Lesbók Morgunblaðsins - 29.04.2006, Síða 5
venjulegt fólk skildi ekki þessa svokölluðu nú-
tímatónlist hans. Atli spurði hann þá hvort
hann hefði einhvern tíma komið á tónleika
með músíkinni hans en það hafði Gísli Mar-
teinn ekki gert.
Segja má að þarna sé í hnotskurn ástæðan
fyrir því af hverju klassíkin komist ekki ná-
lægt poppinu í vinsældum. Klassík, ekki síst
nútímaklassík – ef ég má nota það orð – þarf
athygli. Klassíkin er eins og skáldsaga; maður
verður að nenna að einbeita sér að henni, ekki
afgreiða hana fyrirfram sem óskiljanlega. Í
skáldsögunni á sér stað framvinda, söguþráð-
ur þar sem allt mögulegt kemur fyrir. Sama á
við um klassíkina.
Upptökuiðnaðurinn hefur hinsvegar gert að
verkum að músíkin þarf ekki þessa einbeit-
ingu lengur. Við slökkvum á sinfóníu eftir
Beethoven þegar við drepum á bílnum. Ekki
er lengur nauðsynlegt að kaupa nótnabækur
eða fara á tónleika til að njóta tónlistar. Ipod-
væðingin og síbyljan í útvarpinu hefur valdið
því að við lifum í einskonar tónlistarlegum
móðurkviði. Tónlist er orðin hluti af hversdeg-
inum og þarfnast ekki lengur sérstakrar at-
hygli eða aðstæðna eins og að fara á tónleika.
Klassísk síbylja
Fyrir nokkrum árum var hér rekin klassísk
útvarpstöð þar sem músíkin var meðhöndluð
eins og hver önnur síbylja. Aðallega stutt
verk, þægileg áheyrnar, voru spiluð og ekkert
samhengi var á milli þeirra. Og þegar klassík
er leikin í hótellobbíum og lyftum er lögð
áhersla á það allra vinsælasta sem gerir engar
kröfur til hlustandans. Píanóleikarinn frægi,
Liberace, var á svipuðum nótum og fræg er
útgáfa hans á fyrsta píanókonsert Tchaikovsk-
ys. Konsertinn tekur um 40 mínútur í flutn-
ingi, en Liberace stytti hann niður í fimm mín-
útur, „með því að sleppa þessu leiðinlega“.
Svona umbúðir klassískrar tónlistar hafa í
för með sér að fólk gerir ósjálfrátt kröfur um
að hún sé eins og poppið. Hún á að skapa
stemningu fyrir vinnuna eða félagslífið, til að
slaka á heima, til að taka til, o.s.frv. Að það sé
eitthvað annað og meira undir yfirborði sætra
laglína og notalegra hljóma, er sumu fólki
beinlínis framandi.
Klámfenginn Bach
Af þessum ástæðum er klassíkin í rauninni
það sama og popp í hugum margra. Og þar
sem poppmyndböndin snúast að mestu um
bert hold og dillandi rassa, er stutt í klámvæð-
ingu klassískrar tónlistar.
Það hefur þegar gerst. Nefna mætti um-
deilda uppfærslu á óperunni Brottnámið úr
kvennabúrinu eftir Mozart fyrir nokkrum ár-
um þar sem súludansarar komu mjög við sögu.
Sellóleikarinn heimsfrægi, Janos Starker,
hneykslaðist á þessu nýlega í tímaritinu The
Strad, en tilefni greinar hans var þó ekki óper-
an eftir Mozart, heldur að fiðluleikarinn Lara
St. John birtist nakin framan á kápu geisla-
disks með tónlist eftir sjálfan fimmta guð-
spjallamanninn, Bach. Starker segir að honum
þyki það miður þegar hið sjónræna er farið að
draga athyglina frá því sem skiptir höfuðmáli,
músíkinni sjálfri; að yfirborðið sé orðið að að-
alatriðinu.En miðað við þá áherslu á hið sjón-
ræna sem einkennir menningu okkar, kemur
þetta samt ekki á óvart.
Græna herbergið
Talandi um hið sjónræna þá er kvikmynda-
tónlist oft eina klassíkin sem fólk þekkir. En
kvikmyndatónlist samanstendur gjarnan bara
af klisjum úr klassískri tónlist. Þannig tónlist
er aðeins yfirborðið eitt, sjaldnast nokkuð
annað. Af þessum ástæðum getur heilt tón-
verk án myndefnis virkað óskiljanlegt þeim
sem ekki þekkja klassíkina af einhverju ráði.
Jafnvel eins og ljóð á framandi tungu.
Klassísk tónlist er einmitt sérstakt tungu-
mál. Og þar sem ekki er sjálfgefið að fólk skilji
það tek ég ofan fyrir Jónasi Ingimundarsyni
píanóleikara, er reyndi að veita almenningi
innsýn í það með þáttaröðinni Græna herberg-
inu. Ég tek líka ofan fyrir Árna Heimi Ingólfs-
syni tónlistarfræðingi, en texti hans í tónleika-
skrám Sinfóníuhljómsveitar Íslands er
yfirleitt til fyrirmyndar. Þeir sem lítið þekkja
klassíska tónlist en fara engu að síður á Sin-
fóníutónleika, þurfa slíkar útskýringar.
Uppgjöf fyrir poppinu?
Ég nefndi í upphafi nýjar íslenskar tónsmíðar
sem ég hef fjallað um undanfarið. Fábrotið
tónmálið gerir að verkum að maður spyr sig
hvort sum tónskáld hafi, a.m.k. tímabundið,
gefist upp fyrir þeirri poppsíbylju sem nú
gegnsýrir umhverfi okkar. Það var ekkert í
þessari nýju tónlist sem maður hafði ekki
heyrt áður. Hún var svo laus við alla fram-
vindu að það var eins og að hlusta á kvik-
myndatónlist sem þó vantaði aðalatriðið, kvik-
myndina. Eitt verkið líktist helst tónlist úr
fimmtíu ára gömlum Hollywoodmyndum, líkt
og módernisminn hefði aldrei átt sér stað í
tónlistarsögunni. Að semja þannig tónlist er
að neita að viðurkenna að við lifum núna á 21.
öldinni.
Höfnun á sögunni
Hér mótmælir kannski einhver og heldur því
fram að tónsmíðaaðferðin skipti engu máli, að-
alatriðið sé hvað tónskáldið hafi að segja. En
það er ekki rétt; í tónlist skiptir höfuðmáli
hvernig hlutirnir eru sagðir. Ný tónlist bygg-
ist oftar en ekki á ómstríðum hljómum. Hún
einkennist jafnvel af merkingarleysi. Er það
ekki einmitt endurspeglun firringar og ring-
ulreiðar nútímans?
Að hafna módernismanum er að hafna sög-
unni. Það er eins og að vilja bara hverfa aftur
til fortíðarinnar, klæðast í hundrað ára gömul
föt. Sá sem semur tónlist í stíl gömlu meist-
aranna er að flýja veruleikann. Slík tónlist er
yfirborðið eitt, klám, ekki ást.
Tímalaus tónlist
En nú spyr hugsanlega einhver: Ef ekki á að
hafna módernismanum, afhverju þá að hlusta
á gamla músík? Kemur hún okkur eitthvað
við?
Svar mitt er já, hún gerir það. Gömul klass-
ík virkar kannski úrelt við fyrstu sýn, en leitin
að sjálfskilningi, hvað felst í mannlegri tilveru
og hvernig hægt er að umbreyta henni í eitt-
hvað meira, skiptir okkur ekkert síður máli
núna. Svo ég leyfi mér að nota klisju þá er tón-
list gömlu meistaranna tímalaus.
Og fæðing tónlistar þeirra var ekki alltaf
sjálfsögð. Hún þurfti að berjast fyrir til-
verurétti sínum, vegna þess að oftar en ekki
var hún á móti ríkjandi gildum. Hún byggðist
á spennu á milli þess sem þótti við hæfi og
þess sem þótti ekki. Hún var brautryðjenda-
tónlist sem ekki hafði heyrst áður. Tónlist
Beethovens var af sumum talin óskiljanleg.
En eins og áður sagði þá skipti tískan hann
engu máli.
Að semja músík á gömlu tónmáli er ekki það
sama. Spennan á milli hins forna og nýja er
ekki fyrir hendi. Það er hægt að læra klisj-
urnar, en þær hafa ekki sama gildið í því um-
hverfi sem við lifum núna.
Nei, aðalatriðið er hvernig hlutirnir eru
sagðir. Pastoralsinfónía Beethovens, svo dæmi
sé tekið, segir frá ákveðinni náttúruupplifun,
og frá manninum sem verður fyrir henni.
Debussy skrifaði líka músík sem var innblásin
af náttúrunni. En hann sagði frá reynslu sinni
á annan hátt. Dulúð einkennir tónlist hans
sem er allt öðruvísi en í músík Beethovens.
Beethoven notaði annað tónmál og upplifun
áheyrandans verður ólík fyrir vikið.
Felur í sér frelsun
Að mínu mati tekur raunveruleg tónlist, eins
og ég skilgreini hana, glundroða nútíma-
tilvistar í formi ómstríðra hljóma og óreglu-
legrar hrynjandi og umbreytir honum. Hún
felur í sér frelsun. Tónlist sem hafnar þessum
glundroða og hefur það eitt að markmiði að
skapa notalega stemningu er fölsk, flótti frá
veruleikanum, klámfengin yfirborðsmennska.
Þrátt fyrir að byggjast á gömlum merg, þá
hefur klassísk tónlist því gríðarlega þýðingu
fyrir líf nútímamannsins. Hin útópíska hugsun
sem einkennir hana kemur okkur öllum við.
Verksmiðjupoppið er hinsvegar aðalsmerki
okkar tíma, vegna hinnar tæknilegu umgjörð-
ar sem það er klætt í. Þrátt fyrir það grund-
vallast megnið af því á klisjum og endurtekn-
ingum. Og ef eitthvað er frumstætt og því
gamaldags, þá er það einmitt heilalausar end-
urtekningar, sem breitt er yfir með klámi.
Stærsta írónían er samt sú að hinni svoköll-
uðu nútímatónlist, sem þróaðist beint úr klass-
íkinni, er hafnað af þorra almennings sem
óskiljanlegri, einmitt vegna þess að hún bygg-
ist á eðlilegri þróun á eldra tónmáli.
Nú hafði ég ekki hugsað mér að gera lítið úr
tónskáldunum okkar af yngri kynslóðinni.
Margt eftir þau er sérlega fallegt og vel
heppnað; það sem ég gagnrýni er fyrst og
fremst yfirborðsmennskan í sumum nýjum
verkum. Ég vona bara að ungu tónskáldin
okkar gefist ekki upp fyrir kláminu og því sem
það stendur fyrir.
Þessi grein er aðallega byggð á bókinni Who Needs Class-
ical Music? eftir Julian Johnson, auk upplifunar minnar á
nokkrum tónleikum sem ég hef farið á undanfarið. Greinin
eftir Janos Starker heitir No Sex Please – We are Classical.
tónlistar
Höfundur er tónlistargagnrýnandi á Morgunblaðinu.
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. apríl 2006 | 5
Stundum vek ég hana
um niðdimma nóttu þegar stjörnurnar
hafa verið máðar út og tunglið sést varla
og leiði niður stíginn fram á bryggju.
Við syndum út að flekanum
og finnum hann við snertingu,
fimmtíu eða sextíu sundtök frá landi.
Álút sitjum við
og hlustum. Hreyfingin í vatninu
allt um kring, bindur okkur saman
í tvöfaldan hnút barns og föður.
Eyrun nema sérhvert hljóð
nærri leðurblökum sem blindar sjá,
en myrkur nærir þeirra mikla hungur.
Nágrannarnir sjá hana gjarnan í skóginum.
Á hnjánum strýkur hún mosa
þar sem hann vex í skugganum. Hún undrast
tungur fuglanna, litaða blómhlíf
hornviðarins, rákina er markar
kantinn á steini sem hefur verið velt.
Í morgun þegar hún vaknaði sá hún fyrsta leiftur
magnolíutrjánna. Hún geymir blómknappana
þegar þeir falla, purpuralit blöð
sem skreppa saman og upplitast á grasflötinni.
Við ætluðum alltaf að segja henni frá regnboganum,
hvernig hann verður til og hvernig hann leysist upp í skugga,
hvernig við yrðum hjá henni engu að síður.
Við ætluðum að segja henni það áður
en þeir komu um kvöldmatarleytið
og girtu af allt sýnilegt.
Hún spyr hvort við sjáum þá
góma stjörnurnar, eldhúslampann
andlit okkar, og við segjum
já.
Handa barni
sem er að
missa sjónina
Dan Masterson er fæddur 1934. Hann er höfundur ljóðabókanna On Earth As It
Is (1978), Those Who Trespass (1985), World without End (1991) og
safnritsins All Things, Seen and Unseen (1997). Ljóð Mastersons hafa birst
í mörgum af virtustu bókmenntatímaritum Bandaríkjanna og jafn ólík skáld
og Anne Sexton, James Wright og James Dickey hafa lofað ljóðlist hans.
Ljóðið „Handa barni sem er að missa sjónina“ er að finna í fyrstu bók
Mastersons.
Guðni Elísson þýddi.
Eftir Dan Masterson