Lesbók Morgunblaðsins - 29.04.2006, Qupperneq 3
Á
páskunum sýndi Ríkissjón-
varpið bandarísku kvikmynd-
ina Finding Forrester (2000).
Hún fjallar um vináttu ungs
skólapilts við rithöfund sem
hefur hætt að birta verk sín
og hírist einn í íbúð sinni í New York, í hálf-
gerðum felum og greinilega með snert af
víðáttufælni, eins og sést þegar hann reynir
að fara á völlinn og fær kvíðakast. Það sem
er áhugaverðast við myndina er hvernig hún
gerir út á „einfarann“, magnaða goðsögn í
nútímaheiminum. Enda hafa flestallir sem
skrifað hafa um myndina verið á einu máli
um að Forrester skír-
skoti til eins slíks
„einfara“, rithöfund-
arins J.D. Salinger.
Í kvikmyndinni er Forrester mikilhæfur
maður sem á bágt. Sérviska hans stafar af
áföllum sem hann hefur orðið fyrir í lífinu
og hegðun hans er greinilega sett fram sem
óeðlileg og næstum sjúkleg, enda er lausn
myndarinnar sú að Forrester drífur sig út
og tekur þátt í lífinu, þó að um leið sé
greinilegt að hann ætlar ekki að kúvenda
fullkomlega. En að hvaða leyti á þessi lýsing
við Salinger og aðra frægara einfara í nú-
tíma menningarlífi?
J.D. Salinger er sjálfsagt þekktasti „ein-
fari“ nútímans. Hann er vitaskuld þekkt-
astur fyrir skáldsöguna Bjargvættinn í gras-
inu (1951), eina víðlesnustu bók 20. aldar, en
hefur einnig gefið út smásögur og eina
skáldsögu um Glass-fjölskylduna. Árið 1965
birtist seinasta útgefna verk hans í blaðinu
The New Yorker og síðan hefur ekkert
komið á prent eftir Salinger. Hann flutti
líka frá New York til New Hampshire og á
seinni árum hefur hann forðast fjölmiðla og
opinberar uppákomur. Samt hefur frést að
hann hafi haldið áfram að skrifa en vilji ekki
gefa út þau verk. Að sögn á hann heilan
peningaskáp með óbirtum verkum. Hann
reyndi að stöðva ævisögu um sig sem kom
út árið 1988.
Þetta er grunnurinn að goðsögninni um
„einfarann“ Salinger: 1) Engin ný skrif hafa
birst á prenti, 2) Hann gefur næstum aldrei
kost á viðtölum við fjölmiðla, 3) Hann er lít-
ið fyrir að sjást þar sem ljósmyndarar eru.
Árið 2000 kom út ævisaga dóttur Salingers,
Margaret. Þar kemur fram að Salinger sé
alls enginn einfari í hefðbundnum skilningi
heldur sé líf hans nokkurn veginn eðlilegt,
ef hann væri einhver annar en hann er.
Hann ferðist mikið, eigi vini um heim allan
og sé manna kátastur innan um annað fólk.
Þetta vekur auðvitað upp spurninguna um
hvort verði að teljast sjúklegt og óeðlilegt,
maður sem hefur hlotið frægð og kýs að lifa
nokkurn veginn venjulegu lífi eða fjölmiðla-
heimur okkar tíma sem þolir illa tilhugs-
unina um að hafa takmarkaðan aðgang að
frægum manneskjum.
Blaðamaður einn skrifaði grein og gagn-
rýndi Salinger harðlega fyrir að vera enginn
raunverulegur einfari heldur væri enginn
vandi að finna heimili hans, hann kæmi iðu-
lega sjálfur til dyra og spjallaði við fólk,
aðra en blaðamenn. Hann hefði líka tjáð sig
við fjölmiðla um málaferli þegar honum hef-
ur hentað. Gagnrýnin er öfugsnúin í ljósi
þess að J.D. Salinger hefur aldrei útnefnt
sjálfan sig einfara eða farið fram á neitt
annað en að lifa eðlilegu lífi, utan kastljóss
fjölmiðlanna. Klisjur nútímans eru orðnar
kröfuharðar þegar fólk er gagnrýnt fyrir að
passa ekki nógu vel við staðalmyndina sem
aðrir hafa búið til um það.
Hvað er að vera einfari?
Bandaríska skáldkonan Harper Lee er ann-
að dæmi um frægan „einfara“ í bandarísku
bókmenntalífi. Hún er fræg fyrir skáldsög-
una To Kill a Mockingbird (1960). Sú er
næstum jafn mikið lesin um heim allan og
Bjargvætturinn í grasinu. Fleiri sögur hefur
hún ekki birt, hefur ekki gefið kost á við-
tölum og kemur sjaldan fram opinberlega.
En fyrir utan þessa hlédrægni lifir Lee
ósköp venjulegu lífi og mætir t.d. hvert ár
til Alabama-háskóla að hitta stúdenta sem
hafa skrifað um bókina. Fátt bendir til ann-
ars en að þetta sé ósköp venjuleg kona sem
þrátt fyrir að hafa skrifað bók er lítið gefin
fyrir ræðuhöld og athygli. Ástæða þess að
hún skrifaði ekki fleiri bækur er að hún
virðist aldrei hafa haft áhuga á að vera rit-
höfundur heldur vildi hún aðeins koma þess-
ari einu sögu á framfæri.
Vandamálið við fólk eins og J.D. Salinger
og Harper Lee er ekki að þau hafi dregið
sig til baka frá heiminum heldur að eft-
irspurnin er meiri en framboðið, sem er
þvert á hið „venjulega“ í fjölmiðlaheimi nú-
tímans þar sem lesendur fá oft að vita miklu
meira um fólk en þeir kæra sig um. Báðir
þessir höfundar eru mikið lesnir, um þá
skrifaðar tugþúsundir skólaritgerða um all-
an heim hvert einasta ár og þar af leiðandi
áhugi á þeim. Og þar sem þau gefa ekki
kost á viðtölum hefur eftirspurnin haldið
áfram að vaxa og ljóst að viðtal við annað
hvort þeirra vekur heimsathygli.
Það er ætlast til þess að fólk taki þátt í
heimi nútímafjölmiðla og krafan um þátt-
töku verður stundum miskunnarlaus. Stund-
um minnir áhuginn á „einförunum“ á valda-
baráttu. Með því að draga sig í hlé hafa
einfararnir náð völdunum frá fjölmiðlunum
og skemmtanaiðnaðinum og fyrir þessa aðila
virðist tilhugsunin um frægt fólk sem vill
ekki vera „celebrity“ greinilega nánast óþol-
andi. Frá því sjónarhorni er eðlilegt að búa
til orðið „einfari“ yfir venjulegt fólk sem vill
fá að vera venjulegt fólk áfram.
Sænsku stórstjörnurnar Greta Garbo og
Agnetha Fältskog (úr ABBA) eru dæmi um
hlédrægar stjörnur. Hvorug þeirra ólst upp
við mikla fjölmiðlaathygli og Garbo gafst
mjög snemma upp á henni, mörgum árum
áður en hún dró sig í hlé frá kvikmynd-
unum. Ástæður þess að hún hætti virðast í
fljótu bragði skynsamlegar, sjálf gaf hún
það út að kvikmyndirnar væru að breytast
og ekki í þá átt sem hentaði henni. Samt
íhugaði Garbo nokkrum sinnum að byrja
aftur að leika og hún fór út meðal manna
alla tíð. Það sem var óeðlilegt við hana var
1) að hún neitaði að ræða við fjölmiðla, 2)
hún sást utandyra í fötum sem voru ósköp
venjuleg fyrir konur á hennar aldri en eru
ekki í sama stíl og aldraðar Hollywoodleik-
konur af hennar kynslóð kusu að klæðast,
og 3) öfugt við allar hinar stjörnurnar stóð
Garbo við það sem hún hafði sagt og var
hætt þegar hún sagði það. Slík prinsippfesta
verkar hrokafull á marga. Hvernig getur
manneskja leyft sér að ákveða sjálf hvort
hún kemur fram eða ekki? Eða verið svo
hrokafull að standa við eigin orð og þykjast
þar með betri en aðrir? Þess vegna spretta
auðvitað margir upp og finna aðrar orsakir.
Að leita uppi skuggahliðar einfaranna er góð
aukabúgrein í skemmtanaiðnaðinum.
Agnetha úr ABBA er ekki meiri einfari en
svo að hún hefur haldið áfram að vinna og
veitir öðru hvoru viðtöl. Eina ástæðan fyrir
að hún telst til „einfara“ er að hún hefur
neitað að halda lífi í ABBA. Í nútímanum
eru Rolling Stones viðmiðið, vinsælar hljóm-
sveitir eiga helst að lifa í hálfa öld en ekki
nokkur ár. Þess vegna þykir mjög undarlegt
að ABBA sé alveg hætt og muni aldrei
koma saman aftur. Það er eins og fólki finn-
ist eðlilegra að frysta nútíðina að eilífu en
að leyfa ævintýrunum að ljúka.
Einfarar og markaðslögmálin
Það sem kannski þykir skrýtnast við
ákvörðun Agnethu um að ABBA tilheyri for-
tíðinni er að hún gengur þvert á lögmál
markaðarins. Augljóslega mætti ennþá
græða mikið á ABBA og þó að Agnetha sé
vellauðug þykir það sýna mikla öfughneigð
að snúa baki við enn meiri gróðamögu-
leikum. Hvernig getur manneskja verið heil-
brigð sem ekki vill halda lífinu í áttunda
áratugnum svo lengi sem upp úr því er fjár-
muni að hafa?
„Einfarar“ nútímans eru einmitt gjarnan
fólk sem hefur að einhverju leyti snúið baki
við markaðsmöguleikum og gróðavon. Einn
af þekktustu bandarísku einförum samtím-
ans er Bill Watterson, teiknari myndasög-
unnar um Kalla og Kobba (Calvin & Hobb-
es). Hann teiknaði þá félaga í tíu ár en
hætti í árslok 1995. Sú staðreynd að hann
hætti og hefur ekki selt þá félaga í alls kon-
ar varning eða leyft kvikmyndaútgáfu Kalla
og Kobba nægir til að hann teljist „einfari“,
ásamt því að hann kærir sig ekki um aðdá-
endabréf. Hins vegar skrifar hann greinar
og sést jafn oft utandyra og hver annar í
litla bænum þar sem hann býr.
Þessi mismunur á framboðinu og eftir-
spurninni þykir greinilega öfugsnúinn í
heimi þar sem markaðslögmálin ríkja ein.
Hvernig er hægt að hætta með það sem er
vinsælt? En það er einmitt það sem „einfar-
arnir“ hafa gert og það er varla hægt að
segja það sé neitt dularfullt við J.D. Sal-
inger, Harper Lee eða Bill Watterson annað
en það að þau neita fjölmiðlum um viðtöl og
jafnvel þó að umtalsverðir fjármunir séu í
boði.
Til að vera „einfari“ er nóg að snúa baki
við gróða, mæta sjaldan í viðtöl og kæra sig
ekki um að lesa upp úr bókum sínum. Þann-
ig einfari er Salinger og þess vegna er hann
stundum talinn upp ásamt fólki sem átti
raunverulega við geðræn vandamál að
stríða, eins og auðjöfrinum Howard Hughes.
Hvort snýr öfugt?
Til eru líka „einfarar“ sem hefur tekist að
sveipa líf sitt nokkurri dulúð og ekki aðeins
með því að sýna dularfullt áhugaleysi á að
tala við blaðamenn. Þar á meðal eru Thomas
Pynchon rithöfundur og kvikmyndagerð-
armaðurinn Terence Malick sem eiga það
sameiginlegt að fáar ljósmyndir eru til af
þeim og auk heldur hefur reynst erfitt að
grafa upp staðreyndir um ævi þeirra. En
fæst bendir til þess að þeir séu einfarar að
öðru leyti en því að forðast fjölmiðla og öf-
ugt við aðra einfara hafa þeir forðast fjöl-
miðla strax frá upphafi. Malick er þó fyrst
og fremst óvenjulegur að því leyti að á ferli
hans hafa verið löng hlé og vegna þess að
hann tekur engan þátt í að kynna myndir
sínar og fæst ekki til að veita viðtöl.
Pynchon er líklega ein mesta ráðgátan af
„einförunum“. Lengi vel var svo lítið um
hann vitað og ekki bætir úr skák að bækur
hans eru ekki beinlínis einfaldar í lestri.
Lengi vel var svo orðrómur á kreiki að
Pynchon væri ekki til í alvörunni og annar
höfundur fælist á bak við nafnið. Ein kenn-
ingin var sú að J.D. Salinger og Pynchon
væru sami maður. En nú hefur Pynchon bú-
ið í New York í mörg ár. Þar á hann konu
og son á táningsaldri og lifir nokkuð hvers-
dagslegu lífi. Bækur hans eru ekki margar
en hafa komið út með reglulegu millibili og
hann hefur skrifað í blöð þegar honum hefur
þótt mikið liggja við, m.a. til stuðnings
Salman Rushdie á sínum tíma. Hann hefur
meira að segja talað fyrir sjálfan sig í The
Simpsons. Kvikmyndatökuliði tókst að
mynda Pynchon í Manhattan gegn vilja
hans. Þegar hann reyndi að mótmæla því
var hann spurður um sérvisku sína og þá
sagði hann: Einfari er tilbúið hugtak um
fólk sem vill ekki tala við blaðamenn.
Fátt bendir til þess að Thomas Pynchon
eigi við nein vandamál að stríða heldur sé
það aðeins vilji hans að verk hans tali fyrir
hann. Í fjölmiðlaheimi nútímans hefur hann
þurft að ganga ansi langt til að standa fast
við þetta prinsipp, m.a. þurft að halda heim-
ilisfangi sínu leyndu. Kannski þykir honum
dulúðin ekki leiðinleg og það má kallast öf-
ugsnúið í nútímanum þegar allir eru á út-
opnu.
En hin raunverulega spurning er auðvitað
hvort þessir „einfarar“ séu ekki fullkomlega
heilbrigðir en fjölmiðlaheimur nútímans hins
vegar galinn og ekki síst sú krafa hans að
allir sem öðlast hafa frægð fyrir vinnu sína
séu stöðugt í kastljósinu. Kannski eru ekki
til neinir „einfarar“, heldur aðeins goðsögn
um þá, búin til af fjölmiðlaheimi sem neitar
að trúa því að heilbrigt fólk vilji ekkert með
hann hafa.
Goðsögnin um einfarann
Hvernig skal frægt fólk hegða sér? Það eru
skýrar reglur til um það. Ein er sú að það á
að sækjast eftir athygli og því ber að gjalda
fjölmiðlunum það sem þeirra er. Frægðin á
að kosta og fátt ber vott um meiri ósvífni en
ef manneskja sem verður fræg vill halda
áfram að vera venjuleg. Brot gegn þessu boð-
orði hefur leitt til þess að til er orðin mann-
gerð sem nýtur mikillar athygli fyrir að vilja
enga athygli: Einfarinn.
Höfundur er bókmenntafræðingur.
Eftir Ármann Jakobsson
armannja@hotmail.com
Hlédrægir öfuguggar
í síbyljunni
Einfarar J.D. Salinger, Greta Garbo, Thomas Pynchon og Agneta Fältskog.
’Þetta vekur auðvitaðupp spurninguna um
hvort verði að teljast
sjúklegt og óeðlilegt,
maður sem hefur hlotið
frægð og kýs að lifa
nokkurn veginn venju-
legu lífi eða fjölmiðla-
heimur okkar tíma sem
þolir illa tilhugsunina
um að hafa takmark-
aðan aðgang að frægum
manneskjum.‘
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. apríl 2006 | 3