Vísbending - 13.07.2007, Page 4
4 V í s b e n d i n g • 2 6 t b l 2 0 0 7
Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Eyþór Ívar Jónsson.
Útgefandi: Heimur hf., Borgartúni 23,105 Rvík.
Sími: 512 7575. Myndsendir: 561 8646.
Net fang: visbending@heimur.is.
Mál fars ráð gjöf: Mál vísindastofnun Há skólans.
Prentun: Guten berg. Upp lag: 700 eintök.
Öll réttindi áskil in. © Ritið má ekki afrita
án leyfis út gef anda.
Aðrir sálmar
Verð hefur áhrif á markaðinn. Of lágt verð
leiðir til umframeftirspurnar og skorts.
Sé það of hátt safnast upp birgðir. Þetta
er grundvallarlögmál í hagfræðinni en
stjórnmálamenn vilja oft misbeita valdi
sínu til þess að hafa áhrif á það hvernig
fólk velur vörur og þjónustu. Það eru
ekki bara vörur sem eru niðurgreiddar
heldur getur lánsfé líka fylgt sömu lög-
málum. Áratugum saman giltu markaðs-
lögmálin ekki á lánsfjármarkaði og eft-
irspurn eftir lánum var langt umfram
framboð. Bankastjórar þurftu að eyða öll-
um sínum tíma í viðtöl við einstaklinga
og fyrirtæki til þess að ákveða hver fengi
að selja bankanum fimmtíu þúsund
króna víxil. Enginn fékk jafnmikla pen-
inga og hann vildi. Á þeim tíma datt
engum í hug að íslenskir bankar yrðu
í hópi stærstu banka heims. Með verð-
tryggingunni dró mjög úr niðurgreiðslu á
vaxtakostnaði. Þó eimdi lengi eftir af því
að ríkið ræki sjóði sem áttu að hygla fyr-
irtækjum í ákveðnum greinum. Á valda-
tíma Steingríms Hermannssonar, Jóns
Baldvins og Ólafs Ragnars voru meira að
segja stofnaðir sjóðir til þess að lána og
kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem ólík-
legt var að hefðu rekstrargrundvöll. Flest
af þessu heyrir nú sögunni til.
Ein af fáum eftirlegukindum frá þess-
um tíma er Lánasjóður íslenskra náms-
manna. Hann er ágæt stofnun með
góða sérþekkingu en þar eru enn veitt
lán með eitt prósent raunvöxtun. Þetta
þýðir að sjóðurinn þarf að fjármagna
sig með meiri kostnaði en hann fær til
baka í greiddum lánum. Ef raunvextir
eru fimm prósent nemur styrkurinn um
helmingi greiðslubyrðarinnar á 40 árum.
Þessi styrkur er falinn og líklega hvorki
ríkinu né námsmönnum ljós. Miklu nær
væri að taka upp beina styrki til náms-
manna og hækka vexti á námslánum
upp í markaðsvexti. Þeir námsmenn sem
uppfylltu ákveðin skilyrði fengju styrkina
miðað við námsframvindu en tækju það
sem vantar upp á að láni. Ásókn í lánin
minnkar og námsmenn finna strax að
ríkið er að styrkja þá. Kostnaðurinn við
þá styrki kemur strax fram hjá ríkinu og
færist ekki yfir á komandi kynslóðir. bj
Fræðsla og feluleikurframhald af bls. 3
V
af fjárfestingum hins opinbera sé engu
minni en þegar einstaklingar eða fyrirtæki
fjárfesta. Fela megi kostnað með því að
reikna með minni vöxtum af fjárfesting-
um ríkisins en almennt er gert en hann
minnki ekki við það.
Ávinningur
Pollitt telur að um helmingur þess ávinn-
ings sem varð af breytingum á bresk-
um orkumarkaði upp úr 1990 liggi í því
að ávöxtunarkrafa á fjármagn hafi hækk-
að. Það leiddi til þess að hætt var að smíða
kjarnorkuver, sem kalla á mikla fjárfest-
ingu í upphafi, en í stað þess stuðst við
gasorkuver þar sem minna þarf að fjárfesta
en rekstrarkostnaður er meiri.
Nokkur ár liðu frá því að breska ríkið
byrjaði að selja orkufyrirtæki þar til raf-
magnsverð tók aftur að lækka í Bretlandi
en þá lækkaði verðið líka hratt. Frá 1995
til 2004 lækkaði rafmagnsverð til iðnaðar
þar í landi um 41% að raunvirði og verð
til heimila lækkaði um 28%. Samkvæmt
tilskipun Evrópusambandsins frá 1996
áttu fyrirtæki í ríkjum þess að geta valið
milli rafmagnsframleiðenda fyrir 2001
og víðast hvar hófst samkeppni á árunum
1998 til 2001. Í kjölfarið fylgdi valfrelsi
fyrir heimili. Líklegt er að yfirvofandi sam-
keppni hafi þegar haft áhrif á rafmagns-
verð árin á undan. Víðast hvar lækkaði
verðið töluvert að raungildi á árunum
1995 til 2004 en þó eru á því undantekn-
ingar. Til dæmis margfaldaðist orkuverð á
norskum heildsölumarkaði með rafmagn
á seinni hluta árs 2002.
Augljósust eru áhrif breytinga á raf-
magnsmarkaði á framleiðni. Árin 1995
til 2001 jókst framleiðni vinnuafls á raf-
magnsframleiðslu, gas- og vatnsveitum
um tæp 6% á ári í Evrópusambandinu, en
í hagkerfinu öllu jókst framleiðni vinnu-
afls um tæp 2% á ári á þessum tíma.
Íslensk samkeppni
Á Íslandi er að nafninu til komin á sam-
keppni milli rafmagnsframleiðenda en enn
sem komið er virðist helst vera keppt um
stóra viðskiptavini. Yfirburðastaða Lands-
virkjunar setur mikinn svip á markaðinn.
Orkufyrirtækin eru öll í opinberri eigu.
Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur
taka lán með lágum vöxtum í skjóli ábyrgð-
ar skattgreiðenda sem engin takmörk
virðast vera fyrir. Hitaveita Suðurnesja er
einnig í opinberri eigu, sem kunnugt er.
Hún er hlutafélag en nýtur þess í láns-
kjörum að hún hefur sterkra stöðu á sínu
svæði. Svipað má segja um Rafmagnsveitur
ríkisins en þær eru nú opinbert hlutafélag.
Ólíklegt er að raunveruleg samkeppni
komist á milli orkufyrirtækjanna nema
Landsvirkjun verði skipt í tvö eða þrjú
fyrirtæki. En hvað gerist ef samkeppni
eflist á íslenskum rafmagnsmarkaði og
orkufyrirtækin komast í einkaeigu? Ólík-
legt er að framleiðni vaxi jafnmikið og í
mörgum öðrum Evrópulöndum. Stærsti
kostnaðarliðurinn í rafmagnsframleiðslu
hér á landi eru vextir og afskriftir af full-
búnum virkjunum og það fé sem fór í þær
verður ekki tekið aftur. En meiri ávöxtun-
ar verður krafist af nýjum fjárfestingum
en áður. Líklegt er að lítið verði gert af
nýjum virkjunum um tíma. Rafmagns-
verð gæti hækkað fyrst í stað. Þá má gera
ráð fyrir að verðið sveiflist meira en áður.
Þegar fram líða stundir má gera ráð fyrir
að það lækki eins og gerst hefur í flestum
Evrópulöndum.
Á móti hverju?
Ekki verður annað séð en að nýleg-
ar breytingar á rafmagnsmarkaði í Evrópu-
löndum hafi orðið til góðs. Líklegt er að
hagkvæmni í rekstri aukist og fjármagn
nýtist betur ef íslenskum rafmagnsmarkaði
verður breytt á sama hátt. Í Bretlandi leiddu
umskiptin meðal annars til þess að hætt
var að smíða ný kjarnorkuver.
Alþjóðleg samtök sem berjast gegn kjarn-
orkuverum mæla nú með því að ríkið
dragi sig út úr rekstri þeirra og selji þau
einkafyrirtækjum. Eins ættu þeir sem eru á
móti stóriðjuframkvæmdum hér á landi að
beita sér fyrir því að ríkið hætti að standa
fyrir rafmagnsframleiðslu. Í fjölmiðlum
var fyrir skömmu sagt frá náttúruvernd-
arsinnum sem ,,mótmæltu stóriðju og
neyslumenningu“ hér á landi. En ekki
er víst að stóriðja og neyslumenning eigi
mikla samleið. Miklar virkjanir sem fylgja
stóriðjunni eiga sér líkast til litla framtíð á
frjálsum markaði. Þar er talið að þær dragi
úr hagsæld og neyslu þegar til langs tíma
er litið. Neysluhyggjan vinnur gegn stór-
virkjunum en ekki með þeim.
Heimildir:
1. Newbery og Pollitt (1997): The Restructur-
ing and Privatisation of Britain’s CEGB - was it
worth it? The Journal of Industrial Economics, 45.
árg., 3. tbl.
2. Pollitt (1997): The Impact of Liberalization
on the Performance of the Electricity Supply
Industry: An International Survey, The Journal
of Energy Literature, 3. árg., 2. tbl., sjá einnig
Thomas (2007): Recent Evidence on the Impact
of Electricity Liberalisation on Consumer Prices,
www.psiru.org.