Lesbók Morgunblaðsins - 08.04.2006, Síða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 08.04.2006, Síða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 8. apríl 2006 | 3 Rétt í þessu var gerð leit í klefanum. Fangaverðirnir voru að leita að bruggi. Þeir vita vel að ég er ekki að brugga, en sögðu að þetta væri alltaf gert fyrir páska. ... En ástin mín … Það er nýr dagur! Nýtt ljós! Sólin fyllir klefann birtu og ást þín streymir til mín. Því brýt ég hlekki hugans og fleygi mér í faðm þinn, hoppa yfir hliðið, þýt um þröngan farveg, skarð á milli fjalla, hitti þig við læk einn eða litla kaffistofu. Þú brosir einsog engill. Ég greiði lokka þína. Við hlæjum uppi á heiði, en þá fer ský um himin og varpar skugga á veggi. Ég stend í klefa mínum og stari út í tómið, en ást mín streymir til þín sem lækur út í lífið. Himinninn svo glaður, falleg fjöll í fjarska. Guð þú varpar ljósi á veröld mína og von, heimur minn og hugur æðrulaus án ótta … Stjörnur hlæja á himni, horfin næturský. Góða nótt þú kemur í vökunni til mín. ... Mikið eirðarleysi … Ekkert um að vera. Enginn ágreiningur um það: Föstudagurinn langi er langur. Talar einhver um það? Nei, sumt þarf ekki að ræða. Fíladelfía færði okkur páskaegg númer fjögur, fallega gert af þeim. Ég borða mitt á morgun. Gott að þessi dagur er á enda. ... Miðvikudag fyrir páska hvarf rakhnífur rakarans. Hann kom hingað til að klippa okkur, raka af okkur peninga, einsog einn orðaði það. Nú er rakarinn sannfærður um að einhver okkar hafi stolið af sér rakhnífnum. Það er búið að leita hjá öllum, mörgum sinnum hjá sumum. Hér snýst allt um rakarann, einsog það hafi ekki verið frelsarinn sem reis upp á þriðja degi heldur rakarinn. Ég sagði varðstjóranum að þetta væri virkilega vanhugsað atriði. Ég held að hann hafi verið sammála. ... Ég set Palla Rós. á fóninn og talandi um rós þá er engin rós án þyrna. Góður málsháttur, finnst mér. Þegar við erum orðin þroskuð og klár í lífinu þurfum við ekki að stinga okkur meira. Nú fæ ég mér smók, slaka á og horfi á páskaliljuna sem jesúkonan með gítarinn færði mér í gær … Hún er falleg og minnir á þig. Sígarettan er búin. Ég hlusta á Palla, horfi á páskaliljuna og hugsa til þín. Takk fyrir daginn. Góða nótt páskaliljan mín. Ég brosi út að eyrum og blikka þig blítt. þú ert mér svo mikils virði. Við erum sammála um það. Ég og páskaliljan. Ástarstjarna yfir Litla-Hrauni Páskaljóð Eftir Einar Má Guðmundsson Höfundur er rithöfundur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.