Lesbók Morgunblaðsins - 01.12.2007, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 01.12.2007, Blaðsíða 4
4 LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur bab@mbl.is J onathan Lethem fæddist í Brooklyn árið 1964 og þar ólst hann upp og býr enn. Með skáldsögunum Móðurlaus Brooklyn (1999) og Fortress of Solitude (2003) komst hann á kortið sem einn fremsti bandaríski rithöfundur sinnar kyn- slóðar en áður hafði hann gefið frá sér skáldsögurnar Gun, with Occasional Music (1994), Amnesia Moon (1995), As She Climbed Across the Table (1997) og Girl in Landscape (1998). Nýjasta skáldsaga hans er You Don’t Love Me Yet sem kom út í Bandaríkj- unum fyrr á þessu ári. Móðurlaus Brooklyn er fyrsta bók Lethem sem kemur út á Íslandi, en hún var nýver- ið gefin út af Bjarti í þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl. Brooklyn er fjölmennasti borgar- hluti New York-borgar og saman- stendur af fjölmörgum ólíkum og fjöl- breyttum hverfum sem bera mörg hver keim af þeim innflytjendahópum sem settust þar að þegar borgin var að verða til. Hverfin hafa breyst og þróast með tímanum og enda þótt að þau beri uppruna sínum yfirleitt vitni einkennast þau líka af samsuðu og sambúð ólíkra hópa, og ekki síður af breytingunum sjálfum sem eru víða miklar og hraðar og eitt af því sem gerir New York að þeirri dýnamísku borg sem raun ber vitni. Það hverfi sem Lethem ólst upp í og býr í heitir Boerum Hill og er samtengt Carroll Gardens. Þessi hverfi voru að hluta til byggð upp af ítölskum innflytjendum og eru sögusvið bæði Móðurlaus Bro- oklyn og Fortress of Solitude. Umtöluð grein um „alsælu áhrif- anna“ og „ritstuld“ Það er óhætt að segja að Lethem sé hálfgert átrúnaðargoð meðal bók- elskandi íbúa heimaborgar sinnar. Bækur Lethem njóta mikilla vin- sælda og virðingar, auk þess sem rit- gerðir hans og greinar um bók- menntir og önnur listform vekja jafnan athygli og umræðu. Lethem hefur, bæði með skáldskap sínum og ritgerðum, brotið upp viðtekin bók- menntaform og komið fram með ný- stárlegar hugmyndir um skáldskap og ritstörf sem snúa meðal annars að því hvernig skáldskapur sogar til sín áhrif úr öllum áttum og frá ólíkum miðlum. Í febrúar á þessu ári birti tímaritið Harper’s forsíðugrein eftir Lethem undir yfirskriftinni „The Esctacy of Influence – A Plaigarism“ og þar sýnir hann fram á, með til- vísun í bókmenntasöguna og fleiri átt- ir, hvernig allur texti verður til úr öðrum textum og þá er átt við hug- takið texta í sínum víðasta skilningi. Greinin vakti mikla athygli og var umtöluð meðal bókmennta- og ann- arra listunnenda hér í borg, ekki síst vegna þess hversu hreinskilnislega Lethem talar um það að allir rithöf- undar noti blákalt efni frá öðrum í störfum sínum. Greinin þótti líka smíðuð á snjallan hátt, en uppbygg- ing hennar er útlegging á innhaldinu þar sem henni lýkur með textalykli þar sem sýnt er fram á lið fyrir lið hvaða hugmyndum og textabrotum innan greinarinnar er „stolið“ og frá hverjum. Í greininni færir Lethem jafnframt rök fyrir því að höf- undaréttarlög skuli samin á þann veg að þau hefti ekki sköpun nýrra verka og mælir gegn því að slegin sé skjald- borg um listrænan efnivið og lista- verk, enda „eigi“ enginn hugmyndir, ekki einu sinni sínar eigin. Hann skrifar: „Allar hugmyndir eru endurunnar, þær eru meðvitað og ómeðvitað teknar frá milljón utanaðkomandi uppsprettum… Lífeðlisfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á að minni, ímyndunarafl, og sjálf meðvitund okkar, er samansett, saumuð saman eins og bútasaumsteppi. Og fyrst við klippum og límum sjálf, ættum við ekki að fyrirgefa listaverkum okkar það? Listamenn og rithöfundar – og talsmenn okkar, hagsmunasamtök og umboðs- menn – halda oft í miklar ranghugmyndir um frumleika. … Sannleikurinn er sá að þegar listamenn toga í eina átt og stór- fyrirtæki í aðra, þá tapar sameiginlegt ímyndunarafl og hugmyndapottur okkar allra, sá sem nærði okkur til að byrja með og, þegar upp er staðið, gerir störf okkar þess virði að vinna þau. Sem rithöfundur er ég korktappi á úthafi sögunnar, laufblað í vindi, og bráðum fýk ég burt … Þú, lesandi, mátt fá sögurnar mínar. Þær voru aldrei mínar til að byrja með, en ég gaf þér þær.“1 Eigin hugsun og vinnubrögð kaótísk og út um allt Þegar við Lethem mælum okkur mót til að tala um bókina Móðurlaus Bro- oklyn liggur beint við að hittast á söguslóðum bókarinnar, í hjarta Bo- erum Hill í Brooklyn. Við förum á kaffihús sem hann segir að sé hálf- gerð skrifstofa sín, enda í næstu götu við heimili hans og stemningin af- slöppuð. Þar sitja fleiri en einn og fleiri en tveir ungir menn (engar stelpur, þær fara greinilega annað) með lufsuleg skegg og hamast á far- tölvur sínar, en það er staðreynd að í Brooklyn er þéttni rithöfunda meiri en víðast hvar annars staðar í Banda- ríkjunum. Lethem er glaðlegri en flestir ungu kollega hans á kaffihús- inu og hann talar hátt og alveg ofsa- lega hratt. Mér finnst ég verða að ítreka sérstaklega hversu hratt hann talar því það gefur réttari mynd af því sem hann segir. Lesendur skulu alls ekki sjá hann fyrir sér einhvern sem klórar sér mikið í hausnum og hallar undir flatt á meðan hann lætur flókn- ar útpældar setningar frá sér. Þvert á móti bunar hann hlutunum út úr sér og fer í allar áttir í einni og sömu setningunni þannig að oft þarf maður að hafa sig allan við til að finna þráð- inn. Og þannig lýsir hann raunar sjálfur hugsun sinni og vinnubrögð- um – að þetta sé allt dálítið kaótískt og út um allt á köflum – og þannig má síðan líka lýsa aðalpersónu í Móð- urlaus Brooklyn, Lionel Essrog, sem haldinn er Tourette-heilkenni. Lionel ólst upp á munaðarleys- ingjaheimili fyrr drengi í Brooklyn og er á unglingsaldri, ásamt nokkrum fé- lögum sínum þaðan, tekinn undir verndarvæng smákrimmans Franks Minna. Minna lætur drengina vinna fyrir sig ýmiskonar vafasöm verk undir því yfirskyni að verið sé að reka litla leigubílastöð. Þegar Minna er myrtur hefst leit Lionels að morð- ingja hans og svörum við þeim leynd- armálum sem umlykja starfsemi Minna og aðrar persónur sem tengj- ast henni. En sagan fjallar ekki síður um áráttukennda hugsun og hegðun Lionels og hvernig hann fæst við um- hverfi sitt og reynir að ná tökum á því, skilja það og höndla, þrátt fyrir kvilla sinn eða, jafnvel, með hann að vopni. Hef alltaf hrifist af list þar sem ólíkum hlutum er púslað saman Þegar greinin þín úr Harper’s er höfð í huga er freistandi að tengja Lionel við þær hugmyndir sem þar eru sett- ar fram. Tjáning Lionels er að vissu leyti stjórnlaus, hann kemst ekki hjá því að taka það sem hann sér, heyrir, og skynjar í umhverfi sínu, og spýta því út úr sér með brotakenndum og oft, að því er virðist a.m.k., samheng- islausum hætti. „Já, Lionel er „samplari“ og þetta fyrirbæri eða þessi hugmynd birtist á margan hátt í verkum mínum, bæði í Móðurlaus Brooklyn og líka Fortress of Solitude. Ég hef alla tíð hrifist af list sem er samsett ef svo má segja, þar sem ólíkum hlutum er púslað saman. Ástæða þess að ég hef laðast að þessum hugmyndum í því sem ég geri og þegar kemur að því að lýsa því sem ég geri er alls ekki heim- spekilegs eðlis eða það að ég sé að troða einhverjum pólitískum skoð- unum upp á persónulegan smekk minn. Þetta er hreinlega smekkur minn. Ég hef til dæmis alltaf elskað klippimyndir og þegar brot af alls- konar ólíku efni eru sett saman, til dæmis í myndasögum eins og Mad Magazine, og í popp list. Ég varð gjörsamlega uppnuminn þegar ég sá verk Andy Warhol og Lichtenstein í fyrsta sinn. Mér leið eins þegar ég heyrði „samplaða“ tónlist fyrst. Mér finnst æðislegt þegar listamenn grípa hina og þessa hluti og setja í list sína og sú tilhneiging sem ég hef í þessa átt er mér eðlislæg, hún er alls ekki sprottin af póstmódernískum hug- myndum eða vinstri sinnuðum hug- myndum um höfundaréttarreglur. Það var frekar þannig að þegar ég síðan kynntist umræddum hug- myndum þá hreifst ég af þeim á sama hátt og ég gerði þegar ég sá fyrst list af þessu tagi. Og list mín, skrif mín, hafa alltaf haft þessa tilhneigingu. Ég hugsa bara svona og hef alltaf viljað búa hluti til á þennan hátt.“ Er ekki óvenjulegt að listamenn, og þá kannski sérstaklega rithöf- undar, tali svona opinskátt um að allt komi annars staðar frá og að hug- myndir þeirra séu í raun ekki þeirra eigin hugmyndir? „Það sem er kannski óvenjulegt er hvað ég er viljugur að lýsa þessu. Ég held að ég vinni samt ekkert öðruvísi en aðrir. Það er mjög sterkt í mörg- um að vilja trúa á goðsögnina um frumleika sem einhverskonar æðra form. Hugmyndin um listamanninn sem hér um bil guðlega veru sem skapar hluti úr tómarúmi er bæði að- laðandi og kraftmikil og kannski finnst sumum truflandi hvað ég er hreinskilinn um hvaðan efni mitt kemur.“ Það virðist ríkja meiri viðkvæmni fyrir meintum ritstuldi í skriftum en öðrum listformum. Er það vegna þess að það er ekki alltaf gerður grein- armunur á einni tegund texta og ann- arri? „Já, ég held að þessi viðkvæmni sé til staðar vegna þess að það eru gerð- ar villur í flokkun. Í hugum fólks er skáldskapur stundum álitinn sam- bærilegur fræðimennsku eða blaða- mennsku. En ef við segjum að það að skrifa skáldskap sé sambærilegt því að semja tónverk eða að mála mál- verk þá gufa þessi vandamál upp.“ Krakkarnir í hverfinu urðu löggur, bófar eða rithöfundar Svo við tölum meira um Tourette, þá er margt í þeim kvilla sem tengist tungumálinu og því hvernig við upp- lifum og meðtökum umhverfi okkar og tjáum okkur síðan um það. „Já, og ástæða þess að þetta efni höfðaði svona sterkt til mín og ástæða þess að ég skrifaði þessa bók er sú að ég fann fyrir óstöðvandi samkennd með þessu ástandi. Um leið og ég heyrði af Tourette fór ég að tengja minn eigin hugsanahátt og hugs- anavenjur við þetta fyrirbæri. Sér- staklega, auðvitað, skriftir mínar sem hafa tilhneigingu í þessa átt.“ Í bókinni er sagt frá því að Lionel hafi eytt löngum stundum á bóka- safninu á munaðarleysingjaheimilinu og lesið þar allt sem hann komst í á nær áráttukenndan hátt. Þar stendur að hann hafi verið að reyna að finna „tungumál sjálfs sín“. „Já, þessi sena er vissulega mið- læg. Maður byggir tungumál sitt úr efnivið sem er til staðar fyrir. Og ég kýs að líta svo á að frumleiki annars vegar og það að taka til sín áhrif hins Enginn „á“ hugmyndir, e Í BROOKLYN í New York er þéttni rithöfunda meiri en víðast hvar annars staðar í Bandaríkjunum. Einn þeirra er Jonathan Lethem sem hefur skrifað tvær heims- þekktar skáldsögur sem gerast í Brooklyn. Önnur þeirra, Móðurlaus Brooklyn, er nú komin út í íslenskri þýðingu. Blaðamaður Morg- unblaðsins hitti Lethem að máli í hverfinu hans. Jonathan Lethem „Ég hef alltaf haldið upp á höfunda sem koma mér á óvart, sem aftur byrjendur því þeir leggja út í eitthvað sem þeir kunnu ekki fyrirfram.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.