Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.11.1977, Page 3

Tímarit lögfræðinga - 01.11.1977, Page 3
TniAIÍII- <s LÖIál lt ITMV.A 3. HEFTI 27. ÁRGANGUR NÓVEMBER 1977 NOREGSFERÐIN Dómaraförin til Osló á síðastliðnu sumri var stórskemmtileg og — eins og vænst hafði verið — fróðleg, þótt e.t.v. væri það með öðrum hætti en við hafði verið búist. Það kom sem sé fram, að flest gömlu, góðu vandamálin, sem við þekkjum héðan að heiman og erum búin að ræða um árabil, valda frændum okkar og grönnum líka áhyggjum. Og að sjálfsögðu gera þeir sér grein fyrir, að úrbóta er þörf, — ræða málin, skipa nefndir, semja frumvörp og ráðgast við rekstrarfræðinga. Ekki verður sagt, að farið hafi verið til Noregs í þeirri von, að þar væri búið að leysa þá þraut, hvernig dæmt verði með jafn miklum hraða og fiskbollum er komið f niðursuðudósir. En sennilega hefur þó verið von um, að fleira kæmi í Ijós en varð, sem kallast gæti nýstárlegt og jafnvel alls óþekkt hér úti í Atlantshafi. Tvennt þótti undirrituðum mest um vert: 1. Skrifstofuhald dómstólanna virtist miklu betur skipulagt í Osló en hér. 2. Dómsstigakerfið í Noregi sýnir, hversu fráleitt er að hafa aðeins tvö dómsstig hér á landi. Norska kerfið hefur mótast á löngum tíma og er ekki útflutningsvara. En það byggist — auðvitað — á skilningi á því, að dómsvald og framkvæmdavald sé sitt hvað, að kostur þurfi að vera vandaðrar meðferðar á áfrýjunarstigi án óhæfilegra tafa og að jafnframt þurfi að vera til einn dóm- stóll til að gæta samræmis í lagaframkvæmd og tryggja réttaröryggið. Margt fleira kom að sjálfsögðu fram, sem vert var að festa sér í minni. Athygli vakti t.d., að í norska dómsmálaráðuneytinu er sérstök deild, sem vinnur að undirbúningi laga. Þá sýnast Norðmenn hafa betri tök á smámálum en við, ekki síst stöðumælabrotum, er raunar teljast ekki til afbrota lengur í þeirra landi. Að öðru leyti gafst ekki tækifæri til að kynnast sem skyldi störfum lögreglu í Noregi. Þó var okkur sagt frá skiptum skoðunum á því, hve sjálfstæð lögreglan ætti að vera, en nú er stjórn dómsmálaráðuneytisins á þessu sviði milliliðalaus. Ferðin minnti okkur enn á það, að islendingar eru velkomnir í Noregi. Mót- tökur allar voru með ágætum, eins og lýst er í grein Ólafs St. Sigurðssonar á öðrum stað í þessu hefti. Þ. V. 113

x

Tímarit lögfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.