Lesbók Morgunblaðsins - 29.04.2006, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 29. apríl 2006
É
g sit í flugvél á leiðinni frá
Saigon (Ho Chi Minh borg) í
Víetnam. Ég er hundfúl, af
ýmsum ástæðum. Í fyrsta
lagi vil ég ekki fara heim og í
öðru lagi er ég að lesa leið-
inlega bók. Hún heitir Ingenious Pain (1997)
og er eftir Andrew Miller. Sagan gerist á
átjándu öld og segir frá manni sem ekki getur
fundið fyrir sársauka, né ber hann skynbragð
á tilfinningar. Nema svo ferðast hann til Rúss-
lands útaf einhverri keppni og hittir þar konu
og alltíeinu hvolfast yfir hann bæði tilfinn-
ingar og sársauki. Bókin
fékk afskaplega góða
dóma og mig hafði lengi
langað að lesa hana, en
fann ekki til þess næði fyrr en þarna í flugvél-
inni, eftir að hafa dröslað henni með mér
gegnum Suðaustur-Asíu. Kannski er ég
ósanngjörn útí þessa frumsmíð Millers og
kannski stafar skapvonska mín aðallega af því
að ég get ekki sofið, öfugt við vinkonu mína og
ferðafélaga sem sefur vært utan að hún vakn-
ar á tveggja tíma fresti til að borða. Ég, upp-
tjúnuð eftir upplifanir ferðarinnar, sit uppi
með þessa bölvuðu lesningu sem veldur mér
beinlínis sársaukafullum leiðindum.
Bókinni gleymdi ég svo um leið og ég stakk
henni í sætisvasann fyrir framan mig, og þessi
eilífðarflugferð var mér líka að mestu leyti
horfin úr minni þar til ég las skáldsögu Guð-
rúnar Evu Mínervudóttur, Yosoy: Af líkams-
listum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við
Álafoss. Því þar hitti ég Jóa, strák sem ekki
finnur fyrir sársauka. Allt í einu sé ég flug-
vélasætið mitt, hálfrökkrið í vélinni, vatns-
austur flugfreyjanna og róandi svefn vinkonu
minnar í alveg nýju ljósi. Og velti fyrir mér
hvað hafi orðið af bókinni sem ég skildi eftir í
sætisvasanum með leiðbeiningabæklingnum
um flugslys.
Sársauki
Yosoy er fjórða skáldsaga Guðrúnar Evu Mín-
ervudóttur og var að mínu mati bókmennta-
tíðindi síðasta árs. Sagan segir frá hryllings-
leikhúsinu Yosoy og persónum og leikendum
þar, en í hryllingsleikhúsinu eru iðkaðar lík-
amslistir ýmsar, allt frá hrollvekjandi hnífa-
kasti til klámfenginna leikja með golfkúlur.
Þarna er verið að fjalla um líkama og huga,
hina klassísku tvíhyggju líkama og anda sem
Guðrún Eva vinnur markvisst og fimlega með
í þessu breiða verki. Rammi sögunnar er dul-
arfullur leikur alþjóðlegra auðmanna, en hann
virðist felast í því að koma venjulegu fólki í
óvenjulegar aðstæður og sjá hvernig það
bregst við. Því dramatískari sem atburðirnir
eru, því betra. Þetta bætir enn einu laginu við
söguna, því leiksoppurinn, Ólafur Benedikts-
son, miðaldra fráskilinn læknir sem sérhæfir
sig í sársauka, verður einskonar fulltrúi les-
andans, jafnframt því að leika lykilhlutverk
sem áhrifavaldur og greinandi sögunnar, því í
vangaveltum hans um sársauka birtast hug-
leiðingar um tengsl líkama og hugar. Fyrir ut-
an kynni hans af starfsfólki hryllingsleikhúss-
ins kemst hann í kynni við stúlkubarnið Elínu
sem þjáist stöðugt af óskiljanlegum sársauka,
og unglingspiltinn Jóa sem getur ekki fundið
fyrir sársauka.
Í upphafi sögunnar líkir Ólafur sársauka við
óperu: „Persónur og leikendur, eða dramatis
personae, eru taugaendarnir, frumurnar í
skemmdu vefjunum og innihald þeirra og
ósjálfráða taugakerfið“ (9). Þetta er auðvitað
borðleggjandi að skoða í ljósi skáldsögunnar
sjálfrar, sem er einskonar ópera með sínum
persónum, leikendum (en Ólafur er tekinn í
misgripum fyrir annan mann og þykist eftir
það vera hann), frumum, vefjum og innhaldi
þeirra, sem líkja má við orð og söguþráð
verksins, og loks ósjálfráða taugakerfið sem
gæti staðið fyrir hinar margvíslegu túlkanir
og upplifanir lesenda af verkinu. Ólafur er hér
að halda fyrirlestur um sársauka og segir að
vandamálið liggi í viðhorfum okkar til líkama
annars vegar og hugans hinsvegar: „að mann-
eskjan samanstandi af vélrænum og viðráð-
anlegum líkama annars vegar og óþægum,
viljasterkum huga hins vegar“ (10). Hér er
einnig verið að deila á vísindin og þörf þeirra
til að skilgreina, en í slíkum skilgreiningum
felst ekki aðeins þekkingarleit heldur einnig
þörf fyrir stýringu og stjórnun. Ólafur er
mjög meðvitaður um takmörk vísindanna en
reynir samt hvað hann getur að skilja þessi
tvö ólíku tilfelli sem skolar upp í hendurnar á
honum: „Ólafur sá sársauka allsstaðar og fann
til endalausrar óánægju yfir því að skilja ekki
betur sársaukann eins og hann birtist í hug-
anum. Hann sér fyrir sér að breytt viðhorf til
sambands líkama og hugar sé lykillinn: „Í
framtíðinni myndi fólk ekki þurfa að tala um
hugann og líkamann eins og þeir væru draug-
ur og hundurinn hans, en nútíminn bauð ekki
uppá annað en hugtökin eins og þau komu fyr-
ir í tungumálinu. Sársaukinn í heilanum var
skiljanlegur en sársaukinn í huganum var það
ekki. Vitundin um sársaukann var óskilj-
anleg“ (27). Hér er Ólafur á slóðum fjölda
fræðimanna sem hafa gagnrýnt þessa tví-
skiptingu efnis og anda og telja hana óholla
bæði einstaklingum og samfélagi. Það eru sér-
staklega femínistar sem hafa verið áberandi í
þessari umræðu, en aðskilnaður líkama og
hugar er iðulega látinn endurspegla það sem
talinn er eðlislægur kynjamunur kvenna og
karla.
Hryllingsleikhús
Eins og fram kemur í hugleiðingu Ólafs er
þetta að hluta til spurning um sjálft tungu-
málið, orðræðuna, sem er föst í þessari tví-
hyggjuhugsun. Þegar orðin duga ekki til þarf
að búa til óperu, eins og Ólafur gerir til að
skýra leikmönnum sín fræði, og eins og Guð-
rún Eva gerir til að velta upp sem flestum
flötum á þessu vandamáli líkama og hugar,
efnis og anda. Hryllingsleikhúsið sjálft,
Yosoy, er auðvitað miðpunktur slíkrar grein-
ingar, en þar birtast okkur ýmis átök við lík-
amann. Yfirleitt eru þau kynferðisleg á ein-
hvern hátt, eitt atriðið gengur útá að maður
stingur höfðinu á kaf í endaþarm annars, ann-
að byggist á gægjuþörf og felst í því að ungt
par leikur kynlífsleiki á sviðinu, og í því þriðja,
sem Ólafur sjálfur verður aðstoðarmaður í,
skýtur ung kona golfkúlum út um hin ýmsu op
líkamans, hlutverk Ólafs er að grípa kúlurnar
í háf. Ein kona er haldin „þráhyggju í sam-
bandi við umbreytingu líkamans“ (112) og hef-
ur látið fylla líkama sinn silíkoni, brjóst, rass,
varir og kinnbein, svo að hún kemst ekki ferða
sinna án aðstoðar. Dularfyllsta atriðið og það
sem virðist laust við klám er atriði Sifjar
Steinþórsdóttur, en því atriði er aldrei lýst ná-
kvæmlega (frekar en öðrum atriðum, það eru
bara atriði Jóa sem er lýst nákvæmlega), að
öðru leyti en því að það sé einstakt og ótrú-
legt. Hér fetar höfundur mjóan stíg en tekst
að gefa nægilega mikið í skyn til að lesanda
finnist hann ekki svikinn um neitt. Í hryllings-
leikhúsinu er því áherslan lögð á líkamann og
þann hluta sögunnar sem snýr að honum.
Guðrún Eva kallast hér á við hið fræga
franska hrollvekjuleikhús, Grand Guignol,
sem gerði útá að bjóða áhorfendum uppá ým-
iskonar blóðugar sjónhverfingar. Þó slík hroll-
vekja höfði til líkamlegra hvata er þó hug-
urinn aldrei langt undan, því hér er kallað á
vangaveltur um tengsl skemmtunar og hryll-
ings, sem löngum hefur tengst hugmyndum
um einskonar skírslu andans. Ekki svo að
skilja að hrollvekjan fjalli eingöngu um líkam-
ann, en samspil, tengsl og togstreita efnis og
anda hafa löngum verið viðfangsefni hroll-
vekjunnar. Og Yosoy kallast á við fleiri hroll-
vekjur en Grand Guignol leikhúsið, því önnur
bók kom fljótlega upp í hugann við lesturinn,
skáldsaga sjálfs hrollvekjumeistarans Steph-
en King, The Dark Half (1989), eða Myrki
helmingurinn. Þar segir frá rithöfundi sem
hefur um árabil skrifað skáldsögur undir dul-
nefni. Þegar hann ákveður að losa sig við sitt
alter ego lifnar það við og hefur ofsóknir á
hendur honum. Í ljós kemur að maðurinn er
tvíburabróðir hans, sem þó aldrei fæddist, því
í móðurkviði runnu líkamar þeirra saman og
því var rithöfundurinn alltaf frá upphafi tveir
menn, því hann bar í líkama sínum leifar hins.
Og Elín á við samskonar vanda að stríða.
Undir lok sögunnar kemur í ljós að í líkama
hennar er æxli sem er leifar af tvíburasystur
hennar, tvíburasystur sem hún sér og sem
veldur henni miklum vandræðum, óhamingju
og hreinlega sársauka. Ólafur stendur ráða-
laus frammi fyrir kvölum barnsins og er enn
ringlaðari þegar hann kemst að því hvert
vandamálið var. „Þetta er eins og drauga-
saga“ (363) segir hann og veltir fyrir sér
möguleikanum á líkamsvitund. Hér skella
saman tvö ólík viðhorf til líkama og hugar,
annarsvegar hugmyndin um hinn algera sam-
runa, þarsem líkaminn er hluti af huganum,
óaðskiljanlegur frá honum; líkaminn skynjar
og býr yfir sinni eigin vitund og upplifunum.
Hinsvegar erum við minnt á styrk andans,
sálarinnar hreinlega, því sál, sjálf eða hugur,
tvíburasysturinnar kvelst í líkama Elínar og
veldur Elínu kvölum. Í bókinni er það alveg
ljóst að tvíburasystirin er til og að Elín sér
hana valda usla án þess að geta nokkuð að-
hafst. Hún er því draugur, vitund án líkama –
utan þeirra líkamsleifa sem búa í líkama
Elínar.
Lífræn vél
Elín er því einskonar millistig í þessari óperu
um líkama og huga, hún stendur fyrir mátt
líkamans sem lifandi skynveru en líka mátt
hugans til að hafa áhrif á líkamann. Jói er þá
birtingarmynd hugmyndarinnar um anda ofar
efni: „Jói trúði ekki á óljós orðatiltæki eins og
vanhelgun líkamans eða að líkaminn væri
musteri sálarinnar. Líkaminn var meira eins
og burðardýr heilans. Lífræn vél sem aflaði
fæðu og fjölgaði sér til að hið svokallaða innra
líf, sem átti sér aðsetur í heilanum, gæti hald-
ið áfram“ (288). Jói er að mörgu leyti dæmi-
gerður unglingsstrákur, uppfullur af sjálfum
sér og ákveðinn í að verða helsta stjarna
hryllingsleikhússins. Hann dreymir um bjarta
framtíð sem afreksmaður á sviði líkamslista
og gengur lengra og lengra í því að misbjóða
líkama sínum. Fyrst lætur hann græða í sig
stálhólf fyrir hnífa hnífakastara Yosoy. Hnífa-
kastarinn Gunnar er sá sem ‘uppgötvar’ Jóa,
þegar hann sér hann gera sér að leik að
brenna húð sína. Samband þeirra verður mjög
náið og það er ljóst að Jói lítur á Gunnar sem
föðurímynd, en í upphafi sögunnar kemur í
ljós að foreldrar Jóa eru skilin, Jói hafði alist
upp hjá móður sinni sem nú er flutt til Flórída
með nýjum manni en Jói kýs að verða eftir á
Íslandi hjá föður sínum. Samband þeirra
feðga er greinilega ekki náið og Gunnar því
hentugur staðgengill. En eitthvað sárnar Jóa
við Gunnar og snýr frá honum og reynir að
finna upp eigin atriði í staðinn. Það felst í því
að vekja sér sár á brjósti svo að sjáist í hjart-
að. Þetta er þó ekki nóg því Jói vill ganga enn
lengra og ákveður næst að opna gat í höfuð-
kúpuna til að sýna heilann í sér. Með því vill
hann undirstrika tilvist heilans sem hann álít-
ur hinn endanlega leyndardóm líkamans:
„Hann var svo flókinn að engum hafði tekist
að finna almennilega út úr því hvernig hann
virkaði og hann geymdi allt sem var í heim-
inum og allt sem var ekki í heiminum, per-
sónuleikann, hugsanir, sársaukann og meira
að segja Guð“ (288). Þrátt fyrir að Jói beri
þessa virðingu fyrir leyndardómum heilans,
lítur hann svo á að heilinn sé bara líffæri og
hafnar hugmyndum Ólafs sem reynir að út-
skýra fyrir Jóa að málið sé ekki endilega að-
skilnaður líkama og hugar: „Ég er ekki að tala
um líffærið,“ segir Ólafur, „við hugsum ekki
með heilanum, við hugsum í heiminum“ (290).
En Jói skilur ekki varnaðarorð Ólafs, ekki
fyrr en á örlagastundu, þegar hann stendur á
sviðinu, búinn að stinga allan líkama sinn
prjónum. Þá rennur upp fyrir honum merking
orða Ólafs, að við hugsum í heiminum. Og
skyndilega hellist sársaukinn yfir hann.
Spurning um stillingu
En hvað meinar Ólafur með þessari hug-
mynd? Ég skil hana þannig að hún súmmi upp
þá greiningu á líkamanum sem gengur í gegn-
um skáldsögu Guðrúnar Evu, greiningu sem
gengur útá að skoða líkamann í heiminum:
samfélaginu og menningunni. Hryllingsleik-
húsið, klámið, sársaukaleysi Jóa og sársauki
Elínar, allt eru þetta hliðar á sömu grunn-
hugmyndinni: líkaminn er aldrei bara summa
líffæra, né er hann aðskiljanlegur frá ein-
hverjum draugslegum anda. Líkaminn er allt-
af hluti menningarinnar, afurð menningar-
innar sem færir hann í form, skilgreinir hann
– meðal annars með því að aðskilja hann frá
huganum. Líkaminn er mótaður í menning-
unni, bæði bókstaflega, í tískustraumum
ólíkra líkamsímynda, og í yfirfærðri merk-
ingu, í þeim hugmyndum sem er hlaðið ut-
anum hann. Þannig er líkaminn klassísk upp-
spretta myndmáls í bókmenntum, til dæmis,
en tilfelli þeirra Elínar og Jóa bjóða bæði
uppá klassíska túlkun fjölskylduátaka. Elín er
dóttir einstæðrar móður, og eignast lítinn
bróður sem heift tvíburasysturinnar beinist
sérstaklega að. Það þarf engan bókmennta-
fræðing til að túlka þetta þannig að Elín sé
einfaldlega afbrýðisöm út í bróður sinn og noti
ímynduðu tvíburasysturina sem blóraböggul.
Á sama hátt má sjá sársaukaleysi Jóa sem
vörn hans gegn sársauka sem foreldrarnir
valda honum, og ekki þarf heldur mikið
ímyndunarafl til að sjá hómóerótíska und-
irtóna í samskiptum hans við Gunnar, en slíkir
komplexar bæta þá enn við varnarbrynju ung-
lingspiltsins.
Þó slík túlkun liggi kannski beinast við og
bjóði uppá einföldustu leiðina til að skilja hið
margslungna og margradda verk Guðrúnar
Evu hlýtur hún alltaf að vera mikil einföldun á
verkinu. Vissulega eru þessir tónar með í
óperunni, en þeir ná aldrei að yfirgnæfa aðra
þætti verksins.
Þannig byggir Guðrún Eva á ótrúlega
áhrifamikinn hátt upp margskonar sambönd
og samskipti sem öll eru á sinn hátt einskonar
stúdía í líkamanum og tengslum hans við hug-
ann, menninguna eða bara heiminn.
Hugsað í heiminum
Morgunblaðið/Golli
Guðrún Eva Mínervudóttir Í Yosoy kallast hún á við hið fræga franska hrollvekjuleikhús Grand Guign-
ol, sem gerði út á að bjóða áhorfendum upp á ýmiskonar blóðugar sjónhverfingar.
Skáldsagan Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mín-
ervudóttur vakti mikla athygli síðastliðið
haust. Hún er einskonar stúdía í líkamanum
og tengslum hans við hugann, menninguna
eða bara heiminn, segir í þessari grein.
Eftir Úlfhildi
Dagsdóttur
varulfur@centrum.is
Höfundur er bókmenntafræðingur.
Hryllingsleikhús og
oflæsi á líkamstjáningu