Vísbending


Vísbending - 22.06.2009, Page 2

Vísbending - 22.06.2009, Page 2
2 V í s b e n d i n g • 2 5 . t b l . 2 0 0 9 Með því að breyta kerfinu með þessum hætti er skattlagning hins vegar færð til. Því er með sanni hægt að segja að með þessu sé verið að taka lán hjá komandi kynslóðum. Bjarni Þórðarson tryggingastærðfræðingur bendir á þetta í grein í Morgunblaðinu 19. júní síðastliðinn. Hann segir: „[Þ]egar skatttekjur framtíðarinnar dragast saman vegna lækkandi skatttekna frá lífeyris­ þegunum verður að hækka skattprósentuna, m.a. af skattlögðum lífeyri þeirra sem jafnframt fá skattfrjálsan lífeyri. En hverjir munu fá mestu hækkunina? Jú, það er unga fólkið sem í dag á hvað erfiðast með lánin sín.“ Þetta er réttmæt ábending hjá Bjarna um að með tilfærslunni muni þurfa að hækka skatta eða finna aðra skattstofna í framtíðinni til þess að vega upp tapið að skatttekjum ríkisins af lífeyrisgreiðslum í framtíðinni. Ef ríkið notar fjárhæðina til þess að grynnka á skuldum á þessi gagnrýni þó ekki við því að þá lækkar greiðslubyrði komandi kynslóða. Það má hugsa sér að hafa nýja kerfið tímabundið, það er að færa það aftur til fyrra horfs í áföngum. Þannig yrðu iðgjöldin skattlögð að fullu næstu árin, en eftir að þjóðfélagið væri aftur farið að taka við sér yrði horfið aftur að fyrra kerfi. Þá væri til dæmis 90% sett í nýja kerfið á sjötta ári, 80% á því sjöunda, þangað til gamla kerfið væri aftur orðið ríkjandi. Þetta kæmi til móts við það sjónarmið að færa skattstofninn ekki til um alla framtíð. Svo er það auðvitað markmið í sjálfu sér að draga úr skattheimtu ríkisins, ekki síst eftir þær ofurbyrðar sem nú leggjast á. Hvað um vextina? Þórarinn V. Þórarinsson skrifar í Morgunblaðið 19.6. 2009: „40 milljarða skerðing á iðgjaldsgreiðslum verður ekki ávöxtuð í sjóðunum og réttindin munu óhjákvæmilega skerðast að sama skapi. Það hefur því úrslitaáhrif hvort skattur er greiddur við inngreiðslu iðgjalds í sjóðina eða við útgreiðslu lífeyris mörgum áratugum síðar. Lífeyrisgreiðslurnar munu því óhjákvæmilega skerðast sem svarar ávöxtun þessara 40 milljarða á hverju ári í marga áratugi.“ Þetta er rétt en ráðstöfunartekjurnar skerðast þó ekki að því gefnu að skattprósenta breytist ekki. Ástæðan er í stuttu máli sú að ef skattprósentan er 37% allan tímann skiptir ekki máli hvort hún er tekin á undan eða eftir. Fyrir stærðfræðinga má segja að hér sé víxlreglan að verki. Svo dæmið sé einfaldað mikið. (sjá einnig Töfrabrögð? á bls. 3): 0,37 x Heild = Heild x 0,37 Síðar í sömu grein segir: „Hitt er verra að tillaga sjálfstæðismanna sýnist óhjá kvæmi­ lega hafa í för með sér grófa mismunun á milli starfsmanna á almennum vinnu­ markaði og opinberra starfsmanna, þ.m.t. þingmanna og ráðherra. Hefur munurinn í þessu efni þó sýnst ærinn fyrir. Þetta leiðir af því að opinberum starfsmönnum er heitið lífeyri sem er óháður því hvernig til tekst um ávöxtun iðgjaldsins. Hvort ávöxtun lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna – og þingmanna – er meiri eða minni hefur engin áhrif á lífeyrinn því lífeyrisrétturinn er ákveðinn sem fast hlutfall miðað við iðgjaldið eitt.“ Kerfi sem gilt hefur um lífeyri opinberra starfsmanna eftir 1997 er hugsað þannig að iðgjöld standi undir lífeyrinum. Breyting á réttindastuðlum til þess að taka tillit til nýs kerfis er tæknileg útfærsla. Hins vegar kann greinarhöfundur að vera að vísa til eldra kerfis þar sem eftirlaun fara eftir launum þess sem tekur við starfinu en ekki hve mikið er greitt inn í sjóðinn. Ef svo er þá er það vandi sem skoða þarf sérstaklega vegna þess að þar er ekki beint samband milli lífeyris og iðgjalda. Í þessu kerfi eru einungis þeir starfsmenn hins opinbera sem höfðu hafið störf fyrir árið 1998 og í því fækkar því stöðugt, en auðvitað þarf að ákveða hvernig skuli með fara ef tekið yrði upp nýtt kerfi. Ríkið fær mikla peninga Í tillögum sjálfstæðismanna er gert ráð fyrir að um 40 milljarðar króna komi inn í skatttekjur af iðgjöldum í lífeyrissjóð. Árið 2007 var reglulegt framlag í lífeyrissjóði um 99 milljarðar króna, en auk þess voru greiddir um 46 milljarðar í aukaframlag í tvo lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Ekki er ástæða til þess að ætla að laun hafi hækkað frá árinu 2007 svo neinu nemi og auk þess er líklegt að dregið hafi úr séreignasparnaði. Því er líklegt að skattarnir af iðgjöldunum séu sé nær 35 milljörðum króna en 40. Samt sem áður er talan tæplega fjórðungur þess sem þarf til þess að loka fjárlagagatinu. Þetta er því mjög há fjárhæð sem hvorki þrengir að heimilunum né fyrirtækjunum. Því er ekki óeðlilegt að skoða þessa leið miklu betur en gert hefur verið. Eins og bent er á í grein Bjarna Þórðarsonar og til er vitnað hér að framan er auðvitað um tilflutning tekna ríkisins að ræða. Tilgangurinn er hins vegar sá að þurfa ekki að þrengja enn meira að lífskjörum almennings sem hefur orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru og má síst við meiri álögum. Fyrirtækin eru líka í miklum þrengingum og ef atvinnurekstur ber sig ekki á Íslandi verður engin framtíð hér á landi yfirhöfuð. Þess vegna er það mjög freistandi fyrir bæði ríkið og aðila vinnumarkaðarins að skoða þessa leið til hlítar en hafna henni ekki í bráðræði. Eins og rakið er hér að framan er jafnvel hægt að hverfa aftur til núverandi kerfis í áföngum. Lífeyrissjóðirnir Ef tekið er upp skattlagning á iðgjöldum lífeyrissjóðanna hefur það margvísleg áhrif á þá. Núverandi kerfi yrði lokað og því væru þeir sjóðir sem ekki eiga fyrir skuldbindingum sínum neyddir til þess að skerða réttindi nú þegar. Um þá má reyndar segja það sama og Bjarni Þórðarson skrifar um tillögur sjálfstæðismanna; sjóðirnir skerða framtíðarlífeyri annarra með því að borga þeim sem núna eru á lífeyri meira en sjóðirnir standa undir. Það blasti raunar við strax í haust að lífeyri þyrfti að skerða um allt að 25% (sjá Vísbendingu 12. október 2008). Fæstir sjóðir hafa farið út í fulla skerðingu í von um að ástandið batni síðar. Alvarlegra umhugsunarefni er hvaða áhrif breytingin hefði á greiðsluflæði sjóðanna. Flestir sjóðirnir reikna árlega eða oftar hvernig greiðsluflæði þeirra verði á komandi árum og taka þá tillit til innstreymis iðgjalda, greiðslu lífeyris, ávöxtunar og greiðslu af verðbréfum í eigu sjóðanna. Skattfjárhæðin, 35 milljarðar króna, er líklega liðlega 20% af tekjum sjóðanna, og hefur því veruleg áhrif á rekstur þeirra. Lífeyrisbyrðin þyngist ár frá ári og því þyrftu sjóðirnir að ganga hraðar á ýmsar eignir sínar en áformað hafði verið. Þetta gæti haft neikvæð áhrif á ávöxtun sjóðanna. Ekki er þó ástæða til þess að ætla að þeir lendi í sérstökum vandræðum í rekstri vegna þessa ef þeir skerða lífeyrisgreiðslur eins og þeir verða að gera fyrr eða síðar hvort sem er. Í þriðja lagi minnkar fjárfestingageta lífeyrissjóðanna og þar með endurnýjuð þátttaka þeirra í atvinnulífinu (sem eftir hrunið í haust er nær engin orðin). Þetta er auðvitað galli því að lífeyrissjóðirnir eru nánast einu aðilarnir á markaði núna sem eiga peninga til ráðstöfunar. Hins vegar ber að líta á það að hlutverk sjóðanna er fyrst og fremst að ávaxta iðgjöld sem best, en ekki að koma inn sem einhvers konar bjargráðasjóður, jafnvel þó að brýn þörf sé á fjármagni núna. Slæm hugmynd eða góð? Á því er enginn vafi að hugmyndin um breytta skattlagningu lífeyris hefur bæði kosti og galla eins og að framan er rakið. Hins vegar hlýtur kreppuástandið að leiða til þess að skapandi hugmyndir af þessu tagi sé grandskoðaðar. Í harðindum hafa Íslendingar ekki efni á þeim lúxus að hæðast að nýjum hugmundum eða hafna þeim án þess að hugsa málin í botn. Ekkert bendir til þess að þessi hugmynd sé sett fram af loddarahætti eða sem lýðskrum. framhald af bls. 1

x

Vísbending

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.