sé sú skilgreining á list að hún sé „ekki ömurleg“. Mér
finnst rosalega mikið af list stórkostlega ömurlegt. Og það á líka við um list
sem ég dáist að, hef gaman af. Ég myndi t.d. aldrei endast til að lesa Sol-
iloquy eftir Kenny Goldsmith frá byrjun til enda, en það breytir því ekki að
það er sjálfsagt magnaðasta ljóðverk sem ég hef heyrt af, mögulega að und-
anskilinni Eunoia Christians Bök (að ekki sé reyndar minnst á óskrifaða vír-
usabók hans, sem ég ætla reyndar ekki að segja neitt frá). Kenny Goldsmith
hefur sjálfur lýst því yfir að eitt af markmiðum hans sé að skrifa leiðinleg-
asta mögulega texta. Flarf-skáldin eru mjög svipuð því sem ömurlega ljóða-
samkeppnin skilaði af sér, nema bandarískari, og mér finnst þeir með því
meira spennandi sem er að gerast í ljóðheimum, af því sem ég þekki í öllu
falli. Og mér finnst þeir skemmtilegir í ömurð sinni, stórskemmtilegir. Sama
gildir um sigurljóðin þrjú, ég dáist að þessu rusli. Ursonata Kurt Schwitters
er ekki skemmtileg, hún er stórkostlega ömurleg, en mikið djöfull er hún
líka skemmtileg í flutningi Christians Bök.
Eiríkur Örn Norðdahl
Fjallabaksleiðin www.fjallabaksleidin.blogspot.com
Trefill, hnakkar og list
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Ísland 2020.
Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar
sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins