Vísbending - 30.05.2008, Blaðsíða 2
2 V í s b e n d i n g • 1 9 . t b l . 2 0 0 8
Í nýlegri grein í Vísbendingu (sjá Hættum að bulla um Evrópusambandið, 16. tbl.) er því haldið fram að
Íslendingar hafi engin áhrif á þær gerðir
Evrópusambandsins sem gerðar eru hluti
af EES-sáttmálanum. Þetta er ekki alls
kostar rétt eins og glöggir lesendur bentu
á. Evrópusambandið og EFTA-ríkin hafa
ákveðið ferli þegar ákveðið er hvaða gerðir
verða hluti af sameiginlegu regluverki.
Evrópusambandið hefur auðvitað
undirtökin í í þeim viðræðum því að engin
gerð fer inn í EES-samninginn nema vera
fyrst komin til framkvæmda innan ES.
Hins vegar hafa EFTA-ríkin aðkomu að
málum og geta stundum haft ákveðinn
sveigjanleika við innleiðingu reglna.
Dæmi um þetta er matvælalöggjöfin sem
nú liggur fyrir Alþingi og stefnt er að því
að afgreidd verði sem lög í haust. Hér á
eftir er farið yfir það hvernig sameiginlegar
ákvarðanir eru teknar. Fylgt er skýrslu
nefndar sem Björn Bjarnason stýrði og
fjallaði um Evrópumálin.
Samstarfsvettvangur
Sameiginlega EES-nefndin (EEA Joint
Committee) er helsti samstarfsvettvangur
EES/EFTA-ríkjanna og Evrópusambands-
ins, en hlutverk hennar er að tryggja virka
framkvæmd EES-samningsins.
Í nefndinni sitja annars vegar fulltrúar
Íslands, Liechtensteins og Noregs og
hins vegar fulltrúar framkvæmdastjórnar
ES. Fulltrúar einstakra aðildarríkja ES
geta einnig mætt á fundi nefndarinnar,
en taka yfirleitt ekki til máls.
Aðalviðfangsefni nefndarinnar er að
taka ákvarðanir um hvaða ES-gerðir falli
inn í EES-samninginn: Í nefndinni hafa
samningsaðilar samráð um öll þau mál
samningsins sem valda erfiðleikum. Undir
þessari nefnd vinna fimm undirnefndir
sem eru skipaðar nefndarmönnum í
sambærilegum undirnefndunum sem eru
fastanefnd EFTA til aðstoðar og fulltrúum
framkvæmdastjórnar ES. Sameiginlega
EES-nefndin hittist yfirleitt 7-8 sinnum
á ári.
Þegar mál er tekið fyrir er metið
hvort viðkomandi ES-gerð falli undir
efnissvið EES-samningsins og jafnframt
hvort gera þurfi aðlaganir vegna sérstöðu
einstakra EES/EFTA-ríkja. Engar
aðlaganir eru veittar nema með samþykki
Evrópusambandsins. Undirbúningur að
ákvörðun hefst í vinnuhópum EFTA,
sem fjalla um tillögu að viðkomandi
gerð á meðan hún er enn til umfjöllunar
hjá stofnunum ES og löngu áður en
hún kemur til umræðu í sameiginlegu
EES-nefndinni. Ákvarðanir sameiginlegu
EES-nefndarinnar eru teknar samhljóða.
Því er ekki um meirihlutaákvarðanir að
ræða í EES. Eftir að gerð frá ES hefur
verið tekin inn í EES-samninginn þurfa
EES/EFTA-ríkin að innleiða hana í sinn
landsrétt. Ef um er að ræða tilskipun hafa
stjórnvöld val um form og aðferð við
innleiðinguna, en reglugerðir eru teknar
upp óbreyttar, nema samið hafi verið um
sérstakar aðlaganir fyrir Ísland.
Fáum við undanþágur?
Að jafnaði koma nær daglega nýjar gerðir
ES til framkvæmda á Íslandi. Gerðir ES
hafa almennt ekki bein lagaáhrif í EES/
EFTA-ríkjum, heldur þarf að semja
sérstaklega um hvort og með hvaða
hætti ES-gerð taki til EES/EFTA-ríkja á
grundvelli EES-samningsins, en í því ferli
er m.a. hægt að semja um aðlaganir og
undanþágur af ýmsu tagi, jafnt tæknilegar
sem efnislegar.
Framkvæmdastjórnin semur um
aðlaganir fyrir hönd ES og hefur umboð
til að fallast á eða hafna beiðnum um
tæknilegar aðlaganir. Efnislegar aðlaganir
þurfa hins vegar samþykki ráðherraráðsins
sem þarf jafnframt að hafa samráð við
Evrópuþingið. Yfirleitt er nær ómögulegt
að fá aðlögun ef einstökum ríkjum
ES hefur verið synjað um sams konar
ívilnun. Rík tilhneiging er til að gæta
þess að EFTA-ríkin séu ekki betur sett en
aðildarríkin.
Íslendingar hafa því aðkomu að
því hvernig ákvarðanir ES koma til
framkvæmda hér á landi. Dæmi um þetta
er fyrrnefnd matvælaráðgjöf. Almennt féll
landbúnaður ekki undir EES-samninginn
á sínum tíma en nú er litið svo á að
landbúnaður og sjávarútvegur lúti sömu
reglum. Því hefur samningurinn verið
víkkaður út að þessu leyti og Íslendingar
munu taka upp nýja löggjöf á þessu sviði,
þó að það hafi upprunalega ekki verið
ætlun stjórnvalda. V
Yfirleitt er nær ómögulegt að fá
aðlögun ef einstökum ríkjum ES
hefur verið synjað um sams konar
ívilnun. Rík tilhneiging er til að
gæta þess að EFTA-ríkin séu ekki
betur sett en aðildarríkin.
Áhrif Íslendinga í Evrópu