Morgunblaðið - 25.09.2007, Qupperneq 27

Morgunblaðið - 25.09.2007, Qupperneq 27
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 25. SEPTEMBER 2007 27 Ekki þurfti mikið til að gleðja hana. Man ég eftir því í vor er ég var í vinnunni og keyrði fram á hana gang- andi á leið til vinnu. Tók ég hana upp og skutlaði á leiðarenda. Það fór ekki fram hjá mér að þessi litli greiði gladdi hana mjög. Mín síðustu samskipti við Eddu voru í sumar, er hún kom með okkur systkinunum öllum í sumarbústað. Þar náðum við aðeins að ræða saman og fann ég fyrir því að henni leið vel með okkur. Það vona ég að guð gefi að nú sért þú komin á betri stað og þér líði vel. Þinn bróðir, Sigurður Reynir Jónsson. Hvað allt okkar líf getur snúist um hluti sem ekki skipta máli. Þar til vin- ur kveður. Ég veit þó að þú hefur það gott þar sem þú ert í dag. Fyrr en varir verður þessi sársauki farinn og bara ljúfar minningar okk- ar eftir. Þar til við hittumst næst Edda mín. Kveðja Ólafur. Elsku Edda mín, nú ertu farin frá okkur á vit ævintýranna. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt svona hjarta- hlýja mágkonu eins og þig. Þú varst alltaf svo ljúf og vildir ávallt þóknast öllum öðrum þannig að þú værir full- viss að öllum í kringum þig liði vel. Þú bjóst yfir þeim kosti að þú gerðir öll- um jafn hátt undir höfði og mismun- aðir engum. Þú varst alltaf að hrósa okkur fyrir hvað við værum dugleg en í raun varst það þú sem varst dug- legust því þú varst búin að afreka mikið aðeins 22 ára gömul. Ég vildi óska þess að ég hefði sagt þér oftar hve dugleg þú værir. Þú varst mikil barnagæla og lað- aðir börnin okkar að þér með góð- mennsku þinni í þeirra garð. Þegar þú komst í heimsókn þá byrjaðir þú að leika við börnin og oftar en ekki lastu fyrir Birgittu Birtu bók eftir bók og þá var skottan litla aldeilis ánægð með frænku sína. Þú sýndir Hákoni Daða alltaf athygli og þið spjölluðuð oft saman. Þú varst líka ávallt dugleg að mæta í afmæli barnanna og það þurfti mikið til svo að þú kæmist ekki. Við söknum þín ólýsanlega mikið og stöndum frammi fyrir því nú að geta ekkert gert sem færir þig til okkar aftur. Ég vona að þú öðlist frið og ró í hjarta þínu nú á þeim stað sem þú ert. Ég er þér æv- inlega þakklát fyrir þær stundir sem við áttum með þér og allar þær gæða- stundir sem þú veittir börnunum okkar, þær eru ómetanlegar. Minn- ing um góða mágkonu mun lifa. Þín Olga Birgitta. Jæja Edda mín. Tilveran er búinn að vera ansi skrítinn þessa daga síðan þú fórst frá okkur. Sorg og söknuður yfir því að fá ekki að sjá og hitta þig aftur. En um leið þakklæti fyrir að hafa fengið að eiga samleið með þér þennan tíma. Ég veit að lífið var ekki alltaf bein braut fyrir þig og stundum voru lagðar á þig byrðar sem mörg- um kann að finnast erfitt að takast á við. Að búa við þá fötlun frá fæðingu að vera sjónskert var eitt af því. Samt tókst þér að yfirstíga margt og ég dáðist alltaf jafnmikið að þér þegar þú vannst þína eigin persónulegu sigra. Til dæmis þegar þú kláraðir stúdentsprófið með stæl. Eða þegar þú fluttir í íbúðina þína. Svo varstu líka nýbyrjuð í Háskólanum þegar kallið kom. Ég mun sakna þess að heyra ekki hláturinn þinn framar og heyra þig ekki skella á mig nokkrum fimm- aurabröndurum sem þú varst svo oft með á takteinunum. Þér þótti heldur ekki verra ef ég svaraði þér á svip- uðum nótum. Keðjuhúmorinn var okkar og hefur gengið nokkuð lengi okkar á milli. Og enginn skildi hann nema við. Þannig verður það líka. Þú komst líka oft til okkar vestur og þá alltaf með flugi. Eins og þér var nú illa við að fljúga, þá léstu þig nú samt hafa það. En alltaf varstu samt ákveðin í að koma til okkar aftur jafn- vel þó flugið hafi verið ömurlegt og þú hvít eins og snjór þegar ég tók á móti þér á flugvellinum. Þú hlóst bara að því síðar. Síðustu daga hefur mér mikið verið hugsað til þess dags í sumar þegar ég keyrði þig heim úr sumarbústaðnum sem við höfðum verið í ásamt systk- inum þínum og fjölskyldum. Það var í grenjandi rigningu og umferðin til Reykjavíkur gekk hægt. En það gaf okkur í staðinn færi á að tala saman í næði og í trúnaði. Ýmislegt sem við ræddum þá hefur öðlast dýpri merk- ingu í huga mér eftir að þú ert nú far- in. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þá stund með þér og mun alltaf geyma hana í huga mér. Elsku Edda mín. Þú kvaddir mig alltaf með þeim orðum hvað þér þætti ofboðslega vænt um okkur og ég vona að þú hafir á móti fundið hvað mér og okkur þótti vænt um þig og við elsk- uðum þig mikið. Krakkarnir okkar hændust líka að þér og sóttu mikið í þig þegar þau voru nálægt þér. Þú komst líka alltaf fram við þau sem jafningja og hafðir áhuga á þeirra hugðarefnum. Þú varst hjá okkur tvenn síðustu jól og við áttum von á þér um næstu jól líka. Við munum öll sakna þess að hafa þig ekki hjá okkur þá. Það verður skrítið. En þó sökn- uður okkar sé mikill yfir því að þú sért farin þá verður þú samt alltaf í hugum og hjörtum okkar fjölskyld- unnar á Engjaveginum. Megi allar góðar vættir vaka yfir og styrkja mömmu þína og pabba og systkini þín í þeirra miklu sorg og styðji þau í að standa saman til að komast yfir þetta. Hvíldu í friði, elsku Edda Sigrún. Hafðu þökk fyrir allt og allt. „Hugsandi um engla ég hugsa til þín.“ Brynjar. Hann lyftir sér hátt yfir hrannir og él sá hugur sem góðvildin mótar. Þú geymdir í hjartanu gullið svo vel að grófu þar fáir til rótar. (Heiðrekur Guðmundsson.) Haustið 2001 fór stór hópur ný- nema Kvennaskólans í Reykjavík í árlega Þórsmerkurferð. Athygli mína vakti stúlka sem gekk hægum og svo- lítið óstyrkum skrefum um kjarri vaxnar brekkur og grundir. Við urð- um viðskila við hópinn og tókum tal saman. Hún var að koma í fyrsta sinn í Þórsmörk og var algerlega heilluð af haustlitadýrðinni. Það er gott að eiga þessa björtu minningu um Eddu Sigrúnu Jóns- dóttur þegar skugginn vegna fráfalls hennar sest að í huganum. Edda er eftirminnilegur nemandi. Þraut- seigja og vandvirkni einkenndi alla hennar vinnu. Hún gerði miklar kröf- ur til sjálfrar sín, var vel máli farin, hafði skemmtilegan og græskulausan húmor, sérstaklega fyrir sjálfri sér. Áhugasvið hennar var á sviði sálar- og uppeldisfræði. Hún þurfti oft að hafa mikið fyrir náminu vegna sjón- skerðingar en stóð sig með prýði og lauk stúdentsprófi vorið 2005. Ég veit að Edda mat mikils veru sína í skólanum og var þakklát fyrir stuðninginn sem hún fékk við námið. Við, starfsfólk Kvennaskólans í Reykjavík, kveðjum Eddu í djúpri hryggð og vottum aðstandendum innilega samúð. Ingibjörg Guðmundsdóttir. Í bljúgri bæn og þökk til þín, sem þekkir mig og verkin mín. Ég leita þín, Guð, leiddu mig, og lýstu mér um ævistig. Ég reika oft á rangri leið, sú rétta virðist aldrei greið. Ég geri margt sem miður fer, og man svo sjaldan eftir þér. Sú ein er bæn í brjósti mér, ég betur kunni þjóna þér. Því veit mér feta veginn þinn og verðir þú æ Drottinn minn. (Pétur Þórarinsson.) Kveðja, bekkjarfélagarnir í Kvennaskólanum. Á grænudeild á Hofi hefur alltaf verið gott að koma. Þar hafa traustir faðmar tekið á móti börnunum sem eru að stíga sín fyrstu skref á leik- skólabrautinni. Þar hefur Anna verið eins og amman í hópnum með svo áberandi hlýtt viðmót. Svo kom hún Edda. Hún Edda sem á sinn einstaka hátt náði svo vel til barnanna. Hún lagði sig svo fram í starfinu, var svo alúðleg við krakkana og kurteis og hlýleg við mömmur og pabba. Hún hafði eitthvað sérstakt og var greini- lega í miklum metum á þessu heimili. Hún Edda var góð fóstra sem gleym- ist seint. Kæra Anna, við vottum þér og fjöl- skyldu þinni samúð okkar á þessum erfiðu tímum. Elsku Edda – takk fyrir að passa mig og fyrir að hafa verið svona góð. Bergey og fjölskylda. Elsku hjartans Edda Útvalds sólar ljós þér lýsi hann leiði þig um ævistig, elsku hjartans blómið bjarta blessun Drottins verndi þig. (Höf. ók.) Við vitum að amma Gróa, sem þótti svo undurvænt um þig, hefur tekið vel á móti þér og að Guð hefur kallað þig til sín til starfa sem hann treystir ekki öðrum fyrir. Við kveðjum þig með þessu litla versi sem okkur finnst svo fallegt. Friðarins ljós það fylli huga þinn. Fegursta rós á vegi þínum verði. Blessaða ljós það flytur boðskap sinn. Búðu við ljós sem Guð á himnum gerði. (H.H.) Elsku Anna, Nonni, systkini og fjölskyldan öll, missir ykkar er mikill og eru orðin ein vanmegnug á slíkri stundu. Megi ljós minninganna fylla huga ykkar, leiða ykkur og styrkja, því minningin mun lifa og hana tekur enginn frá ykkur. Þið eruð í huga okkar og bænum. Ingibjörg, Gróa og fjölskyldur. Á þessum tveimur árum sem Edda vann með okkur hér á Hofi fengum við að kynnast einstökum persónu- leika hennar. Hún hafði sig kannski ekki mikið í frammi á kaffistofunni en átti það til að koma með einstaklega hnyttin innskot í umræðuna. Það var okkur samstarfskonunum mikil gleði þegar hún vann flugmið- ana í fyrrahaust og bauð mömmu sinni með til Kaupmannahafnar, þar áttu þær góðar stundir saman á svor- dögum. En nú er komið að leiðarlokum. Elsku Anna og fjölskylda, við biðjum góðan Guð að gefa ykkur styrk í sorg ykkar. Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sigurður Jónsson frá Presthólum.) Hofgyðjur. Legsteinar og fylgihlutir MOSAIK Hamarshöfða 4 110 Rvk sími 587 1960 www.mosaik.is • Mikið úrval • Yfir 40 ára reynsla • Sendum myndalista ✝ Ástkæri sonur okkar, faðir, bróðir, barnabarn og frændi, FINNBOGI MÁR ÓLAFSSON, Nottingham, er látinn. Minningarathöfn verður á Íslandi innan skamms. Ólafur Ísleifsson, Sigriður Rósa Finnbogadóttir, Völundur Þorgilsson, Alma Hrund Hafrúnardóttir, Sigvaldi Búi Þórarinsson, Sylvía Erna Waage, Ollý Björk Ólafsdóttir, Eydís Björk Ólafsdóttir, Rósa Signý Ólafsdóttir og aðrir aðstandendur. ✝ Vinur okkar og frændi, BJÖRN JÓNSSON frá Bakka í Kelduhverfi, andaðist mánudaginn 17. september á Vífilsstöðum. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Sérstakar þakkir til hjúkrunar- og starfsfólks á Vífilsstöðum fyrir góða umönnun. Aðstandendur. ✝ Okkar ástkæri ÁRNI EYJÓLFSSON, Vaðlaseli 6, Reykjavík, lést af slysförum miðvikudaginn 19. september. Jarðaförin verður auglýst síðar. Þórunn Ólöf Sigurðardóttir, Sigríður Anna Árnadóttir, Gísli Sigurjón Brynjólfsson, Eyjólfur Árnason, Arnhildur Eva Steinþórsdóttir, Birna Hrund Árnadóttir, Finnur Darri Gíslason, Kristófer Blær Jóhannsson, Eyjólfur Árnason og systkini hins látna. ✝ Elskuleg eiginkona, móðir, tengdamóðir og amma, KRISTÍN GUÐBRANDSDÓTTIR, Svölutjörn 44, áður Smáratúni 29, Keflavík, sem lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja miðvikudaginn 19. september, verður jarðsungin frá Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 27. september kl. 14.00. Þeim sem vilja minnst hennar er bent á Krabba- meinsfélag Íslands. Jóhann R. Benediktsson, Benedikt Jóhannsson, María Hákonardóttir, Kristbjörg Jóhannsdóttir, Jóhann Frímann Valgarðsson, Jóhanna A. Jóhannsdóttir, Andre Masumbuko og barnabörn. ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma, lang- amma og systir, GUÐRÚN JÓHANNA ANDRÉSDÓTTIR Norðdahl frá Hamri, lést fimmtudaginn 20. september á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík. Útförin fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík miðvikudaginn 26. september kl. 11.00. Blóm og kransar eru vinsamlega afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hennar er bent á Barnaspítala Hringsins. Hreggviður Norðdahl, Svava H. Guðmundsdóttir, Svala Norðdahl, Hrönn Norðdahl, Elís Rúnar Víglundsson, Magnús M. Norðdahl, Elín Jónasdóttir, barnabörn, barnabarnabörn og systkin.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.