Lesbók Morgunblaðsins - 08.04.2006, Síða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 8. apríl 2006 | 7
tals skynrænir eiginleikar heimilda, hvernig sumar heimildir
kalli fram hugræn áhrif við skynjun, en fræðin hafa hingað til
leitast við að vera hlutlaus. Ljósmyndin sem slík er hlutur en
innihald hennar er huglæg skynjun. Í þessu samhengi talar
Guðbrandur um kjarna myndarinnar en hismið þegar átt er við
hlutinn ljósmynd. Samkvæmt Sigurði er matið á innihaldi
myndarinnar byggt á persónulegri reynslu sem skipta megi í
tvennt, hughrif og reynslu. Sigurður vitnar í Roland Barthes
en Guðbrandur bendir á að innan sagnfræðinnar séu heim-
spekilegar vangaveltur á borð við skrif hans um ljósmyndir
teknar með fyrirvara um ‘aðferðafræðilega annmarka’.
Notkunin á ljósmyndum í Fiskisögunni skýrist nokkuð ef
ríkjandi hugmyndir innan sagnfræðinnar um þær eru hafðar í
huga. Sagnfræðingurinn, Arnþór Gunnarsson, vinnur texta
bókarinnar upp úr ýmsum heimildum og hans aðalheimild eru
greinaskrif Kristins ljósmyndara. Vitnað er beint í greinarnar
sjálfar á fjölmörgum stöðum, meðal annars beint í orð viðmæl-
enda Kristins. Athygli vekur að textinn vísar aldrei í mynd-
irnar sem slíkar, sagnfræðingurinn virðist horfa framhjá þeim.
Hann fjallar hvorki um þær né túlkar. Samt byggist verkið að
mestu á myndunum.
Munurinn á ljósmyndum og greinum Kristins gæti legið í
þeirri stöðu sem ljósmyndin hefur innan sagnfræðinnar. Al-
mennt er talið að hana þurfi ekki að túlka, hún segi sannleik-
ann. Greinarnar þurfi hins vegar að túlka. Þær séu komnar til
ára sinna, umgjörðina, t.d. tímabilið, vanti og því geti þær ekki
staðið sjálfstæðar. Eða kannski lýsir þetta upphöfnu viðhorfi til
orðsins frekar en myndarinnar, að ritaðar heimildir séu ‘alvöru’
heimildir og að of mikil túlkun ætti sér stað ef farið væri inn í
myndirnar og fjallað um þær. Sú staðreynd að Arnþór fjallar
ekkert um myndirnar sjálfar segir kannski meira en mörg orð
um stöðu ljósmyndarinnar innan fræðanna og víðar. Viðhorfið
til þeirra er óttablandið, þær eru notaðar til þess að sýna eitt-
hvað ákveðið en þeim er sjaldan leyft að tala sínu máli.
Inn í myndirnar
Fiskisagan flýgur notar tvær frásagnaraðferðir til þess að
koma sögu íslenskrar fiskvinnslu til skila. Frásagnir af ferðum
Kristins ljósmyndara, vítt og breitt um landið eru rammaðar
inn með almennri umfjöllun og sögulegum forsendum íslensks
sjávarútvegs. Sagt er frá einstökum sjóróðrum og heimsóknum
í fiskvinnslu en meginmál Fiskisögunnar er eini textinn sem
birtist í henni. Í inngangi kemur fram að ekki fylgi myndatext-
ar með myndunum en engin ástæða er gefin fyrir því (bls. 7–8).
Kristinn Benediktsson segir í grein sinni að þá vanti, sem
bendir til þess að þeir hafi átt að vera til staðar (Mbl. 29.9. ’05).
Hvort sem tímaleysi og sparnaður hafi átt þar sök eða sú stað-
reynd að Kristinn dró sig úr öllu samstarfi við útgáfuna nokkru
áður en bókin kom út er ekki víst. Burtséð frá ástæðunum sem
liggja að baki, þá er ljóst að allt annað andrúmsloft er yfir
myndunum en annars hefði verið.
W.J.T. Mitchell, prófessor við Chicagoháskóla, sem hefur
skrifað um samband ljósmynda og texta, hafnaði því að myndir
byggðust alltaf á tungumálinu. Í greininni „The Photographic
Essay“ segir hann að yfirleitt sé texta ætlað að stjórna mynd-
inni og oft á tíðum geri hann það, en Mitchell bætir við að sam-
bandið sé ekki á einn veg, að togstreita geti myndast milli
mynda og texta. Texti sem fylgir mynd getur neglt niður merk-
ingu hennar sem og opnað hana. Við þetta má bæta að myndir
geta hugsanlega þrengt merkingu texta eða aukið. Myndatext-
ar gegna mikilvægu hlutverki, áhrif þeirra geta orðið mikil en
fjarvera þeirra hefur einnig áhrif.
Samkvæmt Mitchell geta myndir af einstaklingum orðið
táknrænar fyrir hópa. Það gerist t.d. ef ekki eru birtar per-
sónulegar upplýsingar um einstaklingana á þeim. Það að allar
myndir Fiskisögunnar skuli vera nafnlausar eykur á tákngerv-
ingu fólksins, það verður ósjálfrátt dæmigert fyrir ákveðinn
hóp. Sérstaklega þar sem fjallað er almennt um sjávarútveg og
myndirnar því ekki í beinum tengslum við textann. Ein-
staklingarnir á þeim bera engin nöfn, hvergi er minnst á þá í
textanum, en þeir kalla á athygli lesandans, vinna í rauninni
gegn textanum sem veitir engar upplýsingar um fólkið, örlög
þess né karakter.
Í þeim köflum sem segja frá sjóróðrum og heimsóknum í
fiskvinnsluhús fjallar textinn hins vegar um myndefnið. Sagt er
frá einstaklingum, vitnað í þá og dregin upp mynd af augna-
blikum í lífi þeirra. Þótt ekki sé nákvæmlega hægt að segja
hver sé á myndunum vegna þess að myndatextar eru ekki til
staðar þá er hægt að giska. Bara það að áhöfnin skuli öll vera
nafngreind kallar fram allt aðra stemmningu. Við fáum t.a.m.
að vita að Einar Haraldsson, háseti á Ársæli Sigurðssyni GK
320 frá Grindavík, var að leysa Jóhann son sinn af eftir lítils
háttar slys í síðasta róðri (bls. 118). Þessar nákvæmu upplýs-
ingar eru í mótsögn við umfjöllunarefni kynningarkaflanna og
undirstrika einmanaleika og nafnleysi fólksins sem þar lendir.
Sjómaðurinn (bls. 21) er dæmi um nafnlausa mynd. Þetta er
portrettmynd af eldri manni í sjóstakk með sjóhatt, greinilega
um borð í skipi. Sjóhatturinn rammar inn andlit mannsins og í
baksýn glittir í sjó og netadræsu. Það mætti kannski skilgreina
myndina sem endurgerð á einni klisjukenndustu ímynd sem við
höfum um sjómenn, myndin gæti allt eins hangið uppi á vegg
heima hjá ömmu, útsaumuð í ramma, það vantar bara pípuna.
Ætlunin er þó ekki að gagnrýna ljósmyndarann fyrir að draga
upp klisjukennda mynd af sjómönnum í bókinni, klisjan byggist
alltaf að einhverju leyti á hugmyndum fólks um raunveruleik-
ann. Túlkun ljósmyndarans er heldur ekki einráð, sá sem situr
fyrir á sinn þátt í myndsköpuninni, setur sig á svið og breyttist
um leið úr persónu í ímynd. Það er einmitt það sem er svo
áhugavert við þessa mynd. Maðurinn hefur á einhvern hátt
engan persónuleika, hann er tákn fyrir hinn vinnandi sjómann.
Það að engar upplýsingar fylgi myndinni um manninn sjálfan
eykur á tákngervinguna, maðurinn verður dæmigerður fyrir
ákveðinn hóp, hann er ekki persóna heldur íkon.
Annað dæmi er portrettmynd af barnungri stúlku (bls. 169).
Svuntan hennar er merkt með nafninu Ingibjörg s. Ljós-
myndin stendur, eins og myndin af sjómanninum, utan við
texta bókarinnar. Þó að kaflinn heiti „Hörpudiskur“ og greini-
legt að stúlkan er stödd í skelvinnslu þá segir textinn okkur
ekkert um hana. Áhrifin láta ekki á sér standa, Ingibjörg s.
verður líkt og Sjómaðurinn að íkoni, tákn fyrir öll duglegu ís-
lensku börnin sem voru tekin úr skólanum til að bjarga verð-
mætunum, vinna aflann. Þessi mynd truflar textann, hún hróp-
ar á athygli frá honum, maður vill vita hvað barnið er að gera
þarna, og hvort það heiti Ingibjörg s. eða ekki, hvar hún sé í
dag og hvernig líf hennar hafi verið. Ímyndunaraflið fer á flug,
hún minnir á myndina af Ernest litla í bókinni Camera Lucida,
en um hana segir Barthes: „Það er mögulegt að Ernest litli sé á
lífi enn í dag: en hvar? hvernig? Hvílík skáldsaga!“ (Bls. 83.)
Sjómennskið
Auk þess að fást við samband mynda og texta og áhrif mynda-
texta á túlkun ljósmynda fjallar Mitchell um ljósmyndaesseyj-
una. Hann segir að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að
uppruni og inntak hennar hafi löngum tengst áróðri, oft á tíð-
um pólitískum. Fiskisöguna, sem við fyrstu sýn virðist vera
ljósmyndabók, mætti skilgreina sem ljósmyndaesseyju þar
sem hún byggist á ljósmyndum Kristins og í raun býr hún yfir
mörgum þeirra einkenna sem ljósmyndaesseyjan hefur að mati
Mitchells. Lesandinn fær á tilfinninguna að verið sé að sýna,
kynna, selja í einhverjum skilningi orðsins, ákveðna hugmynd
um sjávarútveg. Svona var sjávarútvegurinn, en ekki lengur, er
þema bókarinnar.
Í greininni „Retórik myndarinnar“ fjallar Roland Barthes
um menningarbundna merkingarauka sem búi í sumum mynd-
um. Í greiningu á auglýsingu frá Panzani-matarframleiðand-
anum greinir hann Ítalíu, eða ítalskið, sem táknmið hennar.
Auðvelt er að yfirfæra þessa hugsun á Fiskisöguna, en yfir
bókinni allri hvílir táknmiðið sjómennska eða það sem mætti
kalla fiskiríið eða sjómennskið. Slík táknmið byggjast að sjálf-
sögðu á menningunni, vitneskjunni sem einstaklingurinn býr
yfir. Líkt og Ítali myndi líklegast ekki skynja ítalskið við Panz-
ani-pasta er ekki víst að sjómaður skynji fiskiríið við Fiskisög-
una.
Eiríki Guðmundsyni rithöfundi tekst að fanga hugsunina um
sjómennskið í bókinni 39 þrep á leið til glötunar. Þar birtir
hann hugleiðingu um ljósmynd af Ólafi Ragnari Grímssyni for-
seta og Dorrit Moussaieff að heilsa upp á „vestfirskan sjómann
úr fortíðinni“. Myndin var tekin á sýningunni Perlan Vestfirðir
sem sett var upp í Perlunni árið 2002. Sjómaðurinn á myndinni
er í regnstakk með belgvettlinga og í myndatexta sem fylgdi
myndinni er hann ekki nafngreindur. Því finnst Eiríki að „hann
hefði alveg eins getað verið eskimói eða selur, tákn um eitthvað
sem er í órafjarlægð“ (bls. 16). Þarna er tákngervingin enn á
ferð, með því að vísa einungis í gervi mannsins verður hann að
tákni líkt og Ingibjörg s. og Sjómaðurinn. Eiríkur fjallar um
það hvernig við viljum halda í ákveðna sýn á fortíðina og fyr-
irbæri sem tengjast menningararfleifð þjóðarinnar, þar með
talið sjávarútveginn. Fiskisagan og sýningin í Perlunni búa til
nokkurs konar þjóðminjasafnsútgáfu af íslenskri arfleifð, sjó-
mennskunni. Lykillinn að fortíðinni er í tilviki Fiskisögunnar
ljósmyndir, brot af veruleika tímans sem um ræðir. Ljósmynd-
unum er ætlað að sýna sjávarútveginn eins og hann var, eða
eins og við viljum halda að hann hafi verið.
Heimildir
Arnþór Gunnarsson, Kristinn Benediktsson, Fiskisagan flýgur, Skrudda, Reykjavík
2005.
Barthes, Roland, Camera Lucida, Reflections on Photography, Þýð. Richard How-
ard Vintage, London 2000.
Barthes, Roland, „Retórik myndarinnar“, Þýð. Ragnheiður Ármannsdóttir, Ritið:
1/2005, bls. 147–164.
Eiríkur Guðmundsson, 39 þrep á leið til glötunar, Bjartur, Reykjavík 2004.
Guðbrandur Benediktsson, Vitnað til fortíðar: ljósmyndir í sagnfræði sem heim-
ildir til rannsókna og tæki til miðlunar, óprentuð MA-ritgerð, Háskóli Íslands,
Reykjavík 2003.
Sigurður Gylfi Magnússon, Fortíðardraumar: Sjálfsbókmenntir á Íslandi. Há-
skólaútgáfan, Reykjavík 2004.
W.J.T. Mitchell, „The Photographic Essay: Four Case Studies“, Picture Theory, The
university of Chicago press, Chicago, London 1994, bls. 281–322.
W.J.T. Mitchell, „Myndir og mál, Nelson Goodman og málfræði mismunarins“,
Þýð. Steinunn Haraldsdóttir,
Ritið: 1/2005, bls. 165–192.
Ingibjörg S. Verður tákn fyrir öll duglegu íslensku börnin sem voru tekin úr skólanum til að bjarga verðmætunum.
Höfundur stundar nám í bókmenntafræði við HÍ.
Ljósmynd/Kristinn Benediktsson