Skutull

Árgangur

Skutull - 08.01.1952, Blaðsíða 3

Skutull - 08.01.1952, Blaðsíða 3
S K U T U L L S ins. Og í stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna átti hann sæti frá stofnun þess og þar til fyrir ári síðan, er hann baðst und- an endurkosningu. Á Alþingi átti Finnur ávalt sæti í sjávarútvegsnefnd og var oftast kosinn formaður hennar, sökum viðurkenndrar afburða þekkingar sinnar á þeim málum öllum. Oft var Finnur í samninganefnd- um erlendis á vegum ríkisins, enda bar hann mjög fyrir brjósti allar þær nýjungar, er orðið gætu til betri nýtingar sjávarafurða. Einn- ig studdi hann af atorku og dugn- aði sérhverja viðleitni til öflunar betri markaða fyrir íslenzkan fisk og fiskafurðir. Fyrstu ferðar Finns Jónssonar til útlanda er þegar getið, nefni- lega er hann samdi um smíði sam- vinnufélagsbátanna í Svíþjóð og Noregi. Næst held ég, að hann hafi lagt leið sína vestur um haf á veg- um Samvinnufélagsins 1933 eða ’34 til að freista þess að fá þar opnaðan markað fyrir íslenzka matjessíld. Bar sú för einnig ágæt an árangur. Á árinu 1939, í stríðsbyrjun, fór hann til Norðurlanda á vegum Útflutningsnefndar ríkisins, en einnig til að athuga möguleika á bátakaupum fyrir Samvinnufélag- ið. Tepptist hann þar úti af völd- um stríðsins eins og fleiri íslend- ingar, og komst fyrst heim með Esju um Petsamó. Var hann kos- inn fararstjóri á þeirri sögulegu, en engan veginn hættulausu heimsiglingu. Haustið 1944 var Finnur sendur til Lundúna á vegum ríkisstjórn- arinnar til útvegunar veiðarfæra fyrir íslenzkan bátaútveg. Tókst honum farsællega að ráða fram úr þeim vanda. Þegar Islandi var veitt inntaka í Bandalag sameinuðu þjóðanna árið 1946, var Finnur Jónsson einn af fulltrúum Islands á því þingi. Einnig var hann fulltrúi íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna í París 1948. Árið 1947 var Finnur formaður samninganefndar um viðskipti Is- lands við Noreg og Svíþjóð. Árið eftir var honum og falin for- mennska í nefnd, er semja skyldi um verzlunarviðskifti milli Dana og íslendinga. Á árinu 1947 mætti hann ennfremur ásamt tveimur öðrum fulltrúum fyrir Islands hönd á þingi Alþjóðavinnumála- stofnunarinnar í Genf í Svisslandi. Það mun einnig hafa verið á þessu ári, sem Finnur mætti á fundi fé- lagsmálaráðherra Norðurlanda. Enn er þess að geta, að Finni var ásamt Jóhanni Þ. Jósefssyni falið að mæta fyrir íslands hönd sem áheyrnarfulltrúi á stofnþingi Evrópuráðsins í Strassburg 1948 — og sem varaforseti sameinaðs þings mætti hann á hátíð þeirri hinni miklu, er Ríkisþingið hélt 1949 til minningar um 100 ára af- mæli grundvallarlaganna dönsku. Þá átti hann og samstarf marg- víslegt við forustumenn Alþýðu- flokkanna á Norðurlöndum og var nákunnugur mörgum þeirra. Mætti hann fyrir Alþýðuflokkinn á fundum Samvinnunefndar nor- rænnar alþýðuhreyfingar bæði í Svíþjóð og í Danmörku. Seinustu ferðina, sem Finnur fór til útlanda, tókst hann á hend- ur s.l. sumar fyrir Alþýðusamband íslands. Gerðist hann þá farar- stjóri sendinefndar, er boðið var að fara til Ameríku og kynna sér starfsháttu og skipulag verka- lýðshreyfingarinnar þar í álfu. — Skömmu eftir heimkomuna kenndi hann þess sjúkleika, er leiddi hann til bana. Ritaði hann á sóttarsænginni tvær ýtarlegar greinar í Alþýðublaðið um hið víð- tæka og áhrifamikla fræðslustarf, er amerísku verkalýðsfélögin halda uppi. Árið 1947, þegar Fjárhagsráð var sett á stofn varð Finnur þar fulltrúi Alþýðuflokksins, enda til þess sjálfkjörinn, sökum víðtækr- ar þekkingar sinnar á atvinnu- og viðskiftamálum þjóðarinnar. Árið eftir varð hann forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, og gegndi hann því starfi síðan. Nokkur seinustu árin var Finn- ur líka fulltrúi Alþýðuflokksins í Bankaráði Landsbankans og sinnti báðum þessum störfum af stakri kostgæfni, eins og hann rækti öll þau störf, er honum voru falin. Ennþá er þess ógetið, að á árun- um 1944—1947 varð Finnur Jóns- son Félagsmála- og dómsmálaráð- herra í samsteypustjórn þeirri, er Ólafur Thórs veitti forsæti, og al- mennt hefur verið kölluð „nýsköp- unarstjórnin". í hans ráðherratíð voru stórátök gerð fyrir íslenzkan sjávarútveg. — Að hans frum- kvæði var þá sett hin merkasta löggjöf um aðstoð ríkisins til út- rýmingar óhæfu og heilsuspillandi húsnæði í kaupstöðum og kauptún- um. Var það honum hryggðarefni, að ekki skyldi betur takast um framkvæmd þeirra laga, en raun varð á. Sem dómsmálaráðherra beitti hann sér fyrir því, að byggt var yfir Hæstarétt, en fram til þess tíma hafði þessi æðsti dómstóll þjóöarinnar orðið að búa við alger- lega óviðunandi húsnæði á tugt- húsloftinu (efri hæð fangahúss- ins) við Skólavörðustíg. Þá er mér kunnugt um það, að það var Finni Jónssyni mikið fagnaðarefni, að það kom í hans hlut sem félagsmálaráðherra að leggja hornsteininn að hinni miklu og veglegu sjúkrahúsbyggingu, sem ennþá er í smíðum á Akur- eyri. Þó að Finnur væri í vitund margra fyrst og fremst Isfirðing- ur, og oft nefndur „Finnur hinn ísfirzki“, sökum margvíslegra starfa þar öll sín beztu manndóms- ár, þá var það þó í Akureyrarbæ, sem hann hafði vaxið upp og mót- ast til þess mikla dagsverks, er hann síðar vann að mestu á vest- firzkri grund og í þágu vestfirzkr- ar alþýðu. Finnur Jónsson var maður tví- kvæntur. Fyrri konu sinni, Auði Sigurgeirsdóttur frá Hallgilsstöð- um í Fnjóskadal, kvæntist hann 1914. — Eignuðust þau sex börn, þrjá sonu og þrjár dætur, sem öll eru nú upp komin og hin mann- vænlegustu. Frú Auður var góð kona og greind, ágæt móðir og mikil húsfreyja. — Hún lézt árið 1935. Árið 1946 kvæntist Finnur seinni konu sinni, Magneu Magnús- dóttur frá Garði í Gullbringusýslu, hinni ágætustu konu. Þeim varð ekki barna auðið og lifir hún mann sinn, sem hún stundaði af stakri ástúð og umhyggju í hinni löngu og erfiðu sjúkdómslegu hans. Ég, sem þessar línur rita, átti náið samstarf við Finn Jónsson í verkalýðsmálum um rösklega 20 ára skeið. Og ég mun jafnan minn- ast hans sem hins sívökula og ó- þreytandi baráttumanns og braut- ryðjanda — og árvakra verjanda hins vinnandi fólks. Ég átti samleið með Finni Jóns- syni í bæjarstjórn ísafjarðar um 8 ára skeið og mun frá því sam- starfi ávalt minnast hans sem hins raunsæja og örugga forustu- manns, sem gott var að eiga sam- leið með og fylgja að málum. Ég kynntist honum að starfi í Kaupfélagi ísfirðinga og Sam- vinnufélagi ísfirðinga og veit af þeirri kynningu, að hann var ein- lægur samvinnumaður, sem leit á verkalýðssamtökin og samvinnu- hreyfinguna sem tvær greinar á sama stofni. í Samvinnufélaginu sýndi hann sig sérstaklega sem ótrauðan starfsmann, en ekki sem athafnalausan forstjóra, og um fram allt reyndist hann þar hag- sýnn skipuleggjandi á sviði at- vinnulífsins. Það var svo viðurkennt af öll- um, að í atvinnumálum sjómanna hefur hann skilað meira verki, en nokkur annar maður í þessum bæ, sem bæjarfulltrúi, sem forstjóri Samvinnufélags ísfirðinga, sem fulltrúi Alþýðuflokksins í Síldar- útvegsnefnd, í stjórn Síldarverks smiðja ríkisins og sem alþingis- maður. í samstarfi á Alþingi síðan 1946 hefi ég svo kynnst Finni Jónssyni sem mikilhæfum stjórnmálamanni, harðvítugum til málafylgju, og þó sanngjörnum og samvinnuþýðum, þegar líklegt mátti telja, að betur ynnist með blíðu en stríðu. Og seinustu vikurnar kynntist ég svo þessum mikla og atorku- sama starfsmanni helsjúkum á banabeði. Hress var hann og ó- bugaður, — áhugasamur, og ræð- inn um heima og geyma, ávalt þegar sótthitinn lét hann hafa nokkurn frið. Og þó vissi hann vel að hverju fór, en á því lét hann aldrei bera í viðræðum við okkur sem heimsóttum hann í sjúkrahús- ið. Læknarnir veittu honum leyfi til að liggja heima um jólin, og þar lézt hann að kvöldi þess 30. des- ember farinn að þreki og kröftum. Kveðjunum, sem ég var beðinn að færa honum frá gömlum sam- herjum á ísafirði, verkamönnum, verkakonum og sjómönnum, þegar ég var heima núna um jólin, gat ég ekki komið til skila. — Þegar ég kom suður, var Finnur Jónsson látinn. — Athafnasamri ævi ó- venjulegs dugnaðarmanns var lok- ið. Við ísfirðingar þökkum Finni Jónssyni ævistarfið. Vestfirzk al- þýða færir honum einnig alúðar- þakkir. Og Alþýðuflokksfólk um land allt harmar fallinn brautryðj- anda og forustumann, sem allt frá æsku barðist ótrauður undir merkjum verkalýðshreyfingarinn- ar, samvinnuhreyfingarinnar og jafnaðarstefnunnar. — En sú vissa er okkur harmabót, að merkið stendur, þótt maður falli. Hannibal Valdimarsson. Miðvikudag kl. 9 FRUMSKÖGASTCLKAN II. kafli. Síðasta sinn. Fimmtudag kl. 9 FRUMSKÓGASTÚLKAN III. kafli. Síðasta sinn. Engin sýning í kvöld vegna bálfarar Finns Jónssonar, alþingismanns. HÚS TIL SÖLU. Húseign mín, Sólheimar, er til sölu nú þegar. Páll Guðjónsson. NYKOMIÐ: Eliment í straubolta, allar stærðir, einnig straubolta- snúrur. Rofar, udanáliggjandi og inngreipta. Tengla, bæði fyrir ljós og hita. Vartappa KII allar stærðir kr. 1,00 og kr. 1,30 stk. Dyrabjöllur og spenna. Fluoresent-perur 40 W ásamt mörgu fleiru. RAF h.f., Isafirði.

x

Skutull

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skutull
https://timarit.is/publication/626

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.